Ferill 770. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1594  —  770. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (aðsetur Félagsdóms).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Þorberg Gylfason og Benedikt Baldur Tryggvason frá félagsmálaráðuneytinu, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands og Dagnýju Aradóttur Pind frá BSRB.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB.
    Með frumvarpinu er lagt til að aðsetur Félagsdóms geti verið annars staðar en í höfuðstað landsins.
    Í umsögnum um málið kom fram það sjónarmið að óhagkvæmt kynni að vera fyrir þá sem reka mál fyrir Félagsdómi að hafa dómstólinn utan höfuðborgarsvæðisins. Frumvarpið gengi nokkuð langt, þar sem aðsetur dómstólsins gæti með breytingunni verið hvar sem er á landinu. Dómurinn yrði að hafa fastan stað og best færi á því að hafa hann á höfuðborgarsvæðinu. Þá væru þau mál sem fyrir dóminn kæmu oft þess eðlis að mikilvægt væri að geta boðað til þinghalda með skömmum fyrirvara. Flestir þeir aðilar sem reka mál fyrir dómstólnum væru með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og það gæti valdið óþarfa drætti á meðferð mála ef dómstóllinn væri staðsettur utan þess. Einnig var bent á að þeir dómarar sem sitja í dómnum hefðu þau störf ekki að aðalstarfi og því væri rétt að taka tillit til þess.
    Hins vegar kom fram það sjónarmið að dómstóllinn þjónaði öllu landinu og ætti sem slíkur að geta verið hvar sem er á landinu.
    Nefndin telur að hagkvæmnissjónarmið mæli með því að Félagsdómur verði í höfuðstað landsins eða í grennd við hann. Hins vegar kunni að vera vandkvæðum bundið að setja slíka takmörkun í lög. Bendir nefndin í því sambandi á að höfuðborgarsvæðið er í daglegu tali talið samanstanda af sveitarfélögum sem teljast til þriggja kjördæma í þingkosningum (Reykjavíkurkjördæmi norður, Reykjavíkurkjördæmi suður og Suðvesturkjördæmi). Í seinni tíð hefur hins vegar verið bent á að mörk höfuðborgarsvæðisins kunni að vera víðari, þ.e. atvinnusvæði sem samanstendur af kjördæmunum þremur, Suðurnesjum, syðsta hluta Vesturlands og vestasta hluta Suðurlands einnig. Þannig hefur oft verið talað um svæðið frá „Hvítá til Hvítár“, þ.e. svæðið sem afmarkast af Hvítá í Borgarfirði og Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá.
    Nefndin telur að þrátt fyrir að brottfall áskilnaðar um að Félagsdómur skuli vera í höfuðstað landsins gæti gefið tilefni til að ætla að dómstóllinn geti verið hvar sem er á landinu verði að líta svo á að hagkvæmnissjónarmið, sem meðal annars segir í greinargerð að líta skuli til, tryggi að dómstóllinn verði áfram staðsettur í Reykjavík eða í nágrenni hennar. Nefndin telur þetta hagkvæmnissjónarmið vera skýrt og því ekki ástæðu til þess að skilgreina nákvæmlega í lögum hvar dómstóllinn á að vera staðsettur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðjón S. Brjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 22. maí 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðjón S. Brjánsson, með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.