Ferill 882. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1662  —  882. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skrifstofur og skrifstofustjóra í ráðuneytinu.


     1.      Hvaða skrifstofur eru í ráðuneytinu og hvaða skrifstofum stýrir skrifstofustjóri? Hver eru verkefni hverrar skrifstofu og hversu margir starfsmenn starfa undir skrifstofustjóra á hverri skrifstofu?
    Skrifstofur ráðuneytisins eru fjórar, þær eru eftirfarandi:
Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga.
    Skrifstofustjóri er Ingilín Kristmannsdóttir. Fjöldi starfsmanna er 12.
    Helstu verkefni:
     *      Fjármálaáætlun og árangursstjórnun.
     *      Fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga.
     *      Stjórnsýsluúrskurðir.
     *      Upplýsingamiðlun.
     *      Rekstur ráðuneytisins, móttaka viðskiptavina og símsvörun.
     *      Mannauðs- og gæðamál.
     *      Aðstoð við ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála.
    Skrifstofustjóri er Hermann Sæmundsson. Fjöldi starfsmanna er 9.
    Helstu verkefni:
     *      Byggðamál, m.a. byggðaáætlun, sóknaráætlun landshluta og málefni Byggðastofnunar.
     *      Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
     *      Verkaskipting og samskipti ríkis og sveitarfélaga.
     *      Almennt stjórnsýslueftirlit með starfsemi sveitarfélaga.
     *      Eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og söfnun fjármálaupplýsinga.
     *      Samstarf, sameiningar og svæðasamvinna sveitarfélaga.
     *      Tekjustofnar sveitarfélaga.

Skrifstofa samgangna.
    Skrifstofustjóri er Sigurbergur Björnsson. Fjöldi starfsmanna er 9.
    Helstu verkefni:
     *      Samgöngumál, þ.m.t. flugmál, umferðar- og vegamál.
     *      Hafnamál, m.a. hafnabótasjóður.
     *      Samgönguáætlun.
     *      Öryggi í samgöngum.
     *      Flugvernd og siglingavernd.
     *      Málefni Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Skrifstofa rafrænna samskipta.
    Skrifstofustjóri er Guðbjörg Sigurðardóttir. Fjöldi starfsmanna er 9.
    Helstu verkefni:
     *      Fjarskipti og póstmál, þ.m.t. fjarskiptasjóður, fjarskiptaáætlun og málefni Póst- og fjarskiptastofnunar.
     *      Netöryggismál.
     *      Málefni Þjóðskrár Íslands, m.a. þjóðskrá og fasteignaskrá.
     *      Vefmál ráðuneytisins.
     *      Málaskrá og skjalastýring ráðuneytisins.

     2.      Hversu margir skrifstofustjórar heyra undir aðra skrifstofustjóra eða stýra ekki skrifstofu sjálfir?
    Enginn.

     3.      Hvaða aukastörf og hlunnindi fylgja starfi hvers skrifstofustjóra og hvert er hlunnindamat starfa þeirra?
    Engin hlunnindi fylgja starfi skrifstofustjóra, en ráðuneytið greiðir fyrir síma- og netnotkun þeirra. Engin aukastörf fylgja störfum þeirra, en skrifstofustjóri stefnumótunar og fjárlaga situr í stjórn Neyðarlínunnar sem er skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra.

     4.      Hversu mikla yfirvinnu vinnur hver skrifstofustjóri að jafnaði á mánuði, talið í klukkustundum?
    Haldið er utan um vinnustundir starfsmanna í sérstöku viðverukerfi þar sem notast er við stimpilklukku. Allir skrifstofustjórarnir vinna einnig að heiman og því gefa upplýsingar úr viðverukerfinu ekki nákvæmar upplýsingar. Upplýsingar teknar úr viðverukerfinu á árinu 2018 sýna að yfirvinna skrifstofustjóra er að jafnaði eftirfarandi:
    Skrifstofustjóri stefnumótunar og fjárlaga: 20 klst.
    Skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála: 19 klst.
    Skrifstofustjóri samgangna: 48,5 klst.
    Skrifstofustjóri rafrænna samskipta: 27 klst.

     5.      Hvernig tengjast skrifstofurnar í ráðuneytinu undirstofnunum þess?
    Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga tengist öllum undirstofnunum ráðuneytanna m.a. vegna áætlanagerðar og fjármála.
    Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála er með fagtengingu við Byggðastofnun.
    Skrifstofa samgangna er með fagtengingu við Vegagerðina, Samgöngustofu og rannsóknarnefnd samgönguslysa.
    Skrifstofa rafrænna samskipta er með fagtengingu við Póst- og fjarskiptastofnun og Þjóðskrá Íslands.