Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1540  —  918. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá utanríkisráðherra.I. KAFLI

Samningar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

1. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein, Konungsríkisins Noregs og hins Sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar loka aðildar þess að EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.

2. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands frá 2. apríl 2019.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning sem undirritaður var í London hinn 2. apríl 2019 um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein, Konungsríkisins Noregs og hins Sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og loka aðildar þess að EES-samningnum.

II. KAFLI

Aðlögunartímabil.

3. gr.

Réttarstaða Bretlands, breskra ríkisborgara og lögaðila.

    Með aðlögunartímabili samkvæmt lögum þessum er átt við tímabil sem ákvarðað er í samningi Bretlands og Evrópusambandsins, sem gerður er á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins, og felur í sér að Bretland skuldbindi sig til þess að framfylgja löggjöf og reglum Evrópusambandsins tímabundið eftir að aðild þess að Evrópusambandinu lýkur. Skal aðlögunartímabilið vara frá því að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tekur gildi til 31. desember 2020.
    Á aðlögunartímabilinu skal við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, líta á Bretland með sama hætti og aðra samningsaðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt skal við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt öðrum samningum við Evrópusambandið eða samningum sem bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að, líta á Bretland með sama hætti og aðildarríki Evrópusambandsins.
    Breskir ríkisborgarar og lögaðilar skulu meðan aðlögunartímabilið varir njóta sömu réttinda og skyldna og ríkisborgarar og lögaðilar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins skv. ákvæðum þeirra laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla sem vísað er til í 2. mgr.

III. KAFLI

Breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við lögin bætast átta ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (III.)
    Breskur ríkisborgari sem skráð hefur dvöl sína hér á landi í samræmi við 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 84. gr. eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

    b. (IV.)
    Aðstandandi bresks ríkisborgara skv. 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 85. og 86. gr. ef:
     a.      viðkomandi aðstandandi hefur skráð dvöl sína hér á landi skv. 85. eða 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu,
     b.      viðkomandi telst til aðstandanda skv. 2. mgr. 82. gr. og hafi komið til landsins eftir útgöngudag ef hann hyggst dveljast með breskum ríkisborgara sem hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. hér á landi, enda hafi fjölskyldutengsl orðið til fyrir útgöngudag eða
     c.      viðkomandi er barn bresks ríkisborgara skv. 84. gr., fæðist eftir útgöngudag, fullnægir skilyrðum 2. mgr. 82. gr. og:
                  1.      báðir foreldrar barnsins hafa rétt til dvalar skv. 84. gr.,
                  2.      annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og hitt foreldrið er íslenskur ríkisborgari eða
                  3.      annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og fer eitt með forsjá barnsins eða sameiginlega forsjá yfir barninu í samræmi við landslög.

    c. (V.)
    Breskur ríkisborgari og aðstandendur hans sem skráð hafa dvöl sína skv. 84., 85. og 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu skulu öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skv. ákvæði 87. og 88. gr.
    Réttur bresks ríkisborgara og aðstandenda hans sem öðlast hafa rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. gr. og 88. gr. fellur niður þegar viðkomandi hefur dvalist utan landsins í fimm ár samfellt.

    d. (VI.)
    Heimilt er að vísa breskum ríkisborgara og aðstandanda hans úr landi skv. 95. gr. vegna háttsemi sem átti sér stað fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

    e. (VII.)
    Brottvísun skv. 5. gr. felur í sér bann við endurkomu síðar skv. ákvæðum 95. gr. við ákvörðun endurkomubanns.

    f. (VIII.)
    Heimilt er að vísa úr landi skv. 99. gr. breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85. og 86. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi viðkomandi verið búsettur hér á landi skemur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi.

    g. (IX.)
    Heimilt er að vísa úr landi skv. 100. gr. breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85., 86., 87. eða 88. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi viðkomandi verið búsettur hér á landi lengur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi.

    h. (X.)
    Breskur ríkisborgari sem hefur rétt til dvalar skv. 84. og 87. gr. hefur samkvæmt umsókn rétt til að fá útgefið dvalarskírteini skv. 90. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um útgáfu dvalarskírteina, þar á meðal um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þeirra og skal við ákvörðun gjaldsins leggja til grundvallar kostnað sem almennt hlýst af útgáfu leyfa.

IV. KAFLI

Breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ríkisborgarar Bretlands eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dvelja hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
    Aðstandendur ríkisborgara Bretlands eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dvelja hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV við lög um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.

V. KAFLI

Breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, með síðari breytingum.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem koma hér til dvalar er heimilt að dvelja í allt að þrjá mánuði án skráningar eftir að aðild Bretlands að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu lauk, enda geti þeir sýnt fram á að þeir hafi komið til landsins áður en framangreindu tímabili lauk eða fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, hvort sem kom fyrr. Sé sýnt fram á að dvöl sé vegna atvinnuleitar er ríkisborgurum Bretlands og aðstandendum þeirra heimilt að dvelja hér á landi í allt að sex mánuði án skráningar eftir að aðlögunartímabili samkvæmt samningi lýkur, geti þeir sýnt fram á að þeir hafi komið til landsins áður en framangreindu tímabili lauk eða fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hvort sem kom fyrr.

VI. KAFLI

Breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 42. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna ,,eða seðlabönkum ríkjanna“ í 2. tölul. kemur: seðlabönkum ríkjanna, Englandsbanka eða Lánasýslu Bretlands.
     b.      Við 3. tölul. bætist: Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.

8. gr.

    Við 1. mgr. 56. gr., 3. mgr. 88. gr. og 2. tölul. 3. mgr. 115. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.

9. gr.

    4. mgr. 123. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu þessara aðila í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Sama á við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast II. kafli gildi þegar aðlögunartímabil skv. II. kafla kemur til framkvæmda. Ráðherra skal tilkynna um upphaf aðlögunartímabilsins skv. II. kafla með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast kaflar III–V gildi og koma til framkvæmda þegar annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í I. kafla taka gildi eða þeim er beitt gagnvart Íslandi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast VI. kafli því aðeins gildi og kemur til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Ráðherra skal tilkynna um slíka úrsögn Bretlands með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Bresk stjórnvöld tilkynntu formlega hinn 29. mars 2017 um útgöngu sína úr Evrópusambandinu (ESB) í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi hinn 23. júní 2016. Með hliðsjón af framangreindri tilkynningu og í ljósi 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið hefði Bretland áð óbreyttu gengið úr ESB hinn 29. mars 2019. Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur hins vegar tvívegis ákveðið að fresta útgöngu Bretlands, að beiðni breskra stjórnvalda. Í fyrra skipti var útgöngunni frestað til 12. apríl 2019 en í síðara skiptið var ákveðið að fresta útgöngunni til 31. október 2019. Síðari ákvörðunin var þó með ákveðnum fyrirvörum og er því hugsanlegt að af útgöngu Bretlands geti orðið áður.
    Frá júní 2017 til nóvember 2018 áttu Bretland og Evrópusambandið í samningaviðræðum um gerð samnings um útgöngu Bretlands. Útgöngusamningurinn hefur hins vegar reynst umdeildur í Bretlandi og í ítrekuðum atkvæðagreiðslum í breska þinginu hefur meirihluti þingmanna greitt atkvæði gegn samningnum. Þrátt fyrir framangreinda frestun á fyrirhugaðri úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu ríkir því enn veruleg óvissa um með hvaða hætt staðið verður að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Ljóst er að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hafa veruleg áhrif hér á landi. Bretland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í krafti aðildar sinnar að Evrópusambandinu sem og margvíslegum öðrum alþjóðasamningum sem Ísland hefur annað hvort gert við ESB eða bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu allt frá því að niðurstaðan var ljós í þjóðaratkvæðagreiðslunni hinn 23. júní 2016 að undirbúa vandlega ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og vinna samhliða að því að móta nýja umgjörð um framtíðarsamskipti Íslands við Bretland.
    Ísland hefur í þeim efnum átt í nánum samskiptum við hin EFTA-ríkin innan EES (Noreg og Liechtenstein). Þannig hafa Ísland, Liechtenstein og Noregur lokið við gerð tveggja samninga við Bretland sem með þessu frumvarpi er óskað eftir heimild Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd. Fyrri samningurinn mælir fyrir um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu en ákvæði þess samnings byggðu á þeirri forsendu að áðurnefndur útgöngusamningur Bretlands og Evrópusambandsins öðlaðist gildi. Viðræðum um gerð þess samnings lauk í nóvember 2018 en þar sem útgöngusamningurinn hefur enn ekki verið undirritaður hefur undirritun þess samnings verið frestað. Hinn samningurinn var gerður í kjölfarið til þess að bregðast við þeim möguleika að fyrri samningurinn myndi ekki öðlast gildi (sökum þess að gildistaka hans er háð því að útgöngusamningur ESB og Bretlands taki gildi). Er þeim samningi ætlað að tryggja réttindi ríkisborgara þessara ríkja færi svo að Bretland gengi úr Evrópusambandinu án samnings. Viðræðum um gerð samnings ríkjanna fjögurra lauk í febrúar 2019 og var hann undirritaður í London hinn 2. apríl 2019.
    Sú óvissa sem ríkt hefur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu undanfarna mánuði, þ.m.t. tímasetning útgöngunnar og hvort til útgöngunnar komi á grundvelli fyrirliggjandi samnings Bretlands og Evrópusambandsins, án samnings eða á öðrum grundvelli, hefur mótað verulega undirbúning þessa frumvarps. Mikilvægt er að þegar til þess kemur að Bretland gangi úr Evrópusambandinu geti íslensk stjórnvöld gripið til nauðsynlegra úrræða af þeim sökum, meðal annars til að tryggja réttindi bæði íslenskra og breskra ríkisborgara. Í þessu frumvarpi er því farin sú leið að veita íslenskum stjórnvöldum heimildir til að grípa til nauðsynlegra úrræða, hvort sem fyrirhuguð útganga Bretlands verði á grundvelli áðurnefnds útgöngusamnings eða án samnings. Megintilgangur þessa frumvarps er því að afla heimildar Alþingis til að staðfesta framangreinda samninga, leggja til nauðsynlegar lagabreytingar til framkvæmdar þeim og leggja jafnframt til aðrar nauðsynlegar lagabreytingar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þessu frumvarpi er ætlað að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum vegna framkvæmdar samninga milli Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum. Framkvæmd samninganna kallar á breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2007, með síðari breytingum og lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 90/2018, með síðari breytingum og er í II–IV. kafla frumvarps þessa er að finna tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til að framkvæma þessi ákvæði samningsins. Þá er í V. kafla að finna tillögur að breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, til þess að viðhalda nánar tilgreindum undanþágum Bretlands og tilgreindum stofnunum þess samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efni þessa frumvarps er í meginatriðum fjórþætt.
     Í fyrsta lagi er með frumvarpi þessu óskað eftir heimild Alþingis til þess að staðfesta samninga sem Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa gert við Bretland vegna ráðstafana vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Annars vegar er um að ræða samning sem byggir á þeirri forsendu að útganga Bretlands úr ESB byggist á svonefndum útgöngusamningi ESB og Bretlands, hins vegar samning sem kæmi í stað fyrrnefnds samnings komi til þess að útganga Bretlands úr ESB verði án samnings.
     Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að sett verði lagaákvæði um stöðu Bretlands, breskra ríkisborgara og breskra lögaðila hér á landi meðan á svonefndu aðlögunartímabili stendur, komi til þess að útganga Bretlands verði á grundvelli útgöngusamningsins.
     Í þriðja lagi er með frumvarpinu mælt fyrir þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru vegna staðfestingar á framangreindum samningum Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands.
     Í fjórða lagi er með frumvarpinu mælt fyrir um að viðhalda undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, komi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

1. Samningar EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES.
    Ísland og Bretland hafa átt í margvíslegum samskiptum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, bæði tvíhliða og í samstarfi við hin EFTA-ríkin innan EES (Liechtenstein og Noreg). Í júní 2018 hófu EFTA-ríkin innan EES og Bretland viðræður um gerð samnings sín á milli um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES sem endurspegla myndi þau ákvæði útgöngusamnings Bretlands og Evrópusambandsins sem vörðuðu þessi ríki. Þeim viðræðum lauk í nóvember sl. Í framhaldinu gerðu þessi ríki með sér annan samning sem tekur eingöngu til réttinda borgaranna, kæmi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

Samningur Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli samnings.
    Við gerð samningsins höfðu samningsaðilar hliðsjón af útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins. Markmið samningsgerðarinnar var að tryggja að ríkisborgarar þessara ríkja myndu njóta sömu réttinda og Bretland og Evrópusambandið urðu ásátt um í útgöngusamningnum og að sömu efnislegu reglur skyldu gilda um svonefnd önnur útgöngumál og samið hafði verið um í útgöngusamningnum, að því marki sem ákvæði útgöngusamningsins vörðuðu málefni sem falla undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins eða annarra samninga sem Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa gert við ESB eða ESB á einnig aðild að. Á hinn bóginn var ljóst að form, stofnanauppbygging og réttaráhrif þessa samnings yrðu að vera önnur en í útgöngusamningnum. Efni samningsins hefur því tekið mið af framangreindu.
    Samningurinn skiptist í fjóra hluta.
    Í fyrsta hluta hans er að finna sameiginleg ákvæði. Þar er meðal annars að finna ákvæði um að markmið samningsins sé að setja fram fyrirkomulag vegna útgöngu Bretlands úr ESB og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna annars vegar réttinda ríkisborgara þessara ríkja og hins vegar annarra atriða sem tengjast útgöngunni. Þá er í fjórða grein samningsins mælt fyrir um hvernig skuli framkvæma og túlka ákvæði samningsins. Samkvæmt ákvæðinu skulu samningsaðilar gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að framfylgja ákvæðum samningsins og til þess að innleiða þau réttindi sem viðurkennd eru í samningnum í löggjöf sína. Þá skulu stjórnvöld og dómstólar samningsaðilanna taka tilhlýðilegt tillit til ákvæða samningsins við beitingu löggjafar sem felur í sér innleiðingu samningsins. Enn fremur skal við túlkun ákvæða II. og III. hluta samningsins gæta samræmis við túlkun samhljóðandi ákvæða útgöngusamnings Bretlands og ESB. Framangreindum ákvæðum er ætlað að tryggja samræmi í framkvæmd og túlkun samningsins, þannig að ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES sitji við sama borð við framkvæmd og beitingu samningsins og ríkisborgarar aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Ákvæði annars hluta samningsins mæla fyrir um réttindi borgaranna. Þessi ákvæði eru efnislega að mestu samhljóða ákvæðum útgöngusamningsins og er þar að finna ákvæði um réttindi ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara, sem og aðstandenda þeirra, til dvalar í gistiríkinu. Í 14. gr. samningsins er mælt fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar en réttinn öðlast þeir sem búsettir hafa verið með löglegum hætti í gistiríkinu í fimm ár samfleytt. Þá mælir 15. gr. samningsins fyrir um að þeir sem hafa dvalið skemur en fimm ár eigi rétt til ótímabundinnar dvalar þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum skv. 14. gr. Enn fremur er að finna ákvæði um réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga og heimild atvinnuríkis til að krefja ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES og breska ríkisborgara um skjal sem staðfestir réttindi þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri. Einnig eru ákvæði um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og mælir 26. gr. samningsins fyrir um að viðurkenning skuli halda áhrifum sínum í viðkomandi landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samningurinn tekur einnig til samræmingar almannatryggingakerfa. Skulu samningsaðilar miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta samningsins, meðal annars með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu. Þá mælir 37. gr. samningsins fyrir um að einstaklingar sem heyra undir samninginn njóti réttinda í viðeigandi bálkum ævilangt að því undanskildu að þeir uppfylli ekki lengur skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.
    Þriðji hluti samningsins ber heitið „Önnur útgönguatriði“. Með hugtakinu „önnur útgönguatriði“ átt við þau efnisákvæði útgöngusamningsins sem ekki varða réttindi borgaranna. Í samningi Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands eru ákvæði um þau önnur útgönguatriði sem falla undir efni þeirra samninga sem þessi ríki hafa gert við Evrópusambandið. Í þeim efnum vega ákvæði EES-samningsins mest en samningurinn tekur einnig til samninga sem þessi ríki hafa gert við ESB sem varða samstarf á sviði dóms- og innanríkismála, einkum framkvæmd Schengen-samstarfsins, og öðrum samningum því tengdu. Í þessum kafla er því að finna ákvæði um vörur sem settar hafa verið á markað, hugverkaréttindi, samvinnu á sviði lögreglu- og dómsmála, persónuvernd, opinber innkaup og meðferð dómsmála. Almennt má segja að ákvæði samningsins um framangreind atriði feli í sér nokkurs konar lagaskilareglur, þ.e. að með þessum ákvæðum er leitast við að setja markalínur um hvenær skuli beita ákvæðum EES-samningsins og annarra samninga við ESB í einstökum tilvikum sem kunna að koma upp við lok aðlögunartímabilsins, t.d. í tengslum við viðskipti með vörur sem settar hafa verið á markað fyrir lok þess tímabils, framkvæmd útboða sem hafa hafist fyrir sömu tímamörk eða beiðni um réttaraðstoð sem sendar hafa verið fyrir lok þessa tímabils. Rétt er vekja athygli á því að hugsanlegt er að ekki komi til þess að þessum ákvæðum verði beitt en það ræðst af því hvernig samningum um framtíðarsamskipti þessara ríkja verður háttað.
    Fjórði hluti samningsins mælir fyrir um stofnanalegt fyrirkomulag samningsins. Samkvæmt samningnum skal sérstakri óháðri eftirlitsstofnun sem komið var á fót með útgöngusamningi Bretlands og ESB hafa eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða samningsins sem varða réttindi borgaranna gagnvart breskum stjórnvöldum og geta ríkisborgarar Íslands, Liechtenstein og Noregs leitað til stofnunarinnar telji þeir á rétti sínum brotið í Bretlandi. Enn fremur getur stofnunin að eigin frumkvæði tekið upp framkvæmd samningsins í Bretlandi og getur stofnunin höfðað mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir dómstólum í Bretlandi, telji hún að bresk stjórnvöld virði ekki ákvæði samningsins um þetta efni. Þetta atriði er afar mikilvægur þáttur til að tryggja að ríkisborgarar Íslands, Liechtenstein og Noregs standi jafnfætis gagnvart ríkisborgurum aðildarríkja ESB í Bretlandi. Skv. samningnum skal Eftirlitsstofnun EFTA falið að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi. Með þessari nálgun er í raun verið að viðhalda núverandi fyrirkomulagi með því að framlengja núverandi hlutverk stofnunarinnar gagnvart þeim bresku borgurum sem féllu áður undir EES-samninginn en munu nú falla undir ákvæði samnings Ísland, Liechtenstein, Noregs og Bretlands. Að öðru leyti er sameiginlegri nefnd samningsaðila falin framkvæmd samningsaðila og skal sameiginlegu nefndinni meðal annars vera heimilt að taka ákvarðanir um tilteknar breytingar á samningnum og er henni enn fremur falið að leysa úr deilumálum vegna ágreinings samningsaðila um túlkun og framkvæmd samningsins.

Samningur Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu án samnings.
    Til þess að bregðast við þeim möguleika að Bretland kynni að hverfa úr Evrópusambandinu án samnings ákváðu þessi ríki að gera annan samning, að mestu byggðan á fyrri samningi, sem tæki þó hins vegar eingöngu til réttinda þeirra ríkisborgara þessara ríkja sem nýtt hafa ákvæði EES-samningsins um frjálsa för til að dveljast og/eða stunda atvinnu í annað hvort Bretlandi eða í EFTA-ríkjunum innan EES. Efni þess samnings er því nokkuð einfaldara en fyrri samningsins.
    Samningurinn skiptist í þrjá hluta.
    Í fyrsta hluta samningsins er að finna sameiginleg ákvæði. Er þar meðal annars mælt fyrir um skyldu samningsaðila til að tryggja að allar nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma ákvæðum samningsins til framkvæmda og koma þeim réttindum sem viðurkennd eru í samningnum inn í landsrétt sinn með löggjöf. Þá skulu stjórnvöld og dómstólar samningsaðila enn fremur taka tilhlýðilegt tillit til samningsins við túlkun og beitingu löggjafar sem sett hefur verið til framkvæmdar samningnum.
    Ákvæði annars hluta samningsins mæla fyrir um réttindi borgaranna og er þar að finna ákvæði um réttindi ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara, sem og aðstandenda þeirra, til dvalar í gistiríkinu. Í 14. gr. samningsins er mælt fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar en réttinn öðlast þeir sem búsettir hafa verið með löglegum hætti í gistiríkinu í fimm ár samfleytt. Þá mælir 15. gr. samningsins fyrir um að þeir sem hafa dvalið skemur en fimm ár eigi rétt til ótímabundinnar dvalar þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum skv. 14. gr. Enn fremur er að finna ákvæði um réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, ákvæði um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. 25. gr. samningsins mælir fyrir um að viðurkenning skuli halda áhrifum sínum í viðkomandi landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samningurinn tekur einnig til samræmingu almannatryggingakerfa. Skulu samningsaðilar miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta samningsins, meðal annars með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu. Þá mælir 36. gr. samningsins fyrir um að einstaklingar njóti réttinda í viðeigandi bálkum ævilangt nema þeir uppfylli ekki lengur skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.
    Þriðji hluti samningsins mælir fyrir um stofnanalegt fyrirkomulag samningsins. Samkvæmt þessum hluta skal sameiginlegri nefnd samningsaðila falin framkvæmd samningsins og skal sameiginlegu nefndinni meðal annars vera heimilt að taka ákvarðanir um tilteknar breytingar á samningnum og er henni enn fremur falið að leysa úr deilumálum vegna ágreinings samningsaðila um túlkun og framkvæmd samningsins.

2. Lagabreytingar vegna innleiðingar samninga Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands.
    Til þess að hrinda megi ákvæðum annars framangreindra samninga Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB í framkvæmd hér á landi er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Þær breytingar sem gerðar eru á útlendingalögum með frumvarpi þessu lúta að því að tryggja rétt þeirra ríkisborgara Bretlands og aðstandenda þeirra sem hafa skráð dvöl sína í landinu fyrir útgöngudag. Jafnframt er í einhverjum tilvikum tryggður réttur aðstandenda breskra ríkisborgara til að koma til landsins eftir útgöngudag þrátt fyrir að hafa ekki skráð dvöl sína hér á landi fyrir þann tíma. Með frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, þannig að þeir ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem koma til með að dvelja löglega hér á landi á grundvelli framangreindra breytinga, sem gert er ráð fyrir að verði á lögum um útlendinga, verði jafnframt undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

3. Breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti.
    Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu mun það ekki að óbreyttu viðhalda undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem ætlaðar eru aðildarríkjum og stofnunum þeirra. Bretar hafa samið við Evrópusambandið um að fá að viðhalda þessum undanþágum að Evrópurétti að því gefnu að ríki ESB njóti sambærilegra undanþágna í Bretlandi. Í viðræðum EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland vegna BREXIT hefur komið fram vilji aðila til að koma á sams konar fyrirkomulagi á milli ríkjanna fjögurra. Með frumvarpi þessu er því lagt til að Bretland og tilgreindar stofnanir þess viðhaldi tilgreindum undanþágum sem þær hafa hér á landi samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Að sama skapi mun Ísland og tilgreindar stofnanir þess viðhalda sambærilegum undanþágum vegna verðbréfaviðskipta í Bretlandi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá. Eins og rakið hefur verið hér að framan felur frumvarpið í sér heimild til staðfestingar og innleiðingu samnings Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og EES, sem undirritaður var í London hinn 2. apríl 2019. Frumvarpið felur ekki í sér árekstra við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir.

5. Samráð.
    Allt frá því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi hinn 23. júní 2016 lá fyrir hefur utanríkisráðuneytið átt í víðtæku samráði um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við útgöngu Bretlands úr ESB. Utanríkisráðherra skipaði meðal annars stýrihóp um Brexit og fimm vinnuhópa með fulltrúum allra ráðuneyta. Vinnuhóparnir hafa átt í umtalsverðu samráði við hagsmunaaðila og í framhaldi af vinnu þeirra var gefin út í nóvember 2017 skýrslan: Ísland og Brexit – greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES. Samráð við hagsmunaaðila hefur verið haldið áfram í kjölfarið jafnframt því sem utanríkismálanefnd Alþingis hefur reglulega verið upplýst um framvindu viðræðna um útgöngu Bretlands úr ESB og EES. Til að breðast við þeim möguleika að útganga Bretlands úr ESB kynni að verða án samnings var meðal annars ákveðið í samráði við Liechtenstein og Noreg að hefja viðræður við Bretland um gerð samnings um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum. Við vinnslu ákvæða um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti var haft samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands.

6. Mat á áhrifum.
    Staðfesting samnings Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands mun tryggja stöðu þeirra íslensku ríkisborgara sem nú dvelja í Bretlandi, t.d. vegna náms eða atvinnu, og heimila þeim áframhaldandi dvöl í Bretlandi. Innleiðing ákvæða þessa samnings hér á landi mun enn fremur tryggja réttindi þeirra bresku ríkisborgara sem dvelja eða hafa dvalið hér á landi. Lögfesting frumvarpsins er því mikilvæg til að tryggja bæði réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretland sem og réttindi breskra ríkisborgara hér á landi eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB á grundvelli samnings. Nánar er fjallað um efni samningsins í greinargerð með frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Nánar er fjallað um efni samningsins í greinargerð með frumvarpinu.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er svonefnt aðlögunartímabil skv. útgöngusamningi Bretlands og ESB skilgreint og mælt fyrir um að meðan á því stendur skuli fara með Bretland eins og önnur EES-ríki við framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla sem sett hafa verið til innleiðingar EES-reglna. Með sama hætti skal á aðlögunartímabilinu fara með Bretland líkt og aðildarríki ESB við framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla sem fela í sér framkvæmd annarra samninga sem Ísland hefur annað hvort gert við Evrópusambandið eða bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að. Helstu samningar Íslands við Evrópusambandið sem fela í sér slíkar skyldur eru, utan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, samningar sem gerðir hafa verið í tengslum við Schengen-samstarfið, þ.m.t. samningur sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum frá 19. desember 1999 og Lúganó-samningurinn um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum frá 30. október 2007. Þá er 3. mgr. ætlað að taka af öll tvímæli um að við framkvæmd 2. mgr. skuli breskir ríkisborgarar og lögaðilar skv. framangreindu njóta bæði þeirra réttinda og skyldna sem þeim ber skv. bæði EES- samningnum og öðrum þeim samningum sem vísað er til í 2. mgr. 2. gr. meðan á aðlögunartímabilinu stendur.

Um 4. gr.

    Með þessari grein eru lagðar til eftirfarandi ný ákvæði til bráðabirgða í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
     Um a-lið.
    Í ákvæðinu er kveðið á um rétt breskra ríkisborgara sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna haldi sömu stöðu og þeir hefðu haft hefði Bretland ekki gengið úr Evrópusambandinu og njóti því áfram sömu réttinda og ríkisborgarar samningsaðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
     Um b-lið.
    Í ákvæðinu er að finna reglur um aðstandendur breskra ríkisborgara sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna haldi rétti sínum en einnig er fjallað um réttindi aðstandenda breskra ríkisborgara sem ekki eru með skráningu fyrir útgöngudag.
     Um c-lið.
    Í ákvæðinu er fjallað um rétt breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna til þess að öðlast ótímabundinn rétt. Er þetta í samræmi við 14. gr. og 15. gr. samnings EFTA-ríkjanna við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Réttur til ótímabundinnar dvalar skal falla niður þegar viðkomandi hefur dvalið utan landsins í lengri tíma en fimm ár samfellt.
     Um d-lið.
    Í greininni er kveðið á um brottvísun breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra úr landi. Ákvæðið á við um þá einstaklinga sem fremja brot fyrir þann tíma sem Bretland gengur úr Evrópusambandinu en þá gilda ákvæði XI. kafla um brottvísun þeirra. Er þetta í samræmi við 18. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna og Bretlands um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings.
     Um e-lið.
    Í greininni er kveðið á um að endurkomubann þeirra bresku ríkisborgara sem brottvísað er samkvæmt 95. gr. Útlendingalaga/laga þessara fari eftir 96. gr. laganna í samræmi við 18. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna og Bretlands um að um háttsemi breskra ríkisborgara fyrir útgöngudag fari eftir ákvæðum XI. kafla.
     Um f- og g-lið.
    Í ákvæðunum eru reglur um brottvísun ríkisborgara Bretlands og aðstandenda fyrir háttsemi þeirra sem á sér eftir að Bretlands gengur úr Evrópusambandinu. Samkvæmt 18. gr. samningsins skulu þá gilda reglur landsréttar. Gilda því reglur XII. kafla um þessa einstaklinga. Um þá sem eru með dvalarleyfi hér á landi fer um brottvísun eftir 99. gr. laganna en um þá sem eru með ótímabundið dvalarleyfi fer eftir 100. gr. laganna. Lágmarkstími til þess að öðlast ótímabundið dvalarleyfi skv. 58. gr. laganna er þrjú ár og því er miðað við það tímamark hér, þannig að þeir ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem rétt hafa skv. XI. kafla laganna til dvalar en hafa verið hér í þrjú ár gildi ákvæði 100. gr. laganna en um þá sem hafa verið skemur en þrjú ár gildi 99. gr. Um þá sem eru komnir með rétt til ótímabundinnar dvalar fer líka eftir 100. gr. Um málsmeðferð og ákvarðanatöku í þessum málum gilda reglur XII. kafla laganna um brottvísun sem og önnur ákvæði laganna er lúta að brottvísunum, t.d. 11., 12. og 13. gr. um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt og réttaraðstoð.
     Um h-lið.
    Ríkisborgarar Bretlands sem rétt eiga til dvalar í samræmi við 84. gr. og 87. gr. laga þessara skulu fá útgefin dvalarskírteini í samræmi við 90. gr. laga þessara.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, eru taldir upp þeir aðilar sem eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögunum. Hér er lagt til að við lögin bætist við nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þeir ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem dvelja löglega hér á landi, á grundvelli ákvæða til bráðabirgða III og IV sem lagt er til að bætist við lög um útlendinga með frumvarpi þessu, verði á sama hátt undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi eftir að Bretland hefur gengið úr Evrópusambandinu. Er þetta lagt til í ljósi samnings milli Íslands, Liechtenstein, Noregs og Bretlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ríkisborgarar Bretlands fái sömu stöðu og ríkisborgarar samningsaðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu til að dvelja hér án skráningar skv. 3. mgr. 14. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 90/2018. Um er að ræða ákvæði til að skýra réttarstöðu þessara einstaklinga og veita þeim ákveðið svigrúm til að aðlaga sig að nýjum veruleika eftir að Bretland hefur sagt skilið við Evrópusambandið. Ef gert verður ráð fyrir aðlögunartímabili eftir útgöngu þá er gert ráð fyrir því að einstaklingur sem kemur til landsins á aðlögunartímabilinu geti verið hér án skráningar í tiltekinn tíma, óháð því hvort aðlögunartíminn rennur út á meðan. Ef enginn aðlögunartími verður settur eftir að Bretland gengur út úr Evrópusambandinu og einstaklingur kemur til landsins fyrir þann tíma mun hann njóta sömu stöðu í tiltekinn tíma, óháð því hvort Bretland hafi gengið út úr Evrópusambandinu innan tímabilsins sem hann á rétt á að dveljast hér á landi án skráningar. Gert er ráð fyrir því að einstaklingar þurfi að sýna fram á að hafa komið hingað til lands á tilteknum degi, t.d. með flugfarseðli.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum eru lagðar til breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem er ætlað að tryggja að Englandsbanki og Lánasýsla Bretlands viðhaldi að mestu leyti sömu réttarstöðu hér á landi vegna verðbréfaviðskipta í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Með breytingunum njóta fyrrgreindir aðilar áfram undanþágu með sama hætti og seðlabankar og lánasýslur EFTA-ríkjanna innan EES gera innan EES frá tilteknum ákvæðum tilskipunar 2003/6/EB um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (MAD I tilskipunin) og tilskipun 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID I tilskipunin).

