Ferill 862. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1366  —  862. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um gerð leiðbeininga um úttektir og mat á rakaskemmdum og myglu og heilsukvillum af þeirra völdum.


Flm.: Una María Óskarsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þorgrímur Sigmundsson, Jón Þór Þorvaldsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að stofna sérfræðihóp sem hafi það verkefni að útbúa leiðarvísa um hvernig framkvæma skuli úttektir og mat á rakaskemmdum og myglu og heilsufarsáhrifum sem þær geta haft. Skal hann skipaður fulltrúum frá félags- og barnamálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, Umhverfisstofnun, Mannvirkjastofnun, Vinnueftirlitinu og embætti landlæknis.
    Ráðherra skal skila Alþingi skýrslu með tillögu að leiðarvísum eigi síðar en 1. desember 2020.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að stofnaður verði sérfræðihópur sem útbúi leiðarvísa sem verði notaðir við úttektir og mat á rakaskemmdum og þeim heilsufarsáhrifum sem þær geta haft.
    Markmiðið er að útbúa samræmdar leiðbeiningar fyrir fagaðila um hvernig eigi að fara að annars vegar við mat á rakaskemmdum á húsnæði og hins vegar við mat á heilsufarsáhrifum rakaskemmda og myglu. Á undanförnum árum hefur tilfellum vegna raka- og mygluskemmda í húsum fjölgað og hafa komið upp stór vandamál, m.a. í skólum og á heimilum og vinnustöðum, vegna þessa með tilheyrandi heilsufarsáhrifum á einstaklinga sem þar eru. Árið 2015 gaf Umhverfisstofnun út leiðbeiningar varðandi inniloft, raka og myglu í híbýlum. 1 Þær leiðbeiningar lúta að því hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og er þeim fyrst og fremst beint til almennings. Hins vegar eru ekki til neinir samræmdir leiðarvísar til að meta ástand á húsnæði vegna rakaskemmda og myglu og heilsufarsáhrif og/eða heilsufarsvanda af þeirra völdum. Af því leiðir að mismunandi aðferðir eru notaðar við að meta raka og rakaskemmdir í húsnæði sem gefa misgóðan árangur og leiða m.a. til þess að ekki er unnt að vinna tölfræði yfir tilvikin. Því er lagt til að skipaður verði sérfræðihópur sem vinni leiðarvísa eða módel að því hvernig bregðast eigi við þegar slík tilfelli koma upp. Áhersla er lögð á að vandinn er tvíþættur, þ.e. annars vegar rakaskemmdir og mygla og hins vegar mögulegur heilsufarsvandi af völdum þessa og því er nauðsynlegt að fá fagaðila á mörgum sviðum í sérfræðihópinn.
    Aðrar Norðurlandaþjóðir standa Íslendingum mun framar í þessum málum, þ.e. varðandi rakaskemmdir og áhrif þeirra, og hafa tekið upp verkferla við greiningu þeirra, sem þó eru ólíkir en hægt væri að aðlaga að íslenskum aðstæðum. Á síðu stjórnsýslustofnunar samgöngu-, byggingar- og húsnæðismála (d. trafik-, bygge- og boligstyrelsen), sem heyrir undir samnefnt ráðuneyti í Danmörku, er t.d. að finna ítarlegar leiðbeiningar um hvert eigi að snúa sér vegna heilsuspillandi húsnæðis. 2 Er gerður greinarmunur á hvort húsnæði sé í eigin eigu eða leiguhúsnæði og vísað í viðeigandi lagaákvæði. Heilbrigðiseftirlitið í Danmörku gaf árið 2009 út bækling með ráðleggingum um hvernig bregðast eigi við raka- og mygluskemmdum. 3 Þá hefur Ástralía tekið vel á þessu vandamáli og m.a. sett upplýsingar um CIRS (Chronic Inflammatory Response Syndrome) á heimasíðu þingsins. Árið 2018 kom síðan út skýrsla þar sem farið var yfir heilsufarsáhrif af völdum rakaskemmda. 4
    Starfshópur um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði skilaði af sér skýrslu í mars árið 2015. 5 Hópurinn fór yfir gildandi regluverk og komst að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að fara í umfangsmiklar breytingar að svo stöddu. Hins vegar kom eftirfarandi fram í niðurstöðu skýrslunnar, kafla 6.5: „Að mati starfshópsins er einnig afar mikilvægt að Mannvirkjastofnun ræki hlutverk sitt hvað varðar það að annast og stuðla að rannsóknum á sviði byggingarmála og að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði í auknum mæli gert kleift að sinna byggingarrannsóknum, ekki síst vegna þeirra vandamála er lúta að raka og myglu í húsnæði. Í því sambandi er mikilvægt að fjármagn verði lagt í auknar rannsóknir á sviði byggingareðlisfræði og viðhaldi bygginga.“ Hópurinn taldi hins vegar vera nauðsynlegt að byggingareftirlit væri skilvirkt til að tryggja að öllum kröfum mannvirkjalaga og reglugerða væri fylgt og komið í veg fyrir ófagleg vinnubrögð. Sömuleiðis væri mikilvægt að unnt verði að grípa inn í þegar húsnæði í notkun reynist skaðlegt heilsu. Virðist sem lítið hafi verið aðhafst í kjölfar þessarar skýrslu.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að til séu samræmdar eða staðlaðar leiðbeiningar um úttektir, mat og viðbrögð fagaðila við rakaskemmdum og myglu og mögulegum heilsufarsvandamálum af þeirra völdum. Á þann hátt er mögulega hægt að koma í veg fyrir frekari skemmdir á húsum og möguleg heilsufarsvandamál. Miðar tillagan að því að slíkir leiðarvísar verði útbúnir.


Tilvísanir:
1 www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Annad/Inniloft,%20raki%20og%20mygla_2015%20KH.pdf
2 www.trafikstyrelsen.dk/DA/Bolig/Byfornyelse/Sundhedsfarlige-boliger.aspx
3 www.sst.dk/da/udgivelser/2010/~/media/4C0B229E39FC4030B00906364801023F.ashx
4 parlinfo.aph.gov.au/parlInfo/download/committees/reportrep/024194/toc_pdf/ReportontheInquiryintoBiotoxin-relatedIllnessesinAustralia.pdf;fileType=application/pdf
5 www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Graenn-lifstill/Heimilid/Mygluskyrsla_og_fylgiskjal.pdf