Ferill 820. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1499  —  820. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um drauganet.


     1.      Hvernig er unnið að því að ná drauganetum upp úr sjó, þ.e. veiðarfærum sem liggja eða fljóta gagnslaus um í sjó og hafa skaðleg áhrif á lífríki hafsins? Hverjar eru áætlanir stjórnvalda í þeim efnum?
    Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur Fiskistofa í nokkrum tilvikum leigt fiskiskip til að draga upp veiðarfæri sem skilin hafa verið eftir í sjó eftir lok viðkomandi veiða/vertíðar.

     2.      Hafa stjórnvöld uppi áætlanir um að efla forvarnir á þessu sviði, t.d. með skráningu veiðarfæra svo að unnt sé að rekja þau til eigenda og með því að setja tilkynningarskyldu á þá sem verða varir við drauganet í sjó?
    Vinna er í gangi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í þessu skyni. Á undanförnum árum hefur verið aukin krafa um að sporna við því að veiðarfæri séu skilin eftir í sjó eftir að hafa tapast við veiðar eða verið hent útbyrðis. Svokölluð „drauganet“ finnast yfirleitt þegar þau koma upp með veiðarfærum við veiðar eða reka á strendur landsins. Til þess að hægt sé að rekja þau til eigenda þarf að vera til staðar ákvæði um merkingu veiðarfæra, svo sem netateina, lína og belgja, og hluta togvarpa og dragnóta. Slíkt er til skoðunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem verið er að endurskoða regluverk um merkingu veiðarfæra. Slík endurskoðun gæti kallað á bæði laga- og reglugerðarbreytingu.
    Skylda er samkvæmt reglugerð að fullreyna endurheimt á töpuðum veiðarfærum úr sjó. Ef veiðarfæri finnst ekki skal tilkynna um tap þess til Landhelgisgæslu Íslands með bestu mögulegu upplýsingum.
    Nefna má að Úrvinnslusjóður hefur gert samning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi um úrvinnslu úrgangs vegna veiðarfæra úr gerviefnum. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun af völdum úrgangsveiðarfæra, en talið er að veiðarfæraúrgangur nemi allt að 1.100 tonnum á ári. Leitað er leiða til að auka skil og draga úr magni sem fer til endanlegrar förgunar. Telja má líklegt að þetta kerfi hvetji til skila á veiðarfærum.
    Þess má geta að Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skilaði af sér tillögum um 18 aðgerðir til umhverfis- og auðlindaráðherra í lok síðasta árs. Nokkrar tillagnanna taka sérstaklega til plasts í hafi og er nú unnið úr tillögum samráðsvettvangsins í ráðuneytinu.

     3.      Hver er aðkoma stjórnvalda að hreinsun veiðarfærahluta, svo sem netadræsa úr fjörum?
    Umhverfisstofnun hóf vöktun á ströndum sumarið 2016 samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR-samningnum um vernd Norðaustur-Atlantshafsins, sem Ísland á aðild að. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum og hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og fjarlægja ruslið. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum. Þessi vöktun og hreinsun beinist ekki sérstaklega að veiðarfærahlutum, en nær til þeirra ásamt öðru rusli.
    Vaktað er fyrir fram afmarkað svæði á hverri strönd. Ruslið er flokkað í gerðir, talið og skráð og eru vöktunarsvæðin jafnframt hreinsuð. Notaðar eru leiðbeiningar og þar til gerð eyðublöð frá OSPAR um flokkun rusls í gerðir. Strandir á Seltjarnarnesi, Snæfellsnesi og Skagaströnd eru vaktaðar þrisvar til fjórum sinnum á ári en strandir á afskekktum svæðum (Surtsey, Rauðasandi og Rekavík bak Höfn á Hornströndum) eru vaktaðar einu sinni að sumri.
    Umhverfisstofnun sér í flestum tilfellum um framkvæmd vöktunarinnar með aðstoð viðkomandi sveitarfélags eða landeigenda. Stofnunin hefur samið við Náttúrustofu Vestfjarða um framkvæmd vöktunar á Rauðasandi frá og með árinu 2017. Samið hefur verið við Háskólasetur Vestfjarða um vöktun á Rekavík bak Höfn á Hornströndum frá og með árinu 2018. Auk þess var gögnum safnað þar árið 2017. Árið 2018 tók starfsfólk hjá sjávarlíftæknisetrinu BioPol að sér vöktun á ströndinni í Víkum við Skagaströnd.
    Samantektir um niðurstöður vöktunar frá árunum 2016 og 2017 er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 1
    Fleiri aðilar, svo sem frjáls félagasamtök, sveitarfélög og náttúrustofur, standa reglulega fyrir hreinsun á fjörum. Í tilefni af Norræna strandhreinsideginum hinn 4. maí sl. stóðu allir þessir aðilar að strandhreinsunum víða um land.

     4.      Hvernig standa stjórnvöld að slíkri hreinsun í fjörum lands í eigu hins opinbera?
    Engin sérstök hreinsun fer fram af hálfu umhverfisyfirvalda í fjörum lands í eigu hins opinbera. Sjá þó svar við 3. tölul. um hvernig Umhverfisstofnun vinnur almennt að vöktun og hreinsun á rusli úr fjörum.
1     ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-vatn/voktun-stranda/Samantekt_Voktun%20stranda_2016-2017.pdf