Ferill 865. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1656  —  865. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um læsi drengja og stúlkna við lok grunnskólagöngu.


    Fyrirliggjandi upplýsingar í svari við fyrirspurn þessari er að finna í niðurstöðum úr svokölluðum PISA-könnunum sem eru alþjóðlegar mælingar lagðar fyrir nemendur í 9. bekk í OECD-löndunum. Könnunin var fyrst lögð fyrir árið 2000 og eftir það á þriggja ára fresti, síðast árið 2018. Lesskilningur er mældur í PISA þar sem nemendur fá hæfnistig fyrir frammistöðu og raðast á hæfniþrep 1–6 eftir stigafjölda. Samkvæmt skilgreiningu OECD geta þeir nemendur sem ekki ná hæfniþrepi 2 í PISA ekki lesið sér til gagns. Niðurstöður úr PISA-könnun sem lögð var fyrir árið 2018 berast í desember á þessu ári en eftirfarandi niðurstöður eru úr könnunum árin 2000, 2003, 2006, 2009, 2012 og 2015.

     1.      Hversu margir drengir voru árlega metnir svo að þeir gætu ekki lesið sér til gagns við lok skólagöngu þeirra í grunnskóla á árabilinu 2000–2018 og hvert var hlutfall þeirra af heildarfjölda drengja sem luku grunnskóla á því árabili?
    Í flestum löndum er töluverður kynjamunur í lesskilningi og standa piltar verr að vígi en stúlkur. Svo er einnig á Íslandi og var hlutfall drengja sem ekki geta lesið sér til gagns 20% árið 2000. Árið 2003 var hlutfallið 27% og 28% árið 2006. Árið 2009 var hlutfallið komið niður í 24% en aftur upp í 30% árið 2012. Árið 2015 voru 29% drengja sem ekki gátu lesið sér til gagns.

     2.      Hversu margir stúlkur voru árlega metnar svo að þær gætu ekki lesið sér til gagns við lok skólagöngu þeirra í grunnskóla á árabilinu 2000–2018 og hvert var árlegt hlutfall þeirra af heildarfjölda stúlkna sem luku grunnskóla á framangreindu árabili?
    Samkvæmt niðurstöðum PISA árið 2000 gátu 8% stúlkna ekki lesið sér til gagns. Árið 2003 var hlutfallið orðið 10%, árið 2006 13% og árið 2009 var hlutfallið aftur komið niður í 10%. Árið 2012 versnaði staðan nokkuð og voru þá 12% stelpna sem ekki gátu lesið sér til gagns og árið 2015 var hlutfallið komið í 16%.

Hlutfall drengja og stúlkna sem ná ekki hæfniþrepi 2 í PISA (geta ekki lesið sér til gagns).

Ár Drengir Stúlkur
2000 20% 8%
2003 27% 10%
2006 28% 13%
2009 24% 10%
2012 30% 12%
2015 29% 16%