Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1659  —  430. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um endurgreiðslu efniskostnaðar í framhaldsskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig sundurliðast endurgreiðsla framhaldsskóla á efniskostnaði til verklegrar kennslu sem innheimtur var án heimildar þar sem tímabundin heimild til innheimtu í lögum nr. 92/2008 féll brott en var ekki framlengd fyrir árið 2017? Svar óskast sundurliðað eftir árum og skólum.

    Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð sérstök áhersla á að efla iðn-, starfs-, list- og tækninám. Niðurfelling efnisgjalda er mikilvægur liður í því að styðja við þær námsgreinar og jafna aðstöðu þeirra sem stunda verklegt nám og þeirra sem stunda bóklegt nám.
    Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, var mörkuð sú stefna stjórnvalda að jafna stöðu bóknáms og verknáms með því að afnema innheimtu efnisgjalda fyrir nám í opinberum framhaldsskólum. Ákvæðum um efnisgjöld var breytt frá fyrri lögum, nr. 80/1996, og þau felld niður að hluta. Þannig mátti ekki innheimta efnisgjöld fyrir efni sem nemendum var látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Áfram var heimilt að innheimta efnisgjöld fyrir efni sem nemendur fengu í skólum ef þeir höfðu af því ávinning eða sérstök not. Gildistöku nýrrar efnisgjaldareglu í framhaldsskólalögum var frestað tímabundið frá hausti 2009 en rann endanlega út í lok vorannar 2016. Frá haustönn 2016 tók gildi upphafleg regla um afnám efnisgjalda (sem og lægri gjöld fyrir fjarnám og kvöldskóla), enda hafði fjárhagur framhaldsskóla þá verið réttur af með hækkandi framlögum í fjárlögum. Alþingi féllst ekki á frekari frestun á gildistöku 45. gr. laga nr. 92/2008 en veitti þess í stað aukið svigrúm að fjárhæð 250 millj. kr. innan málefnasviðs framhaldsskóla í fjárlögum 2018 til að bæta skólum tekjumissi, þ.m.t. hugsanleg útgjöld skólanna vegna endurgreiðslu oftekinna gjalda. Breytingar um gjaldtöku framhaldsskóla eiga ekki við um viðurkennda einkaskóla á framhaldsskólastigi. Ráðuneytið ákvað þó að bæta Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins tekjumissi vegna lægri efnisgjalda frá og með haustönn 2018. Það var gert með hækkuðu framlagi í þjónustusamningi.
    Í meðfylgjandi töflu má sjá framlög til framhaldsskóla til að gera þeim kleift að endurgreiða nemendum oftekin efnis- og/eða námsgjöld vegna skólaáranna 2016–2017 og 2017– 2018. Jafnframt má sjá viðbótarframlag sem skólarnir fengu til að koma til móts við tekjumissi vegna lægri efnisgjalda frá og með haustönn 2018. Í töflunni sést heildarframlag fyrir árið 2018.

Framhaldsskóli Framlag í kr. fyrir oftekin efnisgjöld greitt 2018 Framlag í kr. vegna tekjumissis á haustönn 2018 Samtals árið 2018 í kr.
Menntaskólinn við Sund 108.750 0 108.750
Menntaskólinn á Ísafirði 3.161.920 1.317.436 4.479.356
Menntaskólinn í Kópavogi 25.000.000 5.465.257 30.465.257
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 47.000.000 16.980.434 63.980.434
Fjölbrautaskóli Suðurnesja 15.000.000 5.235.579 20.235.579
Fjölbrautaskóli Vesturlands 6.236.000 4.463.513 10.699.513
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum 939.000 850.064 1.789.064
Fjölbrautaskóli Suðurlands 8.000.000 4.918.237 12.918.237
Verkmenntaskóli Austurlands 2.730.000 2.187.436 4.917.436
Verkmenntaskólinn á Akureyri 16.969.500 13.622.244 30.591.744
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 4.662.500 5.346.693 10.009.193
Borgarholtsskóli 19.455.400 9.917.042 29.372.442
Tækniskólinn 0 45.018.654 45.018.654
Samtals 149.263.070 115.322.589 264.585.659