Ferill 797. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1582  —  797. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (innleiðing reglugerðar, um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Rán Tryggvadóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Neytendasamtökunum, Neytendastofu og Myndstefi.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að einstaklingar sem ferðast á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins og dvelja þar tímabundið geti nýtt sér áskrift að stafrænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum.

Framfylgd og eftirlit.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að nauðsynlegt væri að mæla skýrt fyrir um eftirlit Neytendastofu með ósanngjörnum samningsskilmálum í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og að innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu eftirlitsaðila aðildarríkja á innri markaðnum um framfylgd neytendaverndarlöggjafar muni ekki hafa neinar sjálfkrafa breytingar í för með sér sem veitt geti Neytendastofu viðeigandi heimildir. Í greinargerð með frumvarpinu segir hins vegar að ráðuneytið telji að Neytendastofa hafi heimild á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu til að hafa eftirlit með að þjónustuveitendur efnisveitu á netinu bjóði áskrifendum sínum ekki ósanngjarna skilmála eða að þeir ástundi ekki villandi eða óréttmæta viðskiptahætti varðandi möguleika áskrifenda til að nýta sér aðgang sinn að efnisveitunum á meðan á tímabundinni dvöl stendur í öðru aðildarríki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þá kemur fram að þegar reglugerð um samvinnu um neytendavernd (ESB) 2017/2394 verður innleidd muni eftirlitsskyldan samkvæmt reglugerðinni um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu væntanlega verða sett í lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og sömuleiðis verður skylt samkvæmt reglugerð um samvinnu um neytendavernd að tilnefna eftirlitsaðila með þeim reglum sem undir hana falla.
    Að mati nefndarinnar þarf að tryggja eftirlit með reglum um efnisveitur. En með hliðsjón af framangreindu telur nefndin rétt að beina því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að kanna nánar hvernig haga eigi þessu eftirliti og hvort tilefni sé til að kveða á um eftirlit Neytendastofu í þessum efnum og þá hvort afmarka eigi eftirlit stofunnar eingöngu við samningsskilmála áskriftar að efnisveitum eða hvort fela þurfi Neytendastofu eftirlit með ósanngjörnum skilmálum í neytendasamningum. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að þetta verði gert í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, enda heyra neytendamál og Neytendastofa þar undir, þar á meðal eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
    Að lokum leggur nefndin til styttingu á fyrirsögn frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (flytjanleiki efnisveituþjónustu).

    Páll Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 21. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Hjálmar Bogi Hafliðason, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Halla Gunnarsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jón Steindór Valdimarsson.