Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1376  —  662. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um stuðning við unglingalandsmót UMFÍ.


     1.      Með hvaða hætti styður ráðuneyti íþróttamála sveitarfélög og ungmennafélög sem taka að sér unglingalandsmót UMFÍ sem haldið er um verslunarmannahelgi ár hvert?
    Áður en núgildandi íþróttalög, nr. 64/1998, tóku gildi árið 1998 bar mennta- og menningarmálaráðuneyti skylda til að koma að byggingu íþróttamannvirkja í landinu skv. 5. gr. eldri íþróttalaga frá 1956. Alþingi veitti þá fé í íþróttasjóð sem veita átti til byggingar íþróttamannvirkja. Með breytingum á íþróttalögum 1998 var ábyrgð og uppbygging íþróttamannvirkja færð til sveitarfélaga, sbr. 7. gr. laganna, og hlutverki íþróttasjóðs breytt, sbr. 8. gr. Breytingar þessar áttu rætur að rekja til laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Sveitarfélög og íþróttasambönd héldu þó áfram að sækja um fé til fjárlaganefndar til uppbyggingar íþróttamannvirkja, m.a. í tengslum við landsmót UMFÍ. Margvíslegir styrkir til sveitarfélaga og íþróttasambanda til uppbyggingar íþróttamannvirkja hafa verið veittir af fjárlaganefnd síðustu tvo áratugi og hefur ráðuneytið fengið þá til afgreiðslu. Árlegir styrkir til slíkra verkefna frá fjárlaganefnd hafa verið mismunandi á milli ára.
    Árið 2012 ákvað Alþingi að það fé sem fjárlaganefnd hafði áður veitt til ýmissa uppbyggingarverkefna yrði fært til ráðuneytisins og auglýst yrði eftir umsóknum. Ákveðið var að styrkupphæð það ár yrði 25 millj. kr. Með þessu þá gafst fleirum en UMFÍ tækifæri á að sækja um styrk vegna uppbyggingar mótsstaða og einnig hafa fleiri tegundir móta verið styrkt, t.d. skátamót, Íslandsmeistaramót í golfi og önnur mótssvæði sem ekki höfðu verið styrkt af fjárlaganefnd í sama mæli og mót UMFÍ. Heildarupphæðin sem úthlutað er árlega af ráðuneytinu hefur lækkað undanfarin ár vegna aðhaldskröfu en unglingalandsmót hafa verið styrkt árlega af þessu fé.

     2.      Er ákveðin lágmarksupphæð ætluð til unglingalandsmóts UMFÍ ár hvert?
    Engin ákveðin lágmarksupphæð er sérstaklega ætluð til unglingalandsmóts UMFÍ. Þegar tekin er ákvörðun um stuðning er horft til þess hvort styrkur hafi áður verið veittur til uppbyggingar mannvirkja á sama stað. Mótahald UMFÍ hefur aukist á undanförnum árum og oftar en ekki er sótt um til Landsmóts UMFÍ, unglingalandsmótsins og Landsmóts 50+ (fyrir keppendur 50 ára og eldri) sem yfirleitt eru haldin hvert á sínum stað, utan nokkurra tilfella þegar um sama mótsstað er að ræða. Ekki er ákveðin fyrir fram upphæð styrkveitingar þar sem um er að ræða sjóð með umsóknarferli og helgast styrkupphæðir af því fé sem er til úthlutunar hverju sinni, fjölda umsókna og hvaða verkþætti er unnt að styrkja á viðkomandi stað. Hér ber að hafa í huga að ekki er stutt við tímabundnar framkvæmdir sem þurfa að fara fram á mótsstað heldur eru varanlegar framkvæmdir styrktar.


     3.      Hvernig hefur þróunin verið sl. 20 ár í styrkveitingum vegna unglingalandsmóts UMFÍ? Svar óskast sundurliðað eftir árum, sveitarfélögum og ungmennafélögum.
    Unglingalandsmót UMFÍ byrjuðu árið 1992 á Dalvík og voru haldin annað eða þriðja hvert ár í upphafi. Eftir mótið árið 2002 í Stykkishólmi hafa þau verið haldin á hverju ári. Í töflu hér að neðan má sjá styrkveitingar til unglingalandsmóta síðustu 20 ár. Hér ber að hafa í huga að stundum eru styrkir ekki veittir á sama ári og mótið er haldið og í öðrum tilfellum eru styrkirnir einnig til Landsmóts UMFÍ, hafi það farið fram á sama stað og unglingalandsmótið. Styrkir hafa þá stundum verið veittir í tvö ár á fjárlögum. Til viðbótar hefur fjárlaganefnd einu sinni (árið 2016) ákveðið styrk vegna unglingalandsmóts frá árinu 2012.

Mót Ár Styrkupphæð
Unglingalandsmót UMFÍ í Vesturbyggð og Tálknafirði 2000 5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Stykkishólmi 2002 10 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Ísafirði 2003 10 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki (styrkur einnig vegna Landsmóts sama ár) 2004 55 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Vík í Mýrdal 2005 25 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Þingeyjarsveit 2006 25 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði 2007 25 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 2008 30 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Grundarfirði (mót fært á Sauðárkrók) 2009 30 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi 2010 5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum 2011 18,2 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi (styrkur einnig vegna Landsmóts sama ár) 2012 23 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði 2013 5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki 2014 7,5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri 2015 8,3 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi 2016* 20 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum 2017 5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 2018 5 millj. kr.
Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði 2019 4,5 millj. kr.
Samtals 316, 5 millj. kr.
*Styrkur ákvarðaður af fjárlaganefnd 2016.