Ferill 783. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
2. uppprentun.

Þingskjal 1676  —  783. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum (skilvirkni og samræming málsmeðferðarreglna o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Benedikt Bogason frá dómstólasýslunni, Þóri Guðmundsson og Kolbein Tuma Daðason frá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, Sigríði Friðjónsdóttur frá ríkissaksóknara, Björn Þorvaldsson frá héraðssaksóknara, Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Ölmu Ómarsdóttur og Millu Ósk Magnúsdóttur frá Félagi fréttamanna, Heiðu Björgu Pálmadóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá Barnaverndarstofu, Rakel Þorbergsdóttur og Heiðar Örn Sigurfinnsson frá fréttastofu RÚV og Öldu Hrönn Jóhannesdóttur frá lögreglunni á Suðurnesjum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaverndarstofu, Blaðamannafélagi Íslands, dómstólasýslunni, Félagi fréttamanna, fréttastofu RÚV, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, héraðssaksóknara, lögreglunni á Suðurnesjum og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, en jafnframt á ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, barnaverndarlaga, nr. 80/2002, laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, og laga um dómstóla, nr. 50/2016. Með þeim breytingum sem lagðar eru til er fyrst og fremst stefnt að því að skýra, samræma og einfalda lagaákvæði sem fjalla um málsmeðferð fyrir dómstólum.

Upptökur og miðlun upplýsinga úr þinghaldi (2. og 18. gr.).
    Með 2. og 18. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 9. gr. laga um meðferð einkamála og 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála. Veigamesta breytingin sem lögð er til er að óheimilt verði að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt gildandi lögum er nú þegar óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi nema dómari veiti undanþágu frá banninu. Að mati nefndarinnar getur það skotið skökku við ef bannað er að taka myndir eða hljóðrita en heimilt á sama tíma að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að með frumvarpinu væri verið að leggja frekari hömlur á fjölmiðla sem stríði gegn meginreglunni um að þinghöld séu háð í heyranda hljóði.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að banni við samtímaendursögn af skýrslutökum sé ætlað að treysta réttaröryggi og þá þannig að tryggt sé að framburður vitnis litist ekki af framburði þeirra sem þegar hafa gefið skýrslu. Það sé lykilatriði að skýrslugjafi í dómsmáli viti ekki hvað aðrir sem á undan honum komu sögðu. Meiri hlutinn bendir á að þetta verði að engu ef vitni getur fylgst með skýrslugjöf annarra utan dómsalar í beinni útsendingu.
    Meiri hlutinn telur að þeir hagsmunir sem eru í húfi í þessum efnum séu mun veigameiri en þeir sem felast í því að unnt verði að greina frá því sem sagt er í skýrslutökum í samtíma. Rétt er að halda því til haga að ekkert í þeim breytingum sem lagðar eru til á að koma í veg fyrir að fjölmiðlar greini í samtíma frá gangi dómsmáls, þar á meðal hver er að gefa skýrslu o.s.frv. Þá er þeim frjálst að greina frá því sem fram kom í skýrslutöku þegar henni er lokið.
    Meiri hlutinn telur framangreint ekki brjóta í bága við regluna um að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, enda er ekki verið að takmarka möguleika fjölmiðla eða annarra til að sækja þinghald og fylgjast með því sem þar fer fram. Ástæða þess að meginreglan er sú að þinghöld séu háð í heyranda hljóði er ekki síst sú að almenningur og fjölmiðlar geti veitt dómstólum aðhald og að meðferð dómsmála sé gegnsæ. Meiri hlutinn telur að framangreindu sé ekki stofnað í hættu þar sem aðgangur er áfram opinn og fjölmiðlum frjálst að fylgjast með og greina frá framgangi dómsmála. Þá er ekki heldur verið að auka heimildir dómara til að mæla fyrir um að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum.
    Fyrir nefndinni hefur einnig verið lagt til að engar takmarkanir verði settar á fréttaflutningi úr dómsal, myndatökum, hljóðritun o.s.frv. Aftur á móti geti dómari lagt slíkar takmarkanir á í undantekningartilvikum ef það er talið nauðsynlegt. Meiri hlutinn telur að slík leið feli í sér grundvallarstefnubreytingu. Með frumvarpinu er byggt á réttaröryggissjónarmiðum og því að mikilvægt sé að dómsmál verði til lykta leidd án utanaðkomandi truflunar eða nokkurs þess sem geti stofnað meðferð dómsmáls í hættu.
    Þá kom fram það sjónarmið fyrir nefndinni að óljóst væri hvað félli undir að vera samtímaendursögn. Að mati meiri hlutans mætti skilgreina nánar hvað felst í því. Meiri hlutinn bendir á að það sem mestu máli skiptir í því sambandi er ef til vill ekki tegund miðlunar heldur innihald upplýsinga og tímasetning birtingar. Þannig að ef greint er frá því sem fram kemur í skýrslutöku áður en henni er lokið mundi það teljast samtímaendursögn, og gildir þá einu í gegnum hvaða miðil slíkt er gert. Þá telst það til að mynda ekki samtímaendursögn ef frétt er birt þegar skýrslutöku er lokið eða fréttamaður kemur í beina útsendingu og greinir frá því sem fram kom. Meiri hlutinn áréttar að ætlunin er einungis að þetta nái til þess sem fram kemur við skýrslutöku. Ætlunin sé ekki að hindra að greint sé frá því hvaða aðili sé að gefa skýrslu, svo dæmi sé tekið. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn þó rétt að breyta orðalagi 2. og 18. gr. frumvarpsins í samræmi við framangreind sjónarmið þannig að í stað þess að nota hugtakið „samtímaendursögn“ komi fram að óheimilt sé að greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur.

