Ferill 645. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1427  —  645. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum (selveiðar).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.
    Markmið frumvarpsins er að vernda selastofna hér á landi gegn ofveiði en frumvarpið byggist á því að selastofnar við landið hafi minnkað mjög og er landselsstofninn metinn í bráðri hættu og er á lista yfir tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu. Heimild vantar í lögin til að heimila ráðherra að takmarka veiðar á sel. Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem var kynnt 13. júní 2017 kemur m.a. fram að stofn landsels sé nú í sögulegu lágmarki. Fækkun frá upphafi talningar árið 1980 er 77% og samkvæmt talningu sumarið 2016 hafði stofninn minnkað um þriðjung frá árinu 2011. Stofninn er metinn „í bráðri hættu“ samkvæmt válista íslenskra spendýrategunda á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jafnframt hefur fækkað í stofni útsels, en frá árinu 1980 til 2012 fækkaði um meira en helming og er stofninn metinn „í nokkurri hættu“ samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Ekki er til heildstæð löggjöf um seli og/eða selveiðar en í lögum um lax- og silungsveiði er þeim sem á veiðirétt samkvæmt lögunum veitt heimild til að styggja og skjóta sel sem er í veiðivatni, ósi þess eða ósasvæði veiðiréttarhafa. Fordæmi er fyrir sambærilegum eða svipuðum ákvæðum í íslenskri löggjöf um takmörkun veiða sem gilda m.a. um veiðar á eignarlandi og í netlögum.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar var m.a. bent á að kanna þyrfti hvort reglugerðarheimild frumvarpsins nægði til að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði, annars vegar með hliðsjón af núgildandi ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar og hins vegar með hliðsjón af núgildandi ákvæðum um selveiðar. Var bent á að 9. kapítuli Jónsbókar tryggði landeigendum tiltekinn hagnýtingarrétt til selveiða innan netlaga og að með tilliti til ákvæða veiðitilskipunarinnar frá 1841 eigi landeigandi hagnýtingarrétt til veiði sels innan netlaga og njóti þar af leiðandi eignarráða yfir selveiðum innan netlaga. Fyrir liggi því að landeigendur njóti tiltekinna eignarréttinda vegna selveiða og því þurfi að skoða hvort tillagan feli í sér of víðtækt valdframsal.
    Meiri hlutinn bendir á að þó að landeigandi njóti hagnýtingarréttar til selveiða innan netlaga sæti sá réttur takmörkunum samkvæmt öðrum lögum. Sem dæmi má nefna að veiðiréttarhöfum er sem fyrr segir heimilt að styggja sel eða skjóta sel sem er í veiðivatni, ósi þess eða ósasvæði, sbr. 11. gr. laga um lax- og silungsveiði. Fyrirhuguð lagabreyting er gerð með tilliti til ríkra almannahagsmuna, þ.e. til að vernda selastofna við landið sem eru nú í útrýmingarhættu. Mikilvægir hagsmunir liggja því til grundvallar breytingunni. Verði sett veiðibann með reglugerð eigi slíkt bann stoð í lögum og mun gilda jafnt um alla landsmenn, þ.m.t. landeigendur. Meiri hlutinn bendir enn fremur á að verði ekki stemmt stigu við áframhaldandi veiðum á selastofnunum, sérstaklega landsel, geti umræddur hagnýtingarréttur orðið að engu fari svo að stofninn hverfi. Með lagabreytingunni sé tryggt að bann eða takmörkun á veiðum verði sett ef Hafrannsóknastofnun telur það nauðsynlegt og því muni takmarkanir byggjast á vísindalegum grunni.
    Í umsögnum var m.a. bent á að þörf sé á heildarendurskoðun á löggjöf um seli og selveiðar. Meiri hlutinn telur rök hníga til þess að farið verði í heildarendurskoðun löggjafar varðandi seli. Sú staða sem sé uppi kalli hins vegar á að brugðist sé skjótt við til þess að varna því að staða selastofna við landið versni enn frekar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson, frsm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.