Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1486  —  589. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um hugbúnaðarkerfið skattur.is.


     1.      Hver er formlegur eigandi höfundarréttar að hugbúnaðarkerfinu skattur.is?
    Ríkisskattstjóri er formlegur eigandi höfundarréttar að forritunarkóðanum.

     2.      Hver er heildareignarhaldskostnaður ríkisins af hugbúnaðarkerfinu skattur.is, sundurliðað eftir upprunalegum þróunarkostnaði, viðhaldskostnaði og kostnaði við útvíkkun á eiginleikum?
    Í meðfylgjandi töflu má sjá upplýsingar um viðhaldskostnað og kostnað við útvíkkun á eiginleikum. Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs í þús. kr. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um upprunalegan þróunarkostnað kerfisins.

2013 2014 2015 2016 2017 2018
Viðhaldskostnaður 14.315 25.508 28.037 21.735 23.801 28.410
Þróunarkostnaður 18.298 9.531 17.880 20.327 14.425 21.167
32.613 35.038 45.917 42.063 38.226 49.577

     3.      Hvers vegna hefur kóðinn að hugbúnaðinum ekki verið gefinn út opinberlega, í samræmi við stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað?
    Hugbúnaðarkerfið skattur.is hefur verið þróað og smíðað í samvinnu ríkisskattstjóra og hugbúnaðarbirgja, aðallega Advania/Skýrr. Kerfið er að langstærstum hluta sérsmíði þar sem slíkt kerfi er ekki í boði á markaði, hvorki sem séreignarhugbúnaður né frjáls og opinn hugbúnaður. Hugbúnaðarkerfið skattur.is byggist að langmestu leyti á sérsmíðuðum hugbúnaði sem eingöngu ríkisskattstjóri getur notað. Því hefur kóðinn að hugbúnaðinum ekki verið gefinn út opinberlega.

     4.      Er auðkenningarkerfi notað til að stýra aðgangi að hugbúnaðinum og ef svo er, hvert er það kerfi?
    Auðkenningarkerfi er notað til að stýra aðgangi að þjónustusíðu ríkisskattstjóra. Notendur geta auðkennt sig annars vegar með veflykli ríkisskattstjóra og hins vegar með rafrænum skilríkjum annaðhvort á korti eða í síma. Veflyklakerfi ríkisskattstjóra er sérsmíðað fyrir ríkisskattstjóra og samanstendur af almennum veflykli, skilalykli fagaðila og skilalyklum staðgreiðslu og virðisaukaskatts.
     Almennir veflyklar: Allir framtalsskyldir einstaklingar og félög eiga almenna veflykla. Veflykill er aðgangsorð fyrir rafræn samskipti framteljenda við skattyfirvöld á þjónustusíðunni skattur.is. Þar er hægt að skila skattframtali, auk þess sem margs konar önnur þjónusta er í boði. Veflyklarnir eru gefnir út af ríkisskattstjóra. Auk aðallykilsins eiga allir lykil sem heitir Skilalykill fagaðila.
     Veflyklar fyrir staðgreiðslu og VSK: Rafræn skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti eru möguleg bæði á þjónustuvefnum skattur.is og með sendingum beint úr launa- og bókhaldskerfum. Veflyklar fyrir staðgreiðslu og virðisaukaskatt eru „yfirlyklar“ og hvorki er hægt að breyti virkni þeirra né eyða þeim. Sá sem er með staðgreiðslulykil getur skilað staðgreiðslu og skoðað öll staðgreiðsluskil framteljanda á þjónustusíðu hans, án tillits til þess hver skilaði upplýsingunum og á hvaða lykli. Staðgreiðslulykill veitir einungis aðgang að þeim gögnum sem skilað var með honum í gagnaskilum (launamiðar, verktakamiðar o.s.frv.). Sams konar takmarkanir gilda um virðisaukaskattslykilinn.