Um 7.–8. gr.

    Í 7.–8. gr. er lögð til breyting á 42., 56., 88. og 115. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, á þann veg að Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands er bætt við upptalningu á aðilum sem undanþegnir eru frá ákvæðum laganna um gagnsæi, flöggun og verðmyndun á markaði.

Um 9. gr.

    Í greininni eru lagðar til tvenns konar breytingar á 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem fjallar um innherjasvik, til samræmis við 7. gr. MAD I tilskipunarinnar.
    Undanþegin frá ákvæði 1. mgr. 123. gr. um innherjasvik eru í dag aðeins viðskipti íslenska ríkisins, Seðlabanka Íslands eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu ríkisins í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar gerir ráð fyrir því að undanþegin séu viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylltum fyrrgreindum skilyrðum um að þau séu gerð sem liður í stefnu ríkisins í peningamálum o.s.frv. Er því lagt til að orðalagi 4. mgr. verði breytt til samræmis við 7. gr. tilskipunarinnar. Jafnframt er lagt til að við 4. mgr. bætist nýr málsliður þess efnis að undanþágan eigi einnig við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.

Um 10. gr.

    Eins og rakið hefur verið hér að framan ríkir enn óvissa um forsendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þ.m.t. hvort slík útganga verði á grundvelli svonefnds útgöngusamnings Bretlands og Evrópusambandsins. Af þessum sökum ríkir óvissa um hvenær, og raunar hvort, sum ákvæði þessara laga muni taka gildi. Af þessum sökum er lögð til að gildistaka þessara laga verði sem hér segir:
    Ákvæði I. kafla um staðfestingu samninga vegna útgöngu Bretlands taki gildi strax. Með þessu móti hafa íslensk stjórnvöld heimild til að ganga frá gildistöku hvors samningsins um sig þegar ljóst verður hvor þessara samninga verði fyrir valinu.
    Ákvæði II. kafla um aðlögunartímabilið taka því aðeins gildi að útganga Bretlands byggi annað hvort á þeim samningi sem Bretland og Evrópusamband luku við að gera í nóvember 2018, en hefur ekki enn hlotið staðfestingu breska þingsins, eða á öðrum sambærilegum samningi sem hefði að geyma ákvæði um sambærilegt aðlögunartímabil. Í ljósi þess að enn er óljóst hvenær aðlögunartímabilið hefst skal birta auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda þegar það liggur fyrir.
    Ákvæði III. IV. og V. kafla tækju gildi um leið og annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í I. kafla hafa tekið gildi hvað Ísland varðar, eða þeim beitt hvað Ísland varðar. Það síðarnefnda á eingöngu við hafi Ísland lokið við formlega staðfestingu samningsins en Bretland hafi ekki gert slíkt, en bresk og íslensk stjórnvöld hafi eigi að síður ákveðið í sameiningu að beita samningnum til bráðabirgða meðan formlegri staðfestingu samningsins er ólokið af hálfu breskra stjórnvalda.
    Ákvæði VI. kafla taka aðeins gildi komi til þess að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings.Fylgiskjal I.


Samningur


um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og úrsagnar þess úr EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.


Formálsorð.

Ísland,
Furstadæmið Liechtenstein,
Konungsríkið Noregur og
Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland,
hér á eftir nefnd „samningsaðilar“,


    sem hafa í huga að 29. mars 2017 tilkynnti Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland („Bretland“), í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í Bretlandi og ákvörðunar sinnar sem fullvalda ríkis um að draga sig út úr Evrópusambandinu („Sambandinu“), um þá fyrirætlun sína að segja sig úr Sambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu („KBE“) í samræmi við 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, sem gildir um KBE í krafti 106. gr. a í stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu,
    sem gera sér grein fyrir sögulegu og nánu samstarfi milli Bretlands og Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein („Liechtenstein“) og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) og sameiginlegri ósk þeirra um að vernda þessi tengsl,
    sem veita athygli samningnum milli Bretlands og Sambandsins um útgöngu Bretlands úr Sambandinu og KBE sem kveður á um skipulega útgöngu Bretlands úr Sambandinu og einkum á um umbreytingar- eða framkvæmdartímabil frá 30. mars 2019 þegar lög Sambandsins munu gilda áfram um Bretland og í Bretlandi í samræmi við ákvæði þess samnings,
    sem óska þess að setja fram nauðsynlegt fyrirkomulag í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Sambandinu, EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og Íslands, Liechtenstein og Noregs í krafti aðildar Bretlands að Sambandinu,
    sem veita því athygli að réttindi og skyldur sem gilda samkvæmt EES-samningnum og öðrum alþjóðasamningum ættu að gilda áfram um Bretland meðan á umbreytingartímabilinu stendur og að aðilarnir munu koma á fót nauðsynlegu fyrirkomulagi fyrir slíkt framhald,
    sem gera sér grein fyrir því að nauðsynlegt er að sjá ríkisborgurum EFTA-ríkjanna innan EES og breskum ríkisborgurum, sem og aðstandendum þeirra, sem hafa nýtt sér réttinn til frjálsrar farar fyrir þann dag sem settur er fram í þessum samningi, fyrir gagnkvæmri vernd og tryggja að unnt sé að framfylgja réttindum þeirra samkvæmt þessum samningi og að þau byggist á meginreglunni um bann við mismunun, og gera sér einnig grein fyrir því að standa ber vörð um réttindi sem leiðir af almannatryggingatímabilum,
    sem eru staðráðin í að tryggja skipulega útgöngu með ýmsum ákvæðum varðandi aðskilnað sem miða að því að koma í veg fyrir sundrung og að veita borgurum og rekstraraðilum, jafnt sem dóms- og stjórnsýsluyfirvöldum í EFTA-ríkjunum innan EES og í Bretlandi, réttarvissu án þess þó að útiloka möguleikann á því að annar samningur eða samningar um framtíðartengsl milli EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands muni leysa af hólmi viðeigandi aðskilnaðarákvæði,
    sem staðfesta þann skilning samningsaðilanna að ákvæði þessa samnings eru með fyrirvara um aðlögun EES-samningsins á tilteknum sviðum, m.a. þau sem varða Liechtenstein sem er að finna í V. og VIII. viðauka við EES-samninginn,
    sem hafa í huga að til þess að tryggja rétta túlkun og beitingu samnings þessa og að staðið verði við skuldbindingar samkvæmt honum er brýnt að setja niður ákvæði sem tryggja heildarstjórnun hans og framkvæmd,
    sem leggja áherslu á að samningur þessi grundvallast á heildarjafnvægi milli ávinnings, réttinda og skuldbindinga fyrir EFTA-ríkin innan EES og Bretland,
    sem hafa í huga að bæði Bretland og EFTA-ríkin innan EES þurfa að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja, eins fljótt og auðið er, formlegar samningaviðræður um einn eða fleiri samninga um framtíðartengsl þeirra, með það að markmiði að tryggja, eins og kostur er, að samningarnir gildi frá lokum umbreytingartímabilsins,
    hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

FYRSTI HLUTI.

SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI.

1. gr.

Markmið.

    Í þessum samningi er sett fram fyrirkomulag í kjölfar útgöngu Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands („Bretlands“) úr Evrópusambandinu („Sambandinu“) og úrsagnar þess úr samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 1 („EES-samningnum“) og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Sambandinu að því er varðar:
     a.      vernd réttinda ríkisborgara Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein („Liechtenstein“), Konungsríkisins Noregs („Noregs“) og Bretlands og
     b.      önnur aðskilnaðarmál sem leiðir af sambandi milli aðila að þessum samningi.

2. gr.

Skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „EES-samningur“: meginsamningurinn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, ásamt síðari breytingum, og bókanir og viðaukar við hann, auk þeirra gerða sem um getur í þeim,
     b.      „EFTA-ríki innan EES“: Ísland, Liechtenstein og Noregur,
     c.      „ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES“: ríkisborgari Íslands, Liechtenstein eða Noregs,
     d.      „breskur ríkisborgari“: ríkisborgari í Bretlandi, sbr. skilgreiningu í hinni Nýju yfirlýsingu ríkisstjórnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands frá 31. desember 1982 um skilgreiningu á hugtakinu „ríkisborgari“ 2 , ásamt yfirlýsingu nr. 63 sem fylgir með lokagerð ríkjaráðstefnunnar sem samþykkti Lissabonsáttmálann 3 ,
     e.      „borgari Sambandsins“: einstaklingur sem hefur ríkisfang í aðildarríki Evrópusambandsins,
     f.      „útgöngusamningur milli ESB og Bretlands“: samningur um útgöngu Bretlands og Norður-Írlands úr Evrópusambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu sem undirritaður var í Brussel [dagsetning],
     g.      „lög Sambandsins“: hefur þá merkingu sem fram kemur í a-lið 2. gr. útgöngusamningsins milli ESB og Bretlands,
     h.      „umbreytingartímabil“: tímabilið sem um getur í 126. gr. útgöngusamningsins milli ESB og Bretlands, með framlengingunni skv. 132. gr. þess samnings, ef við á,
     i.      „dagur“: almanaksdagur nema kveðið sé á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins sem fá gildi með þessum samningi.

3. gr.

Gildissvæði.

     1.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins eða annarra samninga, sem fá gildi með þessum samningi, skal líta svo á að hvers kyns vísun í þessum samningi til Bretlands eða yfirráðasvæðis þess sé vísun til:
                  a.      Bretlands,
                  b.      Gíbraltars, að svo miklu leyti sem EES-samningurinn eða aðrir samningar sem fá gildi með þessum samningi áttu við um það strax fyrir útgöngu Bretlands úr Sambandinu,
                  c.      Ermarsundseyja og Manar, að svo miklu leyti sem EES-samningurinn átti við um þær strax fyrir útgöngu Bretlands úr Sambandinu.
     2.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins eða annarra samninga sem fá gildi með þessum samningi skal líta svo á að hvers kyns vísun í þessum samningi til EFTA-ríkjanna innan EES eða yfirráðasvæðis þeirra sé vísun til yfirráðasvæða Íslands, Liechtenstein og Noregs sem EES-samningurinn tekur til.

4. gr.

Aðferðir og meginreglur er varða áhrif, framkvæmd og beitingu þessa samnings.

     1.      Samningsaðilar skuldbinda sig til að tryggja að allar nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma ákvæðum þessa samnings til framkvæmda og til að koma þeim réttindum, sem viðurkennd eru í þessum samningi, inn í landsrétt sinn með löggjöf.
     2.      Við túlkun og beitingu innlendrar löggjafar til framkvæmdar þessum samningi og þeim réttindum sem í honum felast skulu dóms- og stjórnsýsluyfirvöld hvers samningsaðila taka tilhlýðilegt tillit til þessa samnings.
     3.      Við framkvæmd og beitingu ákvæða annars og þriðja hluta þessa samnings skal túlka þau í samræmi við ákvæði annars og þriðja hluta útgöngusamningsins milli ESB og Bretlands að svo miklu leyti sem þau eru efnislega samhljóða.

5. gr.

Í góðri trú.

    Samningsaðilar skulu, með fullri gagnkvæmri virðingu og í góðri trú, veita hver öðrum aðstoð við þau verkefni sem leiðir af þessum samningi.
    Þeir skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, jafnt almennar sem sértækar, til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem leiðir af þessum samningi og skulu forðast að gera nokkrar þær ráðstafanir sem kynnu að koma í veg fyrir að markmiðum þessa samnings verði náð.

6. gr.

Vísanir til EES-samningsins og annarra samninga.

     1.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skal líta svo á að allar vísanir í þessum samningi til EES-samningsins séu vísanir til EES-samningsins eins og hann gildir á síðasta degi umbreytingartímabilsins.
     2.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skal litið svo á að allar vísanir í þessum samningi til gerða Sambandsins eða ákvæða þeirra séu vísanir til gerðanna eða ákvæðanna eins og þau eru tekin upp í EES-samninginn, þ.m.t. með breytingum eða til gerða eða ákvæða sem hafa komið í þeirra stað, eins og þau gilda á síðasta degi umbreytingartímabilsins.
     3.      Ef vísað er til gerða Sambandsins eða ákvæða þeirra í þessum samningi skal litið svo á, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi, að slík tilvísun feli í sér, þar sem við á, vísun til gerðarinnar, eins og hún er felld undir EES-samninginn, eða ákvæða hennar sem gilda áfram í samræmi við gerðina enda þótt gerðin, sem vísað er til, komi í hennar stað eða leysi hana af hólmi.
     4.      Að því er þennan samning varðar skal litið svo á að vísanir til ákvæða í gerðum Sambandsins, sem fá gildi með þessum samningi, feli í sér vísanir til viðeigandi gerða Sambandsins sem koma til viðbótar þessum ákvæðum eða koma þeim til framkvæmda að svo miklu leyti sem þessar gerðir eru í gildi samkvæmt EES-samningnum eða öðrum samningum, sem fá gildi með þessum samningi, á síðasta degi umbreytingartímabilsins.
     5.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skal litið svo á að vísanir til ákvæða annars samnings, sem fá gildi með þessum samningi, séu vísanir til þessara ákvæða eins og þau gilda á síðasta degi umbreytingartímabilsins.

7. gr.

Vísanir til aðildarríkja.

    Að því er þennan samning varðar skal lesa allar vísanir til aðildarríkja og lögbærra yfirvalda aðildarríkja í ákvæðum EES-samningsins og annarra samninga, sem fá gildi með þessum samningi, þannig að þær taki einnig til Bretlands og lögbærra yfirvalda þess.

ANNAR HLUTI.

BORGARALEG RÉTTINDI.

I. BÁLKUR.

ALMENN ÁKVÆÐI.

8. gr.

Skilgreiningar.

    Að því er þennan hluta varðar, og með fyrirvara um III. bálk, er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „aðstandendur“: aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða aðstandendur breskra ríkisborgara, eins og skilgreint er í 2. lið 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB 4 , óháð ríkisfangi þeirra, sem falla undir persónulega gildissviðið sem kveðið er á um í 9. gr. þessa samnings,
     b.      „þeir sem sækja vinnu yfir landamæri“: ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES eða breskir ríkisborgarar sem stunda atvinnustarfsemi í samræmi við 28. eða 31. gr. EES-samningsins í einu ríki eða fleiri en eru ekki búsettir þar,
     c.      „gistiríki“:
         i.      að því er varðar ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og aðstandendur þeirra, Bretland ef þeir nýttu sér búseturétt sinn þar í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og eru búsettir þar áfram eftir það,
         ii.      að því er varðar breska ríkisborgara og aðstandendur þeirra, það EFTA-ríki innan EES þar sem þeir nýttu sér búseturétt í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og eru áfram búsettir þar eftir það,
     d.      „atvinnuríki“:
         i.      að því er varðar ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES, Bretland ef þeir störfuðu þar sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri fyrir lok umbreytingartímabilsins og halda því áfram eftir það,
         ii.      að því er varðar breska ríkisborgara, það EFTA-ríki innan EES þar sem þeir störfuðu sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri fyrir lok umbreytingartímabilsins og halda því áfram eftir það,
     e.      „forsjárréttur“: réttindi og skyldur í tengslum við umönnun barns og einkum rétturinn til að ákvarða búsetustað barns, m.a. forsjárréttur sem fæst með úrskurði, samkvæmt lögum eða samningi sem hefur lagaleg áhrif.

9. gr.

Persónulegt gildissvið.

     1.      Þessi hluti gildir um eftirtalda einstaklinga með fyrirvara um III. bálk:
                  a.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem nýttu sér rétt sinn til búsetu í Bretlandi í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og eru áfram búsettir þar eftir það,
                  b.      breska ríkisborgara sem nýttu sér rétt sinn til búsetu í EFTA-ríki innan EES í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og eru áfram búsettir þar eftir það,
                  c.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem nýttu sér rétt sinn til að sækja vinnu yfir landamæri í Bretlandi í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og halda því áfram eftir það,
                  d.      breska ríkisborgara sem nýttu sér rétt sinn til að sækja vinnu yfir landamæri í einu eða fleiri EFTA-ríkjum innan EES í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og halda því áfram eftir það,
                  e.      aðstandendur einstaklinga sem um getur í a- til d-lið að því tilskildu að þeir uppfylli eitt eftirtalinna skilyrða:
                 i.      þeir voru búsettir í gistiríkinu í samræmi við EES-samninginn fyrir lok umbreytingartímabilsins og eru áfram búsettir þar eftir það,
                 ii.      þeir tengjast einstaklingi, sem um getur í a- til d-lið með beinum hætti og eru búsettir utan gistiríkisins fyrir lok umbreytingartímabilsins, að því tilskildu að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í 2. lið 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB þegar þeir sækja um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta í því skyni að koma til þess einstaklings sem um getur í a- til d-lið þessarar málsgreinar,
                 iii.      þeir voru fæddir einstaklingum, sem um getur í a- til d-lið, eða voru löglega ættleiddir af þeim eftir lok umbreytingartímabilsins, hvort heldur er innan eða utan gistiríkisins, og uppfylla skilyrðin sem eru sett fram í c-lið 2. liðar 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB á þeim tíma þegar þeir sækja um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta í því skyni að koma til þess einstaklings sem um getur í a- til d-lið þessarar málsgreinar og uppfylla eitt eftirtalinna skilyrða:
                         —      báðir foreldrar eru einstaklingar sem um getur í a- til d-lið,
                         —      annað foreldrið er einstaklingur sem um getur í a- til d-lið og hitt foreldrið er ríkisborgari í gistiríkinu eða
                         —      annað foreldrið er einstaklingur sem um getur í a- til d-lið og fer eitt með forsjá eða fer með sameiginlega forsjá yfir barninu í samræmi við viðeigandi reglur sifjaréttar í EFTA-ríki innan EES eða Bretlandi, m.a. viðeigandi reglur alþjóðlegs einkamálaréttar sem kveður á um viðurkenningu forsjárréttinda, sem eru byggð á lögum þriðja ríkis, í EFTA-ríki innan EES eða Bretlandi, einkum með hliðsjón af því sem er barninu fyrir bestu og með fyrirvara um eðlilega framkvæmd slíkra viðeigandi reglna alþjóðlegs einkamálaréttar,
                  f.      aðstandendur sem dvöldu í gistiríki í samræmi við 12. og 13. gr., 16. gr. (2. mgr.) og 17. og 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB fyrir lok umbreytingartímabilsins og dvelja þar áfram eftir það.
     2.      Einstaklingar, sem falla undir a- og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sem gistiríkið hefur veitt fyrirgreiðslu varðandi dvöl í samræmi við landslöggjöf fyrir lok umbreytingartímabilsins í samræmi við 2. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar, skulu halda dvalarrétti sínum í gistiríkinu í samræmi við þennan hluta að því tilskildu að þeir haldi áfram dvöl sinni í gistiríkinu eftir það.
     3.      Ákvæði 2. mgr. skulu einnig eiga við um einstaklinga, sem falla undir a- og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sem hafa sótt um fyrirgreiðslu varðandi komu og dvöl fyrir lok umbreytingartímabilsins og sem gistiríkið hefur veitt fyrirgreiðslu varðandi dvöl í samræmi við landslöggjöf sína eftir það.
     4.      Með fyrirvara um sjálfstæðan rétt viðkomandi einstaklinga til dvalar skal gistiríkið, í samræmi við landslöggjöf sína og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, veita sambúðarmaka, sem einstaklingur sem um getur í a- til d-lið 1. mgr. þessarar greinar er í varanlegu sambandi við sem hefur verið tilhlýðilega staðfest, fyrirgreiðslu varðandi komu og dvöl þegar sá sambúðarmaki dvaldi utan gistiríkisins fyrir lok umbreytingartímabilsins, að því tilskildu að um varanlegt samband hafi verið að ræða fyrir lok umbreytingartímabilsins og að það sé óbreytt þegar sambúðarmakinn sækir um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta.
     5.      Í þeim tilvikum sem um getur í 3. og 4. mgr. skal gistiríkið gera víðtæka rannsókn á persónulegum högum þessa fólks og færa rök fyrir því ef því er synjað um komu eða dvöl.

10. gr.

Samfelld dvöl.

    Fjarvera, eins og um getur í 2. mgr. 14. gr. þessa samnings, skal ekki hafa áhrif á samfellda dvöl skv. 8. og 9. gr.
    Ekki skal litið svo á að réttur til ótímabundinnar dvalar, sem veittur hefur verið samkvæmt tilskipun 2004/38/EB fyrir lok umbreytingartímabilsins, tapist vegna fjarveru frá gistiríkinu í þann tíma sem tilgreindur er í 3. mgr. 14. gr.

11. gr.

Bann við mismunun.

    Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs, í skilningi 4. gr. EES-samningsins, er bönnuð innan gildissviðs þessa hluta nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans, í gistiríkinu og atvinnuríkinu að því er varðar þá einstaklinga sem um getur í 9. gr. þessa samnings.

II. BÁLKUR.

RÉTTINDI OG SKYLDUR.

1. KAFLI.

Réttur varðandi dvöl, dvalarskjöl.

12. gr.

Dvalarréttur.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES og breskir ríkisborgarar skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu með þeim takmörkunum og skilyrðum sem sett eru fram í 28. og 31. gr. EES-samningsins og í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (a-, b- eða c-liður 1. mgr.), 7. gr. (3. mgr.), 14. gr., 16. gr. (1. mgr.) eða 17. gr. (1. mgr.) tilskipunar 2004/38/EB.
     2.      Aðstandendur, sem eru annaðhvort ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES eða breskir ríkisborgarar, skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu eins og sett er fram í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (d-liður 1. mgr.), 12. gr. (1. eða 3. mgr.), 13. gr. (1. mgr.), 14. gr., 16. gr. (1. mgr.) eða 17. gr. (3. og 4. mgr.) tilskipunar 2004/38/EB, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem fram koma í þeim ákvæðum.
     3.      Aðstandendur, sem eru hvorki ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES né breskir ríkisborgarar, skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu eins og sett er fram í 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (2. mgr.), 12. gr. (2. eða 3. mgr.), 13. gr. (2. mgr.), 14. gr., 16. gr. (2. mgr.), 17. gr. (3. eða 4. mgr.) eða 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem fram koma í þeim ákvæðum.
     4.      Gistiríkinu er ekki heimilt að setja neinar takmarkanir og skilyrði að því er varðar það að öðlast, halda eða missa dvalarrétt önnur en þau sem kveðið er á um í þessum bálki gagnvart einstaklingum sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. Takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í þessum bálki má aldrei beita að geðþótta nema það sé í þágu viðkomandi einstaklings.

13. gr.

Réttur til brottfarar og komu.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES og breskir ríkisborgarar, aðstandendur þeirra og aðrir einstaklingar, sem dvelja á yfirráðasvæði gistiríkis í samræmi við skilyrði þessa bálks, skulu eiga rétt á því að yfirgefa yfirráðasvæði gistiríkisins og rétt til að koma inn á það, eins og sett er fram í 1. mgr. 4. gr. og fyrstu undirgrein 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB, séu þeir handhafar, í tilviki ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES og breskra ríkisborgara, gilds vegabréfs eða innlends kennivottorðs og, í tilviki aðstandenda þeirra og annarra einstaklinga sem ekki eru ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES eða breskir ríkisborgarar, handhafar gilds vegabréfs.
                      Fimm árum eftir lok umbreytingartímabilsins getur gistiríki ákveðið að viðurkenna ekki lengur innlend kennivottorð vegna komu til eða brottfarar frá yfirráðasvæði þess nema slík vottorð innihaldi flögu sem samrýmist gildandi kröfum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar varðandi kennslagreiningu á grundvelli lífkenna.
     2.      Óheimilt er að krefjast komuáritunar eða brottfararáritunar eða jafngildra formsatriða af handhafa gilds skjals sem gefið er út í samræmi við 17. eða 25. gr. þessa samnings.
     3.      Ef gistiríki krefst komuáritunar af aðstandendum, sem koma til ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða til bresks ríkisborgara eftir að umbreytingartímabilinu lýkur, skal gistiríkið veita alla fyrirgreiðslu til að slíkir einstaklingar fái nauðsynlegar vegabréfsáritanir. Slíkar áritanir skulu gefnar út án endurgjalds eins fljótt og hægt er og hljóta flýtimeðferð.

14. gr.

Réttur til ótímabundinnar dvalar.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra sem hafa verið búsettir með löglegum hætti í gistiríkinu, í samræmi við EES-samninginn, í fimm ár samfleytt eða í þann tíma sem tilgreindur er í 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB, skulu öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríkinu með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 16., 17. og 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Lögleg búsetu- eða starfstímabil, í samræmi við ákvæði EES-samningsins, fyrir og eftir lok umbreytingartímabilsins, skulu talin með við útreikning tilskilins tímabils til að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar.
     2.      Samfelld dvöl, með tilliti til þess að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar, skal ákvörðuð í samræmi við 3. mgr. 16. gr. og 21. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
     3.      Hafi réttur til ótímabundinnar dvalar einu sinni verið veittur getur hlutaðeigandi einstaklingur einungis tapað þeim rétti með því að vera fjarverandi frá gistiríkinu í meira en 5 ár samfleytt.

15. gr.

Uppsöfnun tímabila.

    Ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra, sem dvöldu með löglegum hætti í gistiríki fyrir lok umbreytingartímabilsins, í samræmi við skilyrði 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, skemur en fimm ár, skulu eiga rétt á að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 14. gr. þessa samnings þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum. Lögleg búsetu- eða starfstímabil, í samræmi við ákvæði EES-samningsins, fyrir og eftir lok umbreytingartímabilsins, skulu talin með við útreikning tilskilins tímabils til að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar.

16. gr.

Staða og breytingar.

     1.      Enda þótt staða ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra breytist, t.d. milli þess að vera námsmenn, launafólk, sjálfstætt starfandi einstaklingar og einstaklingar utan vinnumarkaðar, hefur það ekki áhrif á rétt þeirra til að notfæra sér réttindin sem sett eru fram í þessum hluta. Einstaklingar sem njóta, við lok umbreytingartímabilsins, réttar til dvalar sem aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breskra ríkisborgara geta ekki orðið þeir einstaklingar sem um getur í a- til d-lið 1. mgr. 9. gr.
     2.      Aðstandendur, sem voru einstaklingar á framfæri ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breskra ríkisborgara fyrir lok umbreytingartímabilsins, skulu halda þeim réttindum sem kveðið er á um í þessum bálki jafnvel þótt þeir séu ekki lengur einstaklingar á framfæri þeirra.

17. gr.

Útgáfa dvalarskjala.

