Ferill 851. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1352  —  851. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. og Hildu ehf.

Frá Birgi Þórarinssyni.


     1.      Eru Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) og Hilda ehf. enn undanþegin ákvæðum upplýsingalaga? Ef svo er, hvenær var síðasta ákvörðun þess efnis tekin?
     2.      Hefur ESÍ stundað samkeppnisrekstur? Ef svo er, í hverju var hann fólginn og í samkeppni við hverja?
     3.      Keypti ESÍ eða dótturfélög þess kröfur á Icebank (Sparisjóðabanka Íslands) eftir að hann var tekinn til slitameðferðar? Ef svo er, hvert var markaðsverð eða uppreiknað kostnaðarverð krafnanna, hvert var kaupverðið og hver fékk það greitt? Hver var heildarkostnaður umsýslu og innheimtu vegna krafnanna? Hver var hagnaður eða tap ESÍ af þessum viðskiptum?
     4.      Keypti ESÍ kröfur á Icebank með aðstoð erlendra banka? Ef svo er, var upplýst opinberlega um þá aðstoð? Voru erlendu bankarnir skráðir eigendur einhverra þessara bréfa að kaupum loknum en ekki ESÍ? Voru einhver þessara bréfa skráð hjá erlendum aflandsfélögum á eignarhaldstíma ESÍ?
     5.      Hafði dómsmál slitastjórnar Icebank gegn Seðlabanka Íslands áhrif á ákvarðanir um kaup bankans eða ESÍ á kröfum á markaði?
     6.      Keypti ESÍ eða dótturfélög þess kröfur á aðra aðila en Icebank eða hlutafé og aðrar eignir sem ekki lentu í eigu Seðlabanka Íslands vegna bankahrunsins? Ef svo er, hvert var markaðsverð eða uppreiknað kostnaðarverð þessa, hvert var kaupverðið og hver fékk það greitt? Hver var heildarkostnaður umsýslu og innheimtu vegna kaupanna? Hver var hagnaður eða tap ESÍ af þessum viðskiptum?
     7.      Hvaða heimild hafði ESÍ til að kaupa aðrar kröfur en þær sem lentu í eigu Seðlabanka Íslands eftir hrun bankanna?
     8.      Hver hefur verið árlegur ráðgjafarkostnaður ESÍ og dótturfélaga þess frá stofnun félagsins og hverjir hafa fengið hann greiddan?
     9.      Hafa orðið hagsmunaárekstrar í rekstri ESÍ? Ef svo er, með hvaða hætti hafa slík mál verið leyst?
     10.      Við hvaða lagastoð hafa ESÍ og Hilda ehf. stuðst er þau hafa synjað beiðnum um upplýsingar um viðskipti félaganna með umsýslueignir?
     11.      Hefur ESÍ nýtt sér aflandsfélög eða átt í viðskiptum við slík félög? Ef svo er, í hvaða tilgangi og um hvaða félög er að ræða?


Skriflegt svar óskast.