Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1460  —  417. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Óskar Þór Ármannsson og Guðna Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hinriku Söndru Ingimundardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Barnaverndarstofu, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands, Auði Ingu Þorsteinsdóttur og Jóhann Steinar Ingimundarson frá Ungmennafélagi Íslands, Ragnhildi Skúladóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tómas Torfason frá KFUM og KFUK, Kristin Ólafsson frá Bandalagi íslenskra skáta, Stellu Hallsdóttur og Guðríði Bolladóttur frá umboðsmanni barna, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson frá Vinnueftirlitinu, Sindra Bjarkarson, Nínu Steingerði Káradóttur, Ástu Glódísi V. Ágústsdóttur, Steinunni Thalíu Jónsdóttur og Steinunni Glóeyju Höskuldsdóttur frá ungmennaráði Samfés og Ingu Huld Ármann, Eið Axelsson Welding og Vigdísi Sóleyju Vignisdóttur frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Kvenréttindafélagi Íslands, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanni barna, Ungmennafélagi Íslands og Æskulýðsvettvanginum. Auk þess kallaði nefndin eftir upplýsingum frá ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði tímabundið til starfs samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð íþrótta- og félagsstarfs með því að stuðla að öryggi þeirra sem taka þátt í starfi þeirra samtaka og félaga sem frumvarp þetta nær til.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um ýmis atriði sem snerta málið, þar á meðal um hlutverk og tilkynningarskyldu, hlutleysi og um aðgengi að þjónustu og aðstoð samskiptaráðgjafans, sem og aðgengi aðila sem falla undir íþróttalög, nr. 64/1998, að upplýsingum úr sakaskrá.

Samráð við börn og ungmenni.
    Svo virðist sem ekki hafi verið haft virkt samráð við börn og ungmenni við vinnslu frumvarpsins. Nefndin áréttar nauðsyn þess að á fyrri stigum verði sérstaklega leitað eftir sjónarmiðum þeirra. Nefndin beinir því þess vegna til stjórnvalda að huga að slíku samráði, sérstaklega í þeim málum sem varða hagsmuni þeirra.

Gildissvið (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildissvið frumvarpsins en þar kemur fram að starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nái til skipulagðrar starfsemi á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, æskulýðssamtaka sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og aðila sem gera samning við það ráðuneyti sem fari með íþrótta- og æskulýðsmál um rekstrarframlag vegna sambærilegrar starfsemi. Skv. 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins er það m.a. hlutverk samskiptaráðgjafans að leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu starfi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi eða í tengslum við það um þau úrræði sem standa til boða, hvernig kvörtun er komið á framfæri við rétt yfirvöld og eftir atvikum um þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á. Í greinargerð með frumvarpinu kemur síðan fram að mikilvægt sé að leiðbeiningarskylda samskiptaráðgjafans nái bæði til atvika sem verða í og í tengslum við starf þeirra sem undir lögin falla. Þannig nái lögin einnig til þess sem gerist utan skipulagðs starfs. Með þessu er ætlunin að lögin nái einnig til þess sem gerist í frítíma.
    Að mati nefndarinnar er gildissvið leiðbeiningarskyldu samskiptaráðgjafans skv. 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins víðtækara en gildissvið 1. gr. þess. Þannig nær 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins til skipulagðs starfs en jafnframt til þess sem gerist utan þess, en starfssvið samskiptaráðgjafans skv. 1. gr. nær aðeins til skipulagðrar starfsemi. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að starfssvið samskiptaráðgjafans nái einnig til atvika sem verða í tengslum við skipulagt starf og leggur því til breytingar á 1. gr. frumvarpsins þannig að starfssvið ráðgjafans nái einnig til þess sem gerist utan skipulagðs starfs, og um leið verði tryggt samræmi milli 1. gr. og 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs (4. gr.).
Tímabundið starf.
    Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins segir að ráðherra setji á fót starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til fimm ára í senn. Eftir 1. janúar 2023 getur ráðherra lagt niður starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs að fenginni umsögn hagsmunaaðila. Nefndin leggur til að 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins falli brott en verði þess í stað að nýju bráðabirgðaákvæði þar sem um er að ræða sólarlagsákvæði. Á sama tíma leggur nefndin til þá leiðréttingu að miðað verði við 1. janúar 2024 í ljósi þess að ráðherra mun ráða samskiptaráðgjafa til fimm ára í senn en ekki til fjögurra ára.
    Nefndin leggur áherslu á að með frumvarpi þessu er verið að bregðast við ákveðnum vanda sem hefur fengið að líðast í íþrótta- og æskulýðsstarfi og brýnt þykir að bregðast við. Nefndin tekur jafnframt fram að þótt um sé að ræða tímabundið starf er ástæða til að endurskoða þetta átaksverkefni með hliðsjón af þeirri reynslu og þekkingu sem hefur þá skapast, og sömuleiðis þarf þá að athuga hvort gera þurfi frekari breytingar ef ráðherra telur tilefni til að festa starf samskiptaráðgjafans í sessi. Nefndin leggur þess vegna til að í bráðabirgðaákvæðinu verði jafnframt kveðið á um að lögin verði endurskoðuð eftir 1. janúar 2024. Samhliða því getur ráðherra, að fenginni reynslu, tekið ákvörðun um það hvort leggja eigi starf samskiptaráðgjafans niður, festa starfið í sessi, eða útfæra aðrar leiðir til að tryggja öryggi þeirra sem stunda eða starfa við íþrótta- og æskulýðsmál.

