Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1657  —  731. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða útgjöld hafa ráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra haft ár hvert frá árinu 2015 vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur varið eftirtöldum fjárhæðum til auglýsinga á Facebook frá árinu 2015:
    Árið 2015 – 10.471 kr.
    Árið 2016 – 2.509 kr.
    Árið 2017 – enginn bókfærður kostnaður.
    Árið 2018 – enginn bókfærður kostnaður.
    Það sem af er árinu 2019 – enginn bókfærður kostnaður.
    Ráðuneytið býr því miður ekki yfir upplýsingum um þess konar útgjöld hjá 48 undirstofnunum þess.

     2.      Hvaða stefnu hefur ráðherra að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum?
     Samfélagsmiðlar og auglýsingar þar eru ein af mörgum miðlunarleiðum sem standa til boða í nútímasamfélagi. Ráðherra hefur ekki markað stefnu í því tilliti en er fylgjandi notkun samfélagsmiðla til þess að styðja við aðra upplýsingagjöf á vegum ráðuneytisins.

     3.      Hvernig telur ráðherra það að kaupa auglýsingar eða kostaða dreifingu á erlendum samfélagsmiðlum samræmast stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla?
    Markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu fjölmiðla tekur til starfsumhverfis fjölmiðla í víðu samhengi, sbr. skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 og drög að frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis sem kynnt hefur verið í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Auglýsingamarkaðurinn skiptir þar miklu máli ásamt öðru og er brýnt að gagnsæi ríki um kaup opinberra aðila á auglýsingum. Unnið er að tillögum um samræmda skattlagningu á auglýsingum svo að íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum á þeim markaði. Til lengri tíma litið er mikilvægt að fylgst verði með þróun auglýsingamarkaðar og hlutdeild samfélagsmiðla á honum og hvaða áhrif markaðshlutdeild slíkra miðla hefur á auglýsingatekjur annarra fjölmiðla. Eins og sjá má af svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur umfang auglýsingakaupa og kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu verið takmarkað á umliðnum árum. Verður ekki séð, að svo stöddu, að slík hófleg auglýsingakaup raski stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu íslenskra fjölmiðla.