     1.      Gistiríki er heimilt að krefjast þess af ríkisborgurum EFTA-ríkja innan EES eða breskum ríkisborgurum, aðstandendum þeirra og öðrum einstaklingum sem dvelja á yfirráðasvæði þess í samræmi við skilyrði þessa bálks, að þeir sæki að nýju um dvalarleyfi sem veitir þau réttindi sem um getur í þessum bálki og um skjal sem færir sönnur á það leyfi og kann að vera á stafrænu formi.
                      Umsókn um slíkt dvalarleyfi skal vera háð eftirfarandi skilyrðum:
                  a.      markmiðið með umsóknarferlinu skal vera að ganga úr skugga um hvort umsækjandi eigi rétt á þeim búseturétti sem um getur í þessum bálki. Ef sú er raunin skal umsækjandi eiga rétt á að fá dvalarleyfi og skjal sem færir sönnur á það,
                  b.      frestur til að leggja fram umsókn skal vera a.m.k. 6 mánuðir frá lokum umbreytingartímabilsins fyrir þá einstaklinga sem voru búsettir í gistiríkinu áður en umbreytingartímabilinu lauk.
                      Fyrir einstaklinga, sem eiga rétt á að hefja búsetu í gistiríkinu eftir lok umbreytingartímabilsins í samræmi við þennan hluta, skal frestur til að leggja fram umsókn vera 3 mánuðir frá komu þeirra eða frá því að fresturinn, sem um getur í fyrstu undirgrein, rennur út, hvort sem síðar verður.
                      Vottorð um að sótt hafi verið um dvalarleyfi skal gefið út þegar í stað,
                  c.      umsóknarfresturinn, sem um getur í b-lið, skal framlengdur sjálfkrafa um 1 ár ef EFTA-ríki innan EES hefur tilkynnt Bretlandi eða Bretland tilkynnt EFTA-ríkjunum innan EES um að tæknileg vandamál komi í veg fyrir að gistiríkið geti skráð umsóknina eða gefið út vottorðið um að sótt hafi verið um, sem um getur í b-lið. Gistiríkið skal birta tilkynninguna og leggja tímanlega fram viðeigandi opinberar upplýsingar vegna viðkomandi einstaklinga,
                  d.      virði viðkomandi einstaklingar ekki umsóknarfrestinn, sem um getur í b-lið, skulu lögbær yfirvöld meta allar kringumstæður og ástæður þess að fresturinn er ekki virtur og heimila þeim að leggja fram umsókn innan hæfilegs viðbótarfrests ef gildar ástæður eru fyrir því að fresturinn var ekki virtur,
                  e.      gistiríkið skal sjá til þess að hvers konar stjórnsýslumeðferð vegna umsókna sé snurðulaus, gagnsæ og einföld og að komist verði hjá ónauðsynlegri stjórnsýslubyrði,
                  f.      umsóknareyðublöð skulu vera stutt, einföld, notendavæn og löguð að inntaki þessa samnings; fjalla skal sameiginlega um umsóknir fjölskyldna sem lagðar eru fram á sama tíma,
                  g.      gefa skal út skjalið, sem færir sönnur á stöðu, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi sem er ekki hærra en það sem ríkisborgurum gistiríkisins er gert að greiða fyrir útgáfu svipaðra skjala,
                  h.      einstaklingar sem eru fyrir lok umbreytingartímabilsins handhafar gilds skjals sem veitir rétt til ótímabundinnar dvalar, sem gefið er út skv. 19. eða 20. gr. tilskipunar 2004/38/EB eða handhafar gilds innlends innflytjendaskjals sem veitir rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríkinu, skulu eiga rétt á að skipta því skjali út, innan frestsins sem um getur í b-lið þessarar málsgreinar, fyrir nýtt dvalarskjal sem sækja þarf um, eftir að staðfest hafa verið deili á þeim og að loknu sakaskrár- og öryggiseftirliti í samræmi við p-lið þessarar málsgreinar og að fenginni staðfestingu á dvöl sem þegar er hafin; slík ný dvalarskjöl skulu gefin út án endurgjalds,
                  i.      deili á umsækjendum skulu staðfest gegn framvísun gilds vegabréfs eða innlends kennivottorðs, þegar um er að ræða ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES og breska ríkisborgara, og gegn framvísun gilds vegabréfs þegar um er að ræða aðstandendur þeirra og aðra einstaklinga sem ekki eru ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES eða breskir ríkisborgarar; viðurkenning slíkra persónuskilríkja skal ekki háð öðrum skilyrðum en þeim að skilríkin séu gild. Haldi lögbær yfirvöld gistiríkis eftir persónuskilríkjum á meðan umsókn er í vinnslu skal gistiríkið tafarlaust skila þeim ef farið er fram á það, áður en tekin hefur verið ákvörðun um umsóknina,
                  j.      önnur fylgiskjöl en persónuskilríki, s.s. skjöl um borgaralega réttarstöðu, má leggja fram í afriti. Einungis má krefjast frumrita af fylgiskjölum í sérstökum tilvikum þar sem vafi leikur á um hvort fylgiskjölin, sem lögð eru fram, séu ósvikin,
                  k.      gistiríki er einungis heimilt að krefjast þess að ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar framvísi, til viðbótar við persónuskilríkin sem um getur í i. lið þessarar málsgreinar, eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 3. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                 i.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við a-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar, staðfestingu á ráðningu frá vinnuveitanda eða starfsvottorði eða sönnun þess að þeir séu sjálfstætt starfandi,
                 ii.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við b-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem einstaklingar utan vinnumarkaðar, sönnun fyrir því að þeir hafi nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiríkinu á dvalartímabilinu og að þeir hafi fullnægjandi sjúkratryggingu í gistiríkinu, eða
                 iii.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við c-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem námsmenn, sönnun fyrir því að þeir séu innritaðir hjá stofnun sem er viðurkennd eða fjármögnuð af gistiríkinu á grundvelli laga eða stjórnsýsluvenju í því ríki, sönnun fyrir því að þeir hafi fullnægjandi sjúkratryggingu og yfirlýsingu eða jafngilda sönnun fyrir því að þeir hafi nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiríkinu á dvalartímabilinu. Gistiríki getur ekki krafist þess að í slíkum yfirlýsingum komi fram tiltekin fjárhæð.
                      Að því er varðar skilyrðið um nægilegt fé skal 4. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB gilda,
                  l.      gistiríki er aðeins heimilt að krefjast þess að aðstandendur, sem heyra undir i. lið e-liðar 1. mgr. 9. gr. eða 2. eða 3. mgr. 10. gr. þessa samnings og dvelja í gistiríki í samræmi við d-lið 1. mgr. 7. gr. eða 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, framvísi, til viðbótar við persónuskilríkin sem um getur í i. lið þessarar málsgreinar, eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 5. mgr. 8. gr. eða 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                 i.      skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð,
                 ii.      skráningarvottorði eða, ef skráningarkerfi er ekki fyrir hendi, hvers konar sönnun annarri fyrir því að ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES eða breskur ríkisborgari sem þeir dvelja hjá, dvelji í raun í gistiríkinu,
                 iii.      að því er varðar beina afkomendur viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka, sem eru undir 21 árs aldri eða sem eru á framfæri þeirra og ættingja þeirra í beinan legg af eldri kynslóð sem eru á framfæri þeirra, skjalfestri sönnun fyrir því að skilyrðin sem mælt er fyrir um í c- eða d-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB séu uppfyllt,
                 iv.      að því er varðar einstaklinga sem um getur í 2. eða 3. mgr. 9. gr. þessa samnings, skjali sem er gefið út af viðkomandi yfirvaldi í gistiríkinu í samræmi við 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
                      Að því er varðar skilyrðið um nægilegt fé, þegar um er að ræða aðstandendur sem eru sjálfir ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES eða breskir ríkisborgarar, skal 4. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB gilda,
                  m.      gistiríki er aðeins heimilt að krefjast þess að aðstandendur, sem heyra undir ii. lið e-liðar 1. mgr. 9. gr. eða 4. mgr. 9. gr. þessa samnings. framvísi, til viðbótar við persónuskilríkin sem um getur í i. lið þessarar málsgreinar, eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 5. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                 i.      skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð,
                 ii.      skráningarvottorði eða, ef skráningarkerfi er ekki fyrir hendi, hvers konar sönnun annarri fyrir því að ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES eða breskur ríkisborgari, sem þeir koma til í gistiríkinu, dvelji í gistiríkinu,
                 iii.      að því er varðar maka eða sambúðarmaka, skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð fyrir lok umbreytingartímabilsins,
                 iv.      að því er varðar afkomendur, í beinan legg, viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka, sem eru undir 21 árs aldri eða eru á framfæri þeirra og ættingja viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg af eldri kynslóð sem eru á framfæri þeirra, skjalfestri sönnun þess að þeir voru tengdir ríkisborgurum EFTA-ríkis innan EES eða breskum ríkisborgurum fyrir lok umbreytingartímabilsins og uppfylli skilyrðin um aldur eða framfærslu sem mælt er fyrir um í c- eða d-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB,
                 v.      að því er varðar einstaklinga sem um getur í 4. mgr. 9. gr. þessa samnings, sönnun fyrir því að um varanlegt samband hafi verið að ræða við ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breska ríkisborgara fyrir lok umbreytingartímabilsins og að það hafi haldið áfram eftir það,
                  n.      í öðrum tilvikum en þeim sem sett eru fram í k-, l- og m-lið skal gistiríkið ekki krefjast þess að umsækjendur framvísi fleiri fylgiskjölum en nauðsynlegt er og hóflegt til þess að sanna að skilyrði í tengslum við dvalarrétt samkvæmt þessum bálki hafi verið uppfyllt,
                  o.      lögbær yfirvöld gistiríkis skulu aðstoða umsækjendur við að sanna að þeir uppfylli skilyrði og við að forðast hvers konar villur eða að einhverju sé sleppt í umsóknum þeirra; þau skulu gefa umsækjendum tækifæri til að leggja fram viðbótarsannanir og leiðrétta hvers konar annmarka, villur eða vöntun á upplýsingum,
                  p.      sakaskrár- og öryggiseftirlit má framkvæma kerfisbundið vegna umsækjenda með það eitt að markmiði að ganga úr skugga um hvort takmarkanirnar, sem settar eru fram í 19. gr. þessa samnings, kunni að eiga við. Í því tilviki kann þess að verða krafist að umsækjendur geri grein fyrir sakfellingum í refsimálum sem koma fram á sakaskrá þeirra, í samræmi við lög þess ríkis þar sem dómur féll, þegar umsókn er lögð fram. Gistiríki getur, ef það telur slíkt nauðsynlegt, beitt málsmeðferðinni sem sett er fram í 3. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/38/EB að því er varðar fyrirspurnir til annarra ríkja um fyrri sakaskrár,
                  q.      í nýja dvalarskjalinu skal koma fram að það hafi verið gefið út í samræmi við þennan samning,
                  r.      umsækjandi skal eiga þess kost að skjóta máli sínu til dómstóla og, þar sem við á, stjórnsýsluyfirvalds í gistiríkinu vegna ákvörðunar um synjun um dvalarleyfi. Málskotsleiðirnar skulu fela í sér rannsókn á lögmæti ákvörðunarinnar og einnig á þeim staðreyndum og aðstæðum sem fyrirhuguð ákvörðun er byggð á. Með slíkum málskotsleiðum skal gengið úr skugga um að meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðunina.
     2.      Á því tímabili sem um getur í b-lið 1. mgr. þessarar greinar og á meðan á mögulegri eins árs framlengingu þess samkvæmt c-lið þeirrar málsgreinar stendur skulu öll réttindi, sem kveðið er á um í þessum hluta, teljast eiga við um ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breska ríkisborgara, aðstandendur þeirra og aðra þá sem dvelja í gistiríkinu í samræmi við þau skilyrði og með þeim takmörkunum sem um getur í 19. gr.
     3.      Meðan beðið er lokaákvörðunar lögbærra yfirvalda varðandi umsókn sem um getur í 1. mgr. og meðan beðið er lokaúrskurðar dómstóls, ef máli er skotið til dómstóla vegna synjunar lögbærra yfirvalda á slíkri umsókn, skulu öll réttindi sem kveðið er á um í þessum hluta teljast eiga við um umsækjanda, þ.m.t. 20. gr. um verndarráðstafanir og rétt til málskots háð þeim skilyrðum sem sett eru fram í 4. mgr. 19. gr.
     4.      Hafi gistiríki ákveðið að krefjast þess ekki af ríkisborgurum EFTA-ríkja innan EES eða breskum ríkisborgurum, aðstandendum þeirra og öðrum einstaklingum sem dvelja á yfirráðasvæði þess í samræmi við skilyrði þessa bálks, að þeir sæki að nýju um dvalarleyfi, eins og um getur í 1. mgr., sem skilyrði fyrir löglegri dvöl, skulu þeir sem uppfylla skilyrði fyrir dvalarrétti samkvæmt þessum bálki eiga rétt á að fá, í samræmi við skilyrði tilskipunar 2004/38/EB, dvalarskjal sem kann að vera á stafrænu formi og þar sem fram kemur að það hafi verið gefið út í samræmi við þennan samning.

18. gr.

Útgáfa dvalarskjala á umbreytingartímabilinu.

     1.      Á umbreytingartímabilinu getur gistiríki heimilað valkvæðar umsóknir um dvalarleyfi eða dvalarskjöl, eins og um getur í 1. og 4. mgr. 17. gr. þessa samnings, frá og með gildistökudegi þessa samnings.
     2.      Ákvarðanir um samþykkt eða synjun slíkra umsókna skal taka í samræmi við 1. og 4. mgr. 17. gr. Ákvarðanir skv. 1. mgr. 17. gr. skulu ekki gilda fyrr en eftir lok umbreytingartímabilsins.
     3.      Ef umsókn skv. 1. mgr. 17. gr. er samþykkt fyrir lok umbreytingartímabilsins er gistiríkinu ekki heimilt að afturkalla ákvörðunina um veitingu dvalarleyfisins fyrir lok umbreytingartímabilsins af neinum öðrum ástæðum en þeim sem settar eru fram í VI. kafla og í 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
     4.      Ef umsókn er synjað fyrir lok umbreytingartímabilsins getur umsækjandi sótt aftur um hvenær sem er fyrir lok frestsins sem settur er fram í b-lið 1. mgr. 17. gr.
     5.      Með fyrirvara um 4. mgr. skulu málskotsleiðirnar skv. r-lið 1. mgr. 17. gr. vera fyrir hendi frá og með dagsetningu ákvörðunar um að synja umsókn sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar.

19. gr.

Takmarkanir á rétti til dvalar og komu.

     1.      Framferði ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, aðstandenda þeirra og annarra þeirra sem neyta réttar síns samkvæmt þessum bálki, sem á sér stað fyrir lok umbreytingartímabilsins, skal metið í samræmi við VI. kafla tilskipunar 2004/38/EB.
     2.      Framferði ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, aðstandenda þeirra og annarra þeirra sem neyta réttar síns samkvæmt þessum bálki, sem á sér stað eftir lok umbreytingartímabilsins, getur talist ástæða til takmörkunar á dvalarrétti af hálfu gistiríkis eða á rétti til komu til atvinnuríkis í samræmi við landslög.
     3.      Gistiríki eða atvinnuríki er heimilt að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að synja um, binda enda á eða afturkalla rétt sem veittur er samkvæmt þessum bálki ef um er að ræða misnotkun réttar eða svik eins og fram kemur í 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Slíkar ráðstafanir skulu vera með fyrirvara um réttarfarsreglurnar sem kveðið er á um í 20. gr. þessa samnings.
     4.      Gistiríki eða atvinnuríki getur flutt þá umsækjendur brott af yfirráðasvæði sínu sem lagt hafa fram sviksamlegar umsóknir eða í misnotkunarskyni samkvæmt þeim skilyrðum sem fram koma í tilskipun 2004/38/EB, einkum í 31. og 35. gr. hennar, jafnvel áður en lokaúrskurður er fallinn, ef máli er skotið til dómstóla vegna synjunar á slíkri umsókn.

20. gr.

Verndarráðstafanir og málskotsréttur.

    Verndarráðstafanirnar, sem settar eru fram í 15. gr. og í VI. kafla tilskipunar 2004/38/EB, gilda að því er varðar sérhverja ákvörðun gistiríkisins sem takmarkar dvalarrétt einstaklinga sem um getur í 9. gr. þessa samnings.

21. gr.

Tengd réttindi.

    Í samræmi við 23. gr. tilskipunar 2004/38/EB skulu aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríki eða atvinnuríki, óháð ríkisfangi, eiga rétt á að gerast launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar þar.

22. gr.

Jöfn meðferð.

     1.      Í samræmi við 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB skulu allir ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES eða breskir ríkisborgarar sem dvelja á grundvelli þessa samnings á yfirráðasvæði gistiríkisins, með fyrirvara um sértæk ákvæði sem kveðið er á um í þessum bálki og í I. og IV. bálki þessa hluta, fá sömu meðferð og ríkisborgarar þess ríkis njóta innan gildissviðs þessa hluta. Þessi réttur skal rýmkaður þannig að hann nái til þeirra aðstandenda ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES eða breskra ríkisborgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar.
     2.      Þrátt fyrir 1. mgr. ber gistiríkinu ekki skylda til að veita rétt til félagslegrar aðstoðar meðan á dvalartímabilum stendur skv. 6. gr. eða b-lið 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB, og ber ekki heldur skylda til, áður en einstaklingur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar í samræmi við 14. gr. þessa samnings, að veita framfærsluaðstoð vegna náms, þ.m.t. starfsnáms, í formi námsstyrkja eða námslána til annarra einstaklinga en launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga, einstaklinga sem halda þeirri stöðu eða til aðstandenda þeirra.

2. KAFLI.

Réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga.

23. gr.

Réttindi launafólks.

     1.      Með fyrirvara um þær takmarkanir, sem settar eru fram í 3. og 4. mgr. 28. gr. EES-samningsins, skal launafólk í gistiríki og launafólk sem sækir vinnu yfir landamæri í atvinnuríki eða -ríkjum njóta þeirra réttinda sem 28. gr. EES-samningsins tryggir og þeirra réttinda sem veitt eru samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 5 . Þessi réttindi eru m.a.:
                  a.      rétturinn til þess að vera ekki mismunað á grundvelli ríkisfangs að því er varðar atvinnu, launakjör og önnur starfs- og ráðningarskilyrði,
                  b.      rétturinn til að hefja og stunda atvinnu í samræmi við þær reglur sem gilda um ríkisborgara gistiríkisins eða atvinnuríkisins,
                  c.      rétturinn til að njóta sömu aðstoðar vinnumiðlana gistiríkis eða atvinnuríkis og ríkisborgarar þess,
                  d.      rétturinn til jafnrar meðferðar að því er varðar ráðningar- og vinnuskilyrði, einkum hvað varðar launakjör, brottvikningu úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu,
                  e.      rétturinn til félagslegra úrræða og skattaívilnana,
                  f.      sameiginleg réttindi,
                  g.      sömu réttindi og ívilnanir og innlent launafólk nýtur að því er varðar húsnæði,
                  h.      réttur barna þeirra til almennrar menntunar í gistiríki eða atvinnuríki, náms á námssamningi og starfsþjálfunarnámskeiða með sömu skilyrðum og ríkisborgarar gistiríkisins eða atvinnuríkisins, að því tilskildu að börnin búi á því yfirráðasvæði þar sem launþeginn starfar.
     2.      Ef launþegi dvelur ekki lengur í gistiríki en afkomandi hans í beinan ættlegg er í námi þar skal helsti umönnunaraðili afkomandans eiga rétt til dvalar í því ríki uns afkomandinn nær lögræðisaldri, og eftir að hann nær lögræðisaldri ef afkomandinn þarfnast áfram nærveru og umönnunar umönnunaraðilans til að geta stundað nám sitt og lokið því.
     3.      Launafólk sem sækir vinnu yfir landamæri skal njóta réttar til komu til og brottfarar frá atvinnuríkinu í samræmi við 13. gr. þessa samnings og halda þeim réttindum sem það naut sem launafólk þar, svo fremi að það sé í einum af þeim aðstæðum sem lýst er í a-, b-, c- og d-lið 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, jafnvel þótt það flytji ekki dvalarstað sinn til atvinnuríkisins.

24. gr.

Réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga.

     1.      Með fyrirvara um þær takmarkanir, sem settar eru fram í 32. og 33. gr. EES-samningsins, skulu sjálfstætt starfandi einstaklingar í gistiríkinu og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem sækja vinnu yfir landamæri í atvinnuríkinu eða -ríkjunum njóta þeirra réttinda sem 31. gr. og 124. gr. EES-samningsins tryggja. Þessi réttindi eru m.a.:
                  a.      rétturinn til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gistiríkið mælir fyrir um gagnvart eigin ríkisborgurum, eins og sett er fram í 31. gr. EES-samningsins,
                  b.      rétturinn sem settur er fram í c- til h-lið 1. mgr. 23. gr. þessa samnings.
     2.      Ákvæði 2. mgr. 23. gr. skulu gilda um afkomendur sjálfstætt starfandi einstaklinga í beinan legg.
     3.      Ákvæði 3. mgr. 23. gr. skulu gilda um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sækja vinnu yfir landamæri.

25. gr.

Útgáfa skjals um réttindi þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri.

    Atvinnuríki er heimilt að krefjast þess af ríkisborgurum EFTA-ríkjanna innan EES og breskum ríkisborgurum, sem njóta réttinda sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri samkvæmt þessum bálki, að þeir sæki um skjal sem staðfestir að þeir njóti slíkra réttinda samkvæmt þessum bálki. Slíkir ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar skulu eiga rétt á að fá slíkt skjal útgefið.

3. KAFLI.

Fagleg menntun og hæfi.

26. gr.

Viðurkennd fagleg menntun og hæfi. 6

     1.      Viðurkenning fyrir lok umbreytingartímabilsins á faglegri menntun og hæfi, eins og skilgreint er í b-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB 7 , ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES eða breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra af hálfu gistiríkis þeirra eða atvinnuríkis, skal halda áhrifum sínum í viðkomandi landi, þ.m.t. réttur viðkomandi til að leggja stund á starfsgrein sína samkvæmt sömu skilyrðum og ríkisborgarar þess ríkis ef slík viðurkenning fór fram í samræmi við einhver eftirfarandi ákvæða:
                  a.      ákvæði III. bálks tilskipunar 2005/36/EB varðandi viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi í tengslum við nýtingu staðfesturéttar, hvort sem slík viðurkenning fellur undir almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, kerfi viðurkenningar á starfsreynslu eða kerfi viðurkenningar á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun,
                  b.      ákvæði 1. og 3. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB 8 að því er varðar að fá aðgang að starfsgrein lögmanna í gistiríkinu eða atvinnuríkinu,
                  c.      ákvæði 14. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB 9 að því er varðar viðurkenningu endurskoðenda,
                  d.      ákvæði tilskipunar ráðsins 74/556/EBE 10 að því er varðar viðurkenningu sönnunar fyrir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að hefja og stunda starfsemi sem sjálfstætt starfandi einstaklingar og milliliðir sem veita þjónustu á sviði verslunar með og dreifingar á eiturefnum eða starfsemi sem felur í sér notkun eiturefna í atvinnuskyni.
     2.      Viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi að því er varðar a-lið 1. mgr. þessarar greinar skulu taka til:
                  a.      viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi sem byggir á 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 2005/36/EB,
                  b.      ákvarðana um að veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein í samræmi við 4. gr. f í tilskipun 2005/36/EB,
                  c.      viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi vegna staðfestu sem veittar eru skv. 4. gr. d í tilskipun 2005/36/EB.

27. gr.

Málsmeðferð sem þegar er hafin til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi.

    Að því er varðar meðferð lögbærs yfirvalds í gistiríki eða atvinnuríki á umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES eða breskir ríkisborgarar lögðu fram fyrir lok umbreytingartímabilsins, og að því er varðar ákvörðun um slíka umsókn skulu 4. gr., 4. gr. d að því er varðar viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi til að öðlast staðfestu, 4. gr. f og III. bálkur tilskipunar 2005/36/EB, 10. gr. (1., 3. og 4. mgr.) tilskipunar 98/5/EB, 14. gr. tilskipunar 2006/43/EB og tilskipun 74/556/EBE gilda.
    Ákvæði 4. gr. a, 4. gr. b og 4. gr. e í tilskipun 2005/36/EB skulu einnig gilda að svo miklu leyti sem við á varðandi það að ljúka málsmeðferð til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi til að öðlast staðfestu skv. 4. gr. d í þeirri tilskipun.
    Bretland og EFTA-ríkin innan EES skulu koma á nauðsynlegu fyrirkomulagi, sem beiting 8. gr. útgöngusamningsins milli ESB og Bretlands (Aðgangur að samstarfsnetum, upplýsingakerfum og gagnasöfnum) kallar á, til að tryggja að ljúka megi málsmeðferðum samkvæmt þessari grein.

28. gr.

Samvinna á sviði stjórnsýslu um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

    Að því er varðar umsóknir, sem eru í vinnslu og um getur í 27. gr., skulu Bretland og EFTA-ríkin innan EES vinna saman að því að auðvelda beitingu 27. gr. Samstarfið getur falist í því að skiptast á upplýsingum, m.a. upplýsingum um viðurlög eða refsiaðgerðir eða aðrar alvarlegar og sérstakar aðstæður sem eru líklegar til að hafa áhrif á starfsemi sem fellur undir tilskipanirnar sem um getur í 27. gr.

III. BÁLKUR.

SAMRÆMING ALMANNATRYGGINGARKERFA.

29. gr.

Persónulegt gildissvið.

     1.      Þessi bálkur skal gilda um eftirtalda einstaklinga:
                  a.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem heyra undir löggjöf Bretlands við lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  b.      breska ríkisborgara sem heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES við lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  c.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem eru búsettir í Bretlandi en heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES við lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  d.      breska ríkisborgara sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES en heyra undir löggjöf Bretlands við lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  e.      einstaklinga sem ekki heyra undir a- til d-lið en eru:
                 i.      ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES sem stunda atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í Bretlandi við lok umbreytingartímabilsins en heyra, á grundvelli II. bálks reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 11 , undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda, eða
                 ii.      breskir ríkisborgarar sem stunda atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í einu eða fleiri EFTA-ríkjum innan EES við lok umbreytingartímabilsins en heyra, á grundvelli II. bálks reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, undir löggjöf Bretlands, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  f.      ríkisfangslausir einstaklingar og flóttamenn sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES eða í Bretlandi og eru í einhverjum þeim aðstæðum sem lýst er í a- til e-lið, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
     2.      Einstaklingarnir sem um getur í 1. mgr. skulu vera tryggðir á meðan þeir halda áfram að vera, óslitið, í einhverjum þeim aðstæðum sem lýst er í þeirri málsgrein sem taka á sama tíma bæði til EFTA-ríkja innan EES og Bretlands.
     3.      Þessi bálkur skal einnig gilda um einstaklinga sem falla ekki eða falla ekki lengur undir a- til e-lið 1. mgr. þessarar greinar en falla undir 9. gr. þessa samnings, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda.
     4.      Einstaklingarnir sem um getur í 3. mgr. skulu vera tryggðir á meðan þeir halda áfram að eiga rétt til búsetu í gistiríkinu skv. 12. gr. þessa samnings, eða rétt til að starfa í atvinnuríki sínu skv. 23. eða 24. gr. þessa samnings.
     5.      Þar sem getið er um aðstandendur og eftirlifendur í þessari grein skulu þeir einstaklingar aðeins heyra undir þennan bálk að því marki sem þeir hafa réttindi og skyldur sem slíkir sem leiðir af reglugerð (EB) nr. 883/2004.

30. gr.

Reglur um samræmingu á sviði almannatrygginga.

     1.      Reglurnar og markmiðin, sem sett eru fram í 29. gr. EES-samningsins, reglugerð (EB) nr. 883/2004 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 12 , skulu gilda um þá einstaklinga sem heyra undir þennan bálk.
                      EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu taka tilhlýðilegt tillit til ákvarðana og taka mið af tilmælum framkvæmdaráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa, sem starfar í tengslum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og komið var á fót samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004 („framkvæmdaráðið“), sem talin eru upp í I. hluta I. viðauka við samning þennan.
     2.      Þrátt fyrir 8. gr. þessa samnings skulu skilgreiningarnar í 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 gilda að því er þennan bálk varðar.

31. gr.

Sérstakar aðstæður sem eiga við.

     1.      Eftirfarandi reglur skulu gilda við eftirfarandi aðstæður, að því marki sem segir í þessari grein, að svo miklu leyti sem þær tengjast einstaklingum sem heyra ekki eða heyra ekki lengur undir 29. gr.:
                  a.      eftirtaldir einstaklingar skulu heyra undir þennan bálk með tilliti til þess að geta reitt sig á tryggingatímabil, starfstímabil launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga eða búsetutímabil, þ.m.t. réttindi og skyldur sem leiðir af slíkum tímabilum í samræmi við reglugerð (EB) nr. 883/2004, og söfnun slíkra tímabila:
                 i.      ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES, auk ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES og hafa heyrt undir löggjöf Bretlands fyrir lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                 ii.      breskir ríkisborgarar, auk ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í Bretlandi og hafa heyrt undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES fyrir lok umbreytingartímabilsins, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  að því er varðar söfnun tímabila skal taka tillit til bæði tímabila sem lokið er fyrir og eftir lok umbreytingartímabilsins í samræmi við reglugerð (EB) nr. 883/2004,
                  b.      reglur, sem settar eru fram í 20. og 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram um einstaklinga sem höfðu, fyrir lok umbreytingartímabilsins, farið fram á leyfi fyrir skipulagðri læknismeðferð samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004, þar til meðferðinni lýkur. Samsvarandi verklagsreglur vegna endurgreiðslna skulu einnig gilda, jafnvel eftir að meðferð lýkur. Slíkir einstaklingar og fylgdarmenn þeirra skulu njóta réttar til komu til og brottfarar frá ríkinu þar sem meðferð fer fram í samræmi við 13. gr., að breyttu breytanda,
                  c.      reglur, sem settar eru fram í 19. og 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram um einstaklinga, sem heyra undir reglugerð (EB) nr. 883/2004 og dvelja við lok umbreytingartímabilsins í EFTA-ríki innan EES eða í Bretlandi, þar til dvöl þeirra lýkur. Samsvarandi verklagsreglur vegna endurgreiðslna skulu einnig gilda, jafnvel eftir að dvöl eða meðferð lýkur,
                  d.      reglur, sem settar eru fram í 67., 68. og 69. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram, svo lengi sem skilyrði eru uppfyllt, um veitingu fjölskyldubóta, ef fyrir hendi er réttur til þeirra við lok umbreytingartímabilsins, til eftirtalinna einstaklinga:
                 i.      ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES, ríkisfangslausa einstaklinga og flóttamenn sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES og heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES og eiga aðstandendur sem eru búsettir í Bretlandi við lok umbreytingartímabilsins,
                 ii.      breska ríkisborgara, ríkisfangslausa einstaklinga og flóttamenn sem eru búsettir í Bretlandi og heyra undir löggjöf Bretlands og eiga aðstandendur sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES við lok umbreytingartímabilsins,
                  e.      í þeim aðstæðum, sem lýst er í i. og ii. lið d-liðar þessarar málsgreinar, að því er varðar einstaklinga sem njóta réttinda sem aðstandendur við lok umbreytingartímabilsins samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004, s.s. afleiddra réttinda til sjúkraaðstoðar, skulu sú reglugerð og samsvarandi ákvæði reglugerðar (EB) nr. 987/2009 gilda áfram svo lengi sem skilyrði þeirra eru uppfyllt.
     2.      Ákvæði I. kafla III. bálks reglugerðar (EB) nr. 883/2004 varðandi sjúkrabætur skulu gilda um einstaklinga sem fá bætur skv. a-lið 1. mgr. þessarar greinar.
                      Þessi málsgrein gildir að breyttu breytanda um fjölskyldubætur á grundvelli 67., 68. og 69. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004.

32. gr.

Borgarar Sambandsins.

     1.      Ákvæði þessa bálks, sem gilda um ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES, skulu gilda um borgara Sambandsins að því tilskildu að:
                  a.      Sambandið hafi gert og beiti samsvarandi samningi við Bretland sem gildir um ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES og
                  b.      Sambandið hafi gert og beiti samsvarandi samningi við EFTA-ríkin innan EES sem gildir um breska ríkisborgara.
     2.      Þegar Bretland og EFTA-ríkin innan EES tilkynna um gildistökudag samninganna, sem um getur í 1. mgr., skal sameiginlega nefndin, sem komið er á fót með 65. gr. þessa samnings („sameiginlega nefndin“), ákveða hvaða dag ákvæði þessa bálks taka gildi gagnvart borgurum Sambandsins.

33. gr.

Endurgreiðsla, endurheimt og skuldajöfnun.

    Ákvæði reglugerða (EB) nr. 883/2004 og (EB) 987/2009 um endurgreiðslu, endurheimt og skuldajöfnun skulu gilda áfram í tengslum við atburði, að því marki sem þeir tengjast einstaklingum sem ekki falla undir 29. gr., sem:
     a.      verða fyrir lok umbreytingartímabilsins eða
     b.      verða eftir lok umbreytingartímabilsins og tengjast einstaklingum sem féllu undir 29. eða 31. gr. þegar atburðurinn átti sér stað.

34. gr.

Lagaþróun og aðlögun gerða sem felldar eru inn í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum.

     1.      Þegar reglugerðum (EB) nr. 883/2004 og (EB) 987/2009 er breytt eða aðrar koma í þeirra stað eftir lok umbreytingartímabilsins og þegar slíkar breytingar eða gerðir sem koma í stað þessara reglugerða eru teknar upp í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum skal lesa vísanir til þessara reglugerða í þessum samningi eins og vísað sé til þeirra með breytingum eða til gerðanna sem koma í þeirra stað samkvæmt EES-samningnum, í samræmi við gerðirnar sem taldar eru upp í II. hluta I. viðauka við þennan samning.
                      Sameiginlega nefndin skal endurskoða II. hluta I. viðauka við þennan samning í því skyni að samræma hann hverri þeirri gerð sem breytir eða kemur í stað reglugerða (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009, að því tilskildu að:
                  a.      útgöngusamningurinn milli ESB og Bretlands hafi verið samræmdur á sama hátt og
                  b.      að gerðin hafi verið tekin upp í EES-samninginn og gildi samkvæmt honum.
                      Sameiginlega nefndin skal endurskoða I. viðauka um leið og hinum síðari af atburðunum í a- og b-lið er lokið.
     2.      Litið skal svo á að reglugerðir (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009 taki, að því er samning þennan varðar, til þeirra aðlagana sem taldar eru upp í III. hluta I. viðauka við þennan samning. Eins fljótt og auðið er að lokinni samþykkt hvers konar breytinga á landslögum sem varða III. hluta I. viðauka við þennan samning skal Bretland upplýsa EFTA-ríkin innan EES um það á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar.
     3.      Litið skal svo á að ákvarðanir og tilmæli framkvæmdaráðsins taki, að því er þennan samning varðar, til ákvarðananna og tilmælanna sem talin eru upp í I. hluta I. viðauka. Sameiginlega nefndin skal breyta I. hluta I. viðauka þannig að hann endurspegli sérhverja nýja ákvörðun eða tilmæli sem framkvæmdaráðið hefur samþykkt og tekin hafa verið upp í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum. Í því skyni skulu EFTA-ríkin innan EES, eins fljótt og auðið er eftir að sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt slíka ákvörðun, upplýsa Bretland um það á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega nefndin skal gera slíkar breytingar að tillögu EFTA-ríkjanna innan EES eða Bretlands.

