Ferill 837. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1661  —  837. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um virkjanir með uppsett afl allt að 10 MW.


     1.      Hversu mörg rannsóknaleyfi vegna fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana með uppsett afl allt að 10 MW veitti Orkustofnun á árunum 2010–2018? Hverjum voru veitt umrædd rannsóknaleyfi?
    Meðfylgjandi svör byggjast á upplýsingum frá Orkustofnun. Á árunum 2009–2018 hefur Orkustofnun gefið út alls 40 rannsóknarleyfi á virkjunarkostum í vatnsafli. Orkustofnun bendir á að við útgáfu rannsóknarleyfa liggur ekki í öllum tilvikum fyrir hvert mögulegt uppsett afl virkjana kann að verða. Oft eru í umsóknum um rannsóknarleyfi gefnar upp hugmyndir að mögulegri stærð virkjunarkosta, sem ætlunin er að rannsaka, en það kann að taka breytingum á grundvelli rannsóknanna. Varðandi nánari upplýsingar, og hverjum voru veitt umrædd rannsóknarleyfi, er vísað til fylgiskjals I um veitt rannsóknarleyfi í vatnsafli á tímabilinu, með uppsettu afli allt að 10 MW (þar sem tölur um afl liggja fyrir).

     2.      Hversu mörg leyfi til vatnsaflsvirkjana með uppsett afl allt að 10 MW veitti Orkustofnun á árunum 2010–2018? Hverjum voru veitt umrædd virkjanaleyfi?
    Á árunum 2009–2018 voru gefin út 17 virkjanaleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl allt að 10 MW. Nánari upplýsingar, m.a. hverjum voru veitt umrædd virkjanaleyfi, er að finna í fylgiskjali II.

     3.      Hversu mörg leyfi veitti Orkustofnun fyrir virkjunum annars konar frumorku, t.d. vindorku, með sömu stærðarmörk á sama tímabili?
    Á sama tímabili voru gefin út fjögur virkjanaleyfi fyrir jarðvarmavirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira og eitt með uppsett afl allt að 10 MW. Á tímabilinu hafa þrjú virkjanaleyfi verið gefin út fyrir vindorku og eru þau öll með uppsett afl undir 10 MW.

     4.      Hversu margar virkjanir hafa verið reistar á grundvelli þessara heimilda og hvar eru þær staðsettar? Hvert er uppsett afl hverrar virkjunar?
    Virkjanir með uppsett afl allt að 10 MW, sem reistar hafa verið á grundvelli framangreindra virkjanaleyfa, eru sem hér segir:
     Vatnsaflsvirkjanir:     Í fylgiskjali II er listi yfir þær vatnsaflsvirkjanir sem urðu að veruleika af þessum 17 virkjunarleyfum, ásamt staðsetningu og uppsettu afli.
     Vindorka:
    30 kW vindrafstöð í Belgsholti í Leirársveit.     1800 kW vindrafstöð á Hafinu fyrir ofan Búrfell.
    1300 kW vindrafstöð í Þykkvabæ.
     Jarðvarmavirkjanir:
    2000 kW jarðvarmavirkjun (Flúðavirkjun) við Kópsvatni í Hrunamannahreppi.

     5.      Hverjar umræddra virkjana eru tengdar við orkuflutningskerfi Landsnets?
    Samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, tengjast virkjanir sem eru með uppsett afl 10 MW eða meira beint inn á flutningskerfi Landsnets. Virkjanir sem eru undir 10 MW tengjast inn á flutningskerfið í gegnum dreifiveitur. Vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu fyrir ofan Búrfell eru þó tengdar beint inn á flutningskerfi Landsnets.

     6.      Hvernig er háttað eignarhaldi á umræddum virkjunum? Hver er eignarhlutur erlendra aðila, einstaklinga og félaga, í hverri virkjun um sig?
    Eigendur virkjana með uppsett afl allt að 10 MW, sem reistar hafa verið á grundvelli framangreindra virkjanaleyfa, eru sem hér segir:
    Vatnsaflsvirkjanir:
    Í fylgiskjali II er listi yfir leyfishafa og eigendur þeirra 17 vatnsaflsvirkjana sem reistar hafa verið á tímabilinu.
     Vindorka:
    30 kW vindrafstöð í Belgholti, leyfishafi og eigandi Belgsholt ehf.
    1800 kW vindrafstöðvar fyrir ofan Búrfell, leyfishafi og eigandi Landsvirkjun.
    1300 kW vindrafstöðvar í Þykkvabæ, leyfishafi og eigandi Biokraft ehf.
Jarðvarmavirkjanir:
    2000 kW jarðvarmavirkjun við Kópsvatni í Hrunamannahreppi, leyfishafi og eigandi Flúðaorka ehf.

     7.      Hvernig er háttað eftirliti með því að reglum virkjanaleyfis sé fylgt í umræddum virkjunum, t.d. varðandi uppsett afl og framleiðslumagn raforku?
    Í samræmi við ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, hefur Orkustofnun eftirlit með virkjanaleyfum. Nær það m.a. til þess að uppsett afl virkjana og framleiðsla sé í samræmi við útgefin leyfi. Einnig hefur Orkustofnun eftirlit með því að skilyrðum leyfa sé fylgt. Það er bæði gert með reglulegri gagnaöflun og vettvangsskoðunum.

     8.      Hverjar umræddra virkjana hefur Umhverfisstofnun talið nauðsynlegt að sættu umhverfismati?
    Brúarvirkjun er eina virkjunin með virkjunarleyfi fyrir uppsett afl undir 10 MW sem farið hefur í mat á umhverfisáhrifum. Virkjunarleyfi vegna Hólsvirkjunar, með uppsett afl 5,5 MW, er í vinnslu hjá Orkustofnun og hefur Skipulagsstofnun tekið ákvörðun um að Hólsvirkjun skuli fara í mat á umhverfisáhrifum.

     9.      Hvaða sjónarmið leggur Umhverfisstofnun til grundvallar við ákvörðun um hvort virkjun af þessari stærð sæti umhverfismati?
    Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eru framkvæmdir flokkaðar eftir stærð og umfangi. Í flokki A eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett afl eða meira eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. ákvæði 3.02 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Flokkur B tekur til framkvæmda sem liggja undir viðmiðunarmörkum í flokki A og fleiri tegunda framkvæmda sem kunna að geta haft umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdir í flokki B eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun í hverju tilviki hvort við
komandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Meðal framkvæmda í flokki B eru vatnsorkuver með uppsett afl 200 kW eða meira.

     10.      Hver telur ráðherra, í ljósi fenginnar reynslu, að séu eðlileg stærðarmörk fyrir virkjanir þar sem ekki er krafist lögformlegs umhverfismats?
    Athygli er vakin á því að lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra. Það kann að vera álitamál hvaða framkvæmdir ættu að heyra undir þau lög og hverjar ekki og hvar stærðarmörk ættu að liggja. Við setningu umræddra laga hefur Alþingi ákveðið að hafa mörkin þar sem þau eru í dag, sbr. svar við 9. tölul. fyrirspurnarinnar. Ætla má að við mat á því hafi Alþingi horft til almennra þjóðarhagsmuna og markmiða um sjálfbærni.

Fylgiskjöl:
     1.      Útgefin rannsóknarleyfi í vatnsafli frá 2009–2018, með uppsettu afli allt að 10 MW (þar sem afl liggur fyrir).
     2.      Útgefin virkjanaleyfi í vatnsafli frá 2009–2018, með uppsett afl allt að 10 MW.

Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.