Ferill 823. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1466  —  823. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um brunavarnir á alþjóðaflugvöllum á Íslandi.


    Rekstraraðilum flugvalla ber að tryggja fyrstu björgunar- og slökkviþjónustu á flugvöllum. Umfang þeirrar þjónustu sem í boði er tekur mið af stærð þeirra loftfara sem að jafnaði nota viðkomandi flugvöll. Í því felst að tiltæk séu viðeigandi tæki, búnaður og hæfur mannskapur til að sinna umræddri þjónustu. Þjónustan grundvallast á flugöryggislegum forsendum og er veitt samkvæmt lögum nr. 60/1998, um loftferðir. Nánar er kveðið á um þjónustuna í reglugerð 75/2016, um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 og reglugerð 464/2007, um flugvelli.
    Björgunar- og slökkviþjónusta flugvalla kemur til viðbótar við lögbundnar skyldur annarra viðbragðsaðila, þ.m.t. slökkviliða sveitarfélaga. Þannig ber rekstraraðilum flugvalla ekki að reka slökkvilið mannað slökkviliðsmönnum, sbr. lög nr. 75/2008, um brunavarnir, enda fjalla þau um skyldur sveitarfélaga þar að lútandi.

     1.      Hversu margir slökkviliðsmenn störfuðu á hverjum alþjóðaflugvelli á Íslandi 31. desember 2018, þ.e. Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli?
    Fjöldi starfsmanna, sem sinnir björgunar- og slökkviþjónustu á framangreindum flugvöllum og hefur hlotið viðeigandi hæfi, var 31. desember 2018 sem hér segir:

Flugvöllur Fjöldi manna
Keflavíkurflugvöllur 69
Reykjavíkurflugvöllur 14
Akureyrarflugvöllur 12
Egilsstaðaflugvöllur 12

     2.      Hversu margir þeirra höfðu réttindi til reykköfunar?
    Reykköfun skv. 3. gr. laga um brunavarnir er skilgreind sem: „Athafnir slökkviliðs þegar loft undir þrýstingi er notað til öndunar við slökkvistarf í afmörkuðu rými eða þar sem mengunaróhapp hefur orðið.“
    Öllum starfsmönnum björgunar- og slökkviþjónustu flugvalla er tryggður viðeigandi hlífðarbúnaður, þ.m.t. öndunarbúnaður til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til þjónustunnar. Jafnframt eru gerðar kröfur um líkamlegt atgervi, heilsu og þjálfun manna, sem eru um margt sambærilegar og gerðar eru til slökkviliða sveitarfélaga. Starfsmenn sem sinna björgunar- og slökkviþjónustu á umræddum flugvöllum uppfylla framangreindar kröfur.


     3.      Hver bar ábyrgð á þjálfun þeirra og hvernig var henni háttað?
    Þjálfun starfsmanna sem sinna björgunar- og slökkviþjónustu er sinnt af starfsmönnum Isavia. Isavia ber ábyrgð á þjálfuninni. Slökkviþjónusta og þær reglur sem um hana gilda eru hluti af því alþjóðlega umhverfi sem alþjóðlegir flugvellir eru reknir í. Þjálfunin er í samræmi við það tekin út af Samgöngustofu áður en þeir sem reka flugvelli fá vottun um að þeir uppfylli þær kröfur sem um þá gilda.

     4.      Hver bar ábyrgð á löggildingu þeirra?
    Ekki er gerð krafa um að starfsmenn björgunar- og slökkviþjónustu flugvalla hljóti löggildingu. Þjálfun þeirra og hæfnimat er framkvæmt af þar til bærum starfsmönnum Isavia til samræmis við þær kröfur sem um starfsemina gilda. Innra eftirlit fer samkvæmt öryggis- og gæðastjórnunarkerfi Isavia og ytra eftirlit er í höndum Samgöngustofu og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

     5.      Hversu margir slökkvibílar voru starfræktir á hverjum alþjóðaflugvelli um sig 31. desember 2018?
    Rétt er að geta þess að á undanförnum árum hefur átt sér stað umfangsmikil endurnýjun slökkvibíla á umræddum flugvöllum.

Flugvöllur Fjöldi slökkvibíla
Keflavíkurflugvöllur 4
Reykjavíkurflugvöllur 2
Akureyrarflugvöllur 2
Egilsstaðaflugvöllur 2

     6.      Hver var afkastageta slökkviliðs á hverjum flugvelli um sig með tilliti til tækjakosts og mannafla?
    Eins og fram kemur að framan tekur björgunar- og slökkviþjónusta flugvalla mið af stærð þeirra loftfara sem að jafnaði nota viðkomandi flugvöll, umferð um hann og þeim viðbúnaði sem af þeim orsökum er talinn nauðsynlegur. Afkastagetan er skilgreind með svokölluðum björgunar- og slökkviflokki eftir því sem hér segir:

Flokkur Vatn (I) (til reiðu) Froða (I) m.v. 3% blöndun (til reiðu) Losun vatns/froðu (l/mín) Duft (kg) (til reiðu) Losun dufts (kg/sek)
5 5.400 324 3.000 180 2,25
6 7.900 474 4.000 225 2,25
7 12.100 726 5.300 225 2,25
8 18.200 1.092 7.200 450 4,5
9 24.300 1.458 9.000 450 4,5

    Afköstin sem miðað er við í töflunni eru mestu afköst sem gerð er krafa um að hægt sé að ná innan fjögurra mínútna. Gerð er einnig krafa um að innan þriggja mínútna sé helmings afköstum náð. Með öðrum orðum að hægt sé á þeim tíma að dæla helmingi þess sem fram kemur í töflunni. Miðað er við þann tíma þegar tilkynning um óhapp berst.

    Í eftirfarandi töflu kemur fram hvaða flugvöllur er í hvaða flokki.
    
Flugvöllur Slökkviflokkur
Keflavíkurflugvöllur 7–9
Reykjavíkurflugvöllur 6–7
Akureyrarflugvöllur 6–7
Egilsstaðaflugvöllur 5–7

     7.      Uppfylla fyrrgreindir alþjóðaflugvellir nú þau skilyrði um brunavarnir sem finna má í reglugerð nr. 75/2016, um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008? Uppfylla flugvellirnir auk þess kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar skv. 14. viðauka við svonefndan Chicago-sáttmála?
    Flugvellirnir uppfylla þessi skilyrði.