Menntun samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
    
Í 2. mgr. 4. gr. er kveðið á um að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs skuli hafa háskólamenntun og þekkingu sem nýtist í starfi. Við meðferð málsins í nefndinni var bent á mikilvægi þess að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs hefði menntun á sviði mannréttinda, félagsráðgjafar, sálfræði og hefði reynslu og þekkingu á málefnum og réttindum barna. Nefndin tekur undir að um er að ræða starf þar sem taka þarf á ýmsum málum á stórum og fjölmennum vettvangi og því mikilvægt að viðkomandi hafi háskólamenntun og þekkingu sem nýtist í starfinu. Að mati nefndarinnar eiga sértækar kröfur til starfsins þó frekar að koma fram í auglýsingu þegar starfið verður auglýst.

Hlutverk samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs (5. gr.).
Tilkynningarskylda til barnaverndar og/eða þegar grunur er um refsiverða háttsemi.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að árétta yrði hina sérstöku tilkynningarskyldu til barnaverndar í 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um hlutverk samskiptaráðgjafans ásamt því að vísa til barnaverndarlaga í því samhengi. Þá var nefndinni einnig bent á mikilvægi þess að tryggja yrði að rannsóknarhagsmunir færu ekki forgörðum vegna aðkomu samskiptaráðgjafa þegar um væri að ræða hugsanlega refsiverða háttsemi gegn barni. Þannig þarf samskiptaráðgjafinn ávallt að huga að því að koma upplýsingum til réttra stjórnvalda tafarlaust, svo sem barnaverndaryfirvalda og/eða lögreglu.
    Í 5. gr. frumvarpsins er fyrst og fremst fjallað um hlutverk samskiptaráðgjafans í sínu starfi. Nefndin áréttar að hlutverk hans nær einnig til fullorðinna. Í 7. gr. frumvarpsins er hins vegar fjallað sérstaklega um þagnarskyldu samskiptaráðgjafans og áréttað að þagnarskyldan nái ekki til atvika sem ber að tilkynna lögum samkvæmt, t.d. þegar tilkynningarskylda er fyrir hendi samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Nefndin telur þess vegna ekki ástæðu til að árétta tilkynningarskylduna í 5. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur þó undir þau sjónarmið að í þeim tilvikum þegar um er að ræða hugsanlega refsiverða háttsemi gegn barni verði að tryggja að upplýsingar komist til réttra stjórnvalda. Nefndin leggur því til að við 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins verði áréttuð sú skylda samskiptaráðgjafans að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld.

