Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1528  —  634. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Harald Bjarnason og Elfi Logadóttur frá Auðkenni ehf. og Tryggva Axelsson og Svövu G. Ingimundardóttur frá Neytendastofu. Nefndinni bárust umsagnir frá Neytendastofu og Persónuvernd auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er ætlunin að setja ný heildarlög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti sem leysa munu af hólmi lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, og innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um skyldu veitenda traustþjónustu til að skila eftirlitsstjórnvöldum svokallaðri samræmismatsskýrslu þar sem rökstyðja skal að fullgildir traustþjónustuveitendur og þjónustan sem þeir veita uppfylli kröfur reglugerðarinnar. Hagsmunaaðilar hafa bent á að gerð slíkrar skýrslu sé kostnaðarsöm og tímafrek og að ekki sé unnt að ráðast í gerð hennar fyrr en lögin hafa tekið gildi og nauðsynleg fyrirmæli, sbr. m.a. f-lið 8. gr. frumvarpsins, verið sett í reglugerð. Í samráði við ráðuneytið leggur nefndin til að viðeigandi aðilum verði veittur frestur til 1. september 2020 til að leggja fram slíka skýrslu og að líta skuli á vottunaraðila sem uppfylla kröfur skv. V. kafla gildandi laga um rafrænar undirskriftir sem fullgilda traustþjónustuveitendur þar til skýrslu hefur verið skilað og mat Neytendastofu farið fram.
    Þá leggur nefndin til leiðréttingu á tilvísun í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins auk orðalagsbreytingar á 1. tölul. 10. gr. frumvarpsins þar sem ekki stóð til að fella nafnskírteini gefin út af erlendum stjórnvöldum sambærilegum Þjóðskrá Íslands brott úr ákvæði 18. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað tilvísunarinnar „3. gr.“ í b-lið 1. mgr. 7. gr. komi: 4. gr.
     2.      1. tölul. 10. gr. orðist svo: Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018: Orðin „samkvæmt lögum um rafrænar undirskriftir“ í 2. málsl. 18. tölul. 3. gr. laganna falla brott.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Vottunaraðili sem gefur út fullgild vottorð samkvæmt lögum um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, við gildistöku laga þessara skal leggja fram samræmismatsskýrslu hjá Neytendastofu eins fljótt og kostur er og eigi síðar en 1. september 2020. Slíkur vottunaraðili skal teljast fullgildur traustþjónustuveitandi samkvæmt lögum þessum þar til samræmismatsskýrsla hefur verið lögð fram og Neytendastofa lokið mati sínu.

    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 14. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Birgir Þórarinsson. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Smári McCarthy. Silja Dögg Gunnarsdóttir.