IV. BÁLKUR.

ÖNNUR ÁKVÆÐI.

35. gr.

Kynning.

    EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta, einkum með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu og staðbundnum fjölmiðlum og í öðrum samskiptamiðlum, eftir því sem við á.

36. gr.

Hagstæðari ákvæði.

    Þessi hluti skal ekki hafa áhrif á lög eða stjórnsýsluákvæði í gistiríkinu eða atvinnuríkinu sem eru hagstæðari þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Þessi málsgrein skal ekki gilda um III. bálk.

37. gr.

Vernd ævilangt.

    Þeir einstaklingar sem heyra undir þennan hluta skulu njóta þeirra réttinda sem kveðið er á um í viðeigandi bálkum þessa hluta ævilangt nema þeir uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.

ÞRIÐJI HLUTI.

ÁKVÆÐI VARÐANDI AÐSKILNAÐ.

I. BÁLKUR.

VÖRUR SEM SETTAR ERU Á MARKAÐ.

38. gr.

Skilgreiningar.

    Í þessum bálki er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „að bjóða fram á markaði“: afhending vöru til dreifingar, neyslu eða notkunar á markaði meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds,
     b.      „setning á markað“: það að bjóða vöru fram í fyrsta sinn á markaði EFTA-ríkis innan EES eða Bretlands,
     c.      „afhending vöru til dreifingar, neyslu eða til notkunar“: þegar vara sem fyrir er og hægt er að greina sem slíka að loknu framleiðslustigi er efni skriflegs eða munnlegs samnings milli tveggja eða fleiri lögaðila eða einstaklinga um yfirfærslu eignarhalds, annars eignarréttar, eða umráða yfir viðeigandi vöru eða er efni boðs til lögaðila eða einstaklings, eins eða fleiri, um gerð slíks samnings,
     d.      „að taka í notkun“: fyrsta notkun endanlegs notanda á vöru í EFTA-ríkjum innan EES eða í Bretlandi í samræmi við tilætlaða notkun eða, ef um er að ræða búnað um borð í skipum, að koma fyrir búnaði um borð í skipi,
     e.      „markaðseftirlit“: sú starfsemi sem markaðseftirlitsyfirvöld annast og þær ráðstafanir sem þau gera til að tryggja að vörur uppfylli gildandi kröfur og skapi ekki hættu fyrir heilbrigði, öryggi né aðra þætti er varða hagsmuni almennings,
     f.      „markaðseftirlitsyfirvald“: yfirvald EFTA-ríkis innan EES eða Bretlands sem ber ábyrgð á markaðseftirliti á yfirráðasvæði sínu,
     g.      „skilyrði fyrir markaðssetningu á vörum“: kröfur sem varða eiginleika vara, s.s. gæði, nothæfi, öryggi eða stærðir, þ.m.t. samsetning slíkra vara, hugtakanotkun, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, umbúðir, merkingar, áletranir og samræmismatsaðferðir sem notuð eru í tengslum við slíkar vörur; hugtakið nær einnig til krafna sem varða framleiðsluaðferðir og -ferli ef þau hafa áhrif á eiginleika vörunnar,
     h.      „samræmismatsstofa“: stofa sem annast samræmismat, þ.m.t. kvörðun, prófun, vottun og eftirlit,
     i.      „tilkynnt stofa“: samræmismatsstofa sem hefur leyfi til að leysa af hendi samræmismatsverkefni þriðja aðila samkvæmt ákvæðum EES-samningsins um samræmingu á skilyrðum fyrir markaðssetningu á vörum,
     j.      „dýraafurðir“: ná yfir eftirfarandi:
         i.      afurðir úr dýraríkinu:
               a.      matvæli úr dýraríkinu, þ.m.t. hunang og blóð,
               b.      lifandi samlokur, lifandi skrápdýr, lifandi möttuldýr og lifandi sæsniglar, sem ætluð eru til manneldis, og
               c.      dýr, önnur en þau sem um getur í b-lið i. liðar í j-lið, sem ætlunin er að meðhöndla í því skyni að afhenda þau lifandi til neytenda,
         ii.      „aukaafurðir úr dýrum“: heilir skrokkar eða skrokkhlutar dýra, afurðir úr dýraríkinu eða aðrar afurðir fengnar af eða úr dýrum, ekki ætlað til manneldis, að kímefnum undanskildum,
         iii.      „afleiddar afurðir“: afurðir fengnar með einni eða fleiri meðhöndlunum, ummyndunum eða þrepum í vinnslu aukaafurða úr dýrum,
         iv.      fóður úr dýraríkinu og
         v.      matvæli og fóður úr afurðum úr dýraríkinu.

39. gr.

Áframhaldandi dreifing vara sem settar eru á markað.

     1.      Sérhverja vöru, sem sett er á markað á lögmætan hátt í EFTA-ríki innan EES eða í Bretlandi fyrir lok umbreytingartímabilsins, má:
                  a.      áfram bjóða fram á markaði EFTA-ríkjanna innan EES eða Bretlands og flæða milli þessara tveggja markaða þar til hún nær til endanlegs notanda,
                  b.      þegar kveðið er á um það í viðeigandi ákvæðum EES-samningsins, taka í notkun í EFTA-ríkjunum innan EES eða í Bretlandi.
     2.      Þær kröfur, sem settar eru fram í 11. og 12. gr. EES-samningsins og viðeigandi ákvæðum EES-samningsins sem varða markaðssetningu á vörum, þ.m.t. skilyrði fyrir markaðssetningu vara sem gilda um viðkomandi vörur, skulu gilda að því er varðar vörurnar sem um getur í 1. mgr.
     3.      Ákvæði 1. mgr. skulu gilda um allar vörur sem fyrir eru og sem greina má sem slíkar í skilningi II. hluta EES-samningsins, að undanskilinni dreifingu milli markaðar EFTA-ríkjanna innan EES og markaðar Bretlands eða öfugt á:
                  a.      lifandi dýrum og kímefnum,
                  b.      dýraafurðum.
     4.      Að því er varðar tilflutning á lifandi dýrum eða kímefnum milli EFTA-ríkis innan EES og Bretlands eða öfugt skulu ákvæði EES-samningsins, sem talin eru upp í II. viðauka við þennan samning, gilda að því tilskildu að brottfarardagur hafi verið fyrir lok umbreytingartímabilsins.
     5.      Þessi grein skal ekki hafa áhrif á þann möguleika Bretlands eða EFTA-ríkis innan EES að gera ráðstafanir til að banna eða takmarka að vara, sem um getur í 1. mgr., eða flokkur slíkra vara, séu boðin fram á markaði þeirra ef og að því marki sem ákvæði EES-samningsins heimila það.
     6.      Ákvæði þessa bálks skulu ekki hafa áhrif á gildandi reglur um fyrirkomulag varðandi sölu, hugverk, tollferli, tolla og skatta.
     7.      Ekkert í þessari grein leggur samningsaðila þær skyldur á herðar að veita vörum, sem falla undir þessa grein, hagstæðari meðferð en þær vörur hefðu átt rétt á samkvæmt EES-samningnum fyrir lok umbreytingartímabilsins.

40. gr.

Sönnun fyrir setningu á markað.

    Þegar rekstraraðili reiðir sig á 1. mgr. 39. gr. varðandi tiltekna vöru skal það vera hans að sýna fram á, á grundvelli viðeigandi skjals, að varan hafi verið sett á markað í EFTA-ríki innan EES eða Bretlandi fyrir lok umbreytingartímabilsins.

41. gr.

Markaðseftirlit.

     1.      Markaðseftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna innan EES og markaðseftirlitsyfirvöld Bretlands skulu skiptast tafarlaust á viðeigandi upplýsingum um þær vörur sem um getur í 1. mgr. 39. gr. sem þau afla við markaðseftirlit sitt, hverra um sig. Einkum skulu þau miðla hver til annarra og til eftirlitsstofnunar EFTA upplýsingum varðandi vörur sem alvarleg hætta stafar af og varðandi ráðstafanir sem gerðar eru í tengslum við vörur sem ekki uppfylla kröfur, þ.m.t. viðeigandi upplýsingar sem fengnar eru frá samstarfsnetum, úr upplýsingakerfum og gagnasöfnum sem komið er á fót samkvæmt ákvæðum EES-samningsins eða lögum Bretlands varðandi slíkar vörur.
     2.      EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu án tafar senda beiðnir frá markaðseftirlitsyfirvöldum í Bretlandi eða EFTA-ríki innan EES, eftir því sem við á, til samræmismatsstofu með staðfestu á yfirráðsvæði þeirra ef beiðnin varðar samræmismat sem stofan framkvæmdi í hlutverki sínu sem tilkynnt stofa fyrir lok umbreytingartímabilsins. EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu tryggja að samræmismatsstofan bregðist tafarlaust við slíkri beiðni.

42. gr.

Flutningur skráa og skjala sem varða ferli sem þegar er hafið.

    Bretland skal senda án tafar til lögbærs yfirvalds EFTA-ríkis innan EES, sem tilnefnt er í samræmi við málsmeðferðina sem kveðið er á um í viðeigandi ákvæðum EES-samningsins, allar viðeigandi skrár eða skjöl í tengslum við mats-, samþykkis- og leyfisferli sem þegar er hafið daginn fyrir gildistöku þessa samnings og eru undir forystu lögbærs yfirvalds í Bretland í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 13 , reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2009 14 , tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB 15 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/82/EB 16 .

43. gr.

Upplýsingar um fyrri málsmeðferðir við veitingu leyfa fyrir lyfjum gerðar aðgengilegar.

     1.      Bretland skal, að fenginni rökstuddri beiðni frá EFTA-ríki innan EES eða Lyfjastofnun Evrópu, gera málsskjöl vegna markaðsleyfis lyfs, sem lögbært yfirvald í Bretlandi hefur veitt markaðsleyfi fyrir lok umbreytingartímabilsins, tafarlaust aðgengileg sé þess þörf vegna mats á markaðsleyfisumsókn í samræmi við 10. gr. og 10. gr. a í tilskipun 2001/83/EB eða 13. gr. og 13. gr. a í tilskipun 2001/82/EB.
     2.      EFTA-ríki innan EES skal, að fenginni rökstuddri beiðni frá Bretlandi, gera málsskjöl vegna markaðsleyfis lyfs, sem lögbært yfirvald í því EFTA-ríki innan EES hefur veitt markaðsleyfi fyrir lok umbreytingartímabilsins, tafarlaust aðgengileg sé þess þörf vegna mats á markaðsleyfisumsókn í Bretlandi í samræmi við lagalegar kröfur Bretlands, að því marki sem þær endurspegla aðstæður í 10. gr. og 10. gr. a í tilskipun 2001/83/EB eða 13. gr. og 13. gr. a í tilskipun 2001/82/EB.

44. gr.

Upplýsingar í vörslu tilkynntra stofa með staðfestu í Bretlandi eða í EFTA-ríki innan EES gerðar aðgengilegar.

     1.      Að beiðni handhafa vottorðs skal Bretland tryggja að upplýsingar, sem samræmismatsstofa með staðfestu í Bretlandi býr yfir og varða starfsemi hennar sem tilkynntrar stofu samkvæmt ákvæðum EES-samningsins fyrir lok umbreytingartímabilsins, séu tafarlaust gerðar aðgengilegar tilkynntri stofu með staðfestu í EFTA-ríki innan EES sem handhafi vottorðsins tilgreinir.
     2.      Að beiðni handhafa vottorðs skulu EFTA-ríkin innan EES tryggja að upplýsingar, sem tilkynnt stofa með staðfestu í viðkomandi EFTA-ríki innan EES býr yfir og varða starfsemi hennar fyrir lok umbreytingartímabilsins, séu tafarlaust gerðar aðgengilegar samræmismatsstofu með staðfestu í Bretlandi sem handhafi vottorðsins tilgreinir.

45. gr.

Vörur í umflutningi eða geymslu.

    Beita skal ákvæðum EES-samningsins og annarra samninga sem stýra tollferli eða tollmeðferð, sem eru í gildi á lokadegi umbreytingartímabilsins, í allt að 12 mánuði eftir þann dag að því er varðar vörur sem eru, á lokadegi umbreytingartímabilsins, annaðhvort í umflutningi eða í geymslu í vöruhúsi eða á frísvæði undir eftirliti tollyfirvalda. Að því er slíkar vörur varðar má ganga frá sönnun á uppruna afturvirkt í allt að 12 mánuði frá lokum umbreytingartímabilsins, að því tilskildu að ákvæði bókunar 4 við EES-samninginn og einkum 12. gr. (Beinn flutningur) hafi verið uppfyllt.

II. BÁLKUR.

HUGVERK.

46. gr.

Áframhaldandi vernd í Bretlandi á landfræðilegum merkingum.

    Þegar landfræðileg merking, í skilningi reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 110/2008 17 , fyrir vöru frá EFTA-ríki innan EES, nýtur verndar á síðasta degi umbreytingartímabilsins í samræmi við þá reglugerð, skulu þeir sem eiga rétt á að nota landfræðilegu merkinguna, frá og með lokum umbreytingartímabilsins og án endurskoðunar, vera heimilt að nota þessa landfræðilega merkingu í Bretlandi og skal henni veitt a.m.k. sama vernd samkvæmt breskum lögum og hún nýtur samkvæmt eftirfarandi ákvæðum:
     a.      i-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 18 og
     b.      með tilliti til landfræðilegu merkingarinnar sem um er að ræða, 15. gr. (fyrsta undirgrein 3. mgr.), 16. gr. og 23. gr. (1. mgr.) reglugerðar (EB) nr. 110/2008 og, að svo miklu leyti sem hún tengist reglufylgni við þessi ákvæði þeirrar reglugerðar, 1. mgr. 24. gr. þeirrar reglugerðar.
    Þegar landfræðilega merkingin, sem um getur í fyrstu undirgrein, hættir að njóta verndar í EFTA-ríkjunum innan EES eftir lok umbreytingartímabilsins skal fyrsta undirgrein ekki lengur gilda að því er varðar þá landfræðilegu merkingu.
    Fyrsta undirgreinin gildir ekki ef verndina í EFTA-ríkjunum innan EES leiðir af öðrum alþjóðasamningum en EES-samningnum sem EFTA-ríkin innan EES eru aðilar að.
    Þessi grein gildir nema og þangað til samningur, sem leysir þessa grein af hólmi, tekur gildi eða kemur til framkvæmda.

47. gr.

Málsmeðferð við skráningu.

     1.      Skráning, veiting eða vernd skv. 46. gr. þessa samnings skal fara fram endurgjaldslaust af hálfu viðkomandi aðila í Bretlandi, með gögnum sem fyrir liggja í skrám framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. III. viðauki við reglugerð (EB) nr. 110/2008 telst vera skrá að því er þessa grein varðar.
     2.      Að því er varðar 1. mgr. skal þess ekki krafist að þeir sem eiga rétt á að nota landfræðilega merkingu sem um getur í 46. gr. leggi fram umsókn eða gangist undir neina sérstaka stjórnsýslumeðferð.

48. gr.

Áframhaldandi verndun gagnagrunna.

     1.      Handhafi réttar í tengslum við gagnagrunn að því er varðar Bretland í samræmi við 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB 19 , sem myndaðist fyrir lok umbreytingartímabilsins, skal í tengslum við þann gagnagrunn halda framfylgjanlegum hugverkarétti í Bretlandi samkvæmt lögum Bretlands, sem veitir jafnmikla vernd og kveðið er á um í tilskipun 96/9/EB, að því tilskildu að handhafi þess réttar haldi áfram að uppfylla kröfur 11. gr. þeirrar tilskipunar. Verndartími þessa réttar samkvæmt lögum Bretlands skal vera a.m.k. jafnlangur og það tímabil sem eftir er af verndinni sem um getur í 10. gr. tilskipunar 96/9/EB.
                      Eftirtaldir einstaklingar og fyrirtæki skulu teljast uppfylla kröfur 11. gr. tilskipunar 96/9/EB:
                  a.      breskir ríkisborgarar,
                  b.      einstaklingar sem hafa fasta búsetu í Bretlandi,
                  c.      fyrirtæki með staðfestu í Bretlandi, að því tilskildu að hafi slíkt fyrirtæki einungis skráða skrifstofu sína í Bretlandi sé starfsemi þess tengd hagkerfi Bretlands eða EFTA-ríkis innan EES til frambúðar.

49. gr.

Tæming réttar.

    Hugverkaréttur, sem tæmdist bæði í EFTA-ríkjunum innan EES og í Bretlandi fyrir lok umbreytingartímabilsins samkvæmt þeim skilyrðum sem kveðið er á um í ákvæðum EES-samningsins, skal áfram teljast tæmdur bæði í EFTA-ríkjunum innan EES og í Bretlandi.

III. BÁLKUR.

LÖGREGLU- OG DÓMSMÁLASAMSTARF Í SAKAMÁLUM SEM ÞEGAR ER HAFIÐ.

50. gr.

Gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum sem þegar er hafin.

     1.      Í aðstæðum í Bretlandi sem varða Ísland eða Noreg og í aðstæðum á Íslandi og í Noregi sem varða Bretland skal samningurinn, sem ráðið gerði í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins 20 („samningurinn um gagnkvæma réttaraðstoð“) og bókunin, sem ráðið gerði í samræmi við 34. gr. sáttmálans um Evrópusambandið við samninginn um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins 21 , gilda að því er varðar beiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð sem stjórnvald eða dómsvald tekur við samkvæmt viðkomandi gerningi fyrir lok umbreytingartímabilsins.
     2.      Lögbær yfirvöld í Bretlandi geta haldið áfram þátttöku sinni í sameiginlegum rannsóknarteymum, sem Ísland eða Noregur eiga hlut að, sem þau tóku þátt í fyrir lok umbreytingartímabilsins ef þessum sameiginlegu rannsóknarteymum hefur verið komið á fót fyrir lok umbreytingartímabilsins í samræmi við 13. gr. samningsins um gagnkvæma réttaraðstoð.
     3.      Í aðstæðum í Bretlandi sem varða Liechtenstein og í aðstæðum í Liechtenstein sem varða Bretland skal 2. kafli III. bálks samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 („samningurinn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins“) 22 gilda að því er varðar beiðnir um gagnkvæma réttaraðstoð sem tekið er við samkvæmt viðkomandi gerningi fyrir lok umbreytingartímabilsins af hálfu miðlægs yfirvalds eða dómsyfirvalds.

51. gr.

Málsmeðferð sem þegar er hafin vegna framsals og afhendingar.

     1.      Með fyrirvara um 2. mgr. skal, í aðstæðum í Bretlandi sem varða Ísland, Liechtenstein eða Noreg og í aðstæðum á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi sem varða Bretland, 4. kafli III. bálks samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins gilda að því marki sem við á í tengslum við framsalsbeiðni ef hinn eftirlýsti var handtekinn fyrir lok umbreytingartímabilsins vegna framfylgdar slíkrar beiðni, óháð ákvörðun þess dómsvalds sem annast framkvæmdina, um það hvort hinum handtekna skuli haldið í gæsluvarðhaldi eða hann látinn laus til bráðabirgða.
     2.      Í aðstæðum í Bretlandi sem varða Ísland eða Noreg og í aðstæðum á Íslandi og í Noregi sem varða Bretland skal samningurinn milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs 23 gilda að því er varðar beiðni um afhendingu, sem 35. gr. þess samnings (umbreytingarákvæði) gildir um, ef hinn eftirlýsti var handtekinn fyrir lok umbreytingartímabilsins vegna framfylgdar slíkrar beiðni, óháð ákvörðun dómsvaldsins sem annast framkvæmdina um það hvort hinum handtekna skuli haldið í gæsluvarðhaldi eða hann látinn laus til bráðabirgða.

52. gr.

Löggæslusamvinna sem þegar er hafin, lögreglusamvinna og upplýsingaskipti.

    Í aðstæðum í Bretlandi sem varða Ísland, Liechtenstein eða Noreg og í aðstæðum á Íslandi, í Liechtenstein og í Noregi sem varða Bretland skulu eftirtaldir gerningar gilda sem hér segir:
     a.      39. og 40. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins, ásamt 42. og 43. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins skulu gilda að því er varðar:
         i.      beiðnir í samræmi við 39. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins sem berast fyrir lok umbreytingartímabilsins þeirri miðlægu stofnun sem annast alþjóðlega lögreglusamvinnu hjá samningsaðila eða þeim lögbæru yfirvöldum aðilans, sem beiðni er beint til, eða þeim lögregluyfirvöldum, sem beiðni er beint til, sem hafa ekki vald til að sinna beiðninni en framsenda hana lögbærum yfirvöldum,
         ii.      beiðnir um aðstoð í samræmi við 1. mgr. 40. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins sem berast yfirvaldi, sem samningsaðili tilnefnir, fyrir lok umbreytingartímabilsins,
         iii.      eftirlit yfir landamæri sem fram fer án fyrirframleyfis í samræmi við 2. mgr. 40. gr. samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins ef eftirlitið hófst fyrir lok umbreytingartímabilsins,
     b.      rammaákvörðun ráðsins 2006/960/DIM gildir að því er varðar beiðnir sem berast fyrir lok umbreytingartímabilsins til lögbærs löggæsluyfirvalds sem beiðni er beint til,
     c.      ákvörðun ráðsins 2007/533/DIM 24 gildir að því er varðar skipti á viðbótarupplýsingum þegar fram kom jákvæð niðurstaða fyrir lok umbreytingartímabilsins vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfinu, að því tilskildu að ákvæði hennar eigi við um Bretland á síðasta degi umbreytingartímabilsins.

53. gr.

Staðfesting móttöku eða handtöku.

     1.      Það yfirvald, sem er bært til að gefa út eða leggja fram beiðni, getur farið fram á staðfestingu á móttöku beiðni, sem um getur í 1. og 3. mgr. 50. gr. og í i. og ii. lið a-liðar og í b-lið 52. gr. innan 10 daga frá lokum umbreytingartímabilsins ef það hefur efasemdir um það hvort tekið hafi verið á móti slíkri beiðni af hálfu þess yfirvalds sem annast framkvæmdina eða þess yfirvalds sem beiðni er beint til fyrir lok umbreytingartímabilsins.
     2.      Í þeim tilvikum sem um getur í 51. gr. þar sem lögbært dómsyfirvald sem gefur út beiðni hefur efasemdir um hvort eftirlýstur maður hafi verið handtekinn fyrir lok umbreytingartímabilsins getur það farið fram á það við lögbært dómsyfirvald sem annast framkvæmdina að það staðfesti handtökuna innan 10 daga frá lokum umbreytingartímabilsins.
     3.      Yfirvaldið, sem annast framkvæmdina eða beiðni er beint til og um getur í 1. og 2. mgr., skal, nema staðfesting hafi þegar verið lögð fram samkvæmt viðeigandi ákvæðum, svara beiðni um staðfestingu á móttöku eða handtöku innan 10 daga frá móttöku beiðninnar.

54. gr.

Beiting gerða Sambandsins.

     1.      Að því er þennan bálk varðar og með hliðsjón af Íslandi og Noregi telst vísun til samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins og gerða Sambandsins vera vísun til þeirra gerða eins og þeim er beitt með (eftir því sem við á):
                  a.      samningnum sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur hafa gert með sér um að koma á réttindum og skyldum milli Írlands og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands annars vegar og lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs hins vegar á þeim sviðum Schengen-gerðanna sem taka til þessara ríkja 25 ,
                  b.      samningnum sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna 26 ,
                  c.      samningnum milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um beitingu tiltekinna ákvæða í samningnum frá 29. maí 2000 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum milli aðildarríkja Evrópusambandsins og bókuninni við hann frá 2001 27 .
     2.      Að því er þennan bálk varðar og með hliðsjón af Liechtenstein skal líta á vísanir til samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins og gerða Sambandsins sem vísanir til þeirra gerða sem er beitt samkvæmt bókuninni sem Evrópusambandið, Evrópubandalagið, Svissneska ríkjasambandið og Furstadæmið Liechtenstein gerðu með sér um aðild Furstadæmisins Liechtenstein að samningnum milli Evrópusambandsins, Evrópubandalagsins og Svissneska ríkjasambandsins um þátttöku Svissneska ríkjasambandsins í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-réttarreglnanna 28 að því er Liechtenstein varðar.

IV. BÁLKUR.

GÖGN OG UPPLÝSINGAR SEM UNNIN ERU EÐA AFLAÐ ER FYRIR LOK UMBREYTINGARTÍMABILSINS EÐA Á GRUNDVELLI ÞESSA SAMNINGS.

55. gr.

Skilgreiningar.

     1.      Í þessum bálki merkir „ákvæði um vernd persónuupplýsinga“:
                  a.      reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679 29 , að undanskildum VII. kafla hennar,
                  b.      tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/680 30 ,
                  c.      tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB 31 ,
                  d.      hver þau ákvæði laga Sambandsins önnur sem varða vernd persónuupplýsinga.
     2.      Að því er varðar b-lið 1. mgr. skal 54. gr. gilda að breyttu breytanda.

56. gr.

Vernd persónuupplýsinga.

     1.      Ákvæðin um vernd persónuupplýsinga skulu gilda í Bretlandi að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga um skráða einstaklinga utan Bretlands, að því tilskildu að persónuupplýsingarnar:
                  a.      hafi verið unnar samkvæmt ákvæðum um vernd persónuupplýsinga í Bretlandi fyrir lok umbreytingartímabilsins, eða
                  b.      séu unnar í Bretlandi eftir lok umbreytingartímabilsins á grundvelli þessa samnings.
     2.      Ákvæði 1. mgr. gilda ekki að því marki sem persónuupplýsingarnar, sem um getur þar, njóta fullnægjandi verndar, sem staðfest hefur verið með gildum ákvörðunum í samræmi við 3. mgr. 45. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 eða 3. mgr. 36. gr. tilskipunar (ESB) 2016/680.
     3.      Að því marki sem ákvörðun, sem um getur í 2. mgr., er ekki lengur gild skal Bretland tryggja vernd persónuupplýsinga sem er í meginatriðum sambærileg við þá sem kveðið er á um í ákvæðum um vernd persónuupplýsinga að því er varðar vinnslu á persónuupplýsingum skráðu einstaklingana sem um getur í 1. mgr.

57. gr.

Trúnaðarmeðferð og takmörkuð notkun gagna og upplýsinga í Bretlandi.

    Með fyrirvara um 56. gr. skulu ákvæði EES-samningsins og ákvæði annarra samninga eða ákvæði sem fá gildi með öðrum samningum, þ.m.t. þessum samningi, um trúnaðarmeðferð, takmarkaða notkun, geymslutakmörkun og kröfu um að gögnum og upplýsingum verði eytt gilda, auk ákvæða um vernd persónuupplýsinga, að því er varðar gögn og upplýsingar sem yfirvöld eða opinberar stofnanir Bretlands eða í Bretlandi eða samningsstofnanir, eins og skilgreint er í 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB 32 , Bretlands eða í Bretlandi fá:
     a.      fyrir lok umbreytingartímabilsins eða
     b.      á grundvelli þessa samnings.

58. gr.

Meðferð gagna og upplýsinga sem fengin eru frá Bretlandi.

    Meðferð EFTA-ríkjanna innan EES á gögnum og upplýsingum, sem fengin eru frá Bretlandi fyrir lok umbreytingartímabilsins eða fengin eftir lok umbreytingartímabilsins á grundvelli þessa samnings, skal ekki vera frábrugðin meðferð gagna og upplýsinga sem fengin eru frá EFTA-ríki innan EES eða aðildarríki Sambandsins af þeirri ástæðu einni að Bretland hafi gengið úr Sambandinu.

V. BÁLKUR.

FERLI OPINBERRA INNKAUPA OG SVIPUÐ FERLI SEM ÞEGAR ERU HAFIN.

59. gr.

Skilgreiningar.

    Í þessum bálki merkir „viðeigandi reglur“:
     a.      almennar meginreglur EES-samningsins sem gilda um gerð opinberra samninga,
     b.      tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB 33 , 2014/23/ESB 34 , 2014/24/ESB 35 og 2014/25/ESB 36 ,
     c.      reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2195/2002 37 og (EB) nr. 1370/2007 38 , 4. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3577/92 39 , 11. og 12. gr. tilskipunar ráðsins 96/67/EB 40 , 16., 17. og 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 1008/2008 41 , 6. og 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 42 og
     d.      önnur sértæk ákvæði EES-samningsins varðandi reglur um opinber innkaup.

60. gr.

Reglur um innkaupaferli sem er þegar hafið.

     1.      Viðeigandi reglur skulu gilda:
                  a.      með fyrirvara um b-lið, um ferli sem samningsyfirvöld eða samningsstofnanir frá EFTA-ríkjunum innan EES eða Bretlandi hefja samkvæmt þessum reglum fyrir lok umbreytingartímabilsins og er enn ekki lokið á síðasta degi þess, þ.m.t. ferli þar sem notuð eru gagnvirk innkaupakerfi og einnig ferli þar sem kynningartilkynning eða reglubundin kynningartilkynning eða tilkynning um að hæfismatskerfi sé fyrir hendi eru notaðar til að auglýsa útboð,
                  b.      um ferli sem um getur í 2., 3. og 4. mgr. 29. gr. tilskipunar 2009/81/EB, 2.–5. gr. 33. gr. tilskipunar 2014/24/EB og 2. mgr. 51. gr. tilskipunar 2014/25/EB sem tengjast framkvæmd eftirtalinna rammasamninga sem samningsyfirvöld eða samningsstofnanir EFTA-ríkjanna innan EES eða Bretlands gera, þ.m.t. gerð samninga á grundvelli slíkra rammasamninga:
                 i.      rammasamninga, sem gerðir eru fyrir lok umbreytingartímabilsins en eru hvorki útrunnir né hefur þeim verið sagt upp á síðasta degi umbreytingartímabilsins eða
                 ii.      rammasamninga sem gerðir eru eftir lok umbreytingartímabilsins í samræmi við ferli sem heyrir undir a-lið þessarar málsgreinar.
     2.      Með fyrirvara um beitingu hvers konar takmarkana í samræmi við EES-samninginn skulu samningsyfirvöld og samningsstofnanir virða meginregluna um bann við mismunun að því er varðar bjóðendur eða, eftir því sem við á, aðila sem eiga að öðru leyti rétt á að leggja fram umsóknir, frá EFTA-ríkjunum innan EES og Bretlandi í tengslum við ferlið sem um getur í 1. mgr.
     3.      Litið skal svo á að ferli, sem um getur í 1. mgr., sé hafið þegar útboðsauglýsing eða annað boð um að leggja fram umsóknir hefur verið kynnt í samræmi við viðeigandi reglur. Heimili viðeigandi reglur notkun ferlis þar sem ekki er krafist útboðsauglýsingar eða annars boðs um að leggja fram umsóknir skal litið svo á að ferlið sé hafið þegar samningsyfirvaldið eða samningsstofnunin hefur haft samband við rekstraraðila í tengslum við þetta tiltekna ferli.
     4.      Litið skal svo á að ferlinu, sem um getur í 1. mgr., sé lokið:
                  a.      þegar tilkynning um samningsgerð hefur verið birt í samræmi við viðeigandi reglur eða, ef ekki er krafist birtingar á henni í reglunum, við undirritun viðeigandi samnings eða
                  b.      þegar bjóðendum eða aðilum sem áttu að öðru leyti rétt á að leggja fram umsóknir, eftir því sem við á, er tilkynnt um ástæður fyrir því að samningurinn var ekki gerður ef samningsyfirvaldið eða samningsstofnunin ákvað að gera ekki samning.
     5.      Þessi grein hefur ekki áhrif á reglur samningsaðilanna varðandi tolla, vöruflutninga, þjónustustarfsemi, viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi eða hugverkarétt.