Rafræn málsmeðferð í kærumálum.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að með 25. gr. frumvarpsins væri gert ráð fyrir rafrænni málsmeðferð í kærumálum til Landsréttar, en ekki væri opnað fyrir slíkt í kærumálum til Hæstaréttar, sbr. 29. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn bendir á að á vegum dómsmálaráðuneytisins með fulltrúum stofnana réttarvörslukerfisins er unnið að því að koma á fót rafrænu þjónustulagi á milli allra stofnana réttarvörslukerfisins, þ.e. svokallaðri réttarvörslugátt. Í þeirri vinnu er nú kortlagt hvernig megi koma á rafrænni málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og er það niðurstaða þessa hóps að opna megi fyrir möguleika á slíku í kærumálum til Landsréttar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að láta koma reynslu á framangreint fyrirkomulag og að lagt verði mat á það áður en frekari breytingar eru lagðar til í þessa átt, svo sem að rafræn málsmeðferð gildi um kærur til Hæstaréttar. Meiri hlutinn leggur því ekki til frekari breytingar.

Tilnefning sérfróðra meðdómsmanna.
    Við meðferð málsins var bent á að sjálfstæði meðdómsmanna væri ekki nægjanlega tryggt ef þeir væru starfsmenn dómstóla og stæðu þannig í starfstengslum við skipaða dómara. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og leggur til breytingar þess efnis á 3. mgr. 39. gr. laga um dómstóla þannig að starfsmenn dómstóla geti ekki verið tilnefndir sem sérfróðir meðdómsmenn.

Gæsluvarðhald (lög um meðferð sakamála).
    Við meðferð málsins var nokkuð rætt um hámarkslengd gæsluvarðhalds, notkun fjarfundarbúnaðar og þá tillögu að unnt verði að sækja um leyfi til að kæra úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar þegar staðfest er niðurstaða héraðsdóms um frávísun. Þá var einnig rætt um það skilyrði að leiða þurfi mann sem handtekinn hefur verið fyrir dóm innan 24 klukkustunda frá því að hann hefur verið sviptur frelsi, sbr. 94. gr. laga um meðferð sakamála. Framangreind atriði væru til þess fallin að auka enn frekar skilvirkni í dómsmálum.
    Að mati nefndarinnar er um að ræða atriði sem eru of viðurhlutamikil eða krefjast nánari útfærslu. Að því sögðu beinir meiri hlutinn því til dómsmálaráðuneytis að taka þau atriði jafnframt til nánari skoðunar svo fljótt sem verða má.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til styttingu á heiti frumvarpsins og minni háttar lagfæringar. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „senda þaðan samtímaendursögn af skýrslutökum“ í 2. gr. og 18. gr. komi: greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku á meðan á henni stendur.
     2.      16. gr. orðist svo:
                      Í stað orðanna „í héraði“ í 190. gr. laganna kemur: fyrir Landsrétti.
     3.      A-liður 24. gr. orðist svo: Í stað orðanna „nafni sínu, kennitölu og heimili“ í fyrri málslið 1. mgr. og 1. málsl. 8. mgr. kemur: nafni sínu og kennitölu.
     4.      44. gr. orðist svo:
                Lokamálsliður 2. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.
     5.      Á eftir 45. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við 3. mgr. 39. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að tilnefna starfsmann dómstóla í hóp sérfróðra meðdómsmanna.
     6.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum (málsmeðferðarreglur o.fl.).

    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 31. maí 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Álfheiður Ingadóttir. Birgir Ármannsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.