Ferill 852. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1353  —  852. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ársreikninga og lögum um hlutafélög (aukinn aðgangur að ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Sara Elísa Þórðardóttir, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Olga Margrét Cilia.


1. gr.

    Við 4. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Engin gjaldtaka skal þó vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.

2. gr.

    Við 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Engin gjaldtaka skal þó vera fyrir rafræna uppflettingu í skránni og skulu allar upplýsingar birtast í rafrænni uppflettingu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var síðast lagt fram á 148. löggjafarþingi (12. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt efnislega óbreytt.
    Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar ársreikningaskrár og hluthafaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skrám þessum og að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr skránni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.
    Frumvarp til laga sambærilegt þessu er varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá var samþykkt á Alþingi á 146. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 64/2017. Fólu lögin í sér að veita almenningi aðgang að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Hér er lagt til að gögn sem tengist þeim sem er að finna í fyrirtækjaskrá verði gerð aðgengileg á sama hátt.