61. gr.

Reglur um meðferð kæru.

    Ákvæði tilskipana ráðsins 89/665/EBE 43 og 92/13/EBE 44 skulu gilda varðandi opinbera innkaupaferlið sem um getur í 60. gr. þessa samnings og fellur undir gildissvið þessara ákvæða.

62. gr.

Samvinna.

    Ákvæði 2. mgr. 61. gr. tilskipunar 2013/24/ESB skulu ekki gilda lengur en í 9 mánuði frá lokum umbreytingartímabilsins að því er varðar ferli samkvæmt þeirri tilskipun sem samningsyfirvöld frá Bretlandi hefur fyrir lok umbreytingartímabilsins og er ekki lokið á síðasta degi þess.

VI. BÁLKUR.

DÓMSMEÐFERÐ.

63. gr.

Fyrirsvar frammi fyrir EFTA-dómstólnum.

     1.      Hafi lögmaður, sem hefur heimild til að flytja mál fyrir dómstólum í Bretlandi, verið í fyrirsvari fyrir eða aðstoðað málsaðila í máli fyrir EFTA-dómstólnum eða í tengslum við beiðnir um ráðgefandi álit sem farið var fram á fyrir lok umbreytingartímabilsins má lögmaðurinn áfram vera í fyrirsvari fyrir eða aðstoða málsaðilann í þessari málsmeðferð eða við þessar beiðnir. Þessi réttur skal gilda um öll stig málsmeðferðarinnar.
     2.      Þegar lögmenn, sem hafa heimildir til að flytja mál fyrir breskum dómstólum, eru í fyrirsvari fyrir eða aðstoða málsaðila fyrir EFTA-dómstólnum í þeim málum sem um getur í 1. mgr. skulu þeir njóta að öllu leyti sömu meðferðar og lögmenn sem hafa heimild til að flytja mál fyrir dómstólum í EFTA-ríkjum innan EES þegar þeir eru í fyrirsvari fyrir eða aðstoða málsaðila fyrir EFTA-dómstólnum.

FJÓRÐI HLUTI.

STOFNANA- OG LOKAÁKVÆÐI.

I. BÁLKUR.

SAMRÆMD TÚLKUN OG BEITING.

64. gr.

Eftirlit með framkvæmd og beitingu annars hluta.

     1.      Í Bretlandi skal eftirlit með framkvæmd og beitingu annars hluta vera á hendi sjálfstæðs yfirvalds („yfirvaldið“) sem skal hafa jafngildar heimildir og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitir til þess að gera athuganir að eigin frumkvæði á meintum brotum stjórnvalda í Bretlandi á öðrum hluta þessa samnings og til að taka við kvörtunum frá ríkisborgurum EFTA-ríkja innan EES og aðstandendum þeirra með það að markmiði að gera slíkar athuganir. Yfirvaldið skal einnig hafa rétt til þess að höfða mál fyrir lögbærum dómstólum í Bretlandi í kjölfar slíkra kvartana með viðeigandi dómsmeðferð með það að markmiði að leita viðeigandi úrræða.
     2.      Í EFTA-ríkjunum innan EES skal eftirlit með framkvæmd og beitingu annars hluta vera á hendi eftirlitsstofnunar EFTA sem skal hafa jafngildar heimildir og þær sem leiðir af EES-samningnum og samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls („samningurinn um eftirlitsstofnun og dómstól“). Þetta felur í sér getu til að gera athuganir að eigin frumkvæði á meintum brotum stjórnvalda í EFTA-ríki innan EES á öðrum hluta og til að taka við kvörtunum frá breskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra með það að markmiði að gera slíkar athuganir. Eftirlitsstofnun EFTA skal einnig hafa rétt til að fara með mál fyrir EFTA-dómstólinn samkvæmt samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól.
     3.      Eftirlitsstofnun EFTA og yfirvaldið skulu hvort um sig upplýsa sameiginlegu nefndina árlega um framkvæmd og beitingu annars hluta í EFTA-ríkjunum innan EES og í Bretlandi, eftir því sem við á. Þessar upplýsingar skulu einkum varða ráðstafanir sem gerðar eru til að framkvæma eða til að fara að ákvæðum annars hluta og fjölda og eðli þeirra kvartana sem berast.
     4.      Eigi síðar en 8 árum frá lokum umbreytingartímabilsins skal sameiginlega nefndin meta eftirlitsfyrirkomulagið sem komið er á fót með þessari grein. Í kjölfar slíks mats er henni heimilt að ákveða, í góðri trú, skv. f-lið 4. mgr. 65. gr. og 66. gr., að Bretland og EFTA-ríkin innan EES geti hætt eftirlitsfyrirkomulaginu sem sett er fram í 1.–3. mgr. þessarar greinar.

II. BÁLKUR.

STOFNANAÁKVÆÐI.

65. gr.

Sameiginlega nefndin.

     1.      Hér með er komið á fót sameiginlegri nefnd sem skipuð er fulltrúum allra samningsaðilanna. Samningsaðilar skulu skiptast á um að fara með formennsku í sameiginlegu nefndinni.
     2.      Sameiginlega nefndin skal koma saman að beiðni eins samningsaðila og, hvað sem öðru líður, eigi sjaldnar en einu sinni á ári eftir lok umbreytingartímabilsins. Sameiginlega nefndin skal setja niður fundaáætlun sína og dagskrá funda með samhljóða samþykki. Fari samningsaðili fram á fund í sameiginlegu nefndinni skal slíkur fundur fara fram eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 45 dögum eftir móttöku beiðninnar nema komist sé að samkomulagi um annað.
     3.      Sameiginlega nefndin skal bera ábyrgð á framkvæmd og beitingu þessa samnings. Samningsaðili getur vísað til sameiginlegu nefndarinnar hvaða máli sem er sem tengist framkvæmd, beitingu og túlkun þessa samnings.
     4.      Sameiginlega nefndin skal:
                  a.      hafa yfirumsjón með og auðvelda framkvæmd og beitingu þessa samnings,
                  b.      ákveða verkefni fagnefnda og hafa umsjón með starfi þeirra,
                  c.      leita viðeigandi leiða og aðferða til að fyrirbyggja vandamál sem upp gætu komið á sviðum sem heyra undir þennan samning eða til að leysa deilur sem kunna að rísa varðandi túlkun og beitingu samnings þessa, m.a. í samræmi við 68. gr.,
                  d.      samþykkja eigin starfsreglur og starfsreglur fagnefnda,
                  e.      taka til umfjöllunar hvers konar málefni sem tengjast einhverju af þeim sviðum sem heyra undir þennan samning,
                  f.      samþykkja ákvarðanir og leggja fram tilmæli, eins og fram kemur í 66. gr.,
                  g.      samþykkja breytingar á þessum samningi í þeim tilvikum þar sem kveðið er á um slíkt í þessum samningi.
     5.      Sameiginlegu nefndinni er heimilt að:
                  a.      koma á fót einni eða fleiri fagnefndum sér til aðstoðar við störf sín og leysa þær upp,
                  b.      fela fagnefndunum skyldustörf, önnur en þau sem um getur í b-, d-, f- og g-lið 4. mgr.,
                  c.      breyta verkefnum fagnefndanna,
                  d.      þó ekki í tengslum við hluta eitt og fjögur, til loka fjórða árs frá lokum umbreytingartímabilsins, samþykkja ákvarðanir um breytingar á þessum samningi þegar slíkar breytingar eru nauðsynlegar til þess að leiðrétta villur, yfirsjónir eða aðra galla eða til þess að eiga við aðstæður sem voru ófyrirséðar við undirritun þessa samnings og að því tilskildu að slíkar ákvarðanir breyti ekki grundvallarþáttum þessa samnings,
                  e.      grípa til annarra aðgerða í störfum sínum sem samningsaðilar taka ákvörðun um.
     6.      Sameiginlega nefndin skal árlega gefa út skýrslu um framkvæmd þessa samnings eftir lok umbreytingartímabilsins.

66. gr.

Ákvarðanir og tilmæli.

     1.      Sameiginlega nefndin skal, að því er varðar samning þennan, hafa vald til að samþykkja ákvarðanir vegna allra málefna sem kveðið er á um í þessum samningi og beina viðeigandi tilmæli til samningsaðilanna.
     2.      Með fyrirvara um 3. mgr. skulu ákvarðanir, sem sameiginlega nefndin samþykkir, vera við gildistöku bindandi fyrir samningsaðilana og skulu samningsaðilarnir koma þeim til framkvæmda.
     3.      Ef ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar getur verið bindandi fyrir samningsaðila því aðeins að innlend lagaskilyrði hafi verið uppfyllt skal ákvörðunin öðlast gildi fyrir þann samningsaðila fyrsta dag annars mánaðar eftir þann dag þegar viðkomandi samningsaðili tilkynnir vörsluaðila að innlendum skilyrðum hans hafi verið fullnægt nema samkomulag náist um annað í sameiginlegu nefndinni.
     4.      Sameiginlega nefndin skal samþykkja ákvarðanir sínar og leggja fram tilmæli sín með samhljóða samþykki.

III. BÁLKUR.

LAUSN DEILUMÁLA.

67. gr.

Samvinna.

    Samningsaðilar skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta með samvinnu og samráði til að finna lausn sem allir aðilar geta sætt sig við í hverju því máli sem getur haft áhrif á framkvæmd hans.

68. gr.

Lausn deilumála.

     1.      Hver samningsaðili getur vísað deilu varðandi túlkun eða beitingu þessa samnings til sameiginlegu nefndarinnar.
     2.      Sameiginlega nefndin skal leitast við að leysa deilumál. Hún skal fá allar þær upplýsingar sem að gagni gætu komið við mögulega ítarlega rannsókn á stöðunni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn. Í þessu skyni skal sameiginlega nefndin kanna alla möguleika á því að viðhalda góðri framkvæmd samningsins. Sameiginlega nefndin getur leyst úr deilumálum með ákvörðun.

IV. BÁLKUR.

LOKAÁKVÆÐI.

69. gr.

Viðaukar.

    I. og II. viðauki eru óaðskiljanlegur hluti þessa samnings.

70. gr.

Gildur texti og vörsluaðili.

    Samningur þessi er gerður í einu frumriti á ensku.
    Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili samnings þessa.

71. gr.

Gildistaka og beiting.

     1.      Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við lagaskilyrði hvers samningsaðila um sig. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
     2.      Samningur þessi öðlast gildi 30. mars 2019 gagnvart samningsaðilum, sem þá hafa afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu, að því tilskildu að a.m.k. eitt EFTA-ríki innan EES og Bretland hafi afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu
     3.      Að því er varðar EFTA-ríki innan EES, sem afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi, skal samningurinn öðlast gildi daginn eftir að skjal þess hefur verið afhent til vörslu.
     4.      Ákvæði annars og þriðja hluta, að undanskildum 18. og 42. gr., og einnig 64. og 68. gr., skulu gilda frá og með lokum umbreytingartímabilsins.


    Gjört í London 2. apríl 2019 í einu frumriti á ensku sem skal afhent vörsluaðilanum til vörslu sem sendir öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:

    ………………………………………………………

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Furstadæmisins Liechtenstein:

    ……………………………………………………….

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs:

    ……………………………………………………….

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands:

    ……………………………………………………….


VIÐAUKAR.
I. viðauki.
Samræming á sviði almannatrygginga.
I. hluti.
Ákvarðanir og tilmæli framkvæmdaráðsins.

Gildandi löggjöf (A-röð):
     ákvörðun A1 frá 12. júní 2009 um að koma á samráðs- og sáttaferli varðandi gildi skjala, það hvaða löggjöf skuli gilda og úthlutun bóta samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 1),
     ákvörðun A2 frá 12. júní 2009 um túlkun 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um löggjöf sem útsendir starfsmenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem starfa tímabundið utan lögbærs ríkis, heyra undir (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 5),
     ákvörðun A3 frá 17. desember 2009 um uppsöfnun óslitinna útsendingartímabila sem lokið er við samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 149, 8.6.2010, bls. 3).

Skipti á rafrænum gögnum (E-röð):
     ákvörðun E1 frá 12. júní 2009 um hagnýtt fyrirkomulag vegna aðlögunartímabils varðandi upplýsingaskipti með rafrænum aðferðum sem um getur í 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 9),
     ákvörðun E2 frá 3. mars 2010 um að koma á málsmeðferð vegna breytinga á upplýsingum um þá aðila sem eru skilgreindir í 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og skráðir eru í rafræna skrá sem er óaðskiljanlegur hluti rafrænnar miðlunar upplýsinga um almannatryggingar (EESSI) (Stjtíð. ESB C 187, 10.7.2010, bls. 5),
     ákvörðun E4 frá 13. mars 2011 um umbreytingartímabilið sem skilgreint er í 95. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 152, 20.5.2014, bls. 21).

Fjölskyldubætur (F-röð):
     ákvörðun F1 frá 12. júní 2009 um túlkun 68. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 að því er varðar reglur um forgang þegar fjölskyldubætur skarast (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 11),
     ákvörðun F2 frá 23. júní 2015 um gagnaskipti milli stofnana vegna veitingar fjölskyldubóta (Stjtíð. ESB C 52, 11.2.2016, bls. 11).

Þverlæg málefni (H-röð):
     ákvörðun H1 frá 12. júní 2009 um skiptin frá reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 yfir í reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009 og beitingu ákvarðana og tilmæla framkvæmdaráðsins varðandi samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 13-),
     ákvörðun H2 frá 12. júní 2009 um starf og samsetningu tækninefndar um gagnavinnslu á vegum framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 17),
     ákvörðun H3 frá 15. október 2009 um ákvörðun dagsetningar sem taka þarf tillit til varðandi umreikningsgengi sem um getur í 90. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 56),
     ákvörðun H4 frá 22. desember 2009 um skipan og starfshætti endurskoðunarnefndar framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 107, 24.4.2010, bls. 3),
     ákvörðun nr. H5 frá 18. mars 2010 um samvinnu um að berjast gegn svikum og villum innan ramma reglugerðar ráðsins (EB) nr. 883/2004 og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 149, 8.4.2010, bls. 5),
     ákvörðun H6 frá 16. desember 2010 um beitingu tiltekinna meginreglna varðandi söfnun tímabila skv. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 45, 12.2.2011, bls. 5),
     ákvörðun H7 frá 25. júní 2015 um endurskoðun ákvörðunar H3 um ákvörðun dagsetningar sem taka þarf tillit til varðandi umreikningsgengi sem um getur í 90. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 52, 11.2.2016, bls. 13).

Lífeyrir (P-röð):
     ákvörðun P1 frá 12. júní 2009 um túlkun 50. gr. (4. mgr.), 58. gr. og 87. gr. (5. mgr.) reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um úthlutun bóta vegna örorku, elli og til eftirlifenda (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 21),
     tilmæli P1 frá 12. júní 2009 um Gottardo-dóminn, en samkvæmt honum skulu þau kjör, sem ríkisborgurum aðildarríkis eru tryggð með tvíhliða almannatryggingasamningi við land utan Bandalagsins, einnig veitt launþegum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 47).

Endurheimt (R-röð):
     ákvörðun R1 frá 20. júní 2013 um túlkun 85. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 279, 27.9.2013, bls. 11).

Veikindi (S-röð):
     ákvörðun S1 frá 12. júní 2009 um evrópska sjúkratryggingakortið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 23),
     ákvörðun S2 frá 12. júní 2009 um tækniforskriftir fyrir evrópska sjúkratryggingakortið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 26),
     ákvörðun S3 frá 12. júní 2009 um skilgreiningu þeirrar aðstoðar sem fellur undir 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 27. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og 3. mgr. A-hluta 25. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 40),
     ákvörðun S5 frá 2. október 2009 um túlkun hugtaksins „aðstoð“ eins og það er skilgreint í va-lið 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 vegna veikinda eða meðgöngu og fæðingar skv. 17. gr., 19. gr., 20. gr., 22. gr., 24. gr. (1. mgr.), 25. gr., 26. gr., 27. gr. (1., 3., 4. og 5. mgr.), 28. gr., 34. gr. og 36. gr. (1. og 2. mgr.) reglugerðar (EB) nr. 883/2004, og um útreikning fjárhæða til endurgreiðslu skv. 62., 63. og 64. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 54),
     ákvörðun S6 frá 22. desember 2009 um skráningu í búsetuaðildarríki skv. 24. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 og samantekt skráa sem kveðið er á um í 4. mgr. 64. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 107, 27.4.2010, bls. 6),
     ákvörðun S8 frá 15. júní 2011 um að láta í té gervilimi, stærri stoðtæki og aðra verulega aðstoð sem kveðið er á um í 33. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 262, 6.9.2011, bls. 6),
     ákvörðun S9 frá 20. júní 2013 um tilhögun endurgreiðslu vegna framkvæmdar 35. og 41. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 279, 27.9.2013, bls. 8),
     ákvörðun S10 frá 19. desember 2013 um að breyta frá reglugerðum (EBE) nr. 1408/71 og 574/72 yfir í reglugerðir (EB) nr. 883/2004 og 987/2009 og beitingu verklagsreglna vegna endurgreiðslna (Stjtíð. ESB C 152, 20.5.2014, bls. 16),
     tilmæli S1 frá 15. mars 2012 um fjárhagslega þætti varðandi líffæragjöf lifandi gjafa yfir landamæri (Stjtíð. ESB C 240, 10.8.2012, bls. 3).

Atvinnuleysi (U-röð):
     ákvörðun U1 frá 12. júní 2009 um 3. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 að því er varðar hækkun atvinnuleysisbóta vegna aðstandenda (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 42),
     ákvörðun U2 frá 12. júní 2009 um gildissvið 2. mgr. 65. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um rétt einstaklinga, sem eru atvinnulausir með öllu, til atvinnuleysisbóta, annarra en þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri og voru búsettir í öðru aðildarríki en lögbæru aðildarríki þegar þeir störfuðu síðast sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 43),
     ákvörðun nr. U3 frá 12. júní 2009 um gildissvið hugtaksins „atvinnuleysi að hluta til“ sem á við um atvinnulausa einstaklinga sem um getur í 1. mgr. 65. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 45),
     ákvörðun U4 frá 13. desember 2011 um málsmeðferð við endurgreiðslu skv. 6. og 7. mgr. 65. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og 70. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 57, 25.2.2012, bls. 4),
     tilmæli U1 frá 12. júní 2009 um löggjöfina sem gildir um atvinnulausa einstaklinga sem eru í hlutastarfi í öðru aðildarríki en búseturíkinu, hvort heldur sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 49),
     tilmæli U2 frá 12. júní 2009 um beitingu a-liðar 1. mgr. 64. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 gagnvart atvinnulausum einstaklingum sem fylgja mökum eða sambýlismönnum/-konum sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í aðildarríki sem er annað en lögbæra ríkið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 51).

II. hluti.
Gerðir sem vísað er til.

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, 45 eins og henni var breytt með:
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 988/2009 frá 16. september 2009, 46
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1244/2010 frá 9. desember 2010, 47
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 465/2012 frá 22. maí 2012, 48
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1224/2012 frá 18. desember 2012, 49
     reglugerð ráðsins (ESB) nr. 517/2013 frá 13. maí 2013, 50
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1372/2013 frá 19. desember 2013, 51 eins og henni var breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1368/2014 frá 17. desember 2014, 52
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2017/492 frá 21. mars 2017. 53

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa 54 , eins og henni var breytt með:
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1244/2010 frá 9. desember 2010, 55
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 465/2012 frá 22. maí 2012, 56
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1224/2012 frá 18. desember 2012, 57
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1372/2013 frá 19. desember 2013, 58
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1368/2014 frá 17. desember 2014, 59
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2017/492 frá 21. mars 2017. 60

III. hluti.
Aðlaganir á reglugerðum (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009.

    Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 883/2004 skulu, að því er varðar þennan samning, aðlöguð sem hér segir:
     a.      Eftirfarandi bætist við III. viðauka:
             „BRETLAND“.
     b.      Eftirfarandi bætist við VI. viðauka:
             „BRETLAND
                      Atvinnu- og stuðningsgreiðsla (Employment and Support Allowance – ESA)
              a.      Atvinnu- og stuðningsgreiðslur sem úthlutað er fyrir 1. apríl 2016 teljast fyrsta 91 daginn (matsáfangi) vera sjúkrabætur í peningum. Frá 92. degi teljast atvinnu- og stuðningsgreiðslur (aðaláfangi) vera örorkubætur.
              b.      Atvinnu- og stuðningsgreiðslur, sem úthlutað er 1. apríl 2016 eða síðar, teljast fyrstu 365 dagana (matsáfangi) vera sjúkrabætur í peningum. Frá 366. degi teljast atvinnu- og stuðningsgreiðslur (stuðningshópur) vera örorkubætur.
                      Löggjöf Stóra-Bretlands: 1. hluti velferðarlaga (Welfare Reform Act) 2007.
                      Löggjöf Norður-Írlands: 1. hluti velferðarlaga (Welfare Reform Act) (Norður-Írland) 2007.“
     c.      Eftirfarandi bætist við í 1. hluta III. viðauka:
             „BRETLAND
                      Allar umsóknir um eftirlaunalífeyri, lífeyri frá ríkinu skv. 1. hluta laga um lífeyri frá 2014, ekknalífeyri og bætur vegna ástvinamissis nema þær þar sem á skattári sem hófst 6. apríl 1975 eða síðar:
             i.      hlutaðeigandi aðili hefur lokið trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum samkvæmt löggjöf Bretlands og annars aðildarríkis og eitt (eða fleiri) skattár teljast ekki fullgild ár í skilningi löggjafar Bretlands,
             ii.      tekið væri tillit til tryggingatímabila, sem er lokið samkvæmt gildandi löggjöf Bretlands varðandi tímabil fyrir 5. júlí 1948, að því er varðar b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar með beitingu trygginga-, starfs- eða búsetutímabila samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis.
                      Allar umsóknir um viðbótarlífeyri skv. 44. þætti laga frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992) og 44. þætti laga frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Norður-Írland) (Social Security Contributions and Benefits (Norður-Írland) Act 1992).“
     d.      Eftirfarandi bætist við í 2. hluta III. viðauka:
             „BRETLAND
                      Stighækkandi eftirlaun sem eru greidd skv. 36. og 37. þætti laga um almannatryggingar frá 1965 og 35. og 36. þætti laga um almannatryggingar (Norður-Írland) frá 1966.“
     e.      Eftirfarandi bætist við X. viðauka:
             „BRETLAND
              a.      Lífeyrisstig ríkisins (lög um lífeyrisstig ríkisins frá 2002 og lög um lífeyrisstig ríkisins (Norður-Írland) frá 2002).
              b.      Tekjutengdar greiðslur fyrir fólk í atvinnuleit (lög frá 1995 um fólk í atvinnuleit og reglur frá 1995 um fólk í atvinnuleit (Norður-Írland)).
              c.      Framfærslugreiðslur til fatlaðra einstaklinga (lög frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga og lög frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Norður-Írland)).
              d.      Tekjutengd atvinnuleysis- og stuðningsgreiðsla (velferðarlög (Welfare Reform Act) 2007 og velferðarlög (Welfare Reform Act) (Norður-Írlandi) 2007).“
     f.      Eftirfarandi bætist við XI. viðauka:
             „BRETLAND
                  1.      Þegar einstaklingur getur, í samræmi við breska löggjöf, átt tilkall til eftirlaunalífeyris enda:
                      a.      séu iðgjöld fyrrverandi maka talin með sem eigin iðgjöld eða
                      b.      hafi maki eða fyrrverandi maki þess einstaklings uppfyllt viðkomandi skilyrði um iðgjöld skulu ákvæði 5. kafla í III. bálki þessarar reglugerðar gilda við ákvörðun á bótarétti samkvæmt breskri löggjöf að því tilskildu að maki eða fyrrverandi maki sé eða hafi verið launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur og heyrt undir löggjöf tveggja eða fleiri aðildarríkja. Í því tilviki skal túlka tilvísanir í áðurnefndum 5. kafla til ,,tryggingatímabila“ sem tímabil sem lokið hefur verið af hálfu:
                          i.    maka eða fyrrverandi maka, ef krafa til bóta er gerð af hálfu:
                              —    giftrar konu eða
                              —    einstaklings sem var í hjónabandi sem lauk með öðrum hætti en með andláti maka eða
                          ii.    fyrrverandi maka, ef krafa til bóta er gerð af hálfu:
                              —    ekkils sem átti ekki, rétt áður en hann náði eftirlaunaaldri, rétt á greiðslum fyrir ekkla/ekkjur með börn eða
                              —    ekkju sem átti ekki, rétt áður en hún náði eftirlaunaaldri, rétt á greiðslum fyrir ekkjur með börn, fyrir ekkla/ekkjur með börn eða ekknalífeyri eða sem á einvörðungu rétt á aldurstengdum ekknalífeyri sem reiknaður er út skv. b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar, en í þessu sambandi merkir „aldurstengdur ekknalífeyrir“ ekknalífeyri sem er greiddur út í lækkuðu hlutfalli í samræmi við 4. mgr. 39. gr. laga um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga frá 1992.
                  2.      Við beitingu 6. gr. reglugerðarinnar vegna ákvæða um rétt á umönnunargreiðslum (e. attendance allowance, carer's allowance) og framfærslugreiðslum til fatlaðra einstaklinga (e. disability living allowance) skal taka til greina starfstímabil launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem er lokið á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en Bretlands, að svo miklu leyti sem þörf er á til að uppfylla kröfuna um búsetu í Bretlandi fyrir þann dag sem réttur til umræddra bóta kemur fyrst fram.
                  3.      Að því er varðar 7. gr. reglugerðarinnar, þegar um er að ræða örorku-, elli- eða eftirlifendabætur í peningum, lífeyri vegna vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma og dánarstyrki, skal greiðsluþegi samkvæmt breskri löggjöf sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis teljast búsettur á yfirráðasvæði þess aðildarríkis á meðan á dvöl hans stendur.
                  4.      Við beitingu 46. gr. reglugerðarinnar skal Bretland, ef hlutaðeigandi einstaklingur hefur orðið óvinnufær og síðan öryrki á meðan hann heyrði undir löggjöf annars aðildarríkis, að því er varðar 5. mgr. 30. þáttar A í lögum frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992), taka til greina hvert það tímabil sem hlutaðeigandi einstaklingur hefur fengið, vegna þeirrar óvinnufærni:
                 i.      sjúkrabætur í peningum eða kaup eða laun þess í stað eða
                 ii.      bætur í skilningi 4. og 5. kafla III. bálks þessarar reglugerðar, sem eru greiddar vegna örorkunnar sem kom í kjölfar þessarar óvinnufærni, samkvæmt löggjöf hins aðildarríkisins, eins og um væri að ræða tímabil sem bætur vegna óvinnufærni til skemmri tíma hefðu verið greiddar í samræmi við 1.-4. mgr. 30. þáttar A í lögum frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992).
                      Við beitingu þessa ákvæðis skal einungis taka tillit til tímabila þegar einstaklingur hefði verið ófær um að stunda vinnu í skilningi breskrar löggjafar.
                  5.      1. Þegar reikna skal út tekjuþátt í þeim tilgangi að ákvarða rétt til bóta, samkvæmt breskri löggjöf, fyrir hverja starfsviku sem launþegi heyrði undir löggjöf annars aðildarríkis og hófst á viðkomandi tekjuskattsári í skilningi löggjafar Bretlands, telst hann hafa greitt iðgjöld launþega, eða hafa tekjur sem iðgjöld hafa verið greidd af, á grundvelli tekna sem jafngildar eru tveimur þriðju af hámarkstekjum þess árs.
                  2. Við beitingu ii. liðar í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar þegar:
                      a.      launþegi hefur lokið trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum alfarið í öðru aðildarríki en Bretlandi, á tekjuskattsári sem hefst 6. apríl 1975 eða síðar, og beiting 1. mgr. 5. liðar hér að framan leiðir til þess að það ár telst með í skilningi breskrar löggjafar vegna i. liðar í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar, telst hann hafa verið tryggður í 52 vikur á því ári í hinu aðildarríkinu,
                      b.      tekjuskattsár, sem hefst 6. apríl 1975 eða síðar, telst ekki með í skilningi breskrar löggjafar hvað viðkemur i. lið í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar skal alfarið horft fram hjá trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum á því ári.
                  3. Þegar breyta á tekjuþætti í tryggingatímabil skal deila í tekjur viðkomandi tekjuskattsárs í skilningi breskrar löggjafar með lágmarkstekjum þess árs. Niðurstöðuna skal birta í heilum tölum en brotum sleppt. Niðurstöðutalan stendur þá fyrir fjölda tryggingavikna sem lokið hefur verið samkvæmt breskri löggjöf á því ári, að því tilskildu að talan fari ekki fram úr þeim vikufjölda á því ári þegar einstaklingurinn heyrði undir umrædda löggjöf.“

    Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 987/2009 skulu, að því er varðar þennan samning, aðlöguð sem hér segir:
     a.      Eftirfarandi bætist við 1. viðauka:
             „BRETLAND — NOREGUR
              a.      ,,Bréfaskipti frá 20. mars 1997 og 3. apríl 1997 um 3. mgr. 36. gr. og 3. mgr. 63. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 (endurgreiðsla eða niðurfelling endurgreiðslna á kostnaði vegna aðstoðar) og 105. gr. reglugerðar (EBE) nr. 574/72 (niðurfelling kostnaðar við eftirlit og læknisskoðanir).“
     b.      Eftirfarandi bætist við 3. viðauka:
             „BRETLAND“.


II. viðauki.
Ákvæði EES-samningsins sem um getur í 4. mgr. 39. gr.

     1.      Tilskipun ráðsins 64/432/EBE frá 26. júní 1964 um vanda á sviði heilbrigðis dýra sem hefur áhrif á viðskipti innan Bandalagsins með nautgripi og svín 61 .
     2.      Tilskipun ráðsins 91/68/EBE frá 28. janúar 1991 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á viðskipti innan Bandalagsins með sauðfé og geitur 62 .
     3.      II. kafli tilskipunar ráðsins 2009/156/EB frá 30. nóvember 2009 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra, sem hafa áhrif á flutninga dýra af hestaætt og innflutning þeirra frá þriðju löndum 63 .
     4.      II. kafli tilskipunar ráðsins 2009/158/EB frá 30. nóvember 2009 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á viðskipti innan Bandalagsins með alifugla og útungunaregg og á innflutning þeirra frá þriðju löndum 64 .
     5.      II. kafli tilskipunar ráðsins 92/65/EBE frá 13. júlí 1992 um dýraheilbrigðiskröfur varðandi viðskipti innan Bandalagsins og innflutning til Bandalagsins á dýrum, sæði, eggfrumum og fósturvísum sem dýraheilbrigðiskröfur í sérreglum Bandalagsins er um getur í I. hluta viðauka A við tilskipun 90/425/EBE gilda ekki um 65 .
     6.      II. kafli tilskipunar ráðsins 89/556/EBE frá 25. september 1989 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á viðskipti innan Bandalagsins og innflutning frá þriðju löndum á fósturvísum húsdýra af nautgripakyni 66 .
     7.      II. kafli tilskipunar ráðsins 88/407/EBE frá 14. júní 1988 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem eiga við um viðskipti innan Bandalagsins og innflutning á djúpfrystu sæði húsdýra af nautgripakyni 67 .
     8.      II. kafli tilskipunar ráðsins 90/429/EBE frá 26. júní 1990 um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem eiga við um viðskipti innan Bandalagsins og innflutning á djúpfrystu sæði húsdýra af svínakyni 68 .
     9.      III. kafli tilskipunar ráðsins 2006/88/EB frá 24. október 2006 um heilbrigðiskröfur að því er varðar lagareldisdýr og afurðir þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum 69 .
     10.      II. kafli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 576/2013 frá 12. júní 2013 um gæludýraflutninga, sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 998/2003 70 .Fylgiskjal II.Samningur

um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum.