Fyrirbyggjandi aðgerðir.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að samskiptaráðgjafinn yrði til ráðgjafar um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr hættu á að slík atvik og misgerðir sem lýst er í 3. gr. frumvarpsins kæmu upp, svo sem umræðu um ferla sem skapa sameiginlegan skilning á því hvers konar hegðun sé óásættanleg. Í frumvarpinu væri megináhersla hins vegar á viðbrögð við atvikum og misgerðum sem hafa þegar átt sér stað.
    Að mati nefndarinnar fjallar 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins að vissu leyti um fyrirbyggjandi aðgerðir. Nefndin tekur þó undir að árétta megi hlutverk samskiptaráðgjafans að því er snertir forvarnir. Nefndin leggur þess vegna til að við bætist nýr töluliður sem vísi til þess að samskiptaráðgjafinn sé til ráðgjafar um fyrirbyggjandi aðgerðir í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Þagnarskylda (7. gr.).
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um þagnarskyldu samskiptaráðgjafans. Í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. er kveðið á um að samþykki þess sem til hans leitar og eftir atvikum forráðamanns leysi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs undan þagnarskyldu. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð við 7. gr. frumvarpsins kemur fram að greinin sé orðuð með þeim hætti að aldrei eigi að veita undanþágu frá þagnarskyldu ef barn er ekki samþykkt því, sama á hvaða aldri barnið er, enda taki tilkynningarskyldan til barnaverndar á málum sem nauðsynlegt sé að grípa inn í og veita barninu viðeigandi aðstoð með einhverjum hætti.
    Með hliðsjón af framangreindu var nefndinni bent á að greinargerðin væri skýrari og gengi lengra en texti frumvarpsins um þetta atriði. Þannig ætti að orða ákvæðið að krafist yrði samþykkis þess barns sem í hlut ætti og eftir atvikum forsjáraðila til að veita undanþágu á þagnarskyldunni. Gera mætti ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum yrði það ekki barnið sjálft sem leitaði til samskiptaráðgjafans, heldur einhver annar fyrir hönd þess. Þannig væri hægt að leggja þann skilning í ákvæðið að samþykki þess aðila sem leitaði til samskiptaráðgjafans þyrfti til að aflétta þagnarskyldu og eftir atvikum forsjáraðila en ekki barnsins sem í hlut ætti.
    Nefndin bendir á að börn, unglingar og fullorðnir geta leitað til samskiptaráðgjafans. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. um samþykki þeirra sem til samskiptaráðgjafans leita nær því ekki einungis til barna eða ungmenna heldur einnig til fullorðinna. Ákvæðið er nánar skýrt í greinargerð þegar börn eiga í hlut. Nefndin bendir á að ef ákvæðið er afmarkað einungis við þær aðstæður þegar barn á í hlut, þá geti t.d. fullorðnir iðkendur, sem leiti til samskiptaráðgjafans, ekki veitt samþykki sitt til að leysa ráðgjafann undan þagnarskyldu sinni. Nefndin telur þess vegna ekki þörf á að breyta ákvæðinu en lítur svo á að skýringar í greinargerð í þessum efnum séu til fyllingar ákvæðinu. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að sá sem leitar til samskiptaráðgjafans fyrir hönd barnsins getur ekki leyst ráðgjafann undan þagnarskyldu heldur þarf samþykki barnsins sem í hlut á, og eftir atvikum forsjáraðila.
    Þá var nefndinni bent á að hugtökin „forsjá“ eða „forsjáraðili“ eru almennt notuð í stað hugtaksins „forráðamaður“. Til að gæta samræmis í hugtakanotkun í löggjöfinni leggur nefndin jafnframt til breytingar þess efnis á 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Auk þess leggur nefndin til orðalagsbreytingar til að gæta samræmis við orðalag annarra ákvæða og þær breytingar sem raktar eru í umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins.

Hlutlaus fagaðili (8. gr.).
    Nefndinni var bent á svokallaðan Æskulýðsvettvang sem er samstarfsvettvangur KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta, Ungmennafélags Íslands og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Æskulýðsvettvangurinn vinni að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Á þessum vettvangi hafa m.a. verið skapaðir ferlar til að tilkynna einelti eða kynferðislega áreitni eða misnotkun en slík mál fara til vinnslu hlutlauss fagráðs. Mörg verkefni sem falin væru samskiptaráðgjafa með frumvarpinu væru þau sömu og unnin hefðu verið á Æskulýðsvettvanginum. Með hliðsjón af því starfi var lagt til við nefndina að samskiptaráðgjafinn yrði staðsettur hjá Æskulýðsvettvanginum svo að hann hefði greiðan aðgang að allri þeirri vinnu í þessum efnum og gæti nýtt hana sem grunn í sínum verkefnum.
    Aftur á móti komu fram sjónarmið þar sem lögð var mikil áhersla á að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs væri hlutlaus fagaðili. Mikilvægt væri að skapa ákveðið hlutleysi og traust þannig að hafið væri yfir hagsmunagæslu og tengsl sem þolandi gæti óttast við afgreiðslu tilkynninga um óæskilega hegðun eða atvik.
    Nefndin telur mikilvægt að við undirbúning starfs samskiptaráðgjafans verði haft samráð við Æskulýðsvettvanginn og skoðaður verði sá möguleiki að byggja á þeirri reynslu sem hefur skapast þar. Aftur á móti er það mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að leggja áherslu á hlutleysi samskiptaráðgjafans og því telur nefndin ekki æskilegt að ráðgjafinn verði staðsettur hjá félögum eða samtökum sem frumvarpið á að ná til. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðherra að hafa þau sjónarmið til hliðsjónar þegar settar verða nánari reglur um starf samskiptaráðgjafans, þ.e. um staðsetningu starfans, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þá leggur nefndin til breytingar á 8. gr. þess efnis að ráðherra skuli setja reglugerð, enda telur nefndin nauðsynlegt að umgjörð starfsins verði útfærð nánar.
    Nefndin beinir því jafnframt til mennta- og menningarmálaráðuneytis að tryggja að samskiptaráðgjafinn geti leitað stuðnings eða ráðleggingar í starfi sínu, sérstaklega á fyrstu stigum þess. Í því samhengi bendir nefndin einnig á að samkvæmt tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess er fyrirhugað að koma á fagráði eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf (aðgerð A.4.). Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að tryggja samræmi milli þessa frumvarps og þeirrar aðgerðar, og kanna hvort tilefni er til að tengja hvort tveggja saman með einhverjum hætti.

