Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1607  —  714. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um reglur settar af dómstólasýslunni.


     1.      Hefur stjórn dómstólasýslunnar sett reglur um meðferð mála hjá dómstólasýslunni og ákveðið verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra stofnunarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016? Ef svo er, hvar er þær reglur að finna?
    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni er vinna hafin við reglurnar. Þá er rétt að benda á að stofnunin starfar eftir meginreglum stjórnsýsluréttar og lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Um verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra stofnunarinnar fer skv. 7. og 8. gr. laga um dómstóla.

     2.      Hvernig er skiptingu háttað og hvar er að finna upplýsingar um það hvaða stjórnsýsluverkefni skuli heyra undir annars vegar dómstólasýsluna og hins vegar forstöðumenn dómstólanna að því leyti sem ekki er ákveðið í lögum, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga um dómstóla?
    Í 8. gr. laga um dómstóla er kveðið á um hlutverk dómstólasýslunnar, um stjórnsýsluverkefni forseta og varaforseta Hæstaréttar er fjallað í 14. gr. laga um dómstóla og um stjórnsýsluverkefni skrifstofustjóra Hæstaréttar er fjallað í 15. gr. sömu laga. Í 22. gr. laga um dómstóla er fjallað um forseta og varaforseta Landsréttar og um skrifstofustjóra Landsréttar er fjallað í 23. gr. laganna. Þá er kveðið á um hlutverk dómstjóra héraðsdómstólanna í 31. gr. laga um dómstóla. Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni hefur ekki reynst þörf á að ákveða að öðru leyti hvaða stjórnsýsluverkefni skuli heyra undir dómstólasýsluna og hver undir forstöðumenn dómstólanna.

     3.      Hafa verið settar reglur um leyfi dómara frá störfum, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga um dómstóla? Ef svo er, hvar er þær reglur að finna?
    Settar hafa verið reglur um námsleyfi dómara og er þær að finna á heimasíðu dómstólasýslunnar domstolar.is/domstolasyslan/reglur/reglur-um-namsleyfi-domara-nr.-16-2018/.
    Ekki hafa verið settar reglur um leyfi dómara af öðrum ástæðum.

     4.      Hefur dómstólasýslan sett starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdómstóla, sem stjórn dómstólasýslunnar getur ákveðið að verði bindandi ef þær varða ekki meðferð dómsmáls að því leyti sem dómari ber einn ábyrgð á, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um dómstóla? Ef svo er, hvar er þær reglur að finna?
    Þær reglur sem dómstólasýslan hefur sett er að finna á heimasíðu dómstólasýslunnar domstolar.is/domstolasyslan/reglur/. Ef reglunum er ekki ætlað að vera bindandi kemur sérstaklega fram efst í hægra horni fyrir neðan númer viðkomandi reglna að um sé að ræða leiðbeinandi reglur. Aðrar reglur eru bindandi.