Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1597  —  494. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, með síðari breytingum (takmörkuð ábyrgð hýsingaraðila).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson og Eirík Jónsson, formann nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis, frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Fróða Steingrímsson frá Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá STEF – sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar og Rán Tryggvadóttur frá höfundaréttarnefnd. Nefndinni bárust umsagnir og önnur erindi frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Blaðamannafélagi Íslands, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, höfundaréttarnefnd og sameiginleg umsögn frá STEF – sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Innheimtumiðstöð gjalda, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002. Breytingunum er ætlað að stuðla að rýmkun tjáningarfrelsis með því að fella brott hlutlæga ábyrgð hýsingaraðila og þrengja skyldu þeirra til að fjarlægja eða hindra aðgang að gögnum skv. 1. mgr. 14. gr. laganna.
    Frumvarpið byggist á störfum stýrihóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði á grundvelli þingsályktunar nr. 23/138, um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Frumvarpið er samið af nefnd um umbætur á löggjöf a sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem var m.a. falið að fara yfir frumvarpsdrög stýrihópsins. Með frumvarpinu er lagt til að ný efnisregla komi í stað gildandi 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, þannig að mælt verði fyrir um að skilyrði fyrir ábyrgð hýsingaraðila sé að hann hafi beina vitneskju um að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar og, að því er varðar skaðabótaábyrgð, að honum sé kunnugt um staðreyndir eða aðstæður svo ljóst megi vera að um ólöglega starfsemi eða upplýsingar sé að ræða.
    Hvað varðar almenna ábyrgð hýsingaraðila á efni er það meginregla að þeir séu sem milliliðir ekki ábyrgir fyrir efni sem þeir hýsa. Í 2. tölul. 1. mgr. 14. gr., sbr. 15.–17. gr., laganna er kveðið á um víðtækar undantekningar frá þeirri meginreglu. Með frumvarpinu er ætlunin að breyta þessum undantekningum til samræmis við útfærslu í öðrum Evrópulöndum.
    Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi ber hýsingaraðila að fjarlægja eða hindra aðgang að efni berist honum tilkynning um meint höfundaréttarbrot. Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu fela m.a. í sér innleiðingu á tilskipun 2000/31/EB um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta. Gildandi lagaákvæði ganga lengra en tilskipunin hvað varðar undantekningar á áðurnefndri meginreglu um ábyrgðarleysi milliliða og setja tjáningarfrelsi ríkari skorður en nauðsynlegt er.

Skýrleiki og áhrif úrræða rétthafa.
    Til umræðu hefur komið hvort þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu geti orðið til þess að viðbragðsferli vegna vistunar ólögmæts efnis verði tímafrekara og torveldara en ella fyrir rétthafa og þjónustuveitendur. Nefndin telur svo ekki vera og telur þær breytingar sem lagðar eru til á 14. gr. laganna vera til þess fallnar að einfalda og skýra reglur um það hvenær þjónustuveitandi ber ábyrgð á því efni sem hann hýsir og hvenær hann skuli grípa til ráðstafana. Með breytingunni verður þjónustuveitendum skylt að taka niður efni þegar fyrir liggur bein vitneskja um að um brot sé að ræða. Breytingin er til þess fallin að draga úr vafa um skyldu hýsingaraðila til að fjarlægja eða hindra aðgang að efni.

Fyrirhugaðar breytingar á höfundaréttarlöggjöf í Evrópu.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom til umræðu hvort rétt væri að lögfesta þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þar sem ný höfundaréttarlöggjöf er í farvatninu í Evrópusambandinu. Fram komu sjónarmið um að sú löggjöf gæti haft í för með sér miklar breytingar á því umhverfi sem frumvarp þetta varðar.
    Evrópuþingið hefur samþykkt nýja höfundaréttarlöggjöf, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2019/790/ESB, sem felur í sér umtalsverðar breytingar, m.a. hvað varðar ábyrgð milliliða sem veita ákveðna þjónustu á netinu. Það á þó ekki við um sams konar þjónustu og fjallað er um í tilskipun 2000/31/EB sem innleidd var með lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu en þeirri tilskipun er ekki breytt með hinni nýju. Nýja tilskipunin snýr að efnisveitum en ekki hefðbundnum hýsingaraðilum eins og þeir eru skilgreindir í gildandi lögum. Efnisveitur eru í tilskipuninni skilgreindar sem fyrirtæki sem aðallega, eða sem hluta af aðalstarfsemi sinni, geyma og veita almenningi aðgang að umtalsverðu magni af höfundaréttarvörðu efni sem þau flokka, starfrækja, birta auglýsingar um og hagnast af. Ljóst er að þarna er ekki um að ræða þjónustuveitanda sem hýsir gögn í skilningi 14. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
    Tilskipunin sem um ræðir var samþykkt á vettvangi ESB í apríl og tekur gildi 7. júní næstkomandi. Frá þeim degi hafa ríki Evrópusambandsins tvö ár til að innleiða ákvæði hennar. Nefndin vekur athygli á því að tilskipunin mun ekki öðlast lagagildi hér á landi fyrr en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og innleidd í íslenskan rétt með formlegum hætti. Hvorki er ljóst hvort né hvenær af því verður og telur nefndin að getgátur um slíkt geti ekki ráðið för við lagasetningu.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson og Oddný G. Harðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 23. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Smári McCarthy,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson,
með fyrirvara.
Bryndís Haraldsdóttir,
með fyrirvara.
Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.