Aðgengileg þjónusta og aðstoð (8. gr.).
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að tryggja að sú þjónusta og aðstoð sem samskiptaráðgjafinn veiti verði sérstaklega aðgengileg fyrir börn og unglinga, en um leið að slíkt aðgengi verði með einföldum hætti og að skýrt liggi fyrir hvernig því skuli háttað. Þannig var rætt um þann möguleika að börn og unglingar gætu haft samskipti við samskiptaráðgjafann með rafrænum hætti, svo sem með netspjalli eða með því að senda inn nafnlausar fyrirspurnir, en jafnframt að hafa þann möguleika að geta mætt á staðinn án þess að bóka tíma. Samhliða því komu fram sjónarmið um hvort einn samskiptaráðgjafi gæti sinnt öllum þeim verkefnum sem honum eru falin samkvæmt frumvarpinu.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið að tryggja þurfi aðgengi barna og unglinga með einföldum hætti og sömuleiðis rafrænar samskiptaleiðir. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að tryggja að svo verði og að framangreind sjónarmið verði höfð til hliðsjónar. Nefndin leggur þess vegna til breytingar á 8. gr. frumvarpsins þess efnis að ráðherra skuli með reglugerð m.a. setja nánari reglur um starfshætti ráðgjafans.
    Nefndin telur það réttmætar áhyggjur hvort einn samskiptaráðgjafi geti valdið starfi sem snertir hið umfangsmikla svið íþrótta- og æskulýðsstarfs. Nefndin beinir því þess vegna til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að kanna strax við undirbúning gildistöku laganna hvort forsendur séu fyrir því að fjölga samskiptaráðgjöfum til að tryggja að hægt verði að sinna hlutverki samskiptaráðgjafans skv. 5. gr. frumvarpsins. Þá beinir nefndin því einnig til ráðuneytisins að endurskoða framangreindar forsendur með reglubundnum hætti þegar samskiptaráðgjafinn gefur árlega skýrslu til ráðherra um starf sitt, sbr. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins, en þá ætti að vera komin meiri reynsla á starfið og frekari upplýsingar liggja fyrir um starf samskiptaráðgjafans og þær tilkynningar sem hafa borist honum.

Gildistaka (9. gr.).
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. apríl 2019. Nefndin bendir á að fyrir liggur að breyta verði gildistökuákvæði frumvarpsins. Nefndin telur að veita verði mennta- og menningarmálaráðuneyti svigrúm til að undirbúa gildistöku laganna, m.a. til að skipuleggja starfsemina, ráða í starfið eða fela þar til bærum aðila að taka við starfseminni og ráða í starfið. Að því sögðu leggur nefndin til að lögin öðlist gildi 1. ágúst 2019 en að ákvæði til bráðabirgða I taki þegar gildi.