Formálsorð.

Ísland,
Furstadæmið Liechtenstein,
Konungsríkið Noregur og
Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland,
hér á eftir nefnd „samningsaðilar“,


    sem hafa í huga að 29. mars 2017 tilkynnti Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland og Norður-Írland („Bretland“), í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í Bretlandi og ákvörðunar sinnar sem fullvalda ríkis um að draga sig út úr Evrópusambandinu („Sambandinu“), um þá fyrirætlun sína að segja sig úr Sambandinu og Kjarnorkubandalagi Evrópu („KBE“) í samræmi við 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið, sem gildir um KBE í krafti 106. gr. a í stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu,
    sem gera sér grein fyrir sögulegu og nánu samstarfi milli Bretlands og Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein („Liechtenstein“) og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) og sameiginlegri ósk þeirra um að vernda þessi tengsl,
    sem óska þess að setja fram nauðsynlegt fyrirkomulag í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Sambandinu og EES-samningnum,
    sem gera sér grein fyrir því að nauðsynlegt er að sjá ríkisborgurum EFTA-ríkjanna innan EES og breskum ríkisborgurum, sem og aðstandendum þeirra, sem hafa nýtt sér réttinn til frjálsrar farar fyrir útgöngudaginn, fyrir gagnkvæmri vernd og tryggja að unnt sé að framfylgja réttindum þeirra samkvæmt þessum samningi og að þau byggist á meginreglunni um bann við mismunun, og gera sér einnig grein fyrir því að standa ber vörð um réttindi sem leiðir af almannatryggingatímabilum,
    sem staðfesta þann skilning samningsaðilanna að ákvæði þessa samnings eru með fyrirvara um aðlögun EES-samningsins á tilteknum sviðum, m.a. þeim sem varða Liechtenstein sem er að finna í V. og VIII. viðauka við EES-samninginn,
    sem hafa í huga að til þess að tryggja rétta túlkun og beitingu samnings þessa og að staðið verði við skuldbindingar samkvæmt honum er brýnt að setja niður ákvæði sem tryggja heildarstjórnun hans og framkvæmd,
    sem leggja áherslu Á að samningur þessi grundvallast á heildarjafnvægi milli ávinnings, réttinda og skuldbindinga fyrir EFTA-ríkin innan EES og Bretland,
    sem hafa í huga að bæði Bretland og EFTA-ríkin innan EES þurfa að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja, eins fljótt og auðið er, formlegar samningaviðræður um einn eða fleiri samninga um framtíðartengsl þeirra,
    hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

FYRSTI HLUTI.

SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI.

1. gr.

Markmið.

    Í þessum samningi er sett fram fyrirkomulag í kjölfar úrsagnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands („Bretlands“) úr Evrópusambandinu („Sambandinu“) og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 1 („EES-samningnum“) um vernd réttinda ríkisborgara Íslands, Furstadæmisins Liechtenstein („Liechtenstein“), Konungsríkisins Noregs („Noregs“) og Bretlands.

2. gr.

Skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „EES-samningur“: meginsamningurinn um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, ásamt síðari breytingum, og bókanir og viðaukar við hann, auk þeirra gerða sem um getur í þeim,
     b.      „EFTA-ríki innan EES“: Ísland, Liechtenstein og Noregur,
     c.      „ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES“: ríkisborgari Íslands, Liechtenstein eða Noregs,
     d.      „breskur ríkisborgari“: ríkisborgari í Bretlandi, sbr. skilgreiningu í hinni Nýju yfirlýsingu ríkisstjórnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands frá 31. desember 1982 um skilgreiningu á hugtakinu „ríkisborgari“ 2 , ásamt yfirlýsingu nr. 63 sem fylgir með lokagerð ríkjaráðstefnunnar sem samþykkti Lissabonsáttmálann 3 ,
     e.      „útgöngudagur“: sá tímapunktur þegar Bretland verður ekki lengur aðildarríki í Sambandinu eða samningsaðili að EES-samningnum,
     f.      „dagur“: almanaksdagur nema kveðið sé á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins sem fá gildi með þessum samningi.

3. gr.

Gildissvæði.

     1.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins skal líta svo á að hvers kyns vísun í þessum samningi til Bretlands eða yfirráðasvæðis þess sé vísun til:
                  a.      Bretlands,
                  b.      Gíbraltars, að svo miklu leyti sem EES-samningurinn átti við um það strax fyrir útgöngudaginn.
     2.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi eða í ákvæðum EES-samningsins skal líta svo á að hvers kyns vísun í þessum samningi til EFTA-ríkjanna innan EES eða yfirráðasvæðis þeirra sé vísun til yfirráðasvæða Íslands, Liechtenstein og Noregs sem EES-samningurinn tekur til.

4. gr.

Aðferðir og meginreglur er varða framkvæmd og beitingu þessa samnings.

     1.      Samningsaðilar skuldbinda sig til að tryggja að allar nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma ákvæðum þessa samnings til framkvæmda og til að koma þeim réttindum, sem viðurkennd eru í þessum samningi, inn í landsrétt sinn með löggjöf.
     2.      Við túlkun og beitingu innlendrar löggjafar til framkvæmdar þessum samningi og þeim réttindum sem í honum felast skulu dóms- og stjórnsýsluyfirvöld hvers samningsaðila taka tilhlýðilegt tillit til þessa samnings.

5. gr.

Í góðri trú.

    Samningsaðilar skulu, með fullri gagnkvæmri virðingu og í góðri trú, veita hver öðrum aðstoð við þau verkefni sem leiðir af þessum samningi.
    Þeir skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, jafnt almennar sem sértækar, til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem leiðir af þessum samningi og skulu forðast að gera nokkrar þær ráðstafanir sem kynnu að koma í veg fyrir að markmiðum þessa samnings verði náð.

6. gr.

Vísanir til EES-samningsins.

     1.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skal litið svo á að allar vísanir í þessum samningi til EES-samningsins séu vísanir til EES-samningsins eins og hann gildir strax fyrir útgöngudaginn.
     2.      Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skal litið svo á að allar vísanir í þessum samningi til gerða Sambandsins eða ákvæða þeirra séu vísanir til gerðanna eða ákvæðanna eins og þau eru tekin upp í EES-samninginn, þ.m.t. með breytingum eða til gerða eða ákvæða sem hafa komið í þeirra stað, eins og þau gilda strax fyrir útgöngudaginn.
     3.      Ef vísað er til gerða Sambandsins eða ákvæða þeirra í þessum samningi skal litið svo á, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi, að slík tilvísun feli í sér, þar sem við á, vísun til gerðarinnar, eins og hún er tekin upp í EES-samninginn, eða ákvæða hennar sem gilda áfram í samræmi við gerðina enda þótt gerðin, sem vísað er til, komi í hennar stað eða leysi hana af hólmi.
     4.      Að því er þennan samning varðar skal litið svo á að vísanir til ákvæða í gerðum Sambandsins, sem fá gildi með þessum samningi, feli í sér vísanir til viðeigandi gerða Sambandsins sem koma til viðbótar þessum ákvæðum eða koma þeim til framkvæmda að svo miklu leyti sem þessar gerðir eru í gildi samkvæmt EES-samningnum strax fyrir útgöngudaginn.

7. gr.

Vísanir til aðildarríkja.

    Að því er þennan samning varðar skal lesa allar vísanir til aðildarríkja og lögbærra yfirvalda aðildarríkja í ákvæðum EES-samningsins þannig að þær taki einnig til Bretlands og lögbærra yfirvalda þess.

ANNAR HLUTI.

RÉTTINDI BORGARA.

I. BÁLKUR.

ALMENN ÁKVÆÐI.

8. gr.

Skilgreiningar.

    Að því er þennan hluta varðar, og með fyrirvara um III. bálk, er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a.      „aðstandendur“: aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða aðstandendur breskra ríkisborgara, eins og skilgreint er í 2. lið 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB, óháð ríkisfangi þeirra, sem falla undir persónulega gildissviðið sem kveðið er á um í 9. gr. þessa samnings,
     b.      „þeir sem sækja vinnu yfir landamæri“: ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES eða breskir ríkisborgarar sem stunda atvinnustarfsemi í samræmi við 28. eða 31. gr. EES-samningsins í einu ríki eða fleiri en eru ekki búsettir þar,
     c.      „gistiríki“:
             i.     að því er varðar ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og aðstandendur þeirra, Bretland ef þeir nýttu sér búseturétt sinn þar í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og eru búsettir þar áfram eftir það,
             ii.    að því er varðar breska ríkisborgara og aðstandendur þeirra, það EFTA-ríki innan EES þar sem þeir nýttu sér búseturétt í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og eru áfram búsettir þar eftir það,
     d.      „atvinnuríki“:
             i.     að því er varðar ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES, Bretland ef þeir störfuðu þar sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri fyrir útgöngudaginn og halda því áfram eftir það,
             ii.    að því er varðar breska ríkisborgara, það EFTA-ríki innan EES þar sem þeir störfuðu sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri fyrir útgöngudaginn og halda því áfram eftir það,
     e.      „forsjárréttur“: réttindi og skyldur í tengslum við umönnun barns og einkum rétturinn til að ákvarða búsetustað barns, m.a. forsjárréttur sem fæst með úrskurði, samkvæmt lögum eða samningi sem hefur lagaleg áhrif.

9. gr.

Persónulegt gildissvið.

     1.      Þessi hluti gildir um eftirtalda einstaklinga með fyrirvara um III. bálk:
                  a.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem nýttu sér rétt sinn til búsetu í Bretlandi í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og eru áfram búsettir þar eftir það,
                  b.      breska ríkisborgara sem nýttu sér rétt sinn til búsetu í EFTA-ríki innan EES í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og eru áfram búsettir þar eftir það,
                  c.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem nýttu sér rétt sinn til að sækja vinnu yfir landamæri í Bretlandi í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og halda því áfram eftir það,
                  d.      breska ríkisborgara sem nýttu sér rétt sinn til að sækja vinnu yfir landamæri í einu eða fleiri EFTA-ríkjum innan EES í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og halda því áfram eftir það,
                  e.      aðstandendur einstaklinga sem um getur í a- og b-lið að því tilskildu að þeir uppfylli eitt eftirtalinna skilyrða:
                  i.     þeir voru búsettir í gistiríkinu í samræmi við EES-samninginn fyrir útgöngudaginn og eru áfram búsettir þar eftir það,
                  ii.    þeir tengjast einstaklingi, sem um getur í a- eða b-lið með beinum hætti og eru búsettir utan gistiríkisins fyrir útgöngudaginn, að því tilskildu að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í 2. lið 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB þegar þeir sækja um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta í því skyni að koma til þess einstaklings sem um getur í a- eða b-lið þessarar málsgreinar,
                  iii.    þeir voru fæddir einstaklingum, sem um getur í a- eða b-lið, eða voru löglega ættleiddir af þeim eftir útgöngudaginn, hvort heldur er innan eða utan gistiríkisins, og uppfylla skilyrðin sem eru sett fram í c-lið 2. liðar 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB á þeim tíma þegar þeir sækja um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta í því skyni að koma til þess einstaklings sem um getur í a- eða b-lið þessarar málsgreinar og uppfylla eitt eftirtalinna skilyrða:
                      –    báðir foreldrar eru einstaklingar sem um getur í a- eða b-lið,
                      –    annað foreldrið er einstaklingur sem um getur í a- eða b-lið og hitt foreldrið er ríkisborgari í gistiríkinu eða
                      –    annað foreldrið er einstaklingur sem um getur í a- eða b-lið og fer eitt með forsjá eða fer með sameiginlega forsjá yfir barninu í samræmi við viðeigandi reglur sifjaréttar í EFTA-ríki innan EES eða Bretlandi, m.a. viðeigandi reglur alþjóðlegs einkamálaréttar sem kveður á um viðurkenningu forsjárréttinda, sem eru byggð á lögum þriðja ríkis, í EFTA-ríki innan EES eða Bretlandi, einkum með hliðsjón af því sem er barninu fyrir bestu og með fyrirvara um eðlilega framkvæmd slíkra viðeigandi reglna alþjóðlegs einkamálaréttar,
                  f.      aðstandendur sem dvöldu í gistiríki í samræmi við 12. og 13. gr., 16. gr. (2. mgr.) og 17. og 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB fyrir útgöngudaginn og dvelja þar áfram eftir það.
     2.      Einstaklingar, sem falla undir a- og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sem gistiríkið hefur veitt fyrirgreiðslu varðandi dvöl í samræmi við landslöggjöf fyrir útgöngudaginn í samræmi við 2. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar, skulu halda dvalarrétti sínum í gistiríkinu í samræmi við þennan hluta að því tilskildu að þeir haldi áfram dvöl sinni í gistiríkinu eftir það.
     3.      Ákvæði 2. mgr. skulu einnig eiga við um einstaklinga, sem falla undir a- og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sem hafa sótt um fyrirgreiðslu varðandi komu og dvöl fyrir útgöngudaginn og sem gistiríkið hefur veitt fyrirgreiðslu varðandi dvöl í samræmi við landslöggjöf sína eftir það.
     4.      Með fyrirvara um sjálfstæðan rétt viðkomandi einstaklinga til dvalar skal gistiríkið, í samræmi við landslöggjöf sína og b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB, veita sambúðarmaka, sem einstaklingur sem um getur í a- eða b-lið 1. mgr. þessarar greinar er í varanlegu sambandi við sem hefur verið tilhlýðilega staðfest, fyrirgreiðslu varðandi komu og dvöl þegar sá sambúðarmaki dvaldi utan gistiríkisins fyrir útgöngudaginn, að því tilskildu að um varanlegt samband hafi verið að ræða fyrir útgöngudaginn og að það sé óbreytt þegar sambúðarmakinn sækir um dvalarleyfi samkvæmt þessum hluta.
     5.      Í þeim tilvikum sem um getur í 3. og 4. mgr. skal gistiríkið gera víðtæka rannsókn á persónulegum högum þessa fólks og færa rök fyrir því ef því er synjað um komu eða dvöl.

10. gr.

Samfelld dvöl.

    Fjarvera, eins og um getur í 2. mgr. 14. gr. þessa samnings, skal ekki hafa áhrif á samfellda dvöl skv. 8. og 9. gr.
    Ekki skal litið svo á að réttur til ótímabundinnar dvalar, sem veittur hefur verið samkvæmt tilskipun 2004/38/EB fyrir útgöngudaginn, tapist vegna fjarveru frá gistiríkinu í þann tíma sem tilgreindur er í 3. mgr. 14. gr.

11. gr.

Bann við mismunun.

    Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs, í skilningi 4. gr. EES-samningsins, er bönnuð innan gildissviðs þessa hluta nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans, í gistiríkinu og atvinnuríkinu að því er varðar þá einstaklinga sem um getur í 9. gr. þessa samnings.

II. BÁLKUR.

RÉTTINDI OG SKYLDUR.

1. KAFLI.

Réttur varðandi dvöl, dvalarskjöl.

12. gr.

Dvalarréttur.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES og breskir ríkisborgarar skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu með þeim takmörkunum og skilyrðum sem sett eru fram í 28. og 31. gr. EES-samningsins og í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (a-, b- eða c-liður 1. mgr.), 7. gr. (3. mgr.), 14. gr., 16. gr. (1. mgr.) eða 17. gr. (1. mgr.) tilskipunar 2004/38/EB.
     2.      Aðstandendur, sem eru annaðhvort ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES eða breskir ríkisborgarar, skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu eins og sett er fram í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (d-liður 1. mgr.), 12. gr. (1. eða 3. mgr.), 13. gr. (1. mgr.), 14. gr., 16. gr. (1. mgr.) eða 17. gr. (3. og 4. mgr.) tilskipunar 2004/38/EB, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem fram koma í þeim ákvæðum.
     3.      Aðstandendur, sem eru hvorki ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES né breskir ríkisborgarar, skulu eiga rétt til dvalar í gistiríkinu eins og sett er fram í 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (2. mgr.), 12. gr. (2. eða 3. mgr.), 13. gr. (2. mgr.), 14. gr., 16. gr. (2. mgr.), 17. gr. (3. eða 4. mgr.) eða 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem fram koma í þeim ákvæðum.
     4.      Gistiríkinu er ekki heimilt að setja neinar takmarkanir og skilyrði að því er varðar það að öðlast, halda eða missa dvalarrétt önnur en þau sem kveðið er á um í þessum bálki gagnvart einstaklingum sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. Takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í þessum bálki má aldrei beita að geðþótta nema það sé í þágu viðkomandi einstaklings.

13. gr.

Réttur til brottfarar og komu.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES og breskir ríkisborgarar, aðstandendur þeirra og aðrir einstaklingar, sem dvelja á yfirráðasvæði gistiríkis í samræmi við skilyrði þessa bálks, skulu, með fyrirvara um 3. mgr., eiga rétt á því að yfirgefa yfirráðasvæði gistiríkisins og rétt til að koma inn á það, eins og sett er fram í 1. mgr. 4. gr. og fyrstu undirgrein 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB, séu þeir handhafar gilds vegabréfs.
     2.      Með fyrirvara um 3. mgr. er óheimilt að krefjast komuáritunar eða brottfararáritunar eða jafngildra formsatriða af handhafa gilds skjals sem gefið er út í samræmi við 17. eða 24. gr. þessa samnings.
     3.      Í EFTA-ríkjunum innan EES skulu Schengen-réttarreglurnar gilda um komu og brottför breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra, í samræmi við þá samninga sem varða þátttöku EFTA-ríkjanna innan EES í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-réttarreglnanna. Þá og því aðeins að EFTA-ríkjunum innan EES beri skylda til þess að krefjast skjala vegna komu inn á Schengen-svæðið eða brottfarar frá því, annarra en þeirra sem fram koma í 1. mgr. 4. gr. og fyrstu undirgrein 1. mgr. 5 gr. tilskipunar 2004/38/EB, vegna þátttöku sinnar í Schengen er Bretlandi að sama skapi heimilt að krefjast svipaðra skjala vegna komu ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES til Bretlands og brottfarar þeirra frá því.
     4.      Ef gistiríki krefst komuáritunar af aðstandendum, sem koma til ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða til bresks ríkisborgara eftir útgöngudaginn, skal gistiríkið veita alla fyrirgreiðslu til að slíkir einstaklingar fái nauðsynlegar vegabréfsáritanir. Í EFTA-ríkjunum innan EES skal við slíka fyrirgreiðslu virða Schengen-réttarreglurnar.

14. gr.

Réttur til ótímabundinnar dvalar.

     1.      Ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra sem hafa verið búsettir með löglegum hætti í gistiríkinu, í samræmi við EES-samninginn, í fimm ár samfleytt eða í þann tíma sem tilgreindur er í 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB, skulu öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríkinu með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 16., 17. og 18. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Lögleg búsetu- eða starfstímabil, í samræmi við ákvæði EES-samningsins, fyrir og eftir útgöngudaginn, skulu talin með við útreikning tilskilins tímabils til að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar.
     2.      Samfelld dvöl, með tilliti til þess að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar, skal ákvörðuð í samræmi við 3. mgr. 16. gr. og 21. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
     3.      Hafi réttur til ótímabundinnar dvalar einu sinni verið veittur getur hlutaðeigandi einstaklingur einungis tapað þeim rétti með því að vera fjarverandi frá gistiríkinu í meira en 5 ár samfleytt.

15. gr.

Uppsöfnun tímabila.

    Ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra, sem dvöldu með löglegum hætti í gistiríki fyrir útgöngudaginn, í samræmi við skilyrði 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, skemur en fimm ár, skulu eiga rétt á að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 14. gr. þessa samnings þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum. Lögleg búsetu- eða starfstímabil, í samræmi við ákvæði EES-samningsins, fyrir og eftir útgöngudaginn, skulu talin með við útreikning tilskilins tímabils til að öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar.

16. gr.

Staða og breytingar.

     1.      Enda þótt staða ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra breytist, t.d. milli þess að vera námsmenn, launafólk, sjálfstætt starfandi einstaklingar og einstaklingar utan vinnumarkaðar, hefur það ekki áhrif á rétt þeirra til að notfæra sér réttindin sem sett eru fram í þessum hluta. Einstaklingar sem njóta, strax fyrir útgöngudaginn, réttar til búsetu sem aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breskra ríkisborgara geta ekki orðið þeir einstaklingar sem um getur í a- til d-lið 1. mgr. 9. gr.
     2.      Aðstandendur, sem voru á framfæri ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breskra ríkisborgara fyrir útgöngudaginn, skulu halda þeim réttindum sem kveðið er á um í þessum bálki jafnvel þótt þeir séu ekki lengur á framfæri þeirra.

17. gr.

Útgáfa dvalarskjala.

     1.      Gistiríki er heimilt að krefjast þess af ríkisborgurum EFTA-ríkja innan EES eða breskum ríkisborgurum, aðstandendum þeirra og öðrum einstaklingum sem dvelja á yfirráðasvæði þess í samræmi við skilyrði þessa bálks, að þeir sæki að nýju um dvalarleyfi sem veitir þau réttindi sem um getur í þessum bálki og um skjal sem færir sönnur á það leyfi og kann að vera á stafrænu formi.
                      Umsókn um slíkt dvalarleyfi skal vera háð eftirfarandi skilyrðum:
                  a.      markmiðið með umsóknarferlinu skal vera að ganga úr skugga um hvort umsækjandi eigi rétt á þeim búseturétti sem um getur í þessum bálki. Ef sú er raunin skal umsækjandi eiga rétt á að fá dvalarleyfi og skjal sem færir sönnur á það,
                  b.      frestur til að leggja fram umsókn skal vera a.m.k. 6 mánuðir frá útgöngudegi fyrir þá einstaklinga sem voru búsettir í gistiríkinu fyrir útgöngudaginn.
                      Fyrir einstaklinga, sem eiga rétt á að hefja búsetu í gistiríkinu eftir útgöngudaginn í samræmi við þennan hluta, skal frestur til að leggja fram umsókn vera 3 mánuðir frá komu þeirra eða frá því að fresturinn, sem um getur í fyrstu undirgrein, rennur út, hvort sem síðar verður.
                      Vottorð um að sótt hafi verið um dvalarleyfi skal gefið út þegar í stað,
                  c.      umsóknarfresturinn, sem um getur í b-lið, skal framlengdur sjálfkrafa um 1 ár ef EFTA-ríki innan EES hefur tilkynnt Bretlandi eða Bretland tilkynnt EFTA-ríkjunum innan EES um að tæknileg vandamál komi í veg fyrir að gistiríkið geti skráð umsóknina eða gefið út vottorðið um að sótt hafi verið um, sem um getur í b-lið. Gistiríkið skal birta tilkynninguna og leggja tímanlega fram viðeigandi opinberar upplýsingar vegna viðkomandi einstaklinga,
                  d.      virði viðkomandi einstaklingar ekki umsóknarfrestinn, sem um getur í b-lið, skulu lögbær yfirvöld meta allar kringumstæður og ástæður þess að fresturinn er ekki virtur og heimila þeim að leggja fram umsókn innan hæfilegs viðbótarfrests ef gildar ástæður eru fyrir því að fresturinn var ekki virtur,
                  e.      gistiríkið skal sjá til þess að hvers konar stjórnsýslumeðferð vegna umsókna sé snurðulaus, gagnsæ og einföld og að komist verði hjá ónauðsynlegri stjórnsýslubyrði,
                  f.      umsóknareyðublöð skulu vera stutt, einföld, notendavæn og löguð að inntaki þessa samnings; fjalla skal sameiginlega um umsóknir fjölskyldna sem lagðar eru fram á sama tíma,
                  g.      gefa skal út skjalið, sem færir sönnur á stöðu, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi sem er ekki hærra en það sem ríkisborgurum gistiríkisins er gert að greiða fyrir útgáfu svipaðra skjala,
                  h.      einstaklingar sem eru fyrir útgöngudaginn handhafar gilds skjals sem veitir rétt til ótímabundinnar dvalar, sem gefið er út skv. 19. eða 20. gr. tilskipunar 2004/38/EB eða handhafar gilds innlends innflytjendaskjals sem veitir rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríkinu, skulu eiga rétt á að skipta því skjali út, innan frestsins sem um getur í b-lið þessarar málsgreinar, fyrir nýtt dvalarskjal sem sækja þarf um, eftir að staðfest hafa verið deili á þeim og að loknu sakaskrár- og öryggiseftirliti í samræmi við p-lið þessarar málsgreinar og að fenginni staðfestingu á dvöl sem þegar er hafin; slík ný dvalarskjöl skulu gefin út án endurgjalds,
                  i.      deili á umsækjendum skulu staðfest gegn framvísun gilds vegabréfs; viðurkenning slíks vegabréfs skal ekki háð öðrum skilyrðum en þeim að það sé gilt. Haldi lögbær yfirvöld gistiríkis eftir vegabréfi á meðan umsókn er í vinnslu skal gistiríkið tafarlaust skila því, ef farið er fram á það, áður en tekin hefur verið ákvörðun um umsóknina,
                  j.      önnur fylgiskjöl en gilt vegabréf, s.s. skjöl um borgaralega réttarstöðu, má leggja fram í afriti. Einungis má krefjast frumrita af fylgiskjölum í sérstökum tilvikum þar sem vafi leikur á um að fylgiskjölin, sem lögð eru fram, séu ósvikin,
                  k.      gistiríki er einungis heimilt að krefjast þess að ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar framvísi til viðbótar við gilt vegabréf eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 3. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                     i.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við a-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar, staðfestingu á ráðningu frá vinnuveitanda eða starfsvottorði eða sönnun þess að þeir séu sjálfstætt starfandi,
                     ii.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við b-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem einstaklingar utan vinnumarkaðar, sönnun fyrir því að þeir hafi nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiríkinu á dvalartímabilinu og að þeir hafi fullnægjandi sjúkratryggingu í gistiríkinu eða
                     iii.      ef þeir dvelja í gistiríkinu í samræmi við c-lið 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem námsmenn, sönnun fyrir því að þeir séu innritaðir hjá stofnun sem er viðurkennd eða fjármögnuð af gistiríkinu á grundvelli laga eða stjórnsýsluvenju í því ríki, sönnun fyrir því að þeir hafi fullnægjandi sjúkratryggingu og yfirlýsingu eða jafngilda sönnun fyrir því að þeir hafi nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiríkinu á dvalartímabilinu. Gistiríki getur ekki krafist þess að í slíkum yfirlýsingum komi fram tiltekin fjárhæð. Að því er varðar skilyrðið um nægilegt fé skal 4. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB gilda,
                  l.      gistiríki er aðeins heimilt að krefjast þess að aðstandendur, sem heyra undir i. lið e-liðar 1. mgr. 9. gr. eða 2. eða 3. mgr. 10. gr. þessa samnings og dvelja í gistiríki í samræmi við d-lið 1. mgr. 7. gr. eða 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, framvísi, til viðbótar við gilt vegabréf, eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 5. mgr. 8. gr. eða 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                     i.      skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð,
                     ii.      skráningarvottorði eða, ef skráningarkerfi er ekki fyrir hendi, hvers konar sönnun annarri fyrir því að ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES eða breskur ríkisborgari sem þeir dvelja hjá, dvelji í raun í gistiríkinu,
                     iii.      að því er varðar beina afkomendur viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka, sem eru undir 21 árs aldri eða sem eru á framfæri þeirra og ættingja þeirra í beinan legg af eldri kynslóð sem eru á framfæri þeirra, skjalfestri sönnun fyrir því að skilyrðin sem mælt er fyrir um í c- eða d-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB séu uppfyllt,
                     iv.      að því er varðar einstaklinga sem um getur í 2. eða 3. mgr. 9. gr. þessa samnings, skjali sem er gefið út af viðkomandi yfirvaldi í gistiríkinu í samræmi við 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Að því er varðar skilyrðið um nægilegt fé, þegar um er að ræða aðstandendur sem eru sjálfir ríkisborgarar EFTA-ríkis innan EES eða breskir ríkisborgarar, skal 4. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB gilda,
                  m.      gistiríki er aðeins heimilt að krefjast þess að aðstandendur, sem heyra undir ii. lið e-liðar 1. mgr. 9. gr. eða 4. mgr. 9. gr. þessa samnings, framvísi, til viðbótar við gilt vegabréf, eftirtöldum fylgiskjölum, eins og um getur í 5. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2004/38/EB:
                     i.      skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð,
                     ii.      skráningarvottorði eða, ef skráningarkerfi er ekki fyrir hendi, hvers konar sönnun annarri fyrir því að ríkisborgari EFTA-ríkis innan EES eða breskur ríkisborgari, sem þeir koma til í gistiríkinu, dvelji í gistiríkinu,
                     iii.      að því er varðar maka eða sambúðarmaka, skjali sem staðfestir fjölskyldubönd eða skráða sambúð fyrir útgöngudaginn,
                     iv.      að því er varðar afkomendur, í beinan legg, viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka, sem eru undir 21 árs aldri eða eru á framfæri þeirra og ættingja viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg af eldri kynslóð sem eru á framfæri þeirra, skjalfestri sönnun þess að þeir voru tengdir ríkisborgurum EFTA-ríkis innan EES eða breskum ríkisborgurum fyrir útgöngudaginn og uppfylli skilyrðin um aldur eða framfærslu sem mælt er fyrir um í c- eða d-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/38/EB,
                     v.      að því er varðar einstaklinga sem um getur í 4. mgr. 9. gr. þessa samnings, sönnun þess að um varanlegt samband hafi verið að ræða við ríkisborgara EFTA-ríkis innan EES eða breska ríkisborgara fyrir útgöngudaginn og að það hafi haldið áfram eftir það,
                  n.      í öðrum tilvikum en þeim sem sett eru fram í k-, l- og m-lið skal gistiríkið ekki krefjast þess að umsækjendur framvísi fleiri fylgiskjölum en nauðsynlegt er og hóflegt til þess að sanna að skilyrði í tengslum við dvalarrétt samkvæmt þessum bálki hafi verið uppfyllt,
                  o.      lögbær yfirvöld gistiríkis skulu aðstoða umsækjendur við að sanna að þeir uppfylli skilyrði og við að forðast hvers konar villur eða að einhverju sé sleppt í umsóknum þeirra; þau skulu gefa umsækjendum tækifæri til að leggja fram viðbótarsannanir og leiðrétta hvers konar annmarka, villur eða vöntun á upplýsingum,
                  p.      sakaskrár- og öryggiseftirlit má framkvæma kerfisbundið vegna umsækjenda með það eitt að markmiði að ganga úr skugga um hvort takmarkanirnar, sem settar eru fram í 18. gr. þessa samnings, kunni að eiga við. Í því tilviki kann þess að verða krafist að umsækjendur geri grein fyrir sakfellingum í refsimálum sem koma fram á sakaskrá þeirra, í samræmi við lög þess ríkis þar sem dómur féll, þegar umsókn er lögð fram. Gistiríki getur, ef það telur slíkt nauðsynlegt, beitt málsmeðferðinni sem sett er fram í 3. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/38/EB að því er varðar fyrirspurnir til annarra ríkja um fyrri sakaskrár,
                  q.      í nýja dvalarskjalinu skal koma fram að það hafi verið gefið út í samræmi við þennan samning,
                  r.      umsækjandi skal eiga þess kost að skjóta máli sínu til dómstóla og, þar sem við á, stjórnsýsluyfirvalds í gistiríkinu vegna ákvörðunar um synjun um dvalarleyfi. Málskotsleiðirnar skulu fela sameiginlega í sér rannsókn á lögmæti ákvörðunarinnar og einnig á þeim staðreyndum og aðstæðum sem fyrirhuguð ákvörðun er byggð á. Með slíkum málskotsleiðum skal gengið úr skugga um að meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðunina.
     2.      Á því tímabili sem um getur í b-lið 1. mgr. þessarar greinar og á meðan á mögulegri eins árs framlengingu þess samkvæmt c-lið þeirrar málsgreinar stendur skulu öll réttindi, sem kveðið er á um í þessum hluta, teljast eiga við um ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breska ríkisborgara, aðstandendur þeirra og aðra þá sem dvelja í gistiríkinu í samræmi við þau skilyrði og með þeim takmörkunum sem um getur í 18. gr.
     3.      Meðan beðið er lokaákvörðunar lögbærra yfirvalda varðandi umsókn sem um getur í 1. mgr. og meðan beðið er lokaúrskurðar dómstóls, ef máli er skotið til dómstóla vegna synjunar lögbærra yfirvalda á slíkri umsókn, skulu öll réttindi sem kveðið er á um í þessum hluta teljast eiga við um umsækjanda, þ.m.t. 19. gr. um verndarráðstafanir og rétt til málskots háð þeim skilyrðum sem sett eru fram í 4. mgr. 18. gr.
     4.      Hafi gistiríki ákveðið að krefjast þess ekki af ríkisborgurum EFTA-ríkja innan EES eða breskum ríkisborgurum, aðstandendum þeirra og öðrum einstaklingum sem dvelja á yfirráðasvæði þess í samræmi við skilyrði þessa bálks, að þeir sæki að nýju um dvalarleyfi, eins og um getur í 1. mgr., sem skilyrði fyrir löglegri dvöl, skulu þeir sem uppfylla skilyrði fyrir dvalarrétti samkvæmt þessum bálki eiga rétt á að fá, í samræmi við skilyrði tilskipunar 2004/38/EB, dvalarskjal sem kann að vera á stafrænu formi og þar sem fram kemur að það hafi verið gefið út í samræmi við þennan samning.

