Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1494  —  695. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Álfheiði Eymarsdóttur um kostnað ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna kaupa og notkunar á Microsoft-hugbúnaði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu miklum fjármunum hefur verið ráðstafað árlega undanfarin fimm ár í leyfisgjöld til Microsoft vegna nota af hugbúnaði og stýrikerfum í ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað fyrir ráðuneytið og hverja undirstofnun og jafnframt eftir leyfum vegna Windows-stýrikerfa, leyfum vegna Microsoft Office-hugbúnaðarsvítu og leyfum vegna annars hugbúnaðar frá Microsoft.

    Utanríkisráðuneytið er ekki með undirstofnanir en rekstur sendiráða fellur undir rekstur ráðuneytisins. Þegar gerðir eru samningar um hugbúnaðarleyfi er gerður einn samningur sem nær til allrar starfsemi utanríkisþjónustunnar.
    Í lok árs 2014 var tekin ákvörðun um að ráðuneytið færði sig yfir í Apple-umhverfi og opin hugbúnaðarleyfi fyrir netþjóna. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að kaupa leyfi fyrir netþjónastýrikerfi í stað þess að leigja. Hins vegar var tekin ákvörðun um að leigja Office-hugbúnað. Samningur um þetta var gerður haustið 2015 að undangengnu útboði. Leiga á Office-hugbúnaði fyrir næstu 12 mánuði var greidd með eingreiðslu. Það skýrir lágan kostnað vegna þessa árið 2016.
    Árið 2016 var þessi búnaður tekin í notkun en þar sem greitt hafði verið fyrir notkun eitt ár fram í tímann féll kostnaður að mestu á árið 2015. Þegar kom að greiðslum næsta árs voru þegar uppi áform um að fara í heildarútboð fyrir allt Stjórnarráðið og gera heildarsamning fyrir öll ráðuneyti. Því var samningur ekki endurnýjaður til næstu tólf mánaða heldur greitt fyrir notkun mánaðarlega.
    Árið 2017 var, í tengslum við hið sameiginlega tölvuútboð með Stjórnarráðinu, tekin ákvörðun um að hverfa frá því að færa ráðuneytið í Apple-umhverfi. Eftir það endurspeglar gjaldfærður kostnaður hlut ráðuneytisins í sameiginlegum samningi Stjórnarráðsins. Á árunum 2017 og 2018 féll einnig til töluverður viðbótarkostnaður (3,2 millj. kr árið 2017 og 1,4 millj. kr. árið 2018). Vegna yfirfærslu í nýtt umhverfi og tafa við innleiðingu hlaust af kostnaður við áframhaldandi leigu eldri kerfa samhliða nýja samningnum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Alls fóru tíu vinnustundir í að taka þetta svar saman.