Sakavottorð (9. gr.).
    Nokkuð var rætt um 9. gr. frumvarpsins þar sem gerð er breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að lagt er til bann við því að ráða til starfa eða fá til sjálfboðaliðastarfa þá sem dæmdir hafa verið fyrir kynferðisbrot skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á undanförnum fimm árum. Ákvæðið nái til launþega, verktaka og sjálfboðaliða. Yfirmenn þeirra aðila sem falli undir ákvæði frumvarpsins og sinni íþróttastarfi eigi rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem hyggst starfa á þeirra vegum, hvort sem um er að ræða launað starf eða sjálfboðaliðastarf, hafi hlotið dóm vegna framangreindra brota, að fengnu samþykki hans.
    Nefndinni var bent á að gífurlegur fjöldi einstaklinga kæmi að íþrótta- og æskulýðsstarfi. Öll störfin fela þó ekki í sér nálægð við iðkendur. Mikilvægt væri því að lögin væru vel framkvæmanleg og þannig tryggð auðveld úrvinnsla og aðgengi að upplýsingum úr sakaskrá, t.d. með rafrænum hætti. Jafnframt komu fram ábendingar um að óljóst væri hvers vegna farið væri fram á að bæði lægi fyrir sakavottorð og upplýsingar úr sakaskrá. Að auki komu fram sjónarmið um að gæta þyrfti meðalhófs við útilokun frá sjálfboðaliðastarfi. Þannig væri gengið lengra í að útiloka einstaklinga frá störfum og sjálfboðaliðastarfi en gert væri í æskulýðslögum, nr. 70/2007.
    Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. æskulýðslaga hafa yfirmenn rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, hafi hlotið dóm vegna tilgreindra brota, að fengnu samþykki hans. Nefndin vekur athygli á því að í æskulýðslögunum nær ákvæðið til starfa og sjálfboðaliðastarfa hjá börnum og ungmennum 18 ára og yngri en 9. gr. frumvarpsins tekur til alls íþróttastarfs óháð aldri. Þá er í æskulýðslögunum ekki gerð krafa um að sakavottorð liggi fyrir heldur er þar eingöngu að finna rétt til að fá upplýsingar úr sakaskrá að fengnu samþykki umsækjanda. Nefndin telur æskilegt að samræma orðalag 9. gr. frumvarpsins við æskulýðslögin og leggur til breytingar þess efnis. Að mati nefndarinnar ætti þess vegna að nægja að yfirmenn þeirra aðila, sem falla undir 9. gr. frumvarpsins og sinna íþróttastarfi, fái upplýsingar úr sakaskrá um þá einstaklinga sem sækja um að sinna börnum og ungmennum 18 ára og yngri. Nefndin telur jafnframt æskilegt að afmarka ákvæðið með þessum hætti þar sem því mundi fylgja mjög mikið álag á embætti ríkissaksóknara ef veita á upplýsingar um alla þá sem sinna íþróttastarfi, en auk þess megi ráða af athugasemdum með 9. gr. frumvarpsins að tilgangurinn með því að afla þessara upplýsinga sé að vernda börn og ungmenni og setja hagsmuni þeirra í forgang. Að auki telur nefndin mikilvægt að kveðið sé sérstaklega á um samþykki þess einstaklings sem afla á upplýsinga um.
    Nefndin tekur fram að í tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess (409. mál) er gert ráð fyrir að skipaður verði starfshópur sem verði falið það verkefni að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum, sbr. aðgerð B.3. Þá er þess að geta að til skoðunar eru rafrænar lausnir varðandi aðgang að sakaskrá sem varðar einungis aðgang að svokölluðu einkavottorði, sbr. 8. gr. reglna ríkissaksóknara nr. 680/2009, um sakaskrá ríkisins. Nefndin telur mikilvægt að haldið verði áfram að skoða rafrænar lausnir eða lausnir sem geta einfaldað framkvæmdina til muna samhliða aðgerð B.3. og kanna jafnframt hvort möguleiki sé að slíkar lausnir nái til fleiri tegunda sakavottorða og/eða upplýsinga úr sakaskrá.
    Lítið sem ekkert samráð virðist hafa verið haft við dómsmálaráðuneyti og ríkissaksóknara vegna 9. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur áherslu á samráð innan Stjórnarráðsins þegar frumvarp tengist málefni annarra ráðuneyta á einhvern hátt sem og við fagaðila innan viðkomandi kerfis, þegar við á.

Jafnréttis- og öryggisáætlun.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um hvort fjárstuðning til íþrótta- og æskulýðsstarfs ætti að skilyrða við að félög hefðu gert jafnréttis- og öryggisáætlun í starfi sínu, mótað verkferla til að takast á við mál sem tengjast áreitni og ofbeldi og ynnu samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Nefndin bendir á að sambærileg sjónarmið hafa verið höfð til umfjöllunar vegna 409. máls, tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í áætluninni er gert ráð fyrir aðgerð A.3. sem fjallar um gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu kemur fram að mikilvægt sé að setja opinberar gæðakröfur og viðmið um jafnrétti og heilbrigð samskipti þar sem ofbeldi fái ekki þrifist. Þá kemur fram að sérstaklega sé mikilvægt að fylgja eftir innleiðingu viðmiðanna með virku eftirliti og koma á miðlægri vottun. Skoða þurfi möguleika á að stöðva opinber framlög til félaga sem ekki standist gæðakröfur og setja skýr ákvæði þess efnis í alla samninga sem gerðir séu.
    Nefndin áréttar að kallað verði eftir víðtæku samráði vegna framangreindra sjónarmiða. Einnig leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að barnasáttmálinn verði hafður til hliðsjónar í þeirri vinnu sem er fram undan.
    Að auki leggur nefndin til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á 2. gr. frumvarpsins til leiðréttingar og skýringar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.