Ferill 940. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1581  —  940. mál.




Frumvarp til laga


um breytingar á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (hjónaskilnaðir).

Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy.


1. gr.

    Við 34. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ber að veita honum leyfi til slíks skilnaðar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Nú hefur annað hjóna eða þau bæði leitað lögskilnaðar og er hann þá kræfur er liðnir eru sex mánuðir frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 35. gr.
     b.      2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Í stað orðsins „tvö“ í 37. gr. laganna kemur: eitt.

4. gr.

    Á eftir orðunum „33. gr. og“ í 1. mgr. 41. gr. laganna kemur: 34. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmiðið með frumvarpi þessu er að jafna rétt fólks til lögskilnaðar óháð því hvort hann er að kröfu annars hjóna eða beggja. Þá er í frumvarpinu lagt til að lágmarkstími frests til að krefjast lögskilnaðar í kjölfar samvistaslita vegna ósamlyndis hjóna verði styttur.
    Hjúskapur er lögbundið og formlega staðfest samkomulag tveggja einstaklinga til að verja lífinu saman og deila ábyrgð á heimili og börnum sín á milli. Hjúskap fylgja jafnframt skyldur til trúmennsku og framfærslu sem og réttur til erfða falli annað hjóna frá. Grundvöllur hjúskapar er samkomulagið og er viðurkennt á Vesturlöndum að fólk geti fallið frá því samkomulagi.
    Samkvæmt gildandi hjúskaparlögum, nr. 31/1993, er lögskilnaður kræfur hálfu ári frá því að leyfi hefur verið gefið út til skilnaðar að borði og sæng séu hjón á einu máli um að leita skilnaðar en ári frá slíku leyfi sé skilnaðar krafist af hálfu annars hjóna. Hafi hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis, án þess að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi verið veitt, getur hvort hjóna krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.
    Áhrif þessara reglna eru m.a. þau að í tilvikum þar sem annað hjóna leitast eftir því að losna úr hjúskap þar sem andlegu eða líkamlegu ofbeldi hefur verið beitt þá hefur hitt í hendi sér að tefja skilnaðinn í langan tíma. Í 40. gr. hjúskaparlaga er þröng heimild til að krefjast lögskilnaðar ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Annað hjóna getur þá krafist lögskilnaðar að því skilyrði uppfylltu að verknaður hafi verið framinn af ásettu ráði og valdið tjóni á líkama eða heilbrigði þess er fyrir verður ef líkamsárás er til að dreifa. Þessi heimild er annars vegar háð erfiðri sönnunarstöðu þess maka sem krefst lögskilnaðar og hefur mögulega orðið fyrir ofbeldi og tekur hins vegar ekki til andlegs ofbeldis. Leiða verður líkur að því að andlegt ofbeldi sé algengara í samböndum en líkamlegt og að sama skapi erfiðara eða ómögulegt að gera að skilyrði í lögum, sem hægt er að sýna fram á að sé fullnægt með hlutlægum hætti.
    Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að rýmka rétt hjóna til að krefjast lögskilnaðar. Er því annars vegar lögð til sú breyting á ákvæðum hjúskaparlaganna að réttur hjóna til skilnaðar sé hinn sami óháð því hvort annað þeirra krefjist skilnaðar eða bæði. Lagt er til að skv. 34. gr. laganna geti maki einhliða krafist skilnaðar. Þá er lagt til að bæði hjón eða maki geti krafist lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng þegar liðnir eru sex mánuðir frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk. Hins vegar er lögð til sú breyting með frumvarpinu að lágmarkstími frests til að krefjast lögskilnaðar í kjölfar samvistaslita vegna ósamlyndis verði styttur úr tveimur árum í eitt ár.
    Tölfræðigögn Hagstofu Íslands sýna að um 85% skilnaða að borði og sæng ljúki með lögskilnaði. Engin gögn eru til um það á hvaða tímabili skilnaðar að borði og sæng þau 15% hjóna sem ekki óska lögskilnaðar taki saman á ný. Þá eru engar opinberar upplýsingar um hversu hátt hlutfall hjóna sem slíta samvistir vegna ósamlyndis krefjast lögskilnaðar. Ætla verður að hálft ár í kjölfar skilnaðar að borði og sæng og heilt ár í kjölfar samvistaslita vegna ósamlyndis dugi fólki til sátta sé á annað borð grundvöllur fyrir sáttum. Sé grundvöllur fyrir sáttum er fólki einnig heimilt að taka lengri tíma til að ná sáttum en þann lágmarkstíma sem kveðið er á um í lögum.
    Að mati flutningsmanna eru tímamörk hjúskaparlaga, sé þeim ætlað að fækka lögskilnuðum, ekki réttlætanleg miðað við annars vegar þungann og þjáninguna sem einstaklingur fastur í ofbeldissambandi þarf að þola meðan hann bíður eftir heimild til lögskilnaðar, og hins vegar miðað við valdið sem gerandi í slíku sambandi hefur yfir maka sínum á meðan skilnaður er ekki genginn í gegn.