Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1404  —  638. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bindandi álit í skattamálum, nr. 91/1998, með síðari breytingum (gildistími útgefinna álita, hækkun gjalds).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rakel Jónsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Ásu Ögmundsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins og KPMG.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um bindandi álit í skattamálum, nr. 91/1998, sem miða einkum að því að bindandi álit verði tímabundin til fimm ára og að grunngjald sem greiða skal þegar beiðni um álit er lögð fram hækki úr 75.000 kr. í 150.000 kr.
    Nefndin fjallaði um þörfina á hækkun grunngjaldsins, sem mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarpsins, og sendi ríkisskattstjóra beiðni um minnisblað þar sem fjallað yrði um kostnað embættisins af bindandi álitum. Í svari embættisins kom m.a. fram að afgreiðsla beiðna um bindandi álit væri margþætt og flókið verkefni sem væri sinnt af sumum af reynslumestu sérfræðingum embættisins. Launakostnaður þeirra hefði augljóslega aukist á síðustu tíu árum en gjaldið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Þá bæri embættið umtalsverðan óbeinan kostnað af álitsbeiðnum sem ekki væri tekið tillit til við tímaskráningu vegna þeirra, þ.m.t. kostnað vegna kröfugerða til yfirskattanefndar en bindandi álit ríkisskattstjóra væru iðulega kærð til nefndarinnar. Ljóst væri að grunngjaldið yrði síst talið of hátt miðað við vinnuframlag, yrði frumvarpið að lögum. Minnti ríkisskattstjóri á umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um bindandi álit í skattamálum þar sem fram kom að gjaldinu væri ætlað að standa straum af kostnaði embættisins af gerð álita sem og að stuðla að góðum undirbúningi álitsbeiðna. Meiri hluti nefndarinnar tekur rök ríkisskattstjóra til greina.
    Á meðal þess sem kom til umræðu við umfjöllun um málið var sá möguleiki að heimilt yrði að framlengja gildistíma álita umfram fimm ár að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meiri hlutinn bendir á að hugmyndina þyrfti að útfæra nánar áður hún verður fest í lög. Leggur meiri hlutinn til að kannað verði í ráðuneytinu hvort og með hvaða hætti skynsamlegt sé að bæta við lögin ákvæði um heimild til framlengingar á gildistíma bindandi álita.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 3. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 30. apríl 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Einar Kárason. Ólafur Þór Gunnarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.