Ferill 866. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1592  —  866. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.


     1.      Hversu margir foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hafa notið foreldragreiðslna á gildistíma laga nr. 22/2006?
    Fram til 6. maí 2019 hefur 241 foreldri fengið greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006.

     2.      Hversu margir foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fengu desemberuppbót árin 2017 og 2018? Hver var kostnaður ríkisins vegna desemberuppbótar til þessa hóps?
    Árið 2017 fengu 35 foreldrar desemberuppbót og árið 2018 fengu 29 foreldrar greidda slíka uppbót. Kostnaður ríkisins vegna desemberuppbótar var 1.443.175 kr. árið 2017 og 1.509.084 kr. árið 2018.

     3.      Telur ráðherra annmarka á að lögfesta desemberuppbót til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna í stað þess að ákveða hana með reglugerð eins og gert var á síðustu tveimur árum?
    Starfshópur ráðherra vinnur að endurskoðun alls regluverks sem lýtur að greiðslum til forráðamanna langveikra og alvarlega fatlaðra barna og er von á niðurstöðum hans fljótlega. Gera má ráð fyrir að starfshópurinn taki þetta mál til athugunar í vinnu sinni og geri tillögu til ráðherra. Það skal tekið fram að desemberuppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega eru ekki lögbundnar en eru ákveðnar árlega með reglugerð og samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að greiddar séu sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.

     4.      Hver yrði kostnaðurinn við að námsmenn í hópi foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fengju að stunda nám í eins miklum mæli og þeir treysta sér og þiggja foreldragreiðslur í stað þess að njóta ekki foreldragreiðslna nema gera hlé á námi sínu?
    Þessari spurningu er ekki hægt að svara þar sem Tryggingastofnun ríkisins skráir ekki sérstaklega hvort foreldri er að koma af vinnumarkaði eða hefur verið í námi þegar sótt er um foreldragreiðslur.

     5.      Hversu margir foreldrar sem þiggja foreldragreiðslur hafa gert hlé á námi sínu ár hvert frá því að framangreind lög tóku gildi?
    Tveir foreldrar hafa fengið námstengda fjárhagsaðstoð, samtals í fjóra mánuði, annað foreldrið árið 2011 og hitt árið 2012. Foreldrar í námi sækja sjaldan um þessa tegund greiðslna en sækja frekar um grunngreiðslur. Ekki er hægt að áætla hversu margir foreldrar hafa gert hlé á námi sínu þar sem Tryggingastofnun ríkisins skráir ekki sérstaklega hvort foreldri er að koma af vinnumarkaði eða hefur verið í námi þegar sótt er um foreldragreiðslur.