Ferill 591. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1379  —  591. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um hugbúnaðarkerfið Skólagátt.


     1.      Hver er formlegur eigandi höfundarréttar að hugbúnaðarkerfinu Skólagátt?
    Eigandi höfundarréttar að hugbúnaðarkerfinu Skólagátt er Menntamálastofnun.

     2.      Hver er heildareignarhaldskostnaður ríkisins af hugbúnaðarkerfinu Skólagátt, sundurliðað eftir upprunalegum þróunarkostnaði, viðhaldskostnaði og kostnaði við útvíkkun á eiginleikum?
    Skólagáttin var tekin í notkun við rafræn próf árið 2016. Heildarkostnaður við Skólagátt árin 2016–2018 er um 45 millj. kr. en um er að ræða launakostnað og aðkeypta forritunarþjónustu. Í bókhaldi Menntamálastofnunar er ekki sundurliðað hver er þróunarkostnaður, viðhaldskostnaður eða útvíkkun á eiginleikum.

     3.      Hvers vegna hefur kóðinn að hugbúnaðinum ekki verið gefinn út opinberlega, í samræmi við stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað?
    Ákvörðun um að hafa kóðann lokaðann var tekin samkvæmt ráðleggingum sérfræðings í hugbúnaðarverkfræði í kjölfar úttektar á Skólagátt og áframhaldandi þróun hennar. Helstu ástæður voru að verja Skólagátt fyrir því að fundin yrði hugbúnaðarvilla sem veitti hækkun aðgangsstigs eða aðgang að óviðkomandi gögnum vegna mistaka við forritun. Þar fyrir utan taldi sérfræðingurinn ólíklegt að grunnkóði Skólagáttar væri endurnýtanlegur eða gagnaðist öðrum.

     4.      Er auðkenningarkerfi notað til að stýra aðgangi að hugbúnaðinum og ef svo er, hvert er það kerfi?
    Skólagátt notar auðkenningu Íslands.is.

    Aflað var umsagnar frá Menntamálastofnun við afgreiðslu þessarar fyrirspurnar.