Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1387  —  553. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um eflingu kynfræðslu á öllum skólastigum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur ráðherra fylgt eftir kröfu átaks um eflingu kynfræðslu á öllum skólastigum, í kjölfar þess að 1. mars 2018 afhentu aðstandendur herferðarinnar „Sjúk ást“ ráðherra undirskriftalista þar sem hátt í 4.000 manns skoruðu á ráðherra að beita sér fyrir öflugri og markvissri kynfræðslu á öllum skólastigum? Ef ekki, stendur það til?

    Með aðild að þingsályktunartillögu sem er til afgreiðslu á Alþingi hefur ráðherra fylgt eftir kröfu frá aðstandendum herferðarinnar „Sjúk ást“ um öfluga og markvissa kynfræðslu á öllum skólastigum. Um er að ræða 409. mál á þingskjali 550 sem er stjórnartillaga um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í tillögunni er aðgerð um að kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum þannig að nemendur fái kynfræðslu oftar en eina til tvær kennslustundir á skólagöngu sinni eins og dæmi eru um. Áætlað er að markvissri kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun verði komið á hið fyrsta, í síðasta lagi fyrir árslok 2020 í samræmi við aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og grunnþáttinn Heilbrigði og velferð sem þar er að finna.