Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1511  —  255. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Huldu Guðmundsdóttur frá Nýrri dögun, Þórdísi Viborg frá Öryrkjabandalagi Íslands, Kjartan Valgarðsson og Gunnlaug Thorlacius frá Geðverndarfélagi Íslands, Málfríði Hrund Einarsdóttur og Hafrúnu Kr. Sigurðardóttur frá Hugarafli, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur og Þórð Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Höllu Þorvaldsdóttur og Gunnjónu Unu Guðmundsdóttur frá Krabbameinsfélagi Íslands og Óskar Reykdalsson og Margréti Héðinsdóttur frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
    Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, Geðverndarfélagi Íslands, Hugarafli, Krabbameinsfélagi Íslands, Landspítala, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mosfellsbæ, Nýrri dögun, Persónuvernd, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Skagafirði, embætti umboðsmanns barna og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að tryggja að börnum sem missa foreldri vegna sjúkdóms eða andláts sé tryggður stuðningur og ráðgjöf og að réttur þeirra til umgengni við nána vandamenn hins látna foreldris eða aðra nákomna sé virtur.

Umfjöllun nefndarinnar um málið.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið birti Hagstofan tölur yfir fjölda barna sem missa foreldri ár hvert. Í gögnunum kemur fram að á árabilinu 2009–2018 hafi árlega um hundrað börn misst foreldri sitt. Þeir gestir sem komu á fundi nefndarinnar vegna málsins tóku allir undir að mikilvægt væri að hlúa að þessum börnum og tryggja að þau geti leitað sér viðeigandi aðstoðar við að vinna úr slíku áfalli. Þótt heilbrigðisstarfsmenn reyndu alla jafna að bregðast við í slíkum aðstæðum væru skyldur þeirra í þeim efnum ekki nægilega skýrar í lögum. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði skylda heilbrigðisstarfsmanna til þess að taka þau skref sem nauðsynleg eru til þess að barn fái viðeigandi aðstoð. Fram kom að það væri vilji innan Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu til að veita þá aðstoð sem nauðsynleg er, og þá í samráði við félagsþjónustu sveitarfélaga og viðkomandi menntastofnanir og að Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefði yfir að búa mikilli sérfræðiþekkingu sem mundi nýtast við að koma á verkferlum til þess að tryggja góða efnislega útfærslu á ákvæðum frumvarpsins.
    Umsagnaraðilar eru allir fylgjandi markmiðum frumvarpsins, þ.e. að tryggja rétt barnsins með því að leggja frumkvæðisskyldu á viðeigandi aðila sem koma að málefnum og velferð barna. Fyrir nefndinni komu fram nokkrar mikilvægar ábendingar sem þeir sem sinna munu frumkvæðisskyldunni þurfa að hafa í huga þegar verkferlar til að fullnægja frumkvæðisskyldunni eru ákveðnir. Öryrkjabandalag Íslands benti á mikilvægi fræðslu þegar um fötluð börn væri að ræða og góðrar samvinnu fagaðila innan stofnana. Þarna mætti skoða að málsstjóri mundi halda utan um upplýsingarnar sem barn þyrfti á að halda en oft þarf að kalla til fagmenn sem geta notað óhefðbundnar samskiptaleiðir. Geðvernd benti á mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsmenn kanni þegar sjúklingar koma inn á heilbrigðisstofnun hvort þeir eigi börn og að skyldur heilbrigðisstarfsmanna séu skýrar í slíkum tilfellum. Samband íslenskra sveitarfélaga og Barnaverndarstofa lögðu mikla áherslu á að upplýsingamiðlun á milli aðila þyrfti að vera skýr svo að hver og einn gæti sinnt sínu hlutverki og að stuðningur kæmi þaðan sem það væri barninu fyrir bestu hverju sinni. Þá var bent á að mikilvægt væri að tryggja snemmtæka íhlutun til að tryggja velferð barnsins. Til að tryggja rétt barnsins til upplýsinga, stuðnings og tengsla við fjölskyldu sína væri mikilvægt að setja frumkvæðisskyldu á félagsþjónustu sveitarfélaga. Á það var bent að félagsþjónusta sveitarfélaga hefði víðtæka þekkingu á mögulegum úrræðum og þeirri aðstoð sem væri í boði. Hins vegar skorti á virk úrræði innan félagsþjónustunnar til að koma börnum til aðstoðar ef ekki væri sérstaklega leitað til hennar. Töldu ýmsir að betur færi á því að tilkynningar bærust félagsmálanefndum sveitarfélaga og að þær yrðu einn hlekkur í samvinnu um aðstoð við börn sem missa foreldri.

