Ferill 861. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1365  —  861. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um ábyrgð á réttindum barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og öðrum réttarheimildum.

Frá Jóni Þór Ólafssyni, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Loga Einarssyni, Söru Elísu Þórðardóttur, Smára McCarthy, Steinunni Þóru Árnadóttur og Þorsteini Víglundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um réttindi barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og öðrum réttarheimildum, þ.m.t. lögum, reglugerðum, reglum, verklagsreglum, ákvörðunum og álitum. Auk þess verði í skýrslunni dregin fram ábyrgð stjórnvalda í heild, hvers ráðherra fyrir sig, ráðuneyta, stofnana og annara opinberra og sjálfstæðra aðila á framkvæmd laga um réttindi barna svo að unnt sé að fá heildstæða yfirsýn yfir öll réttindi barna, hver beri ábyrgð á að tryggja þau og ferlið við að sækja þau réttindi innan stjórnsýslunnar sé brotið á börnum eða þau vanrækt.
    Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi upplýsingar um öll réttindi barna;
     2.      hvert börn, foreldrar, forráðamenn og aðrir sem koma að málefnum barna skuli leita til að fá úrlausn mála um réttindi og skyldur innan stjórnsýslunnar;
     3.      hverjir veita börnum, foreldrum og forráðamönnum þeirra aðstoð við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar;
     4.      útlistun á úrskurðaraðilum í málefnum barna og málsmeðferðartími þeirra stjórnvalda;
     5.      upplýsingar um kæruheimildir innan stjórnsýslunnar og skilyrði fyrir því að börn geti fengið úrlausn réttinda fyrir dómi;
     6.      hverjir annast fullnustu ákvarðana og úrskurða í málaflokkunum;
     7.      hvaða úrræði eru til staðar ef stjórnvöld hindra framgang úrlausnarinnar með aðgerðum eða aðgerðaleysi.

Greinargerð.

    Árið 2013 samþykkti Alþingi að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, ásamt tveimur fyrstu valfrjálsu bókunum við sáttmálann, sbr. lög nr. 19/2013. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017 kemur fram að framfylgja þurfi ákvæðum barnasáttmálans og í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 segir að lögfesting barnasáttmálans feli m.a. í sér að innleiða þurfi ákvæði hans með skipulegum hætti og tryggja þurfi markvissa stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar.
    Í október 2018 birti dómsmálaráðuneytið á samráðsgátt Stjórnarráðsins drög að fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar segir að ýmsar áætlanir og stefnur hafi verið samþykktar síðastliðin ár sem snúa að réttindum barna á afmörkuðum sviðum þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ekki ráðist í gerð sérstakrar landsáætlunar sem varði málefni barna og fjalli heilstætt um öll þau réttindi sem ríkinu beri að tryggja samkvæmt sáttmálanum.
    Hinn 7. september 2018 undirrituðu félags- og jafnréttismálaráðherra, dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga viljayfirlýsingu um að auka samstarf milli málefnasviða sem heyra undir hvern og einn aðila og snúa að velferð barna. Markmið viljayfirlýsingarinnar var að „brjóta niður múra sem kunna að myndast á milli kerfa þegar tryggja þarf börnum heildstæða og samhæfða þjónustu.“
    Í ljósi þess að stjórnvöld hafa enn sem komið er ekki ráðist í heildstæða rannsókn og greiningu á réttindum barna á Íslandi hvað varðar ákvæði barnasáttmálans sem og annarra réttarheimilda og með tilliti til upplýsinga-, leiðbeiningar- og frumkvæðisskyldu stjórnvalda er nauðsynlegt að unnin verði slík greining hið fyrsta. Múrar á milli kerfa innan stjórnsýslunnar eru síst til þess fallnir að almennir borgarar, og enn síður börn sjálf, geti leitað réttar síns. Það á að vera skýrt hvert skal leita til að tryggja börnum lögmæt réttindi eða þjónustu.
Nákvæmar upplýsingar um það hvaða stjórnvald ber ábyrgð á framfylgni einstakra réttinda væri ákjósanleg leið fyrir stjórnvöld til að sinna skyldu sinni og veita nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi leiðbeiningar til barna og foreldra og forráðamanna þeirra svo að þeim sé veitt heildstæð yfirsýn yfir ferlið við að sækja rétt barna innan stjórnsýslunnar.