Ferill 892. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1480  —  892. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995 (hækkun bótagreiðslna).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Í stað „250.000“ í a-lið kemur: 400.000.
     b.      Í stað „5.000.000“ í b-lið kemur: 8.000.000.
     c.      Í stað „3.000.000“ í c-lið kemur: 6.000.000.
     d.      Í stað „2.500.000“ í d-lið kemur: 4.000.000.
     e.      Í stað „1.500.000“ í e-lið kemur: 2.500.000.

2. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Fjárhæðir tilgreindar í 7. gr. skulu breytast árlega í samræmi við þróun launavísitölu, en þó þannig að þær hækki aldrei minna eða lækki aldrei meira en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Miða skal fyrstu árlegu breytingu á fjárhæðum bóta við þróun launavísitölu frá þeim mánuði sem lögin taka gildi til næstu áramóta.

Greinargerð.

    Bótagreiðslur sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota takmarkast við fjárhæðir skv. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir sem þar koma fram hafa staðið óbreyttar frá árinu 2012. Síðan þá hafa orðið breytingar á verðlagi og jafnframt hafa bætur ákvarðaðar í refsimálum þróast í samræmi við þær verðlagsbreytingar. Það er ágalli á núgildandi löggjöf að þessar fjárhæðir þróast ekki í samræmi við verðlag. Þegar fjárhæðum var breytt síðast, í júní 2012, stóð launavísitalan (miðað við grunn frá 1989 samkvæmt vefsíðu Hagstofu Íslands) í 433,1 stigi en nú stendur hún í 675,3 stigum. Þá er ekki ósennilegt að hún kunni að hækka verulega í framtíðinni. Vegna framangreindra ástæðna er lagt til að fjárhæðir skv. 2. mgr. 7. gr. hækki.
    Ástæða þykir til að hækka fjárhæð c-liðar umfram hlutfallslega hækkun annarra liða. Ávallt kemur betur í ljós hve mikil áhrif afbrot hafa á líf og líðan brotaþola. Erfitt er að meta slík áhrif út frá læknisfræðilegum viðmiðum. Þótt líkamleg áhrif brots séu metin er erfiðara að meta andleg áhrif og þau geta oft komið fram eða aukist löngu eftir að brot er framið. Því er mikilvægt að hækka ábyrgð á bótum fyrir miska umfram hækkanir annarra bótaflokka. Þá er óskandi að slíkt veiti dómstólum hvatningu til að ákvarða hærri bætur fyrir miska í alvarlegri málum en tíðkast hefur.
    Einnig er lagt til að til frambúðar hækki fjárhæðir bóta skv. 2. mgr. 7. gr. árlega í samræmi við breytingar á launavísitölu. Einnig skal lágmark ábyrgðar á bótakröfu hækka, sbr. 1. mgr. 7. gr., í samræmi við breytingar á launavísitölu. Eðlilegt er að breyting á fjárhæðum skuli fara fram um áramót ár hvert. Miða skal fyrstu árlegu breytingu við þróun launavísitölu frá þeim mánuði sem lögin tóku gildi til áramóta. Þar sem launavísitala kann að lækka ef efnahagur versnar skyndilega er lagt til að miðað verði við vísitölu neysluverðs ef hún hefur hækkað meira eða lækkað minna á gefnu ári en launavísitala.