18. gr.

Takmarkanir á rétti til dvalar og komu.

     1.      Framferði ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, aðstandenda þeirra og annarra þeirra sem neyta réttar síns samkvæmt þessum bálki, sem á sér stað fyrir útgöngudaginn, skal metið í samræmi við VI. kafla tilskipunar 2004/38/EB.
     2.      Framferði ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, aðstandenda þeirra og annarra þeirra sem neyta réttar síns samkvæmt þessum bálki, sem á sér stað eftir útgöngudaginn, getur talist ástæða til takmörkunar á dvalarrétti af hálfu gistiríkis eða á rétti til komu til atvinnuríkis í samræmi við landslög.
     3.      Gistiríki eða atvinnuríki er heimilt að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að synja um, binda enda á eða afturkalla rétt sem veittur er samkvæmt þessum bálki ef um er að ræða misnotkun réttar eða svik eins og fram kemur í 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Slíkar ráðstafanir skulu vera með fyrirvara um réttarfarsreglurnar sem kveðið er á um í 19. gr. þessa samnings.
     4.      Gistiríki eða atvinnuríki getur flutt þá umsækjendur brott af yfirráðasvæði sínu sem lagt hafa fram sviksamlegar umsóknir eða í misnotkunarskyni samkvæmt þeim skilyrðum sem fram koma í tilskipun 2004/38/EB, einkum í 31. og 35. gr. hennar, jafnvel áður en lokaúrskurður er fallinn, ef máli er skotið til dómstóla vegna synjunar á slíkri umsókn.

19. gr.

Verndarráðstafanir og málskotsréttur.

    Verndarráðstafanirnar, sem settar eru fram í 15. gr. og í VI. kafla tilskipunar 2004/38/EB, gilda að því er varðar sérhverja ákvörðun gistiríkisins sem takmarkar dvalarrétt einstaklinga sem um getur í 9. gr. þessa samnings.

20. gr.

Tengd réttindi.

    Í samræmi við 23. gr. tilskipunar 2004/38/EB skulu aðstandendur ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breskra ríkisborgara, sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar í gistiríki eða atvinnuríki, óháð ríkisfangi, eiga rétt á að gerast launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar þar.

21. gr.

Jöfn meðferð.

     1.      Í samræmi við 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB skulu allir ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES eða breskir ríkisborgarar sem dvelja á grundvelli þessa samnings á yfirráðasvæði gistiríkisins, með fyrirvara um sértæk ákvæði sem kveðið er á um í þessum bálki og í I. og IV. bálki þessa hluta, fá sömu meðferð og ríkisborgarar þess ríkis njóta innan gildissviðs þessa hluta. Þessi réttur skal rýmkaður þannig að hann nái til þeirra aðstandenda ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES eða breskra ríkisborgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar.
     2.      Þrátt fyrir 1. mgr. ber gistiríkinu ekki skylda til að veita rétt til félagslegrar aðstoðar meðan á dvalartímabilum stendur skv. 6. gr. eða b-lið 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB, og ber ekki heldur skylda til, áður en einstaklingur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar í samræmi við 14. gr. þessa samnings, að veita framfærsluaðstoð vegna náms, þ.m.t. starfsnáms, í formi námsstyrkja eða námslána til annarra einstaklinga en launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga, einstaklinga sem halda þeirri stöðu eða til aðstandenda þeirra.

2. KAFLI.

Réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga.

22. gr.

Réttindi launafólks.

     1.      Með fyrirvara um þær takmarkanir, sem settar eru fram í 3. og 4. mgr. 28. gr. EES-samningsins, skal launafólk í gistiríki og launafólk sem sækir vinnu yfir landamæri í atvinnuríki eða -ríkjum njóta þeirra réttinda sem 28. gr. EES-samningsins tryggir og þeirra réttinda sem veitt eru samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011. Þessi réttindi eru m.a.:
                  a.      rétturinn til þess að vera ekki mismunað á grundvelli ríkisfangs að því er varðar atvinnu, launakjör og önnur starfs- og ráðningarskilyrði,
                  b.      rétturinn til að hefja og stunda atvinnu í samræmi við þær reglur sem gilda um ríkisborgara gistiríkisins eða atvinnuríkisins,
                  c.      rétturinn til að njóta sömu aðstoðar vinnumiðlana gistiríkis eða atvinnuríkis og ríkisborgarar þess,
                  d.      rétturinn til jafnrar meðferðar að því er varðar ráðningar- og vinnuskilyrði, einkum hvað varðar launakjör, brottvikningu úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu,
                  e.      rétturinn til félagslegra úrræða og skattaívilnana,
                  f.      sameiginleg réttindi,
                  g.      sömu réttindi og ívilnanir og innlent launafólk nýtur að því er varðar húsnæði,
                  h.      réttur barna þeirra til almennrar menntunar í gistiríki eða atvinnuríki, náms á námssamningi og starfsþjálfunarnámskeiða með sömu skilyrðum og ríkisborgarar gistiríkisins eða atvinnuríkisins, að því tilskildu að börnin búi á því yfirráðasvæði þar sem launþeginn starfar.
     2.      Ef launþegi dvelur ekki lengur í gistiríki en afkomandi hans í beinan ættlegg er í námi þar skal helsti umönnunaraðili afkomandans eiga rétt til dvalar í því ríki uns afkomandinn nær lögræðisaldri, og eftir að hann nær lögræðisaldri ef afkomandinn þarfnast áfram nærveru og umönnunar umönnunaraðilans til að geta stundað nám sitt og lokið því.
     3.      Launafólk sem sækir vinnu yfir landamæri skal njóta réttar til komu til og brottfarar frá atvinnuríkinu í samræmi við 13. gr. þessa samnings og halda þeim réttindum sem það naut sem launafólk þar, svo fremi að það sé í einum af þeim aðstæðum sem lýst er í a-, b-, c- og d-lið 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, jafnvel þótt það flytji ekki dvalarstað sinn til atvinnuríkisins.

23. gr.

Réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga.

     1.      Með fyrirvara um þær takmarkanir, sem settar eru fram í 32. og 33. gr. EES-samningsins, skulu sjálfstætt starfandi einstaklingar í gistiríkinu og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem sækja vinnu yfir landamæri í atvinnuríkinu eða -ríkjunum njóta þeirra réttinda sem 31. gr. og 124. gr. EES-samningsins tryggja. Þessi réttindi eru m.a.:
                  a.      rétturinn til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gistiríkið mælir fyrir um gagnvart eigin ríkisborgurum, eins og sett er fram í 31. gr. EES-samningsins,
                  b.      rétturinn sem settur er fram í c- til h-lið 1. mgr. 22. gr. þessa samnings.
     2.      Ákvæði 2. mgr. 22. gr. skulu gilda um afkomendur sjálfstætt starfandi einstaklinga í beinan legg.
     3.      Ákvæði 3. mgr. 22. gr. skulu gilda um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sækja vinnu yfir landamæri.

24. gr.

Útgáfa skjals um réttindi þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri.

     1.      Atvinnuríki er heimilt að krefjast þess af ríkisborgurum EFTA-ríkjanna innan EES og breskum ríkisborgurum, sem eiga tilkall til réttinda sem menn sem sækja vinnu yfir landamæri samkvæmt þessum bálki, að þeir sæki um skjal sem veitir þeim réttindi sín samkvæmt þessum bálki. Slíkir ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES og breskir ríkisborgarar skulu eiga rétt á að fá slíkt skjal útgefið.
     2.      Ef atvinnuríkið krefst slíks skjals skal frestur til að leggja fram umsókn vera a.m.k. 6 mánuðir frá útgöngudegi. Þar til fresturinn er liðinn og á meðan beðið er endanlegrar ákvörðun um umsókn sem lögð er fram á því tímabili skal líta svo á að öll réttindi, sem kveðið er á um í þessum hluta, eigi við um ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES eða breska ríkisborgara.
     3.      Ákvæði a-liðar, d- til g-liðar, i- til j-liðar, n- til p-liðar og r-liðar 1. mgr. 17. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.

3. KAFLI.

Fagleg menntun og hæfi.

25. gr.

Viðurkennd fagleg menntun og hæfi.

     1.      Viðurkenning fyrir útgöngudag á faglegri menntun og hæfi, eins og skilgreint er í b-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES eða breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra af hálfu gistiríkis þeirra eða atvinnuríkis, skal halda áhrifum sínum í viðkomandi landi, þ.m.t. réttur viðkomandi til að leggja stund á starfsgrein sína samkvæmt sömu skilyrðum og ríkisborgarar þess ríkis ef slík viðurkenning fór fram í samræmi við einhver eftirfarandi ákvæða:
                  a.      ákvæði III. bálks tilskipunar 2005/36/EB varðandi viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi í tengslum við nýtingu staðfesturéttar, hvort sem slík viðurkenning fellur undir almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám, kerfi viðurkenningar á starfsreynslu eða kerfi viðurkenningar á grundvelli samræmingar lágmarkskrafna um menntun,
                  b.      ákvæði 1. og 3. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB að því er varðar að fá aðgang að starfsgrein lögmanna í gistiríkinu eða atvinnuríkinu,
                  c.      ákvæði 14. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB að því er varðar viðurkenningu endurskoðenda,
                  d.      ákvæði tilskipunar ráðsins 74/556/EBE að því er varðar viðurkenningu sönnunar fyrir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að hefja og stunda starfsemi sem sjálfstætt starfandi einstaklingar og milliliðir sem veita þjónustu á sviði verslunar með og dreifingar á eiturefnum eða starfsemi sem felur í sér notkun eiturefna í atvinnuskyni.
     2.      Viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi að því er varðar a-lið 1. mgr. þessarar greinar skulu taka til:
                  a.      viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi sem byggir á 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 2005/36/EB,
                  b.      ákvarðana um að veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein í samræmi við 4. gr. f í tilskipun 2005/36/EB,
                  c.      viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi vegna staðfestu sem veittar eru skv. 4. gr. d í tilskipun 2005/36/EB.

26. gr.

Málsmeðferð sem þegar er hafin til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi.

    Að því er varðar meðferð lögbærs yfirvalds í gistiríki eða atvinnuríki á umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES eða breskir ríkisborgarar lögðu fram fyrir útgöngudaginn, og að því er varðar ákvörðun um slíka umsókn skulu 4. gr., 4. gr. d að því er varðar viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi til að öðlast staðfestu, 4. gr. f og III. bálkur tilskipunar 2005/36/EB, 10. gr. (1., 3. og 4. mgr.) tilskipunar 98/5/EB, 14. gr. tilskipunar 2006/43/EB og tilskipun 74/556/EBE gilda.
    Ákvæði 4. gr. a, 4. gr. b og 4. gr. e í tilskipun 2005/36/EB skulu einnig gilda að svo miklu leyti sem við á varðandi það að ljúka málsmeðferð til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi til að öðlast staðfestu skv. 4. gr. d í þeirri tilskipun.
    Bretland og EFTA-ríkin innan EES skulu koma á nauðsynlegu fyrirkomulagi, sem þörf er á vegna þess að Bretland mun ekki lengur eiga rétt á að hafa aðgang að samstarfsnetum, upplýsingakerfum og gagnagrunnum sem er komið á fót á grundvelli laga Sambandsins, til að tryggja að ljúka megi málsmeðferðum samkvæmt þessari grein.

27. gr.

Samvinna á sviði stjórnsýslu um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

    Að því er varðar umsóknir, sem eru í vinnslu og um getur í 26. gr., skulu Bretland og EFTA-ríkin innan EES vinna saman að því að auðvelda beitingu 26. gr. Samstarfið getur falist í því að skiptast á upplýsingum, m.a. upplýsingum um viðurlög eða refsiaðgerðir eða aðrar alvarlegar og sérstakar aðstæður sem eru líklegar til að hafa áhrif á starfsemi sem fellur undir tilskipanirnar sem um getur í 26. gr.

III. BÁLKUR.

SAMRÆMING ALMANNATRYGGINGARKERFA.

28. gr.

Persónulegt gildissvið.

     1.      Þessi bálkur skal gilda um eftirtalda einstaklinga:
                  a.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem heyra undir löggjöf Bretlands strax fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  b.      breska ríkisborgara sem heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES strax fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  c.      ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES sem eru búsettir í Bretlandi en heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES strax fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  d.      breska ríkisborgara sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES en heyra undir löggjöf Bretlands strax fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  e.      einstaklinga sem ekki heyra undir a- til d-lið en eru:
                  i.    ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES sem stunda atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í Bretlandi strax fyrir útgöngudaginn en heyra, á grundvelli II. bálks reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda, eða
                  ii.    breskir ríkisborgarar sem stunda atvinnu sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í einu eða fleiri EFTA-ríkjum innan EES strax fyrir útgöngudaginn en heyra, á grundvelli II. bálks reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, undir löggjöf Bretlands, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                  f.      ríkisfangslausir einstaklingar og flóttamenn sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES eða í Bretlandi og eru í einhverjum þeim aðstæðum sem lýst er í a- til e-lið, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda.
     2.      Einstaklingarnir sem um getur í 1. mgr. skulu vera tryggðir á meðan þeir halda áfram að vera, óslitið, í einhverjum þeim aðstæðum sem lýst er í þeirri málsgrein sem taka á sama tíma bæði til EFTA-ríkja innan EES og Bretlands.
     3.      Þessi bálkur skal einnig gilda um einstaklinga sem falla ekki eða falla ekki lengur undir a- til e-lið 1. mgr. þessarar greinar en falla undir 9. gr. þessa samnings, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda.
     4.      Einstaklingarnir sem um getur í 3. mgr. skulu vera tryggðir á meðan þeir halda áfram að eiga rétt til búsetu í gistiríkinu skv. 12. gr. þessa samnings, eða rétt til að starfa í atvinnuríki sínu skv. 22. eða 23. gr. þessa samnings.
     5.      Þar sem getið er um aðstandendur og eftirlifendur í þessari grein skulu þeir einstaklingar aðeins heyra undir þennan bálk að því marki sem þeir hafa réttindi og skyldur sem slíkir sem leiðir af reglugerð (EB) nr. 883/2004.

29. gr.

Reglur um samræmingu á sviði almannatrygginga.

     1.      Reglurnar og markmiðin, sem sett eru fram í 29. gr. EES-samningsins, reglugerð (EB) nr. 883/2004 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009, skulu gilda um þá einstaklinga sem heyra undir þennan bálk.
                      EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu taka tilhlýðilegt tillit til ákvarðana og taka mið af tilmælum framkvæmdaráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa, sem starfar í tengslum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og komið var á fót samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004 („framkvæmdaráðið“), sem talin eru upp í I. hluta í viðaukanum við samning þennan.
     2.      Þrátt fyrir 8. gr. þessa samnings skulu skilgreiningarnar í 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 gilda að því er þennan bálk varðar.

30. gr.

Sérstakar aðstæður sem eiga við.

     1.      Eftirfarandi reglur skulu gilda við eftirfarandi aðstæður, að því marki sem segir í þessari grein, að svo miklu leyti sem þær tengjast einstaklingum sem heyra ekki eða heyra ekki lengur undir 28. gr.:
                  a.      eftirtaldir einstaklingar skulu heyra undir þennan bálk með tilliti til þess að geta reitt sig á tryggingatímabil, starfstímabil launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga eða búsetutímabil, þ.m.t. réttindi og skyldur sem leiðir af slíkum tímabilum í samræmi við reglugerð (EB) nr. 883/2004, og söfnun slíkra tímabila:
                     i.      ríkisborgarar EFTA-ríkja innan EES, auk ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES og hafa heyrt undir löggjöf Bretlands fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda,
                     ii.      breskir ríkisborgarar, auk ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í Bretlandi og hafa heyrt undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES fyrir útgöngudaginn, auk aðstandenda þeirra og eftirlifenda, að því er varðar söfnun tímabila skal taka tillit til bæði tímabila sem lokið er fyrir og eftir útgöngudaginn í samræmi við reglugerð (EB) nr. 883/2004,
                  b.      reglur, sem settar eru fram í 20. og 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram um einstaklinga sem höfðu, fyrir útgöngudaginn, farið fram á leyfi fyrir skipulagðri læknismeðferð samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004, þar til meðferðinni lýkur. Samsvarandi verklagsreglur vegna endurgreiðslna skulu einnig gilda, jafnvel eftir að meðferð lýkur. Slíkir einstaklingar og fylgdarmenn þeirra skulu njóta réttar til komu til og brottfarar frá ríkinu þar sem meðferð fer fram í samræmi við 13. gr., að breyttu breytanda,
                  c.      reglur, sem settar eru fram í 19. og 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram um einstaklinga, sem heyra undir reglugerð (EB) nr. 883/2004 og dvelja strax fyrir útgöngudaginn í EFTA-ríki innan EES eða í Bretlandi, þar til dvöl þeirra lýkur. Samsvarandi verklagsreglur vegna endurgreiðslna skulu einnig gilda, jafnvel eftir að dvöl eða meðferð lýkur,
                  d.      reglur, sem settar eru fram í 67., 68. og 69. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, skulu gilda áfram, svo lengi sem skilyrði eru uppfyllt, um veitingu fjölskyldubóta, ef fyrir hendi er réttur til þeirra strax fyrir útgöngudaginn, til eftirtalinna einstaklinga:
                     i.      ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES, ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES og heyra undir löggjöf EFTA-ríkis innan EES og eiga aðstandendur sem eru búsettir í Bretlandi strax fyrir útgöngudaginn,
                     ii.      breskra ríkisborgara, ríkisfangslausra einstaklinga og flóttamanna sem eru búsettir í Bretlandi og heyra undir löggjöf Bretlands og eiga aðstandendur sem eru búsettir í EFTA-ríki innan EES strax fyrir útgöngudaginn,
                  e.      í þeim aðstæðum, sem lýst er í i. og ii. lið d-liðar þessarar málsgreinar, að því er varðar einstaklinga sem njóta réttinda sem aðstandendur strax fyrir útgöngudaginn samkvæmt reglugerð (EB) nr. 883/2004, s.s. afleiddra réttinda til sjúkraaðstoðar, skulu sú reglugerð og samsvarandi ákvæði reglugerðar (EB) nr. 987/2009 gilda áfram svo lengi sem skilyrði þeirra eru uppfyllt.
     2.      Ákvæði I. kafla III. bálks reglugerðar (EB) nr. 883/2004 varðandi sjúkrabætur skulu gilda um einstaklinga sem fá bætur skv. a-lið 1. mgr. þessarar greinar.
                      Þessi málsgrein gildir að breyttu breytanda um fjölskyldubætur á grundvelli 67., 68. og 69. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004.

31. gr.

Endurgreiðsla, endurheimt og skuldajöfnun.

    Ákvæði reglugerða (EB) nr. 883/2004 og (EB) 987/2009 um endurgreiðslu, endurheimt og skuldajöfnun skulu gilda áfram í tengslum við atburði, að því marki sem þeir tengjast einstaklingum sem ekki falla undir 28. gr. sem:
     a.      verða fyrir útgöngudaginn eða
     b.      verða eftir útgöngudaginn og tengjast einstaklingum sem féllu undir 28. eða 30. gr. þegar atburðurinn átti sér stað.

32. gr.

Lagaþróun og aðlögun gerða sem felldar eru inn í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum.

     1.      Þegar reglugerðum (EB) nr. 883/2004 og (EB) 987/2009 er breytt eða aðrar koma í þeirra stað eftir útgöngudaginn og þegar slíkar breytingar eða gerðir sem koma í stað þessara reglugerða eru teknar upp í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum skal lesa vísanir til þessara reglugerða í þessum samningi eins og vísað sé til þeirra með breytingum eða til gerðanna sem koma í þeirra stað samkvæmt EES-samningnum, í samræmi við gerðirnar sem taldar eru upp í II. hluta viðaukans við þennan samning.
                      Þegar gerð sem breytir eða kemur í stað reglugerða (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009 hefur verið tekin upp í EES-samninginn og gildir samkvæmt honum skal sameiginlega nefndin, sem er komið á fót með 37. gr. („Sameiginlega nefndin“), meta áhrif gerðarinnar og íhuga hvort rétt sé að endurskoða II. hluta viðaukans við þennan samning til þess að samræma hann gerðinni. Í því skyni skulu EFTA-ríki innan EES, eins fljótt og auðið er eftir að ferlið við að taka gerðina upp í samninginn er hafið, upplýsa Bretland um það.
                      Ef sameiginlega nefndin tekur ekki ákvörðun um að samræma II. hluta viðaukans við þennan samning gerðinni sem um getur, skal ekki samræma II. hluta viðaukans við þennan samning gerðinni.
     2.      Litið skal svo á að reglugerðir (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009 taki, að því er samning þennan varðar, til þeirra aðlagana sem taldar eru upp í III. hluta viðaukans við þennan samning. Eins fljótt og auðið er að lokinni samþykkt hvers konar breytinga á landslögum sem varða III. hluta viðaukans við þennan samning skal Bretland upplýsa EFTA-ríkin innan EES um það á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar.
     3.      Litið skal svo á að ákvarðanir og tilmæli framkvæmdaráðsins taki, að því er þennan samning varðar, til ákvarðananna og tilmælanna sem talin eru upp í I. hluta viðaukans. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að breyta I. hluta viðaukans þannig að hann endurspegli sérhverja nýja ákvörðun eða tilmæli sem framkvæmdaráðið hefur samþykkt og tekin hafa verið upp í EES-samninginn og gilda samkvæmt honum eftir því sem sameiginlega nefndin telur við hæfi. Í því skyni skulu EFTA-ríkin innan EES, eins fljótt og auðið er eftir að sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt slíka ákvörðun, upplýsa Bretland um það á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega nefndin skal gera slíkar breytingar að tillögu EFTA-ríkjanna innan EES eða Bretlands.

33. gr.

Endurskoðun III. bálks

    Samningsaðilarnir skulu endurskoða í sameiningu ákvæði III. bálks á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar með reglubundnum hætti. Sameiginlega nefndin skal við endurskoðunina fjalla um hvort þessi bálkur verði besta leiðin til að tryggja samræmingu á sviði félagslegs öryggis fyrir þá einstaklinga sem eru tryggðir eða hvort breyta ætti þessum bálki eða skipta honum út.

IV. BÁLKUR.

ÖNNUR ÁKVÆÐI.

34. gr.

Kynning.

    EFTA-ríkin innan EES og Bretland skulu miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta, einkum með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu og staðbundnum fjölmiðlum og í öðrum samskiptamiðlum, eftir því sem við á.

35. gr.

Hagstæðari ákvæði.

    Þessi hluti skal ekki hafa áhrif á lög eða stjórnsýsluákvæði í gistiríkinu eða atvinnuríkinu sem eru hagstæðari þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Þessi grein skal ekki gilda um III. bálk.

36. gr.

Vernd ævilangt.

    Þeir einstaklingar sem heyra undir þennan hluta skulu njóta þeirra réttinda sem kveðið er á um í viðeigandi bálkum þessa hluta ævilangt nema þeir uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.

ÞRIÐJI HLUTI.

STOFNANA- OG LOKAÁKVÆÐI.

I. BÁLKUR.

STOFNANAÁKVÆÐI.

37. gr.

Sameiginlega nefndin.

     1.      Hér með er komið á fót sameiginlegri nefnd sem skipuð er fulltrúum allra samningsaðilanna. Samningsaðilar skulu skiptast á um að fara með formennsku í sameiginlegu nefndinni.
     2.      Sameiginlega nefndin skal koma saman að beiðni eins af samningsaðilunum og, hvað sem öðru líður, eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Sameiginlega nefndin skal setja niður fundaáætlun sína og dagskrá funda með samhljóða samþykki. Fari samningsaðili fram á fund í sameiginlegu nefndinni skal slíkur fundur fara fram eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 45 dögum eftir móttöku beiðninnar nema komist sé að samkomulagi um annað.
     3.      Sameiginlega nefndin skal bera ábyrgð á framkvæmd og beitingu þessa samnings. Samningsaðili getur vísað til sameiginlegu nefndarinnar hvaða máli sem er sem tengist framkvæmd, beitingu og túlkun þessa samnings.
     4.      Sameiginlega nefndin skal:
                  a.      hafa yfirumsjón með og auðvelda framkvæmd og beitingu þessa samnings,
                  b.      ákveða verkefni fagnefnda og hafa umsjón með starfi þeirra,
                  c.      leita viðeigandi leiða og aðferða til að fyrirbyggja vandamál sem upp gætu komið á sviðum sem heyra undir þennan samning eða til að leysa deilur sem kunna að rísa varðandi túlkun og beitingu samnings þessa, m.a. í samræmi við 40. gr.,
                  d.      samþykkja eigin starfsreglur og starfsreglur fagnefnda,
                  e.      taka til umfjöllunar hvers konar málefni sem tengjast einhverju af þeim sviðum sem heyra undir þennan samning,
                  f.      samþykkja ákvarðanir og leggja fram tilmæli, eins og fram kemur í 38. gr.
     5.      Sameiginlegu nefndinni er heimilt að:
                  a.      koma á fót einni eða fleiri fagnefndum sér til aðstoðar við störf sín og leysa þær upp,
                  b.      fela fagnefndunum skyldustörf, þó ekki þau sem um getur í b-, d- og f-lið 4. mgr.,
                  c.      breyta verkefnum fagnefndanna,
                  d.      í tengslum við annan hluta, til loka fjórða árs frá gildistöku þessa samnings, samþykkja ákvarðanir um breytingar á þessum samningi þegar slíkar breytingar eru nauðsynlegar til þess að leiðrétta villur, yfirsjónir eða aðra galla eða til þess að eiga við aðstæður sem voru ófyrirséðar við undirritun þessa samnings og að því tilskildu að slíkar ákvarðanir breyti ekki grundvallarþáttum þessa samnings,
                  e.      grípa til annarra aðgerða í störfum sínum sem samningsaðilar taka ákvörðun um.
     6.      Sameiginlega nefndin skal gefa út ársskýrslu um framkvæmd þessa samnings.

38. gr.

Ákvarðanir og tilmæli.

     1.      Sameiginlega nefndin skal, að því er varðar samning þennan, hafa vald til að samþykkja ákvarðanir vegna allra málefna sem kveðið er á um í þessum samningi og beina viðeigandi tilmælum til samningsaðilanna.
     2.      Með fyrirvara um 3. mgr. skulu ákvarðanir, sem sameiginlega nefndin samþykkir, vera við gildistöku bindandi fyrir samningsaðilana og skulu samningsaðilarnir koma þeim til framkvæmda.
     3.      Ef ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar getur verið bindandi fyrir samningsaðila því aðeins að innlend lagaskilyrði hafi verið uppfyllt skal ákvörðunin öðlast gildi fyrir þann samningsaðila fyrsta dag annars mánaðar eftir þann dag þegar samningsaðilinn tilkynnir vörsluaðila að innlendum skilyrðum hans hafi verið fullnægt nema samkomulag náist um annað í sameiginlegu nefndinni.
     4.      Sameiginlega nefndin skal samþykkja ákvarðanir sínar og leggja fram tilmæli sín með samhljóða samþykki.

II. BÁLKUR.

LAUSN DEILUMÁLA.

39. gr.

Samvinna.

    Samningsaðilar skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta með samvinnu og samráði til að finna lausn sem allir aðilar geta sætt sig við í hverju því máli sem getur haft áhrif á framkvæmd hans.

40. gr.

Lausn deilumála.

     1.      Hver samningsaðili getur vísað deilu varðandi túlkun eða beitingu þessa samnings til sameiginlegu nefndarinnar.
     2.      Sameiginlega nefndin skal leitast við að leysa deilumál. Samningsaðilarnir skulu láta sameiginlegu nefndinni í té allar þær upplýsingar sem að gagni gætu komið við mögulega ítarlega rannsókn á stöðunni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn. Í þessu skyni skal sameiginlega nefndin kanna alla möguleika á því að viðhalda góðri framkvæmd samningsins. Sameiginlega nefndin getur leyst úr deilumálum með ákvörðun.

III. BÁLKUR.

LOKAÁKVÆÐI.

41. gr.

Viðauki.

    Viðaukinn er óaðskiljanlegur hluti þessa samnings.

42. gr.

Gildur texti og vörsluaðili.

    Samningur þessi er gerður í einu frumriti á ensku.
    Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili samnings þessa.

43. gr.

Gildistaka og beiting til bráðabirgða.

