Ferill 839. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1660  —  839. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um Laxnesssetur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig stendur vinna við að hefja uppbyggingu Laxnessseturs við Gljúfrastein, sbr. þingsályktun nr. 47/145, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda í framkvæmd? Er samstarf hafið við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ?

    Ríkissjóður hefur keypt húseignina Jónstótt ásamt lóð og miðað er við að eignin verði afhent 1. maí. Ríkiseignir taka við umráðum eignarinnar með sambærilegu fyrirkomulagi og er gagnvart Gljúfrasteini.
    Kaupin eru mikilvæg fyrir uppbyggingu Laxnessseturs við Gljúfrastein í Mosfellsbæ. Þar er m.a. litið til þess að samkvæmt deiliskipulagi fyrir Þingvallaveg er gert ráð fyrir breytingum á legu vegarins sem myndi gera núverandi bílastæði við Gljúfrastein ónothæft, en bílastæði í landi Jónstóttar lægi mjög vel við safninu.
    Áætlaður kostnaður vegna kaupa og lágmarksendurgerðar á fasteigninni liggur á bilinu 120–145 millj. kr. Komið er að miklu viðhaldi á eigninni og verður ákvörðun um framkvæmdir tekin svo fljótt sem verða má.
    Ákvörðun um með hvaða hætti húsnæðið og landareignin að Jónstótt verði nýtt í þágu framtíðaruppbyggingar Laxnessseturs verður tekin síðar. Í því augnamiði verður skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneytis, Mosfellsbæjar, stjórnar Gljúfrasteins og Framkvæmdasýslu ríkisins.