Ferill 705. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1375  —  705. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um sérhæfða sjúkraþyrlu.


     1.      Hefur ráðherra kannað kosti þess og hagkvæmni að nýta sérhæfða sjúkraþyrlu til að veita bráðaþjónustu á vettvangi, fjarri spítölum og bráðadeildum, eins og ráðherra var hvattur til í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019?
    Hinn 9. febrúar 2018 skipaði ráðherra starfshóp til að skoða aukna aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi. Hópnum var falið að meta faglegan og fjárhagslegan ávinning af aukinni aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi, bæði með þyrlum og flugvélum. Jafnframt var hópnum falið að skoða aðra möguleika til að efla sjúkraflug með þyrlum, m.a. með hliðsjón af tillögum í skýrslu fagráðs sjúkraflutninga um sjúkraflutninga með þyrlum, dags. 1. júní 2017. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ágúst 2018. Nefndarálit það sem vísað er til var lagt fram í nóvember 2018.
    Ráðherra hefur ákveðið að sjúkraflutningar verði meðal áherslumála ráðuneytisins á þessu ári. Á grundvelli þeirrar ákvörðunar er undirbúningur hafinn að stefnumótun vegna sjúkraflutninga og utanspítalaþjónustu. Á grundvelli stefnumótunar verða lagðar fram tillögur að heildstæðu framtíðarfyrirkomulagi þjónustunnar. Einnig verða sett fram markmið, t.d. um flutningstíma og gæði þjónustu á landsvísu. Meðal þeirra leiða sem horft er til við að ná markmiðum stefnumótunarinnar innan þess fjárhagsramma sem verkefninu er búinn er aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflutningum, m.a. sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Fyrir liggja skýrslur um málið sem horft verður til við þá vinnu sem fram undan er. Þá verður einnig horft til tilvísaðs nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar.

     2.      Er undirbúningur hafinn að tímabundnu tilraunaverkefni á Suðurlandi varðandi þetta úrræði eins og hvatt er til í fyrrnefndu nefndaráliti? Ef svo er, hvenær er áætlað að verkefnið fari af stað?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið eru sjúkraflutningar í heild sinni til skoðunar í ráðuneytinu. Niðurstaða liggur ekki fyrir og því hafa ekki verið teknar ákvarðanir um einstaka þætti verkefnisins, svo sem hvort ráðast skuli í tilraunaverkefnið á Suðurlandi.