Ferill 912. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1534  —  912. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um grænan samfélagssáttmála.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að útbúa grænan samfélagssáttmála sem taki til allra sviða þjóðlífsins. Meginþráðurinn í allri stefnumótun við sáttmálann verði sjálfbærni og að Ísland verði grænt land, með grænt hagkerfi.
    Stefnumótunarferlið taki allt að eitt ár og lagðir verði saman kraftar hins opinbera, almennings, fræðasamfélagsins og einkageirans. Samráð verði haft við almenning frá upphafi og haldinn sérstakur þjóðfundur um „Græna Ísland“. Á frumstigi fari fram endurskoðun og útvíkkun á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fjármálaáætlun með það að markmiði að aðgerðir hins opinbera byggist á sjálfbærri þróun á öllum sviðum – við nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, við opinberar fjárfestingar og framkvæmdir og við lagasetningu. Þannig verði tekin upp umhverfistengd fjárlagagerð og hagstjórn. Samhliða stefnumótuninni taki ríkisstjórnin markviss skref strax á þessu ári í átt að því að 2,5% af vergri landsframleiðslu renni í umræddar aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum.
    Loks verði komið á fót samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og atvinnulífsins, vísinda- og fræðasamfélagsins til að þessir aðilar geti verið samtaka við að gera Ísland að sjálfbæru landi með grænt hagkerfi.

Greinargerð.

    Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5°C. Evrópusambandið áætlar að 25% af fjármagni þess verði varið í loftslagsmál til ársins 2027.
    Nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum sýna að næstu fimm til tíu ár skipta sköpum fyrir mannkynið. Þá mun ráðast hvort næst að stemma stigu við loftslagsbreytingum eða fást við skelfilegar afleiðingar þeirra. Þótt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sé ágætt fyrsta skref gengur hún of skammt en einungis 0,05% af vergri landsframleiðslu renna árlega í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru komnar mun lengra og verja margfalt meira af vergri landsframleiðslu í loftslagsaðgerðir. Ísland verður að skipa sér í forustusveit með öðrum Norðurlandaþjóðum, hlusta á vísindasamfélagið og stefna að því að 2,5% fari í aðgerðir. Bretland og Skotland hafa þegar lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og ljóst er að fleiri ríki fylgja í kjölfarið, Ísland er þar engin undantekning. Yfirlýsing ein og sér mundi þó duga skammt án þess að stefnumótun fari fram og markvissar tímasettar aðgerðir, mælanleg markmið og fjármagn fylgi með.
    Tvö og hálft prósent af vergri landsframleiðslu er há fjárhæð og markmiðinu verður sennilega ekki náð í einu skrefi. En loftslagsbreytingar og áhrif þeirra varða að endingu mun hærri fjárhæðir. Allir verða að leggja sitt af mörkum. Það ríkir metnaður innan atvinnulífsins hér á landi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en betur má ef duga skal. Raunveruleg virk hvatning og kröfur til framleiðenda, seljenda og neytenda eru nauðsynlegar til að gera íslenskt hagkerfi grænna. Við þessa vinnu verði tekið mið af áætlun um eflingu græna hagkerfisins sem Alþingi samþykkti samhljóða 20. mars 2012 og hún uppfærð.
    Með slíkri fjárfestingu verða sköpuð ný störf og verðmæti í nýju, breyttu og grænna hagkerfi. Sjálfbærni skapar atvinnu. Samkvæmt nýútgefinni þjóðhagsspá verður samdráttur í hagkerfinu á næsta ári, við slíkar aðstæður er best að ráðast í stórtækar fjárfestingar til að sporna við neikvæðum áhrifum efnahagsþrenginga á almenning. Þannig gætu grænar fjárfestingar ekki bara haft jákvæð áhrif hvað varðar loftslagsbreytingar til lengri tíma heldur á samfélag og jöfnuð til styttri tíma.
    Íslenskt hagkerfi þarf að verða raunverulegt hringrásarhagkerfi þar sem öll framleiðsla er hugsuð með hringrás efna í huga. Ef það á að takast þarf að taka upp umhverfistengda hagstjórn í anda „kynjaðrar hagstjórnar“, stýra markaðnum með hagrænum hvötum og kröfum, breyta framleiðsluferli og stuðla að vitundarvakningu neytenda.
    Breytingar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu þurfa að fara fram með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Opinbert fé þarf að renna í rannsóknarsjóði til að efla grænar og sjálfbærar rannsóknir og ívilnanir skoðaðar, bæði til handa einstaklingum og fyrirtækjum í sjálfbærum rekstri. Þá verði mótuð lagaumgjörð um hvað teljist græn og sjálfbær fjárfesting. Sérstök vottun standi fyrirtækjum einnig til boða.
    Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir verða að skuldbinda sig til að fjárfestingar þeirra standist markmið Parísarsáttmálans. Efla þarf rannsóknir til muna, virkja hugvitið og fjárfesta í menntun, fræðslu og nýsköpun. Með því skapast verðmæt og spennandi störf. Þá þarf að flýta aðgerðum við orkuskipti í vegasamgöngum, banna nýskráningar bensín- og dísilbíla mun fyrr en áætlað er og flýta uppbyggingu á nauðsynlegum samgönguinnviðum til að gera þéttbýli og borgarumhverfi vistvænna.
    Nauðsynlegt er að draga verulega úr útstreymi frá stóriðju. Hækka þarf kolefnisgjald strax og láta tekjur af því renna beint í málaflokkinn, t.d. í verkefni um kolefnisbindingu. Einnig þarf að skoða rammaáætlun betur með tilliti til grænnar framtíðar. Þá skal samfélagssáttmálinn um Græna Ísland fela í sér byggðastefnu þar sem sérstaklega skal skoðað hvernig styðja megi við sjálfbæra innlenda matvælaframleiðslu og nýsköpun í íslenskum landbúnaði. Fjölga þarf stoðum atvinnulífsins þannig að íslenskt hagkerfi byggist í auknum mæli á hugviti til að skapa verðmæti – til þess þarf að auka menntun og nýsköpun.
    Þó að Íslendingar standi vel hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa er íslenskt samfélag í heild með gríðarlega hátt kolefnisspor, helmingi hærra en meðaltal Evrópuríkja. Íslendingar eru rík þjóð og ættu því að leggja að minnsta kosti jafn mikið og aðrar þjóðir í aðgerðir til að draga úr losun og auka orkunýtni.
    Stjórnmálafólk, atvinnulífið, fræðasamfélagið, félagasamtök og einstaklingar þurfa að taka höndum saman í stefnumótunarferli græna samfélagssáttmálans til að hann verði góður. Hér þurfa allir að leggjast á eitt.