Ferill 891. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1598  —  891. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum (nýting séreignarsparnaðar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elínu Ölmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimild til ráðstöfunar á greiðslum í séreignarlífeyrissjóð í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði framlengd um tvö ár. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru 3. apríl sl.
    Það úrræði sem ætlunin er að framlengja var upphaflega hluti af svokallaðri leiðréttingu og var ætlað að vera tímabundið til 30. júní 2017. Gildistími þess var framlengdur um tvö ár með lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr. 111/2016, og nú er ætlunin að framlengja gildistímann um tvö ár öðru sinni. Fulltrúar ríkisskattstjóra hafa bent nefndinni á að úrræðið krefjist mikillar og tímafrekrar vinnu embættisins sem bitni m.a. á getu þess til að sinna öðrum og mikilvægum verkefnum. Þá sé tæknilegur búnaður við framkvæmd úrræðisins, svo sem tölvukerfi og vefsíða, mörgum annmörkum háður og þarfnist nauðsynlega uppfærslu. Ekki sé að sjá á frumvarpinu eða greinargerð með því að gert sé ráð fyrir að óhjákvæmilegum kostnaði embættisins af frumvarpinu, verði það að lögum, verði mætt. Nefndin hefur skilning á ábendingum ríkisskattstjóra að þessu leyti og beinir því til ráðuneytisins að þær verði teknar til greina við komandi vinnu við gerð frumvarpa til fjáraukalaga og fjárlaga.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Oddný G. Harðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 23. maí 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Silja Dögg Gunnarsdóttir.