Ferill 911. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1531  —  911. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar


um grænan sáttmála.


Flm.: Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að leggja fram tillögur að grænum sáttmála fyrir Ísland að vori 2020. Tillögurnar verði unnar af framtíðarnefnd forsætisráðherra og samráð haft við umhverfis- og auðlindaráðherra við mótun þeirra.
    Tillögurnar verði leiðarvísir fyrir ríkisstjórn Íslands að fullu jafnvægi kolefnisútblásturs á öllum sviðum þjóðfélagsins og í alþjóðlegri samvinnu Íslands við önnur ríki um að stöðva loftslagsbreytingar og ná hlutfalli koltvísýrings í andrúmsloftinu niður fyrir 300 hluta af milljón á 21. öldinni. Nefndin leggi jafnframt til lagabreytingar sem ætlað er að tryggja innleiðingu sáttmálans.
    Tillögurnar feli í sér að eftirfarandi markmiðum verði náð fyrir árið 2030:
     1.      Ísland verði kolefnishlutlaust land, en án þess að aðgerðir til þess bitni á launafólki og jaðarsettum hópum.
     2.      Efnahagsleg framtíð landsins verði tryggð með sjálfbærni sem ófrávíkjanlegu skilyrði.
     3.      Komandi kynslóðum verði tryggður aðgangur að hreinu vatni, matvælum og óspilltri náttúru.
     4.      Komandi kynslóðum verði tryggð jöfn tækifæri, óháð félagslegri stöðu, efnahag eða aldri.
     5.      Fjárfest verði í nauðsynlegum innviðum og uppbyggingu svo að markmið sáttmálans nái fram að ganga innan settra tímamarka.
    Framtíðarnefnd forsætisráðherra verði tryggt fjármagn til að ljúka vinnunni á tilsettum tíma. Framtíðarnefnd hafi óheftan aðgang að öllum opinberum gögnum í athugunum sínum.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra verði falið að leggja fram tillögur að grænum sáttmála fyrir Ísland sem verði leiðarvísir fyrir ríkisstjórnina til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, bæði á Íslandi og í alþjóðlegri samvinnu. Lagt er til að tillögurnar verði unnar af framtíðarnefnd forsætisráðherra sem fjalli um markmið græns sáttmála, leiðir til úrbóta og nauðsynlegar stjórnvaldsaðgerðir og lagabreytingar.

Loftslagsbreytingar og nauðsyn græns sáttmála.
    Aðsteðjandi loftslagsvá er stærsta einstaka vandamál samtímans. Í sérstakri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá október 2018 kemur fram að hækkandi hitastig er að öllum líkindum af mannavöldum. Skýrslan lýsir jafnframt þeim breytingum sem munu verða á jörðinni ef hitastig hækkar um 1,5°C að meðaltali. Það hefur hækkað um 1°C nú þegar og hækkar um 0,2°C að meðaltali á áratug. Ef ekkert verður að gert mun hitastigið hafa hækkað um 1,5°C í kringum 2040 sem mun leiða til hækkunar á yfirborði sjávar, auka líkur á veðurhamförum, breyttum sjávarstraumum og margfaldri hækkun hitastigs á staðbundnum svæðum.
    Áhrif hnatthlýnunar samkvæmt hófsömu mati Sameinuðu þjóðanna eru umtalsverð; 2°C hækkun markar veraldlegar hamfarir, en það eru engan veginn efri mörkin ef ekki verður brugðist við. Við 2°C hækkun má búast við hruni ísþekju á pólunum, að hitaþensla heimshafanna leiði af sér sjávarmálshækkun upp á marga metra, að ferskvatnsskortur hafi áhrif á um 400 milljónir manna um heim allan, að margar borgir nálægt miðbaug verði óbyggilegar og að jafnvel í borgum í norðanverðri Evrópu muni þúsundir manna deyja úr hita hvert sumar. Hækki meðalhitinn um 3°C má búast við milljarði flóttamanna, varanlegum þurrki í suðurhluta Evrópu og að sexfalt meira landsvæði brenni árlega í skógareldum en nú til dags. Við hækkun um 4°C má búast við þrjátíu- til sextíuföldun á flóðaskaða í láglendi og að skaði á heimsvísu nálgist sex hundruð billjarða dollara. Samkvæmt greiningu IPCC mun hlýnunin ná allt að 4,5°C meðalhækkun fyrir árið 2100, miðað við óbreytt ástand. 3,7°C hækkun er líklegasta niðurstaðan sé horft til skuldbindinga ríkja heims, en ekki er útilokað að hækkunin geti náð allt að 8°C.
    Stjórnvöld um allan heim verða að standa að aðgerðum til að hætta útblæstri kolefnistegunda og tryggja að hitastig hækki ekki að meðaltali umfram 2°C. Stór svæði jarðar munu verða óbyggileg sökum þurrka og hita nema gripið verði til stórtækra og róttækra aðgerða strax, en slíkar breytingar í náttúrunni hefðu í för með sér straum flóttamanna margfalt stærri en áður hefur þekkst í mannkynssögunni, gríðarlega stór efnahagsleg skakkaföll og útrýmingu fjölmargra dýrategunda og plöntutegunda.
    Ekki verður séð að hægt sé að leysa loftslagsvandann án gríðarlegra breytinga á hagkerfi heimsins. Smæð Íslands og hátt tæknistig verður að nýta til að prufukeyra róttækar tæknilegar, efnahagslegar og samfélagslegar tilraunir sem miða að umhverfisvænu þjóðfélagi sem dregur vagninn í loftslagsmálum á heimsvísu.
    Fjölmörg álitamál samfélagsins á Íslandi hafa áhrif á loftslagshagkerfið beint eða óbeint. Stærsti iðnaður Íslendinga, ferðaþjónustan, byggist nær eingöngu á flugsamgöngum, en þær eru einn stærsti mengunarvaldur íslenskra lögaðila. Framræsing lands undanfarna áratugi hefur einnig valdið loftslaginu umtalsverðum skaða sem verður að bæta, sérstaklega í ljósi þess að þetta framræsta land er ekki nýtt til landbúnaðar nema að litlu leyti.

Vinna framtíðarnefndar forsætisráðherra.
    Framtíðarnefnd forsætisráðherra hefur m.a. það hlutverk að fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga og fjalla um þróun meginstrauma sem munu hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar, einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegum þáttum, og stuðla að umræðu um tækifæri og ógnanir framtíðarinnar. Það fellur því vel að hlutverki nefndarinnar að vinna tillögur að grænum sáttmála fyrir Ísland og koma fram með hugmyndir í baráttunni við loftslagsvandann sem munu hafa jákvæð áhrif fyrir samfélagið allt. Þannig eru markmið þingsályktunartillögunnar víðtæk, en setja ekki þröngan ramma utan um störf nefndarinnar. Til að tryggja að framtíðarnefnd skili sáttmálsdrögum innan þeirra þröngu tímamarka sem tiltekin eru í tillögu þessari verður nauðsynlegt að forgangsraða gerð sáttmálans í samræmi við þann alvarlega vanda sem blasir við.
    Þróun sáttmálans og störf framtíðarnefndar þurfa að vera gagnsæ og stuðla að samvinnu allra hlutaðeigandi aðila. Skiptir þá einu hver félagsleg, efnahagsleg eða menningarleg staða þeirra aðila er. Leggja skal áherslu á samráð og samstarf og tryggja aðkomu allra landsmanna sem þess óska að vinnu við gerð sáttmálans.
    Tryggja skal nefndinni nauðsynlegt fjármagn svo að hún geti sótt sér þá sérfræðiaðstoð sem hún þarf og staðið fyrir fullu samráði við almenning og hagsmunasamtök um land allt.