Ferill 727. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1487  —  727. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða útgjöld hafa ráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra haft ár hvert frá árinu 2015 vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter?
    Frá árinu 2015 hafa ráðuneytið og stofnanir þess alls varið 451.924 kr. í dreifingu efnis á samfélagsmiðlum. Kostnaður ráðuneytisins nam 88.229 kr., kostnaður Fjármálaeftirlitsins 82.545 kr. og kostnaður ríkisskattstjóra 281.150 kr. Aðrar stofnanir hafa engan kostnað haft vegna dreifingar efnis á samfélagsmiðlum.

     2.      Hvaða stefnu hefur ráðherra að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum?
    Stefnan er að vekja, þegar tilefni þykir til, athygli á málefnum sem eiga erindi við almenning, með hóflegri kostun á samfélagsmiðlum. Sú umfjöllun sem ráðuneytið hefur kostað er einkum þrenns konar: Í fyrsta lagi snýr hún að verkefnum sem tengjast fjárlagaferli hvers árs, svo sem um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp, sem ráðuneytið telur eiga erindi við almenning. Í öðru lagi hefur ráðuneytið með kostun vakið sérstaka athygli á áhersluverkefnum, svo sem verkefnum um stafræna þróun og nýsköpun í opinberri þjónustu, sem fela í sér nýja og bætta þjónustu. Í þriðja lagi hefur verið vakin athygli á ráðstefnum og málstofum og lausum störfum í ráðuneytinu með kostun.

     3.      Hvernig telur ráðherra það að kaupa auglýsingar eða kostaða dreifingu á erlendum samfélagsmiðlum samræmast stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla?
    Líkt og fram kemur í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 og drögum að frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis taka markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu fjölmiðla til starfsumhverfis þeirra í víðu samhengi. Þar á meðal er auglýsingamarkaðurinn mikilvægur og þarf gagnsæi að ríkja um kaup opinberra aðila á auglýsingum. Á vefnum opnirreikningar.is er hægt að finna upplýsingar um kaup opinberra aðila á auglýsingum af íslenskum fjölmiðlum. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. eru kaup auglýsinga ráðuneytisins og stofnana þess á auglýsingum á samfélagsmiðlum síðustu árin hófleg og hafa ekki áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla.