Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1700  —  416. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


     1.      Í stað orðanna „stafrænna þjónustuveitenda“ í 2. mgr. 2. gr. og sömu orða hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarmynd: veitenda stafrænnar þjónustu.
     2.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Fulltrúar sem skipaðir eru í ráðið skulu hafa viðeigandi menntun og/eða reynslu.
     3.      Í stað hugtaksins „ Flutningar“ í 5. tölul. 6. gr. komi: Flutningastarfsemi.
     4.      Við 1. mgr. 7. gr. bætist: á hverjum tíma.
     5.      Í stað orðanna „án tafar“ í 1. mgr. 8. gr. komi: svo fljótt sem verða má.
     6.      Orðin „eftir atvikum“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. falli brott.
     7.      Við 2. mgr. 11. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en ákvörðun er tekin skv. 1. málsl. skal eftirlitsstjórnvald gefa aðila kost á að tjá sig um málið.
     8.      Í stað orðanna „1. mgr.“ í 3. mgr. 16. gr. komi: 1. og 2. mgr.
     9.      Við 19. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Starfsmenn netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu um þau gögn og upplýsingar sem netöryggissveitin hefur undir höndum, hefur aðgang að eða vinnur með og sem þeir fá vitneskju um í starfi.
     10.      Við 21. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „gilda um“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: og frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum.
                  b.      Á eftir orðunum „Ráðherra skal í reglugerð“ í 1. málsl. 4. mgr. komi: að viðhöfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og.
     11.      Á eftir 22. gr. komi þrjár nýjar greinar sem orðist svo ásamt fyrirsögnum:
                  a.      (23. gr.)

Stjórnvaldssektir.

                     Eftirlitsstjórnvald skv. 11. gr. getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
                1.    7. gr. um lágmarkskröfur um áhættustýringu og viðbúnað.
                2.    8. gr. um tilkynningu til netöryggissveitar.
                3.    19. gr. um sérstaka þagnarskyldu.
                     Stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektin skal þó ekki vera hærri en sem nemur 3% af veltu síðasta almanaksárs ef um lögaðila er að ræða.
                     Við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar samkvæmt ákvæði þessu skal eftirlitsstjórnvald taka tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. hafa hliðsjón af alvarleika brots, hversu lengi það hefur staðið og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Líta skal til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna hlutaðeigandi og hvort brot hafi leitt til tjóns eða áhættu fyrir þriðja aðila.
                     Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun eftirlitsstjórnvalds skv. 11. gr. skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
                     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
                     Ákvörðun eftirlitsstjórnvalds skv. 11. gr. er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
                  b.      (24. gr.)

                Réttur manna til að fella ekki á sig sök.

                     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Eftirlitsstjórnvald skv. 11. gr. skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
                  c.      (25. gr.)

                  Kæra til lögreglu.

                      Eftirlitsstofnun er heimilt að kæra brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra til lögreglu.
                      Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur eftirlitsstjórnvald hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber eftirlitsstjórnvaldi að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur eftirlitsstjórnvald á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
                      Með kæru eftirlitsstjórnvalds skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun eftirlitsstjórnvalds um að kæra mál til lögreglu.
                      Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Eftirlitsstjórnvaldi er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
                      Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta eftirlitsstjórnvaldi í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum eftirlitsstjórnvalds sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
                      Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til eftirlitsstjórnvalds til meðferðar og ákvörðunar.
     12.      1. mgr. 23. gr. orðist svo:
                 Brot sem framið er af ásetningi á ákvæðum 7., 8. og 19. gr. og reglugerða settra samkvæmt þeim varðar fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     13.      Í stað orðanna „1. janúar“ í 1. mgr. 26. gr. komi: 1. september.
     14.      Við 27. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „Ráðherra setur“ í 6. efnismgr. c-liðar 1. tölul. 27. gr. komi: að viðhöfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og.
                  b.      1. tölul. a-liðar 2. tölul. orðist svo: 20. tölul. orðast svo: Mikilvægir innviðir: Mikilvægir innviðir samkvæmt skilgreiningu laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.
                  c.      5. tölul. a-liðar 2. tölul. falli brott.