Ferill 873. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1416  —  873. mál.
Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um óbyggð víðerni og friðlýsingar.

Frá Guðmundi Andra Thorssyni.

     1.      Hvernig hefur verið háttað starfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis og undirstofnana þess að verkefni um kortlagningu óbyggðra víðerna í Evrópu frá því að Evrópuþingið samþykkti yfirlýsingu um vernd óbyggðra víðerna árið 2009? En frá gildistöku laga nr. 60/2013 sérstaklega? Hvenær mun kortlagning óbyggðra víðerna á Íslandi liggja fyrir?
     2.      Hefur ráðherra í hyggju að leggja til fullgildingu Íslands á landslagssáttmála Evrópu og að innleiða hann í íslensk lög og þá hvenær?
     3.      Hversu mörg svæði hafa verið friðlýst sem óbyggð víðerni frá gildistöku laga nr. 60/2013?
     4.      Hve mörg svæði sem falla undir skilgreiningu laga á óbyggðum víðernum, en eru utan þess svæðis sem skilgreint er miðhálendi Íslands, hyggst ráðherra friðlýsa á árinu 2019? En 2020? Hvaða svæði eru það? Hvað er sú vinna langt á veg komin?
     5.      Hver er skýringin á því að á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er ekki lengur að finna lögbundna framlagningu þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár?
     6.      Telur ráðherra nægilega skýrt að friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 60/2013 skuli gera á forsendum náttúrunnar sjálfrar? Tefjist það úr hófi að Alþingi fái tillögu að framkvæmdaáætlun til afgreiðslu er ráðherra þá valdalaus hvað varðar úrræði til friðlýsingar svæða, þar á meðal óbyggðra víðerna, sem ekki er að finna á eldri náttúruverndaráætlun? Hvernig er unnt að bregðast við séu slík svæði ekki friðlýst og í hættu á að verða raskað endanlega, eins og ávallt er raunin með rask á óbyggðum víðernum?


Skriflegt svar óskast.