Ferill 795. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1697  —  795. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (bætt réttarstaða leigjenda við lok leigusamnings).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lísu Margréti Sigurðardóttur og Arnar Þór Sævarsson frá félagsmálaráðuneytinu, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum iðnaðarins.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum iðnaðarins. Þá barst nefndinni minnisblað um málið frá félagsmálaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 50. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, þannig að leigusamningur falli ekki sjálfkrafa úr gildi við lok starfssamnings ef leigjandi er starfsmaður leigusala. Þess í stað verði uppsögn leigusamningsins heimil báðum aðilum. Samkvæmt ákvæðinu er leigjanda heimil fyrirvaralaus uppsögn samningsins, innan átta vikna frá starfslokum, en um heimild leigusala til uppsagnar fari samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 56. gr. húsaleigulaga.

Réttarstaða leigjanda.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að þegar leigjandi er starfsmaður leigusala og hefur fengið íbúðarhúsnæði á leigu vegna þess starfs falli leigusamningur niður án sérstakrar uppsagnar ef leigjandi lætur af störfum að eigin ósk, er vikið úr starfi vegna brota í því eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma er lokið, sbr. 50. gr. húsaleigulaga.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að réttarstaða leigjanda á grundvelli framangreinds ákvæðis væri mun lakari en réttarstaða leigusala. Leigjandi væri í þeirri stöðu að geta misst bæði atvinnu og húsnæði samtímis. Leigjandinn væri því háður leigusala sínum um framfærslu og húsnæði og samningsstaða hans gagnvart vinnuveitanda veik.
    Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og telur frumvarpið mikilvægt skref í að ráða bót á þeim aðstöðumun sem er á milli aðila þegar leigjandi er starfsmaður leigusala.

Áhrif frumvarpsins.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka iðnaðarins var bent á að áhrif frumvarpsins á atvinnurekendur og möguleg viðbrögð þeirra við því lægju ekki fyrir. Sú breyting sem lögð væri til í frumvarpinu hefði þau áhrif að vinnuveitendur ættu erfiðara með að útvega starfsmönnum húsnæði. Meðal annars vegna þess að leigjendur gætu haldið húsnæði sínu í nokkurn tíma eftir lok ráðningarsamnings. Þessi staða kynni hafa að neikvæð áhrif á þau kjör og þann húsnæðiskost sem vinnuveitendur gætu boðið starfsmönnum. Nefndin tekur undir það sjónarmið og bendir á að sá almenni uppsagnarfrestur sem er á leigusamningum samkvæmt húsaleigulögum er nokkuð rúmur eða þrír mánuðir á herbergi og 6–12 mánuðir á íbúðarhúsnæði, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna. Nefndin telur ekki útilokað að sú staða skapist að atvinnurekandi hafi ekki laust húsnæði fyrir nýja starfsmenn þar sem leigjendur, sem lokið hafa störfum, nýti rétt sinn til búsetu í uppsagnarfresti. Kunni atvinnurekendur því að bregðast við með því að gera samninga til skemmri tíma og takmarka þannig þau áhrif sem frumvarpið hafi á starfsemi þeirra.
    Nefndin bendir hins vegar á að komi sú staða upp að vinnuveitandi rifti starfssamningi vegna verulegra vanefnda komi almennt til skoðunar hvort heimilt sé að rifta leigusamningnum samhliða skv. 2. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga. Atvinnurekendur þurfi því ekki að sætta sig við að starfsmenn sem gerst hafi sekir um meiri háttar handvömm við störf sín eigi svo rúman uppsagnarfrest. Nefndin áréttar þó á að hér þurfi að koma til verulegar vanefndir af hálfu leigjanda.
    Þótt nefndin fagni þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu telur hún að fylgjast þurfi með hvernig samningsumhverfið á þessu sviði breytist og hver raunveruleg áhrif þess verði. Telur nefndin því eðlilegt að mælt verði fyrir um að ráðherra skuli endurskoða ákvæðin þegar fengist hefur reynsla á beitingu þess.
    Nefndin bendir einnig á að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, sem gerð var að forsendu Lífskjarasamnings 2019–2022 milli aðila vinnumarkaðarins, segir að ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð, m.a. til að bæta réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.
    Nefndin telur að þrátt fyrir óhagræði sem kynni að skapast hjá vinnuveitanda við starfslok starfsmanns, ef viðkomandi starfsmaður nýtir rétt sinn til áframhaldandi búsetu, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, hljóti búsetuöryggi að vega þyngra en hagsmunir vinnuveitanda af því að geta nýtt húsnæðið strax fyrir annan starfsmann. Nefndin beinir því til félagsmálaráðuneytisins og stofnana þess að fylgjast sérstaklega með framkvæmd þessara breytinga í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og leggur til bráðabirgðaákvæði þess efnis að félags- og barnamálaráðherra verði falið að endurskoða ákvæði frumvarpsins fyrir 31. október 2021 ef ástæða þykir til.

