Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1425  —  638. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bindandi álit í skattamálum, nr. 91/1998, með síðari breytingum (gildistími útgefinna álita, hækkun gjalds).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti nefndarinnar telur ekki tilefni til að hækka það grunngjald sem innheimt er vegna beiðni um gerð bindandi álita í skattamálum. Um er að ræða grunngjald og samkvæmt lögunum skal greiða viðbótargjald sem miðast við umfang máls áður en ríkisskattstjóri lætur álitið uppi. Telur 1. minni hluti því ljóst að hækkun grunngjaldsins sé óþörf og geti virkað sem aðgangshindrun gagnvart því að fólk leiti eftir þjónustu sem almennt hlýtur að teljast jákvætt að sóst sé eftir enda sýnir það viðleitni til að standa með réttum hætti að skattskilum í flóknu kerfi. Slík aðgangshindrun bitnar eðli málsins samkvæmt verst á þeim sem hafa takmörkuð fjárráð og þeim sem óska álita sem eru einföld afgreiðslu og krefjast þannig ekki meiri vinnu af hendi ríkisskattstjóra en þeirrar sem núverandi grunngjald, sem er 75.000 kr., stendur undir. Samkvæmt gjaldskrá fjármála- og efnahagsráðherra vegna kostnaðar við gerð bindandi álita í skattamálum, nr. 146/2010, „skal greiða 7.500 kr. viðbótargjald fyrir hverja vinnustund við gerð bindandi álits umfram 10 vinnustundir áður en álitið er látið uppi“. Er því ljóst að gangi sú breyting sem mælt er fyrir um í frumvarpinu eftir, þar sem lagt er til að grunngjaldið verði 150.000 kr., verður innheimt 15.000 kr. tímagjald fyrir fyrstu 10 vinnustundir við álitsgerðina. Það telur 1. minni hluti óhóflegt.
    Að auki telur 1. minni hluti óljóst hvers vegna bindandi álit í skattamálum eigi að vera tímabundið á meðan lög eru óbreytt enda ber að gera kröfu um stöðugleika í framkvæmd opinberra reglna á meðan þær eru óbreyttar.

Alþingi, 30. apríl 2019.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.