Ferill 812. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1482  —  812. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.


     1.      Hversu háar fjárhæðir greiða íslensk fyrirtæki fyrir losunarkvóta á grundvelli ETS-viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda?
    Viðskipti með losunarheimildir fara fram á markaði. Íslensk stjórnvöld hafa ekki upplýsingar um verð á heimildum í einstökum viðskiptum og geta því ekki svarað þessu nákvæmlega. Hins vegar birtir Umhverfisstofnun upplýsingar á heimasíðu sinni um losun flugrekenda og rekstraraðila eftir að uppgjöri lýkur. Það kom fram í skýrslu Eurocontrol, Umhverfisstofnunar Evrópu og EASA í febrúar 2019 að áætlað sé að kostnaður flugrekenda við losunarheimildir árið 2017 hafi verið 0,3% af heildarrekstrarkostnaði þeirra.

     2.      Væri hægt, sé það ekki gert nú þegar, að haga málum þannig að greiðslurnar nýttust til verkefna á Íslandi?
    Ísland fær ekki greiðslur frá íslenskum þátttakendum í viðskiptakerfinu en fær í sinn hlut heimildir í hlutfalli við losun kerfisins á Íslandi, sem er hægt að setja á markað. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með þessi mál fyrir Íslands hönd. Ísland hefur fengið heimildir, sem hafa safnast upp, þar sem langan tíma tók að finna niðurstöðu varðandi fyrirkomulag uppboða á heimildum Íslands og Noregs á evrópskum markaði. Nú liggur niðurstaða fyrir og verða fyrstu uppboð á heimildum Íslands líklega haldin síðar á þessu ári. Þegar hafa verið settir umtalsverðir fjármunir til loftslagsmála, um 6,8 milljarðar kr. á árunum 2019–2023, þótt tekjur hafi ekki skilað sér enn af sölu heimilda.

     3.      Hverjar eru væntar tekjur af sölu mengunarkvóta í ETS-kerfinu sem hafa safnast upp á Íslandi frá því að kerfið var tekið upp?
    Árið 2019 er gert ráð fyrir um 4 milljarða kr. tekjum af loftslagsheimildum, þar er að stærstum hluta um að ræða uppsafnaðar heimildir.

     4.      Hverjar eru væntar tekjur ríkissjóðs af sölu á mengunarkvóta í ETS-kerfinu miðað við núverandi markaðsverð?
    Miðað við núverandi markaðsvirði og gengi krónunnar gagnvart evru má vænta þess að árlegar tekjur verði um 900 millj. kr.

     5.      Hvaða tíu fyrirtæki kaupa mestan losunarkvóta á grundvelli viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda?
    Samkvæmt 38. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, heyra upplýsingar um eignarhald reikninga, stöðu losunarheimilda og millifærslur í skráningarkerfi með losunarheimildir undir trúnaðarupplýsingar, þ.m.t. hversu margar losunarheimildir flugrekendur og rekstraraðilar kaupa. Hins vegar liggur fyrir að þau fyrirtæki innan viðskiptakerfisins sem losa mest eru fyrirtæki í málmframleiðslu og stærri félög í farþegaflugi og fraktflugi.