Ferill 779. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1666  —  779. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um vandaða starfshætti í vísindum.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fundi nefndarinnar mættu Páll Þórhallsson og Hallgrímur J. Ámundason frá forsætisráðuneyti, Una Strand Viðarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Trausti Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Guðrún Nordal frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sunna Snædal og Rögnvaldur G. Gunnarsson frá vísindasiðanefnd, Jón Atli Benediktsson og Þórður Kristinsson frá háskólaráði Háskóla Íslands og Valdimar Össurarson.
    Þá bárust umsagnir frá Félagi háskólakennara, háskólaráði Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Valdimar Össurarsyni og vísindasiðanefnd.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að rannsóknir fari fram í samræmi við vandaða starfshætti í vísindum og í samræmi við það er lögð áhersla á þá meginábyrgð vísindamanna, stofnana og fyrirtækja sem sinna rannsóknum að gæta að vönduðum rannsóknarháttum. Lagt er til að sett verði á fót miðlæg nefnd sem er ætlað að vera til ráðgjafar, stuðla að fræðslu og fjalla um mál hvort sem þeim er vísað til hennar eða þau tekin upp að eigin frumkvæði. Nefndinni er ætlað að skrá siðferðisviðmið og birta á vef sínum að fenginni staðfestingu ráðherra.
    Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með frumvarpið sem væri framfaramál sem auka mundi trúverðugleika íslenska vísindasamfélagsins innan lands sem utan. Þeim sjónarmiðum var þó komið á framfæri að skilgreina þyrfti vísindi til að ekki yrði miðað við þrönga skilgreiningu sem tæki aðeins til háskólasamfélagsins. Nefndin áréttar að í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögin skuli gilda um allar rannsóknir og fræðastörf, þau afmarkist ekki við rannsóknarstörf í háskólum eða rannsóknarstörf sem framkvæmd eru af háskólamenntuðum sérfræðingum heldur ná þau til allra vísindarannsókna og fræðastarfa.
    Í 2. mgr. 1. gr. er að finna þá skýringu á hugtakinu „vandaðir starfshættir“ að með því sé fyrst og fremst vísað til viðurkenndra siðferðisviðmiða, m.a. um heiðarleg vinnubrögð. Nefndin telur slíka skilgreiningu illa eiga heima í markmiðsákvæði frumvarpsins og bendir á að skýringar við frumvarpið eru skýrar hvað þetta varðar. Leggur nefndin því til að 2. mgr. verði felld brott en áréttar að eftir sem áður verði hin siðferðislegu viðmið, sem nefnd um vandaða starfshætti í vísindum skráir, grundvöllur vandaðra starfshátta í vísindum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir beri ábyrgð á að efla vitund um vandaða starfshætti og framfylgja þeim í rannsóknum á sínum vegum. Nefndin telur mikilvægt að fræðslu sé sinnt í samræmi við ákvæðið en áréttar að þessari skyldu er ekki ætlað að draga úr því að frumábyrgð á vönduðum starfsháttum sé þeirra sem sinna rannsóknum.
    Nokkur umræða varð um nefnd um vandaða starfshætti í vísindum, hlutverk hennar, skipun og verkefni. Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um skipun nefndarinnar og þar kemur m.a. fram að ráðherra skuli hafa samráð við vísinda- og tækniráð áður en gengið er frá skipun. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að í ljósi þess að forsætisráðherra fer með formennsku í vísinda- og tækniráði færi illa á því að ráðherra bæri skipun undir ráðið enda gæti það dregið úr sjálfstæði hennar. Nefndin bendir á að verkefnið fellur vel að hlutverki ráðsins sem er ætlað að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu og þar með vera stefnumótandi í málefnum vísinda. Í ráðinu sitja, auk forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra og 16 fulltrúar sem tilnefndir eru af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins. Um er að ræða fjölbreyttan hóp og er samráði við ráðið um skipun nefndarinnar ætlað að stuðla að vönduðu skipunarferli og breiðri sátt.
    Nefndin bendir þó á að smæð íslensks vísindasamfélags gæti staðið nefnd um vandaða starfshætti í vísindum fyrir þrifum eða gert það að verkum að hlutleysi hennar og óhæði verði dregið í efa. Það gæti orðið til að auka trúverðugleika nefndarinnar ef hún yrði að hluta skipuð erlendum sérfræðingum eða vísindamönnum. Beinir nefndin því til ráðherra að líta til þess við skipun.
    Þá komu fram athugasemdir við þær hugmyndir sem reifaðar eru í greinargerð um að skynsamlegt kunni að vera að hýsa nefndina með vísindasiðanefnd. Nefndin tekur undir það að slíkt geti orðið til þess að efla á einum stað þekkingu á skyldum málefnum en áréttar þó að nefnd um vandaða starfshætti í vísindum fer með mun víðara svið auk þess sem hún getur tekið við málum frá vísindasiðanefnd. Mikilvægt er að hafa þessi atriði í huga við ákvörðun um hýsingu nefndarinnar enda mikilvægt að gæta að óhæði og hlutleysi hennar.
    Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk nefndar um vandaða starfshætti í vísindum og m.a. kveðið á um að nefndin skuli skrá viðurkennd siðferðisviðmið í rannsóknum og skilgreiningar á brotum á þeim. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að skerpa mætti á skilgreiningum á því hvað fælist í vönduðum starfsháttum í vísindum, brotum á þeim og misferli. Því færi betur á því að lögfesta ákveðinn ramma um viðmiðin og þar mætti nýta þau viðmið sem birt hafa verið á vefsíðu Rannís um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum. Nefndin bendir á að mikilvægt er að nefnd um vandaða starfshætti í vísindum tryggi að viðmið séu í samræmi við þau viðmið sem hið alþjóðlega vísindasamfélag setur sér til að tryggja trúverðugleika rannsókna hér á landi. Brýnt er að standa vörð um heiðarleika og ráðvendni í rannsóknum og að eðlilegt eftirlit sé haft með þeim. Nauðsynlegt er þó að gefa nefndinni um vandaða starfshætti í vísindum svigrúm til að setja viðmiðin að undangengnum rannsóknum og samráði. Slíkt ýtir undir siðferðislegt og faglegt sjálfstæði nefndarinnar. Mikilvægt er að viðmiðin séu almenn en skýr og ekki ólíklegt að í grunninn verði ákveðinn samhljómur milli þeirra og viðmiðanna sem birt hafa verið á heimasíðu Rannís enda voru þau unnin að undangengnu ítarlegu samráði og faglegri vinnu.
    Nefndin leggur auk þessa til orðalagsbreytingu á 1. mgr. 9. gr. til að tryggja skýrleika en áréttar að breytingin hefur ekki efnisleg áhrif.
    Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildistöku og kveðið á um að nefnd um vandaða starfshætti í vísindum sé óheimilt að fjalla um mál ef niðurstöður rannsókna hafa verið birtar áður en lögin taka gildi. Í greinargerð kemur fram að þessi takmörkun helgast af sjónarmiðum um að lög skuli ekki vera afturvirk. Nefndin bendir á að þó svo að rannsókn sé birt eftir að lögin taka gildi getur framkvæmd rannsóknar hafa varað í langan tíma þar á undan og því nauðsynlegt að færa tímamark ef tryggja á að lögin gildi ekki afturvirkt. Þá bendir nefndin á að ekki sé rétt að gera afturvirkar kröfur til rannsókna og rannsakenda um að siðferðisleg viðmið séu virt hafi þau ekki verið til staðar á meðan á rannsókn stóð. Nauðsynlegt er því að breyta lagaskilum á þann veg að siðferðisviðmið hafi verið skráð þegar rannsókn var framkvæmd eigi nefnd um vandaða starfshætti í vísindum að geta fjallað um þá rannsókn.
    Alþjóðlegt vísindaumhverfi er í stöðugri þróun og á það við um þau viðmið sem gilda um vandaða starfshætti líkt og aðra þætti vísindastarfs. Telur nefndin að umgjörð og umboð nefndar um vandaða starfshætti í vísindum þurfi því að taka reglulega til endurskoðunar svo að tryggt sé að umgjörð rannsókna og fræðistarfa hér á landi sé ávallt eins og best gerist. Nefndin leggur ekki til breytingu í þá átt að kalla eftir endurskoðun laganna að tilteknum tíma liðnum en beinir því til ráðuneytisins að taka út þá reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra að nokkrum árum liðnum og leggja eftir atvikum til breytingar að þeirri úttekt lokinni.
    Nefndin leggur auk þess til nokkrar breytingar til lagfæringar á texta til að tryggja samræmi og skýrleika og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 1. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „rannsóknir“ í 1. mgr. komi: í vísindum.
                  b.      2. mgr. falli brott.
     2.      Á eftir orðinu „nefnd“ í 2. málsl. 2. gr. og 2. mgr. 4. gr. og orðinu „nefndar“ í 1. mgr. 6. gr. og í fyrirsögnum 5. og 6. gr. komi: um vandaða starfshætti í vísindum.
     3.      Við 4. gr.
                  a.      Orðin „fyrir sitt leyti“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „nefnd skv. 5. gr.“ í 4. mgr. komi: nefndina.
     4.      Í stað orðsins „nefndar“ í 2. málsl. 4. mgr. 6. gr., inngangsmálslið 3. mgr. 7. gr., d-lið 3. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. komi: nefndarinnar.
     5.      Í stað orðsins „nefndin“ í 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 9. gr. og 10. gr. komi: nefnd um vandaða starfshætti í vísindum.
     6.      Í stað orðsins „nefndarinnar“ í fyrirsögn 7. gr. komi: nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.
     7.      1. málsl. 1. mgr. 9. gr. orðist svo: Reglur stjórnsýslulaga gilda um meðferð mála hjá nefnd um vandaða starfshætti í vísindum eftir því sem við á.
     8.      2. málsl. 11. gr. orðist svo: Nefnd um vandaða starfshætti í vísindum er ekki heimilt að taka fyrir mál ef rannsókn er framkvæmd áður en siðferðisleg viðmið skv. 3. mgr. 6. gr. hafa verið birt.

    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 31. maí 2019.

Páll Magnússon,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Álfheiður Ingadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.