Ferill 759. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1646  —  759. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, með síðari breytingum (breytt hugtakanotkun, einföldun á framkvæmd, EES-reglur um kvikasilfur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Björn Gunnlaugsson og Gísla Rúnar Gíslason frá Umhverfisstofnun, Árnýju Sigurðardóttur og Svövu S. Steinarsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á efnalögum sem miða að því að bæta löggjöfina, gera hana skýrari og aðgengilegri og að tryggja lagastoð fyrir innleiðingu EES-gerða og Minamata-samningsins um að draga úr notkun kvikasilfurs frá 2013.

Reynsla af efnalögum.
    Fyrir nefndinni og í umsögnum kom fram almenn ánægja með reynsluna af efnalögum. Framkvæmd laganna hefur þó leitt í ljós að nokkur ákvæði þarfnast breytinga. Má sem dæmi nefna ákvæði um tilkynningarskyldu markaðssetningar eiturefna, plöntuverndarvara og útrýmingarefna sem aðeins eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Þetta ákvæði er talið stangast á við frjálst flæði vöru samkvæmt EES-samningnum. Þá eru tiltekin hugtök laganna skilgreind á annan hátt en í EES-gerðunum sem þeim er ætlað að innleiða. Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að einföldun fyrir leyfishafa notendaleyfa. Lagt er til að gildistími notendaleyfa sé lengdur úr fimm árum í átta ár. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki þörf fyrir svo tíða endurnýjun sem fimm ár eru. Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði til bóta auk annarra sem ekki eru rakin hér.

Stöðvun innflutnings.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að ákveðin lagaleg óvissa gæti ríkt um stöðvun tollstjóra á tollafgreiðsla á grundvelli tilmæla Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Væri það vegna ákvæðis 2. mgr. 130. gr. tollalaga sem segir að heimilt sé að kæra ákvörðun um stöðvun tollafgreiðslu til ráðuneytis tollamála. Ákvörðun um að vara sé leyfisskyld er heimilt að kæra til stofnunar þeirrar sem tók ákvörðun um leyfisskyldu og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar. Þar sem fyrrgreint ákvæði tollalaga mælir aðeins fyrir um leyfisskyldu en ekki tilmæli kunni það að leiða til óvissu um hvort kæra beri stöðvun til fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem ráðuneytis tollamála, annars vegar eða Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hins vegar.
    Fram kom fyrir nefndinni að til stöðvunar tollafgreiðslu getur komið vegna ýmissa atriða en í framkvæmd byggist ákvörðunin þó yfirleitt á því að leyfi skortir frá annarri stofnun. Sú framkvæmd að stöðva tollafgreiðslu felur ekki í sér efnislega afstöðu til leyfisskyldu, heldur er stöðvun hverju sinni framkvæmd á grundvelli efnislegrar ákvörðunar annars stjórnvalds, í þessu tilviki Umhverfisstofnunar. Þessu til viðbótar mælir 68. gr. efnalaga fyrir um heimild til að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna til ráðherra. Að mati nefndarinnar verður því synjun tollafgreiðslu vegna tilmæla Umhverfisstofnunar kærð til umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Öryggisblöð á íslensku.
    Í 30. gr. efnalaga er mælt fyrir um að svokölluð öryggisblöð, sem birgjar láta fylgja við afhendingu efnis til notkunar í atvinnuskyni, skuli vera á íslensku. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að í áformum um breytingu á efnalögum og drögum að frumvarpinu, sem kynnt voru á samráðsgátt stjórnvalda, hafi verið lagt til að fallið yrði frá þessari kröfu. Lagt var til að öryggisblöðin gætu verið á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Þessi tillaga var rökstudd með vísan til þess að hætta væri á minni gæðum og áreiðanleika öryggisblaða þegar þýðingar væru unnar af öðrum en sérfræðingum í efnaöryggi með góða íslenskukunnáttu eða þegar þýðingar á heitum efnavara innihéldu svo marga séríslenska stafi að leit að heitinu á vefnum skilaði litlum sem engum niðurstöðum. Fram kemur í greinargerðinni að tillagan hafi mætt andstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og Vinnueftirlitsins með nánar tilteknum rökum. Samband garðyrkjubænda, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu studdu tillöguna. Eitrunarmiðstöð Landspítalans mat það svo að mesta öryggið fælist í því að þýða ekki öryggisblöðin. Ekki er að finna skýringu á því hvers vegna fallið var frá þessari tillögu í greinargerð.
    Nefndin ræddi þessa kröfu. Fram komu sömu sjónarmið og að framan hafa verið rakin. Auk þess var bent á að um væri að ræða mjög tæknileg gögn sem notuð væru af fagfólki. Þegar þau væru þýdd á íslensku kynni það að flækja þau þar sem notuð væru nöfn á efnum í efnablöndum. Öryggisblöðin gætu tapað öryggisgildi sínu við það.
    Í ljósi framangreindra röksemda telur nefndin veigamikil rök hníga að því að fallið verði frá því að gera það að lagaskyldu að þýða öryggisblöð á íslensku. Fyrir nefndinni kom fram að þetta væru gögn sem fagfólk ynni með og styddist alla jafna við erlenda gagnagrunna. Öryggisblöð varða því afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Öryggisblöðin fara í mjög litlum mæli til almennings. Nefndin leggur því til breytingu þess efnis að öryggisblöð skuli vera valkvætt á íslensku eða ensku.

Fræðsla fyrir heilbrigðisfulltrúa.
    Fyrir nefndinni var vakin athygli á hlutverki Umhverfisstofnunar sem lýtur að fræðslu og leiðbeiningum fyrir heilbrigðisfulltrúa. Í greinargerð frumvarpsins er gerð grein fyrir athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um fræðsluhlutverk Umhverfisstofnunar. Þar var bent á að mikilvægt væri að halda betur utan um efnavörueftirlit en verið hefði. Eftir að stærsti hluti eftirlitsins fluttist til Umhverfisstofnunar væri orðið erfitt að viðhalda nauðsynlegri sérþekkingu á efnavörueftirliti hjá heilbrigðisfulltrúum. Kallað var eftir fræðslu og leiðbeiningum um með hvaða hætti væri ætlast til að tiltekið eftirlit væri framkvæmt, upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar o.fl.
    Í greinargerðinni bregst ráðuneytið við framangreindum athugasemdum. Rekur það ákvæði 51. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sem leggur þá skyldu á herðar Umhverfisstofnun að sinna yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og tryggja samræmingu þess þannig að framkvæmdin sé eins á landinu öllu. Fræðsla fyrir heilbrigðisfulltrúa sé því hlutverk sem Umhverfisstofnun hafi og sinni nú þegar en mögulega geti stofnunin sinnt því enn markvissar.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið. Að mati hennar er mikilvægt að þessu verkefni verði gefið aukið vægi í starfsemi stofnunarinnar. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að fylgja þessu eftir.

    Til viðbótar við framangreint leggur nefndin til að gerðar verði nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis. Nefndin telur frumvarpið til bóta og til þess fallið að styrkja framkvæmd efnalaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 28. maí 2019.

Jón Gunnarsson,
form.
Ari Trausti Guðmundsson, frsm. Hanna Katrín Friðriksson.
Helga Vala Helgadóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.