Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1675  —  434. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Þriðji minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur ýmis rök mæla gegn því að frumvarp til laga um Þjóðarsjóð verði samþykkt. Þar ber einkum að nefna eftirfarandi atriði:
    Í fyrsta lagi er óljóst hvers vegna skynsamlegt sé að byrja að safna í sjóð á borð við þann sem lagt er til að settur verði á fót á meðan ríkissjóður er skuldsettur og ríkið hefur á herðum ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar.
    Í öðru lagi má færa sterk rök fyrir því að fjármagnið mundi nýtast betur í önnur verkefni, til að mynda uppbyggingu innviða eða til að lækka skatta og/eða aðrar álögur.
    Í þriðja lagi eru sanngirnisrök fyrir því að nýta tekjur af framkvæmdum, uppbyggingu og fjárfestingu fortíðar, a.m.k. að hluta, til að rétta hlut eldri borgara, þ.e. fólksins sem gerði verðmætasköpunina mögulega. Jafnframt standa sanngirnisrök til þess að tekjurnar nýtist til byggðamála enda á orkuframleiðslan sér stað á landsbyggðinni.
    Í fjórða lagi hefur ekki verið mótuð stefna um að aðrar tekjur af öðrum náttúruauðlindum en virkjunum Landsvirkjunar muni renna í Þjóðarsjóð. Ekki hefur heldur verið mótuð stefna um hvort almennt gjald verði innheimt fyrir auðlindanýtingu eða hvernig þeirri gjaldheimtu verði háttað. Alls er óvíst um gjaldtöku af öðrum fyrirtækjum en Landsvirkjun vegna orkuframleiðslu og hvort tekjur af slíkri gjaldtöku rynnu í Þjóðarsjóð. Ótímabært er að setja slíkan sjóð á stofn áður en þessir þættir liggja fyrir.
    Í fimmta lagi er álitamálum um rekstur sjóðsins, þar á meðal um þá aðila sem taka skulu að sér þætti á borð við eigna- og áhættustýringu og fleiri atriði, ósvarað. Þá liggur ekki fyrir greining á ætluðum kostnaði við rekstur sjóðsins né reglur um hver hann megi að hámarki vera.
    Í sjötta lagi eru strax í upphafi sett fordæmi fyrir því að farið sé fram hjá þeim ströngu reglum sem eiga að gilda um töku fjármuna úr sjóðnum, sem á að vera varúðarsjóður vegna ófyrirséðra áfalla, með því að kveða á um að fyrstu árin skuli hluti fjármuna sjóðsins þó renna til annarra verkefna. Þetta gefur vísbendingu um að hætta sé á að stjórnmálamenn muni í framtíðinni seilast í sjóðinn með sambærilegum rökum.
    Í sjöunda lagi hefur ekki tekist að skýra að það að safna tekjum af orkuauðlindum í sjóð sé skynsamlegasta eða arðbærasta ráðstöfun fjármagnsins fyrir samfélagið.
    Að framansögðu virtu leggur 3. minni hluti til að frumvarpið nái ekki fram að ganga.

Alþingi, 17. maí 2019.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.