Tillögur nefndarinnar.
    Nefndin áréttar að frumvarpinu er ætlað að leggja ríka frumkvæðisskyldu á aðila til að tryggja rétt barna sem misst hafa foreldri og tryggja varanleg tengsl barns við fjölskyldu fráfallins foreldris. Mikilvægt er að framkvæmd skyldunnar sé í samræmi við markmið lagabreytinganna en nánari útfærsla verði í höndum þeirra sem best til þekkja og hafa frumkvæðisskylduna. Tryggja þarf að aðilar sem hafa bestu þekkinguna eigi náið samstarf sín á milli og við viðeigandi fagaðila. Margir starfa samkvæmt slíkum verkferlum eins og þekkist í flestum skólum, en ferlana þarf að samræma svo að aðstoðin skili tilætluðum árangri. Nefndin leggur til breytingar sem gera skylduna skýrari og leggur til að heilbrigðisstofnunum verði falin tilkynningarskylda gagnvart félagsmálanefndum sveitarfélaga sem hafa góða þekkingu á þeim úrræðum sem í boði eru. Aðrar ábendingar sem komu fram fyrir nefndinni eiga við málefni barna í víðara samhengi og telur nefndin þær eiga heima hjá barnanefnd félags- og barnamálaráðherra.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að í 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði kveðið skýrar að orði um að kannað skuli hvort sjúklingur með geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma eigi barn undir lögaldri. Heilbrigðisstarfsmenn sem hafa afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna hafa tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarnefnd á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Ákvæðinu er ætlað tryggja enn fremur að heilbrigðisstarfsmaður sem kemur að umönnun sjúklinga með alvarlega sjúkdóma tryggi að sjúklingur sem á barn fái fræðslu um rétt og stöðu barnsins vegna veikindanna. Er lögð til einföld orðalagsbreyting þess efnis svo að ekki leiki vafi á um það að hér sé um skyldu heilbrigðisstarfsmanns að ræða.
    Þá komu fram athugasemdir við lokamálslið 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins um að barn sem er eldra en 15 ára geti sjálft gert kröfu um umgengni. Í umsögn embættis umboðsmanns barna var bent á að ekki væri ástæða til að miða við 15 ára aldur í þessum efnum. Grundvallarreglan um rétt barna til þátttöku væri sú að börn eigi rétt á því að tjá sig í öllum málum er varða þau og beri að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Leggur nefndin því til þá breytingu að barn geti sjálft haft frumkvæði að því að sýslumaður taki til skoðunar hvort umgengni við aðstandendur eftirlifandi foreldris verði komið á óháð aldri.
    Nefndin leggur einnig áherslu á að stuðningur félagsþjónustu sveitarfélaga við börn sem missa foreldri sitt verði efldur með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Bendir nefndin í því sambandi á að félagsþjónusta sveitarfélaga hefur takmarkaða frumkvæðisskyldu þegar barn missir foreldri. Þá var einnig bent á að skyldur heilsugæslunnar til að eiga í samvinnu við skóla barnsins kynnu að verða erfiðar í framkvæmd. Til að bregðast við þeim athugasemdum leggur nefndin til að það verði hlutverk heilbrigðisstarfsmanna að tilkynna félagsþjónustu sveitarfélags þar sem barn á lögheimili um andlát foreldris. Það verði í framhaldi hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga að hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins. Leggur nefndin til breytingartillögu þess efnis.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að málið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Vilhjálmur Árnason, framsögumaður, og Guðjón S. Brjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 13. maí 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásmundur Friðriksson. Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðjón S. Brjánsson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.