Afnot af húsnæði.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að af orðalagi 1. málsl. 1. gr. frumvarpsins væri ekki skýrt hvort ákvæðið tæki til allra tegunda húsnæðis. Oft tæki leigusamningur ekki til íbúðarhúsnæðis í heild sinni heldur einungis til hluta þess, svo sem til herbergis og afnotaréttar á sameiginlegu rými. Í því sambandi var bent á að ráða mætti af 1. mgr. 1. gr. húsaleigulaga að ákvæðið tæki til afnota af húsnæði eða hluta húsnæðis gegn endurgjaldi. Enn fremur væri ljóst af 2. mgr. 1. gr. að lögin giltu um afnot húsnæðis samkvæmt vinnusamningi eða viðauka við slíkan samning.
    Bent var á að tilvísun til þess að starfsmaður hefði fengið íbúðarhúsnæði á leigu væri óskýr að tvennu leyti. Annars vegar væri ekki skýrt hvort ákvæðið tæki til leigusamninga þar sem endurgjald væri annað en peningar, svo sem vinnuframlag. Hins vegar væri óvíst hvernig færi með tilvik þar sem enginn skriflegur leigusamningur lægi fyrir. Nefndin telur það vera ótvírætt markmið með frumvarpinu að ákvæði 1. gr. þess taki til þessara tilvika og bendir á að skv. 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga teljast aðilar hafa gert ótímabundinn leigusamning, hafi þeir vanrækt að gera skriflegan leigusamning. Nefndin leggur því til breytingu svo að skýrt verði að ákvæðið taki til tilvika þegar afnot af húsnæði, eða hluta af húsnæði, til íbúðar er hluti af vinnusamningi, Það er mat nefndarinnar að ákvæðið eins og það verður skýrt í ljósi annarra ákvæða húsaleigulaga taki til samninga þar sem húsaleiga er greidd með vinnuframlagi.

Aðrar tillögur nefndarinnar.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands er bent á að atvinnurekendur gætu komið sér hjá þeim auknu kröfum sem felast í frumvarpinu með því að gera leigusamninga sem eru styttri en ráðningarsamningur. Raungerist þau viðbrögð telur nefndin að markmið frumvarpsins skili sér ekki að öllu leyti. Leggur nefndin því til þá breytingu að tímabundinn samningur um afnot af húsnæði geti aldrei verið til skemmri tíma en ráðningarsamningur starfsmanns. Þá skuli leigusamningur vera ótímabundinn sé ráðningarsamningur ótímabundinn.
    Því til skýringar áréttar nefndin að 1. gr. frumvarpsins veitir báðum aðilum heimild til þess að segja upp leigusamningi láti leigjandi af störfum hjá leigusala. Uppsagnarfrestur skv. 1. mgr. 56. gr. eigi því aðeins við ef leigusali segir einnig upp leigusamningi samkvæmt framangreindri heimild. Þá sé jafnframt ávallt heimilt að segja upp ótímabundnum leigusamningum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 56. gr. laganna, þótt leigjandi hafi ekki látið af störfum. Þá komu við umfjöllun málsins fram áhyggjur af hvernig færi um þau tilvik þegar tímabundnum ráðningarsamningi er sagt upp. Nefndin bendir í því sambandi á að almennt er ekki heimilt að segja upp tímabundnum ráðningarsamningum. Þó kunni að vera tilfelli þar sem um slíkt hefur verið samið, t.d. ef samið hefur verið sérstaklega um tiltekinn reynslutíma þar sem uppsagnarfrestur er skemmri. Áréttar nefndin að í þeim tilvikum er leigusala í sjálfsvald sett hvort hann nýti sér heimild 1. gr. frumvarpsins til að segja upp leigusamningnum einnig. Sé það ekki gert sé enn í gildi leigusamningur, sem eftir atvikum er tímabundinn eða ótímabundinn. Með hliðsjón af því bendir nefndin á að ekki sé hætta á að leigjandi öðlist ríkari rétt til áframhaldandi búsetu, vegna þess eins að hann hafi lokið störfum.
    Þá beinir nefndin því til félagsmálaráðuneytisins að taka til athugunar aðstæður þeirra starfmanna sem búa í húsnæði í eigu atvinnurekenda og hvernig bregðast megi við slæmum aðbúnaði leigjenda í slíku húsnæði eða alvarlegum vanefndum á slíkum samningum.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „íbúðarhúsnæði á leigu“ í 1. málsl. komi: afnot af húsnæði eða hluta húsnæðis til íbúðar.
                  b.      Á eftir orðunum „honum er“ í 1. málsl. komi: sagt upp eða.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Sé gerður tímabundinn samningur um afnot af húsnæði eða hluta húsnæðis til íbúðar skv. 1. mgr. getur slíkur samningur aldrei verið til skemmri tíma en ráðningarsamningur starfsmanns. Þá skal samningurinn vera ótímabundinn sé ráðningarsamningur starfsmanns ótímabundinn.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
             Ákvæði 50. gr. skal endurskoða fyrir 31. október 2021 í ljósi fenginnar reynslu.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum (réttarstaða leigjenda).

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Halldóra Mogensen, Anna Kolbrún Árnadóttir og Vilhjálmur Árnason skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 31. maí 2019.

Halldóra Mogensen,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason,
með fyrirvara.