Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1509  —  646. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verðjöfnunargjöld).

(Eftir 2. umræðu, 13. maí.)


1. gr.

    Eftirfarandi orðskýringar bætast við 2. gr. laganna í réttri stafrófsröð:
     1.      Afurðaskýrsluhald er skráning afurðaupplýsinga í miðlægan gagnagrunn um bústofn svo að unnt sé að rekja uppruna og afdrif allra gripa í hjörðinni á einfaldan og öruggan hátt, sem og upplýsinga um afurðir.
     2.      Innanlandsvog skilgreinir áætlaða þörf og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti.
     3.      Nýliði er einstaklingur sem er á aldrinum 18–40 ára á því ári sem hann óskar eftir stuðningi og er að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hefur leigt eða keypt búrekstur á þremur undangengnum árum frá 1. janúar á umsóknarári að telja.

2. gr.

    Á eftir orðunum „eða garðyrkjubýli“ í 3. mgr. 30. gr. laganna kemur: taka þátt í lögbundnu skýrsluhaldi með fullnægjandi skilum, sem eru skilgreind nánar í reglugerð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      2. mgr. hljóðar svo:
                      Aðilaskipti að greiðslumarki eru óheimil frá 1. júní 2019. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd og frekari skilyrði fyrir tilfærslu eða breytingu skráningar greiðslumarks. Tilfærsla greiðslumarks tekur ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.
     b.      Í stað orðsins „framsali“ í 3. mgr. kemur: tilfærslu.
     c.      4. mgr. hljóðar svo:
                      Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki. Greiðslumark verður innleyst, selt og boðið til sölu á innlausnarvirði í gegnum markað ár hvert. Heimilt er að gefa ákveðnum hópum framleiðenda forgang við kaup á greiðslumarki sem boðið verður til sölu hverju sinni og skulu skilgreiningar á slíkum hópum útfærðar í reglugerð. Ríkið innleysir það greiðslumark sem selst ekki á markaðnum og fellur þá ærgildi greiðslumarksins niður. Nánara fyrirkomulag innlausnar og sölu greiðslumarks skal útfært í reglugerð.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. hljóðar svo: Ráðherra skal í reglugerð ákveða lágmark ásetnings vetrarfóðraðra kinda fyrir hvert ærgildi greiðslumarks sem handhafi þarf að eiga til að fá fullar beingreiðslur.
     b.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að endurmeta framangreint hlutfall árlega, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, með tilliti til innanlandsvogar og þróunar á framboði og eftirspurn sauðfjárafurða. Verði sú heimild nýtt skal ákvörðun liggja fyrir eigi síðar en 15. september vegna beingreiðslna næsta almanaksárs á eftir. Ekki er heimilt að lækka hlutfallið niður fyrir 0,5.
     c.      6. mgr. fellur brott.

5. gr.

    1. mgr. 41. gr. laganna hljóðar svo:
    Framleiðandi sem á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2026 uppfyllir skilyrði um gæðastýrða framleiðslu á rétt á sérstakri álagsgreiðslu sem greiða skal fyrir allt framleitt kindakjöt sem ætlað er til innanlandsmarkaðar. Framleiðandi skal uppfylla kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða. Áætluð þörf innanlandsmarkaðar er metin með hjálp innanlandsvogar.

6. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 53. gr. laganna hljóðar svo: Fyrir innleyst greiðslumark greiðir ríkissjóður tvöfalt núvirt andvirði greiðslna fyrir greiðslumark út gildistíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar skv. 30. gr.

7. gr.

    85. gr. A laganna fellur brott.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 3. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 41. gr. er heimilt að gera aðlögunarsamninga við framleiðendur um nýja eða breytta starfsemi til sveita. Framleiðendur geta óskað eftir að gera slíka samninga fram til ársloka 2021. Aðlögunarsamningar sem gerðir verða árið 2019 gilda í fjögur ár en samningar gerðir síðar í þrjú ár. Þeir framleiðendur einir geta fengið stuðningsgreiðslur samkvæmt aðlögunarsamningi sem uppfylla skilyrði fyrir þeim. Ráðherra útfærir nánari skilyrði í reglugerð.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema ákvæði a-liðar 3. gr. sem öðlast gildi 1. júní 2019 og ákvæði c-liðar 3. gr. og 8. gr. sem öðlast gildi 1. september 2019.