Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1434  —  646. mál.
Viðbót.

2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verðjöfnunargjöld).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Arnar Frey Einarsson og Ásu Þórhildi Þórðardóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands sem mætti jafnframt fyrir hönd Landssamtaka sauðfjárbænda, Steinþór Skúlason frá Sláturfélagi Suðurlands, Ingólf Jóhannsson frá Kaupfélagi Skagfirðinga, Ágúst Torfa Hauksson frá Norðlenska, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Steinþór Skúlason frá Samtökum mjólkur- og kjötvinnslustöðva, Val Þráinsson og Birgi Óla Einarsson frá Samkeppniseftirlitinu og Guðfinnu Hörpu Árnadóttur og Unnstein Snorra Snorrason frá Landssamtökum sauðfjárbænda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Landssamtökum sauðfjárbænda, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum iðnaðarins, Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á búvörulögum sem miða að því að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt sem skrifað var undir 11. janúar 2019. Breytingarnar eru m.a. þær að búin verður til innanlandsvog til að meta og skilgreina þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti og sauðfjárbændum býðst að gera aðlögunarsamninga sem gera þeim kleift að byggja upp nýjar búgreinar og búskaparhætti á jörðum sínum. Markmiðið er að stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda ásamt því að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016 og var undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla fór fram meðal félagsmanna 4. mars 2019 og var samningurinn samþykktur með 68% greiddra atkvæða.
    Fyrir nefndinni kom almennt fram ánægja með fyrirhugaðar breytingar á búvörulögum. Breytingin er talin þjóna hagsmunum greinarinnar vel enda ætlað að efla starfsgreinina, m.a. með því að auðvelda sauðfjárbændum að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar.
    Í umsögnum komu fram sjónarmið um að fyrirhuguð niðurfelling á 85. gr. A, um verðjöfnun við útflutning fullunninna innlendra vara, mundi skekkja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem framleiða vörur úr landbúnaðarhráefni. Betra væri að einfalda framkvæmd ákvæðisins og gera fleirum kleift að nýta úrræðið, auk þess að auka framlag ríkisins til málaflokksins.
    Meiri hlutinn bendir á að fram kemur í greinargerð frumvarpsins að heildarfjármagn sem veitt er til verðjöfnunar árið 2019 samkvæmt fjárlögum eru 2,5 millj. kr. Því er um óverulegar upphæðir að ræða á ári hverju. Er enn fremur bent á að ráðstafanir hafi verið gerðar til að lækka nýmjólkur- og undanrennuduft til matvælaframleiðslu hér á landi og því sé ákvæðið óþarft.
    Nefndinni var bent á að brýna þyrfti skyldu bænda til að skila inn lögbundnu skýrsluhaldi þannig að skil á skýrsluhaldi er skilyrði fyrir greiðslu stuðningsgreiðslna samkvæmt ákvæðinu. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur því til breytingu á 3. mgr. 30. gr. laganna.
    Meiri hlutinn telur að með breytingunum sé verið að styðja betur við sauðfjárbændur og þeim auðveldað að styrkja stoðir búrekstrar síns. Þannig sé sauðfjárbændum veitt aukið frelsi til að stýra búi sínu með þeim hætti sem þeim henti best og stuðlað að aukinni hagkvæmni í greininni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðskýringin Nýliði í 1. gr. orðist svo: Nýliði er einstaklingur sem er á aldrinum 18–40 ára á því ári sem hann óskar eftir stuðningi og er að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hefur leigt eða keypt búrekstur á þremur undangengnum árum frá 1. janúar á umsóknarári að telja.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir orðunum „eða garðyrkjubýli“ í 3. mgr. 30. gr. laganna kemur: taka þátt í lögbundnu skýrsluhaldi með fullnægjandi skilum, sem eru skilgreind nánar í reglugerð.
     3.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað dagsetningarinnar „1. september“ í a-lið komi: 1. júní.
                  b.      Við bætist nýr stafliður sem verði b-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „framsali“ í 3. mgr. kemur: tilfærslu.
                  c.      Í stað orðanna „á kaupum“ í 3. málsl. b-liðar komi: við kaup.
                  d.      Við 3. málsl. b-liðar bætist: og skulu skilgreiningar á slíkum hópum útfærðar í reglugerð.
                  e.      4. málsl. b-liðar falli brott.
     4.      8. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema ákvæði a-liðar 3. gr. sem öðlast gildi 1. júní 2019 og ákvæði c-liðar 3. gr. og 8. gr. sem öðlast gildi 1. september 2019.

Alþingi, 2. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.