Ferill 822. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1465  —  822. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um slökkvilið á Keflavíkurflugvelli árið 2005.


    Í tíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og eftir brotthvarf þess fram til ársins 2007 var á Keflavíkurflugvelli rekið slökkvilið sem sinnti tvíþættu hlutverki. Annars vegar til að tryggja fyrstu björgunar- og slökkviþjónustu vegna loftfara, bæði vegna borgaralegs flugs og herflugs, á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar til að tryggja eldvarnir og slökkvistörf vegna mannvirkja á umsömdum varnarsvæðum Bandaríkjanna. Þar bjuggu og/eða störfuðu yfir 7.000 manns þegar mest var.
    Lengst af var þessi þjónusta tryggð á grundvelli reglugerðar Bandaríkjaflota um brunavarnir í bækistöðvum flotans, OPNAVINST 11320.23F. Við brotthvarf hersins og fram til ársins 2007 var slökkvilið starfrækt samkvæmt lögum nr. 75/2008, um brunavarnir.
    Með heimild nr. 179/2006 í fjárlögum fyrir árið 2007 birti forsætisráðuneytið auglýsingu nr. 38/2007 og 1263/2007. Í þeim var gerð grein fyrir breytingum á skipan mála á Keflavíkurflugvelli. Skipan mála skyldi vera sú að þar giltu almenn lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Yfirstjórn málaflokka skyldi jafnframt vera sú sama þar og annars staðar á landinu. Þar með færðist skyldan til að reka slökkvilið á grundvelli laga um brunavarnir yfir til viðkomandi sveitarfélaga. Þjónusta þeirra sem ráku Keflavíkurflugvöll var jafnframt afmörkuð við fyrsta viðbragð björgunar- og slökkviþjónustu á grundvelli laga nr. 60/1998, um loftferðir, og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.

     1.      Hversu margir slökkviliðsmenn störfuðu á Keflavíkurflugvelli 31. desember 2005?
    Þeir starfsmenn varnarliðsins, sem sinntu fyrstu björgunar- og slökkviþjónustu vegna loftfara og slökkvistörfum í mannvirkjum á varnarsvæði Keflavíkurflugvallar, voru 84 talsins.

     2.      Hversu margir þeirra höfðu réttindi til reykköfunar?
    Umrædd björgunar- og slökkviþjónusta var veitt á grundvelli innri krafna flugdeildar bandaríska flotans, þar sem ekki voru skilgreind sérstök réttindi til reykköfunar. Umræddum starfsmönnum var tryggður viðeigandi hlífðarbúnaður, þar með talið öndunarbúnaður í samræmi við þær kröfur sem gerðar voru til þjónustunnar. Jafnframt voru gerðar kröfur um líkamlegt atgervi, heilsu og þjálfun manna til samræmis við umfang og eðli starfseminnar.

     3.      Hver bar ábyrgð á þjálfun þeirra og hvernig var henni háttað?
    Þjálfuninni var sinnt af starfsmönnum varnarliðsins í formi bóklegs náms, verklegra æfinga og starfsþjálfunar til samræmis við innri kröfur flugdeildar bandaríska flotans sem bar ábyrgð á þjálfuninni.

     4.      Hver bar ábyrgð á löggildingu þeirra?
    Ekki var um að ræða löggildingu vegna umræddra starfa. Staðfesting vegna þjálfunar var gefin út af menntastofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

     5.      Hversu margir slökkvibílar voru starfræktir á Keflavíkurflugvelli 31. desember 2005?
    Fimm slökkvibílar voru vegna björgunar- og slökkviþjónustu í loftförum, bæði vegna borgaralegs flugs og herflugs. Auk þess voru tveir slökkvibílar hafðir sérstaklega vegna mannvirkja á varnarsvæði Keflavíkurflugvallar.

     6.      Hver var afkastageta slökkvibílanna?
    Afköst slökkvibíla vegna mannvirkja á varnarsvæði Keflavíkurflugvallar var til samræmis við innri kröfur flugdeildar bandaríska flotans. Það mat byggist á stærð þeirra loftfara sem um flugvöll fara og umferð um hann.