Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1489  —  577. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Unni Brá Konráðsdóttur um fjölda starfa hjá ríkinu.


     1.      Hver var fjöldi starfa hjá ríkinu, þ.e. þar sem Fjársýsla ríkisins er launagreiðandi, ár hvert á tímabilinu 2008–2018, sundurliðað eftir landshlutum og eftirfarandi störfum:
                  a.      störfum innan menntakerfisins,
                  b.      störfum við löggæslu,
                  c.      störfum innan heilbrigðiskerfisins,
                  d.      störfum við stjórnsýslu, og
                  e.      öðrum störfum?

    Fjöldi starfa hjá ríkinu árin 2008–2018 má sjá í eftirfarandi yfirliti. Miðað er við fjölda stöðugilda í október ár hvert, þar sem Fjársýsla ríkisins er launagreiðandi. Fjöldi launþega sem er á launaskrá segir ekki alla sögu um umfang ríkisins á vinnumarkaði. Ríkisstofnanir útvista ýmiss konar störfum bæði reglubundnum og tilfallandi, en kostnaður vegna þessara starfa kemur ekki fram í upplýsingum um fjölda starfsmanna. Þáttur verktaka í starfsemi ríkisstofnana er mismunandi. Algengt er t.d. að ræstingaþjónustu, starfsemi mötuneyta, húsvörslu og öryggisþjónustu sé útvistað, til að nefna nokkur dæmi. Þá kaupir ríkið ráðgjöf sérfræðinga í töluverðum mæli, þegar það er talið hagkvæmara en að ráða fólk til starfa, eða þá að þekking er ekki til staðar. Upplýsingar um umfang þessarar starfsemi í fjölda starfsmanna eru ekki til en kaup ríkisins á ráðgjafarþjónustu voru tíunduð ítarlega í svari við fyrirspurn þingmanns á síðasta þingi (þskj. 997 á 148. löggjafarþingi) þótt þar komi einungis fram upphæðir en ekki vinnumagn.
    Óskað var eftir sundurliðun eftir landshlutum. Í launakerfi Fjársýslu ríkisins eru skráð póstnúmer starfsstöðva og er miðað við þá skráningu við sundurliðun eftir landshlutum:
    Póstnúmer 100–229 og 270: Höfuðborgarsvæði.
    Póstnúmer 230–260: Suðurnes.
    Póstnúmer 300–390:Vesturland.
    Póstnúmer 400–490: Vestfirðir.
    Póstnúmer 500–690: Norðurland.
    Póstnúmer 700–790: Austurland.
    Póstnúmer 800–900: Suðurland.
    Í flestum tilvikum er skráð póstnúmer en sumar stofnanir skrá í launakerfi eingöngu 150 Reykjavík og aðrar tilgreina ekki póstnúmer og falla þá störfin undir höfuðborgarsvæðið. Þannig raðast öll störf þjóðkirkjunnar og Veðurstofunnar undir „önnur störf“ á höfuðborgarsvæðinu.
    Málaflokkurinn Málefni fatlaðra fór frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011, en stöðugildi voru um 870 talsins í málaflokknum og fækkar störfum sem því nemur. ÁTVR og ÍSOR eru í launakerfi Fjársýslunnar til og með ársins 2015, en frá 2016 standa þær utan miðlægs kerfis ríkisins. Fækkar því í flokknum „önnur störf“.

    Störfin eru sundurliðuð á eftirfarandi hátt:
     a.      Menntakerfi, öll störf innan skóla.
     b.      Löggæsla, öll störf í lögreglunni og hluti starfa sýslumannsembætta sem fellur undir löggæslu til ársins 2014.
     c.      Heilbrigðiskerfi, öll störf innan heilbrigðisstofnana og heilsugæslu.
     d.      Stjórnsýsla, störf í Stjórnarráði Íslands.
     e.      Önnur störf.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     2.      Hver var fjöldi starfa hjá opinberum hlutafélögum og bönkum í ríkiseigu ár hvert á tímabilinu 2010–2018, sundurliðað eftir landshlutum?
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga um fjölda starfa hjá opinberum hlutafélögum og bönkum í eigu ríkisins og tekur svarið mið af því. Í meðfylgjandi yfirliti má sjá fjölda stöðugilda á ári hverju.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.