     1.      Samningur þessi er með fyrirvara um samþykki í samræmi við lagaskilyrði hvers samningsaðila um sig. Afhenda skal vörsluaðilanum samþykktarskjölin til vörslu.
     2.      Þessi samningur öðlast því aðeins gildi að ekki liggi fyrir samningur sem tekur til réttinda borgara milli Sambandsins og Bretlands skv. 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið.
     3.      Með fyrirvara um 2. mgr. skal þessi samningur öðlast gildi gagnvart þeim samningsaðilum sem hafa afhent skjöl sín um samþykki til vörslu, á þeim degi sem ber upp síðar:
           i.      útgöngudegi eða
           ii.      þeim degi þegar a.m.k. eitt EFTA-ríki innan EES og Bretland hafa afhent vörsluaðila skjöl sín um samþykki til vörslu.
     4.      Að því er varðar EFTA-ríki innan EES, sem afhendir skjal sitt um samþykki til vörslu eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi skv. 3. mgr. skal samningurinn öðlast gildi daginn eftir að skjal þess hefur verið afhent til vörslu.
     5.      Samningsaðili getur, með því að senda vörsluaðilanum tilkynningu þar um, beitt þessum samningi til bráðabirgða á meðan beðið er gildistöku hans að því er hann sjálfan varðar. Slík bráðabirgðabeiting skal taka gildi á þeim degi sem ber upp síðar:
           i.      útgöngudegi, að því tilskildu að Bretland og a.m.k. eitt EFTA-ríki innan EES hafi lagt fram slíka tilkynningu til vörslu eða
           ii.      á þeim degi þegar Bretland og a.m.k. eitt EFTA-ríki innan EES hafa lagt fram tilkynningar sínar til vörslu.
     6.      Samningsaðili skal hætta bráðabirgðabeitingu sinni á þessum samningi með skriflegri tilkynningu til vörsluaðilans sem skal tilkynna öllum hinum samningsaðilunum um það. Slík lok á beitingu skulu taka gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir tilkynninguna.


    Gjört í London 2. apríl 2019 í einu frumriti á ensku sem skal afhent vörsluaðilanum til vörslu sem sendir öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:

    ………………………………………………………

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Furstadæmisins Liechtenstein:

    ……………………………………………………….

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Noregs:

    ……………………………………………………….

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands:

    ………………………………………………………


VIÐAUKI.

Samræming á sviði almannatrygginga.

I. hluti.

Ákvarðanir og tilmæli framkvæmdaráðsins.

Gildandi löggjöf (A-röð):
     ákvörðun A1 frá 12. júní 2009 um að koma á samráðs- og sáttaferli varðandi gildi skjala, það hvaða löggjöf skuli gilda og úthlutun bóta samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 1),
     ákvörðun A2 frá 12. júní 2009 um túlkun 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um löggjöf sem útsendir starfsmenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem starfa tímabundið utan lögbærs ríkis, heyra undir (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 5),
     ákvörðun A3 frá 17. desember 2009 um uppsöfnun óslitinna útsendingartímabila sem lokið er við samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 149, 8.6.2010, bls. 3).

Skipti á rafrænum gögnum (E-röð):
     ákvörðun E1 frá 12. júní 2009 um hagnýtt fyrirkomulag vegna aðlögunartímabils varðandi upplýsingaskipti með rafrænum aðferðum sem um getur í 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 9),
     ákvörðun E2 frá 3. mars 2010 um að koma á málsmeðferð vegna breytinga á upplýsingum um þá aðila sem eru skilgreindir í 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og skráðir eru í rafræna skrá sem er óaðskiljanlegur hluti rafrænnar miðlunar upplýsinga um almannatryggingar (EESSI) (Stjtíð. ESB C 187, 10.7.2010, bls. 5),
     ákvörðun E4 frá 13. mars 2011 um umbreytingartímabilið sem skilgreint er í 95. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 152, 20.5.2014, bls. 21).

Fjölskyldubætur (F-röð):
     ákvörðun F1 frá 12. júní 2009 um túlkun 68. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 að því er varðar reglur um forgang þegar fjölskyldubætur skarast (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 11),
     ákvörðun F2 frá 23. júní 2015 um gagnaskipti milli stofnana vegna veitingar fjölskyldubóta (Stjtíð. ESB C 52, 11.2.2016, bls. 11).

Þverlæg málefni (H-röð):
     ákvörðun H1 frá 12. júní 2009 um skiptin frá reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1408/71 og (EBE) nr. 574/72 yfir í reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009 og beitingu ákvarðana og tilmæla framkvæmdaráðsins varðandi samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 13),
     ákvörðun H2 frá 12. júní 2009 um starf og samsetningu tækninefndar um gagnavinnslu á vegum framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 17),
     ákvörðun H3 frá 15. október 2009 um ákvörðun dagsetningar sem taka þarf tillit til varðandi umreikningsgengi sem um getur í 90. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 56),
     ákvörðun H4 frá 22. desember 2009 um skipan og starfshætti endurskoðunarnefndar framkvæmdaráðs um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 107, 24.4.2010, bls. 3),
     ákvörðun nr. H5 frá 18. mars 2010 um samvinnu um að berjast gegn svikum og villum innan ramma reglugerðar ráðsins (EB) nr. 883/2004 og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 149, 8.4.2010, bls. 5),
     ákvörðun H6 frá 16. desember 2010 um beitingu tiltekinna meginreglna varðandi söfnun tímabila skv. 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 45, 12.2.2011, bls. 5),
     ákvörðun H7 frá 25. júní 2015 um endurskoðun ákvörðunar H3 um ákvörðun dagsetningar sem taka þarf tillit til varðandi umreikningsgengi sem um getur í 90. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 52, 11.2.2016, bls. 13).

Lífeyrir (P-röð):
     ákvörðun P1 frá 12. júní 2009 um túlkun 50. gr. (4. mgr.), 58. gr. og 87. gr. (5. mgr.) reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um úthlutun bóta vegna örorku, elli og til eftirlifenda (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 21),
     tilmæli P1 frá 12. júní 2009 um Gottardo-dóminn, en samkvæmt honum skulu þau kjör, sem ríkisborgurum aðildarríkis eru tryggð með tvíhliða almannatryggingasamningi við land utan Bandalagsins, einnig veitt launþegum sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 47).

Endurheimt (R-röð):
     ákvörðun R1 frá 20. júní 2013 um túlkun 85. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 279, 27.9.2013, bls. 11).

Veikindi (S-röð):
     ákvörðun S1 frá 12. júní 2009 um evrópska sjúkratryggingakortið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 23),
     ákvörðun S2 frá 12. júní 2009 um tækniforskriftir fyrir evrópska sjúkratryggingakortið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 26),
     ákvörðun S3 frá 12. júní 2009 um skilgreiningu þeirrar aðstoðar sem fellur undir 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 27. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 og 3. mgr. A-hluta 25. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 40),
     ákvörðun S5 frá 2. október 2009 um túlkun hugtaksins „aðstoð“ eins og það er skilgreint í va-lið 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 vegna veikinda eða meðgöngu og fæðingar skv. 17. gr., 19. gr., 20. gr., 22. gr., 24. gr. (1. mgr.), 25. gr., 26. gr., 27. gr. (1., 3., 4. og 5. mgr.), 28. gr., 34. gr. og 36. gr. (1. og 2. mgr.) reglugerðar (EB) nr. 883/2004, og um útreikning fjárhæða til endurgreiðslu skv. 62., 63. og 64. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 54),
     ákvörðun S6 frá 22. desember 2009 um skráningu í búsetuaðildarríki skv. 24. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 og samantekt skráa sem kveðið er á um í 4. mgr. 64. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 107, 27.4.2010, bls. 6),
     ákvörðun S8 frá 15. júní 2011 um að láta í té gervilimi, stærri stoðtæki og aðra verulega aðstoð sem kveðið er á um í 33. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB C 262, 6.9.2011, bls. 6),
     ákvörðun S9 frá 20. júní 2013 um tilhögun endurgreiðslu vegna framkvæmdar 35. og 41. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 279, 27.9.2013, bls. 8),
     ákvörðun S10 frá 19. desember 2013 um að breyta frá reglugerðum (EBE) nr. 1408/71 og 574/72 yfir í reglugerðir (EB) nr. 883/2004 og 987/2009 og beitingu verklagsreglna vegna endurgreiðslna (Stjtíð. ESB C 152, 20.5.2014, bls. 16),
     tilmæli S1 frá 15. mars 2012 um fjárhagslega þætti varðandi líffæragjöf lifandi gjafa yfir landamæri (Stjtíð. ESB C 240, 10.8.2012, bls. 3).

Atvinnuleysi (U-röð):
     ákvörðun U1 frá 12. júní 2009 um 3. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 að því er varðar hækkun atvinnuleysisbóta vegna aðstandenda (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 42),
     ákvörðun U2 frá 12. júní 2009 um gildissvið 2. mgr. 65. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um rétt einstaklinga, sem eru atvinnulausir með öllu, til atvinnuleysisbóta, annarra en þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri og voru búsettir í öðru aðildarríki en lögbæru aðildarríki þegar þeir störfuðu síðast sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 43),
     ákvörðun nr. U3 frá 12. júní 2009 um gildissvið hugtaksins „atvinnuleysi að hluta til“ sem á við um atvinnulausa einstaklinga sem um getur í 1. mgr. 65. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 45),
     ákvörðun U4 frá 13. desember 2011 um málsmeðferð við endurgreiðslu skv. 6. og 7. mgr. 65. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og 70. gr. reglugerðar (EB) nr. 987/2009 (Stjtíð. ESB C 57, 25.2.2012, bls. 4),
     tilmæli U1 frá 12. júní 2009 um löggjöfina sem gildir um atvinnulausa einstaklinga sem eru í hlutastarfi í öðru aðildarríki en búseturíkinu, hvort heldur sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 49),
     tilmæli U2 frá 12. júní 2009 um beitingu a-liðar 1. mgr. 64. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 gagnvart atvinnulausum einstaklingum sem fylgja mökum eða sambýlismönnum/-konum sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í aðildarríki sem er annað en lögbæra ríkið (Stjtíð. ESB C 106, 24.4.2010, bls. 51).

II. hluti.

Gerðir sem vísað er til.

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, 4 eins og henni var breytt með:
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 988/2009 frá 16. september 2009, 5
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1244/2010 frá 9. desember 2010, 6
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 465/2012 frá 22. maí 2012, 7
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1224/2012 frá 18. desember 2012, 8
     reglugerð ráðsins (ESB) nr. 517/2013 frá 13. maí 2013, 9
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1372/2013 frá 19. desember 2013, 10 eins og henni var breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1368/2014 frá 17. desember 2014, 11
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2017/492 frá 21. mars 2017. 12

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa 13 , eins og henni var breytt með:
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1244/2010 frá 9. desember 2010, 14
     reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 465/2012 frá 22. maí 2012, 15
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1224/2012 frá 18. desember 2012, 16
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1372/2013 frá 19. desember 2013, 17
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1368/2014 frá 17. desember 2014, 18
     reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2017/492 frá 21. mars 2017. 19

III. hluti.

Aðlaganir á reglugerðum (EB) nr. 883/2004 og (EB) nr. 987/2009.

    Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 883/2004 skulu, að því er varðar þennan samning, aðlöguð sem hér segir:
     a.      Eftirfarandi bætist við III. viðauka:
             „BRETLAND“.
     b.      Eftirfarandi bætist við VI. viðauka:
             „BRETLAND
                      Atvinnu- og stuðningsgreiðsla (Employment and Support Allowance – ESA)
              a.      Atvinnu- og stuðningsgreiðslur sem úthlutað er fyrir 1. apríl 2016 teljast fyrsta 91 daginn (matsáfangi) vera sjúkrabætur í peningum. Frá 92. degi teljast atvinnu- og stuðningsgreiðslur (aðaláfangi) vera örorkubætur.
              b.      Atvinnu- og stuðningsgreiðslur, sem úthlutað er 1. apríl 2016 eða síðar, teljast fyrstu 365 dagana (matsáfangi) vera sjúkrabætur í peningum. Frá 366. degi teljast atvinnu- og stuðningsgreiðslur (stuðningshópur) vera örorkubætur.
                      Löggjöf Stóra-Bretlands: 1. hluti velferðarlaga (Welfare Reform Act) 2007.
                      Löggjöf Norður-Írlands: 1. hluti velferðarlaga (Welfare Reform Act) (Norður-Írland) 2007.“
     c.      Eftirfarandi bætist við í 1. hluta VIII. viðauka:
             „BRETLAND
                      Allar umsóknir um eftirlaunalífeyri, lífeyri frá ríkinu skv. 1. hluta laga um lífeyri frá 2014, ekknalífeyri og bætur vegna ástvinamissis nema þær þar sem á skattári sem hófst 6. apríl 1975 eða síðar:
         i.      hlutaðeigandi aðili hefur lokið trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum samkvæmt löggjöf Breska konungsríkisins og annars aðildarríkis og eitt (eða fleiri) skattár teljast ekki fullgild ár í skilningi löggjafar Breska konungsríkisins,
         ii.      tekið væri tillit til tryggingatímabila, sem er lokið samkvæmt gildandi löggjöf Breska konungsríkisins varðandi tímabil fyrir 5. júlí 1948, að því er varðar b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar með beitingu trygginga-, starfs- eða búsetutímabila samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis.
                      Allar umsóknir um viðbótarlífeyri skv. 44. þætti laga frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992) og 44. þætti laga frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Norður-Írland) (Social Security Contributions and Benefits (Northern Ireland) Act 1992).“
     d.      Eftirfarandi bætist við í 2. hluta VIII. viðauka:
             „BRETLAND
                      Stighækkandi eftirlaun sem eru greidd skv. 36. og 37. þætti laga um almannatryggingar frá 1965 og 35. og 36. þætti laga um almannatryggingar (Norður-Írland) frá 1966.“
     e.      Eftirfarandi bætist við X. viðauka:
             „BRETLAND
              a.      Lífeyrisstig ríkisins (lög um lífeyrisstig ríkisins frá 2002 og lög um lífeyrisstig ríkisins (Norður-Írland) frá 2002).
              b.      Tekjutengdar greiðslur fyrir fólk í atvinnuleit (lög frá 1995 um fólk í atvinnuleit og reglur frá 1995 um fólk í atvinnuleit (Norður-Írland)).
              c.      Framfærslugreiðslur til fatlaðra einstaklinga (lög frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga og lög frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Norður-Írland)).
              d.      Tekjutengd atvinnuleysis- og stuðningsgreiðsla (velferðarlög (Welfare Reform Act) 2007 og velferðarlög (Welfare Reform Act) (Norður-Írlandi) 2007).“
     f.      Eftirfarandi bætist við XI. viðauka:
             „BRETLAND
                  1.      Þegar einstaklingur getur, í samræmi við breska löggjöf, átt tilkall til eftirlaunalífeyris enda:
                      a.      séu iðgjöld fyrrverandi maka talin með sem eigin iðgjöld eða
                      b.      hafi maki eða fyrrverandi maki þess einstaklings uppfyllt viðkomandi skilyrði um iðgjöld skulu ákvæði 5. kafla í III. bálki þessarar reglugerðar gilda við ákvörðun á bótarétti samkvæmt breskri löggjöf að því tilskildu að maki eða fyrrverandi maki sé eða hafi verið launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur og heyrt undir löggjöf tveggja eða fleiri aðildarríkja. Í því tilviki skal túlka tilvísanir í áðurnefndum 5. kafla til ,,tryggingatímabila“ sem tímabil sem lokið hefur verið af hálfu:
                             i.      maka eða fyrrverandi maka, ef krafa til bóta er gerð af hálfu:
                            —    giftrar konu eða
                            —    einstaklings sem var í hjónabandi sem lauk með öðrum hætti en með andláti maka eða
                         ii.      fyrrverandi maka, ef krafa til bóta er gerð af hálfu:
                            —    ekkils sem átti ekki, rétt áður en hann náði eftirlaunaaldri, rétt á greiðslum fyrir ekkla/ekkjur með börn eða
                            —    ekkju sem átti ekki, rétt áður en hún náði eftirlaunaaldri, rétt á greiðslum fyrir ekkjur með börn, fyrir ekkla/ekkjur með börn eða ekknalífeyri eða sem á einvörðungu rétt á aldurstengdum ekknalífeyri sem reiknaður er út skv. b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar, en í þessu sambandi merkir „aldurstengdur ekknalífeyrir“ ekknalífeyri sem er greiddur út í lækkuðu hlutfalli í samræmi við 4. mgr. 39. gr. laga um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga frá 1992.
                  2.      Við beitingu 6. gr. reglugerðarinnar vegna ákvæða um rétt á umönnunargreiðslum (attendance allowance, carer's allowance) og framfærslugreiðslum til fatlaðra einstaklinga (disability living allowance) skal taka til greina starfstímabil launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabil sem er lokið á yfirráðasvæði annars aðildarríkis en Breska konungsríkisins, að svo miklu leyti sem þörf er á til að uppfylla kröfuna um búsetu í Breska konungsríkinu fyrir þann dag sem réttur til umræddra bóta kemur fyrst fram.
                  3.      Að því er varðar 7. gr. reglugerðarinnar, þegar um er að ræða örorku-, elli- eða eftirlifendabætur í peningum, lífeyri vegna vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma og dánarstyrki, skal greiðsluþegi samkvæmt breskri löggjöf sem dvelur á yfirráðasvæði annars aðildarríkis teljast búsettur á yfirráðasvæði þess aðildarríkis á meðan á dvöl hans stendur.
                  4.      Við beitingu 46. gr. reglugerðarinnar skal Breska konungsríkið, ef hlutaðeigandi einstaklingur hefur orðið óvinnufær og síðan öryrki á meðan hann heyrði undir löggjöf annars aðildarríkis, að því er varðar 5. mgr. 30. þáttar A í lögum frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992), taka til greina hvert það tímabil sem hlutaðeigandi einstaklingur hefur fengið, vegna þeirrar óvinnufærni:
                i.    sjúkrabætur í peningum eða kaup eða laun þess í stað eða
                ii.    bætur í skilningi 4. og 5. kafla III. bálks þessarar reglugerðar, sem eru greiddar vegna örorkunnar sem kom í kjölfar þessarar óvinnufærni, samkvæmt löggjöf hins aðildarríkisins, eins og um væri að ræða tímabil sem bætur vegna óvinnufærni til skemmri tíma hefðu verið greiddar í samræmi við 1.-4. mgr. 30. þáttar A í lögum frá 1992 um iðgjöld og bætur á sviði almannatrygginga (Social Security Contributions and Benefits Act 1992).
                      Við beitingu þessa ákvæðis skal einungis taka tillit til tímabila þegar einstaklingur hefði verið ófær um að stunda vinnu í skilningi breskrar löggjafar.
                  5.      1. Þegar reikna skal út tekjuþátt í þeim tilgangi að ákvarða rétt til bóta, samkvæmt breskri löggjöf, fyrir hverja starfsviku sem launþegi heyrði undir löggjöf annars aðildarríkis og hófst á viðkomandi tekjuskattsári í skilningi löggjafar Breska konungsríkisins, telst hann hafa greitt iðgjöld launþega, eða hafa tekjur sem iðgjöld hafa verið greidd af, á grundvelli tekna sem jafngildar eru tveimur þriðju af hámarkstekjum þess árs.
                2. Við beitingu ii. liðar í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar þegar:
                    a.    launþegi hefur lokið trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum alfarið í öðru aðildarríki en Breska konungsríkinu, á tekjuskattsári sem hefst 6. apríl 1975 eða síðar, og beiting 1. mgr. 5. liðar hér að framan leiðir til þess að það ár telst með í skilningi breskrar löggjafar vegna i. liðar í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar, telst hann hafa verið tryggður í 52 vikur á því ári í hinu aðildarríkinu,
                    b.    tekjuskattsár, sem hefst 6. apríl 1975 eða síðar, telst ekki með í skilningi breskrar löggjafar hvað viðkemur i. lið í b-lið 1. mgr. 52. gr. þessarar reglugerðar skal alfarið horft fram hjá trygginga-, starfs- eða búsetutímabilum á því ári.
                3. Þegar breyta á tekjuþætti í tryggingatímabil skal deila í tekjur viðkomandi tekjuskattsárs í skilningi breskrar löggjafar með lágmarkstekjum þess árs. Niðurstöðuna skal birta í heilum tölum en brotum sleppt. Niðurstöðutalan stendur þá fyrir fjölda tryggingavikna sem lokið hefur verið samkvæmt breskri löggjöf á því ári, að því tilskildu að talan fari ekki fram úr þeim vikufjölda á því ári þegar einstaklingurinn heyrði undir umrædda löggjöf.“

    Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 987/2009 skulu, að því er varðar þennan samning, aðlöguð sem hér segir:
     a.      Eftirfarandi bætist við 1. viðauka:
             „BRETLAND — NOREGUR
              a.      ,,Bréfaskipti frá 20. mars 1997 og 3. apríl 1997 um 3. mgr. 36. gr. og 3. mgr. 63. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 (endurgreiðsla eða niðurfelling endurgreiðslna á kostnaði vegna aðstoðar) og 105. gr. reglugerðar (EBE) nr. 574/72 (niðurfelling kostnaðar við eftirlit og læknisskoðanir).“
     b.      Eftirfarandi bætist við 3. viðauka:
             „BRETLAND“.

1    Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3 og Stjórnartíðindi hvers EFTA-ríkis innan EES.
2    Stjtíð. EB C 23, 28.1.1983, bls. 1.
3    Stjtíð. ESB C 306, 17.12.2007, bls. 270.
4    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB frá 29. apríl 2004 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, um breytingu á reglugerð (EBE) nr. 1612/68 og niðurfellingu tilskipana 64/221/EBE, 68/360/EBE, 72/194/EBE, 73/148/EBE, 75/34/EBE, 75/35/EBE, 90/364/EBE, 90/365/EBE og 93/96/EBE (Stjtíð. ESB L 158, 30.4.2004, bls. 77).
5    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins (Stjtíð. ESB L 141, 27.5.2011, bls. 1).
6    Þessi grein hefur ekki áhrif á yfirlýsinguna sem fylgir ákvörðun EES-ráðsins nr. 1/95 um ríkisborgara Furstadæmisins Liechtenstein sem eru handhafar prófskírteina sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur í a.m.k. þrjú ár í þriðja landi (Stjtíð. EB L 86, 20.4.1995, bls. 58).
7    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi (Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 22).
8    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/5/EB frá 16. febrúar 1998 um að auðvelda lögmönnum að starfa til frambúðar í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi (Stjtíð. ESB L 77, 14.3.1998, bls. 36).
9    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE (Stjtíð. ESB. L 157, 9.6.2006, bls. 87).
10    Tilskipun ráðsins 74/556/EBE frá 4. júní 1974 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi, verslunar með og dreifingar á eiturefnum og vegna starfsemi sem felur í sér notkun slíkra efna í atvinnuskyni, að meðtalinni starfsemi milliliða (Stjtíð. EB L 307, 18.11.1974, bls. 1).
11    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB L 166, 30.4.2004, bls. 1).
12    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa (Stjtíð. ESB L 284, 30.10.2009, bls. 1).
13    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 528/2012 frá 22. maí 2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra (Stjtíð. ESB L 167, 27.6.2012, bls. 1).
14    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2009 frá 21. október 2009 um setningu plöntuverndarvara á markað (Stjtíð. ESB L 309, 24.11.2009, bls. 1).
15    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum (Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 67).
16    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/82/EB frá 6. nóvember 2001 um bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum (Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 1).
17    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 110/2008 frá 15. janúar 2008 um skilgreiningu, lýsingu, kynningu, merkingu og vernd landfræðilegra merkinga á brenndum drykkjum og niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1576/89 (Stjtíð. ESB L 39, 13.2.2008, bls. 16).
18    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 frá 16. desember 2015 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki (Stjtíð. ESB L 336, 23.12.2015, bls. 1).
19    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna (Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20).
20    Stjtíð. EB C 197, 12.7.2000, bls. 1.
21    Stjtíð. EB C 326, 21.11.2001, bls. 2.
22    Stjtíð. EB L 239, 22.09.2000, bls. 19.
23    Stjtíð. ESB L 343, 28.11.2014, bls. 1.
24    Stjtíð. ESB L 205, 7.8.2007, bls. 63.
25    Stjtíð. EB L 15, 20.1.2000, bls. 2.
26    Stjtíð. EB L 176, 10.7.1999, bls. 36.
27    Stjtíð. ESB L 26, 29.1.2004, bls. 3.
28    Stjtíð. ESB L 160, 18.6.2011, bls. 3.
29    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almenna persónuverndarreglugerðin) (Stjtíð. ESB L 119, 4.5.2016, bls. 1).
30    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/680 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og um niðurfellingu rammaákvörðunar ráðsins 2008/977/DIM (Stjtíð. ESB L 119, 4.5.2016, bls. 89).
31    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB frá 12. júlí 2002 um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta (tilskipun um friðhelgi einkalífsins og rafræn fjarskipti) (Stjtíð. EB L 201, 31.7.2002, bls. 37).
32    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB frá 26. febrúar 2014 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og um niðurfellingu tilskipunar 2004/17/EB (Stjtíð. ESB L 94, 28.3.2014, bls. 243).
33    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB (Stjtíð. ESB L 216, 20.8.2009, bls. 76).
34    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/23/ESB frá 26. febrúar 2014 um gerð sérleyfissamninga (Stjtíð ESB L 94, 28.3.2014, bls. 1).
35    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB frá 26. febrúar 2014 um opinber innkaup og niðurfellingu tilskipunar 2004/18/EB (Stjtíð. ESB L 94, 28.3.2014, bls. 65).
36    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB frá 26. febrúar 2014 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og um niðurfellingu tilskipunar 2004/17/EB (Stjtíð. ESB L 94, 28.3.2014, bls. 243).
37    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2195/2002 frá 5. nóvember 2002 um sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV) (Stjtíð EB L 340, 16.12.2002, bls. 1).
38    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007 frá 23. október 2007 um almenna farþegaflutninga á járnbrautum og á vegum og um niðurfellingu á reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1191/69 og (EBE) nr. 1107/70 (Stjtíð ESB L 315, 3.12.2007, bls. 1).
39    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3577/92 frá 7. desember 1992 um beitingu meginreglunnar um frjálsa þjónustustarfsemi í flutningum á sjó innan aðildarríkjanna (gestaflutningar á sjó) (Stjtíð EB. L 364, 12.12.1992, bls. 7).
40    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 96/67 frá 18. janúar 1996 um opnun á viðbótarinnflutningskvótum til Bandalagsins fyrir tilteknar textílvörur sem eru upprunnar i tilteknum þriðju löndum sem taka þátt í kaupstefnum sem skipulagðar eru í Evrópubandalaginu árið 1996 (Stjtíð. EB L 14, 19.1.1996, bls. 1).
41    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 frá 24. september 2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu (endurútgefin) (Stjtíð ESB L 293, 31.10.2008, bls. 3).
42    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 frá 15. febrúar 2017 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir (Stjtíð. ESB L 57, 3.3.2017, bls. 1).
43    Tilskipun ráðsins 89/665/EBE frá 21. desember 1989 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa- og verksamninga (Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 33).
44    Tilskipun ráðsins 92/13/EBE frá 25. febrúar 1992 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um beitingu á reglum Bandalagsins um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti (Stjtíð. EB L 76, 23.3.1992, bls. 14).
45    Stjtíð. ESB L 166, 30.4.2004, bls. 1.
46    Stjtíð. ESB L 284, 30.10.2009, bls. 43.
47    Stjtíð. ESB L 338, 22.12.2010, bls. 35.
48    Stjtíð. ESB L 149, 8.6.2012, bls. 4.
49    Stjtíð. ESB L 349, 19.12.2012, bls. 45.
50    Stjtíð. ESB L 158, 10.6.2013, bls. 1.
51    Stjtíð. ESB L 346, 20.12.2013, bls. 27.
52    Stjtíð. ESB L 366, 20.12.2014, bls. 15.
53    Stjtíð. ESB L 76, 22.3.2017, bls. 13.
54    Stjtíð. ESB L 284, 30.10.2009, bls. 1.
55    Stjtíð. ESB L 338, 22.12.2010, bls. 35.
56    Stjtíð. ESB L 149, 8.6.2012, bls. 4.
57    Stjtíð. ESB L 349, 19.12.2012, bls. 45.
58    Stjtíð. ESB L 346, 20.12.2013, bls. 27.
59    Stjtíð. ESB L 366, 20.12.2014, bls. 15.
60    Stjtíð. ESB L 76, 22.3.2017, bls. 13.
61    Stjtíð. EB 121, 29.7.1964, bls. 1977, hluti EES-samningsins við undirritun (Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3).
62    Stjtíð. EB L 46, 19.2.1991, bls. 19, hluti EES-samningsins við undirritun (Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3).
63    Stjtíð. ESB L 192, 23.7.2010, bls. 1, tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 60/2011 frá 1. júlí 2011 (Stjtíð. ESB L 262, 6.10.2011, bls. 7).
64    Stjtíð. ESB L 343, 22.12.2009, bls. 74, tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2012 frá 30. apríl 2012 (Stjtíð. ESB L 248, 13.9.2012, bls. 1).
65    Stjtíð. ESB L 268, 14.9.1992, bls. 54, tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1994 frá 21. mars 1994 (Stjtíð. EB L 160, 28.6.1994, bls. 1).
66    Stjtíð. EB L 302, 19.10.1989, bls. 1, hluti EES-samningsins við undirritun (Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3).
67     Stjtíð. EB L 194, 22.7.1988, bls. 10, hluti EES-samningsins við undirritun (Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3).
68    Stjtíð. EB L 224, 18.8.1990, bls. 62, hluti EES-samningsins við undirritun (Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3).
69    Stjtíð. ESB L 328, 24.11.2006, bls. 14, tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2007 frá 28. september 2007 (Stjtíð. ESB L 47, 21.2.2008, bls. 10).
70    Stjtíð. ESB L 178, 28.6.2013, bls. 1, tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2016 frá 29. apríl 2016 (Stjtíð. ESB L 300, 16.11.2017, bls. 1).
1    Stjtíð. EB L 1, 3.1.1994, bls. 3 og Stjórnartíðindi hvers EFTA-ríkis innan EES.
2    Stjtíð. EB C 23, 28.1.1983, bls. 1.
3    Stjtíð. ESB C 306, 17.12.2007, bls. 270.
4    Stjtíð. ESB L 166, 30.4.2004, bls. 1.
5    Stjtíð. ESB L 284, 30.10.2009, bls. 43.
6    Stjtíð. ESB L 338, 22.12.2010, bls. 35.
7    Stjtíð. ESB L 149, 8.6.2012, bls. 4.
8    Stjtíð. ESB L 349, 19.12.2012, bls. 45.
9    Stjtíð. ESB L 158, 10.6.2013, bls. 1.
10    Stjtíð. ESB L 346, 20.12.2013, bls. 27.
11    Stjtíð. ESB L 366, 20.12.2014, bls. 15.
12    Stjtíð. ESB L 76, 22.3.2017, bls. 13.
13    Stjtíð. ESB L 284, 30.10.2009, bls. 1.
14    Stjtíð. ESB L 338, 22.12.2010, bls. 35.
15    Stjtíð. ESB L 149, 8.6.2012, bls. 4.
16    Stjtíð. ESB L 349, 19.12.2012, bls. 45.
17    Stjtíð. ESB L 346, 20.12.2013, bls. 27.
18    Stjtíð. ESB L 366, 20.12.2014, bls. 15.
19    Stjtíð. ESB L 76, 22.3.2017, bls. 13.