Ferill 730. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1367  —  730. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða útgjöld hafa stofnanir sem heyra undir ráðherra haft ár hvert frá árinu 2015 vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter?

    Útgjöld stofnana sem heyra undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum á árabilinu 2015–2019 má sjá í eftirfarandi töflu. Allar fjárhæðir eru án virðisaukaskatts.

FIN 2015 2016 2017 2018 2019 Samtals:
Einkaleyfastofan 0 7.096 4.471 4.353 0 15.920
Ferðamálastofa 0 0 0 61.787 36.618 98.405
Neytendastofa 0 0 0 26.677 0 26.677
Nýsköpunarmiðstöð 0 29.914 115.313 106.628 8.082 259.937
Orkustofnun 0 0 25.306 185.950 845 212.101
Samkeppniseftirlitið 31.479 51.650 2.100 42.295 10.149 137.673
Samtals: 31.479 88.660 147.190 427.690 55.694 750.713

     2.      Hvaða stefnu hefur ráðherra að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum?
    Af hálfu ráðherra hefur ekki verið mótuð stefna um auglýsingakaup stofnana ráðuneytisins á samfélagsmiðlum.

     3.      Hvernig telur ráðherra það að kaupa auglýsingar eða kostaða dreifingu á erlendum samfélagsmiðlum samræmast stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla?
    Markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu fjölmiðla tekur til starfsumhverfis fjölmiðla í víðu samhengi, sbr. skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 og drög að frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis sem kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Auglýsingamarkaðurinn skiptir þar miklu máli ásamt öðru og er mikilvægt að gagnsæi ríki um kaup opinberra aðila á auglýsingum, sbr. umfjöllun í framangreindri skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Er einnig mikilvægt til lengri tíma litið að fylgst verði með þróun auglýsingamarkaðar og hlutdeild samfélagsmiðla á honum og hvaða áhrif markaðshlutdeild slíkra miðla hefur á auglýsingatekjur annarra fjölmiðla.
    Mikilsverður hluti af starfi Stjórnarráðsins og hins opinbera er að upplýsa almenning um þau verkefni og viðburði sem unnið er að á hverjum tíma. Mjög stór hluti þjóðarinnar notar samfélagsmiðla og því gagnlegt og eðlilegt að þeir séu nýttir að einhverju marki við boðmiðlun.
    Eins og sjá má af svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur umfang auglýsingakaupa og kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum hjá stofnunum sem undir ráðherra heyra verið takmarkað á umliðnum árum. Verður ekki séð, að svo stöddu, að slík hófleg auglýsingakaup raski stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu íslenskra fjölmiðla.