Ferill 781. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1724  —  781. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um stjórnsýslu búvörumála (flutningur málefna búnaðarstofu).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Önnu Jónsdóttur, Arnór Snæbjörnsson og Guðrúnu Gísladóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Jón Gíslason og Jón Baldur Lorange frá Matvælastofnun, Katrínu Maríu Andrésdóttur og Gunnar Þórðarson frá Sambandi garðyrkjubænda og Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur frá Landssambandi kúabænda.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Sambandi garðyrkjubænda og Landssamtökum sauðfjárbænda, Landssambandi kúabænda og Matvælastofnun.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á stjórnsýslu landbúnaðarmála með því að flytja framkvæmd búvörusamninga og framleiðslustjórn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Megintilgangur frumvarpsins er að efla stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðar og matvæla með fjölgun starfsmanna sem sinna þeim málum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að mikil samlegðaráhrif væru falin í því að færa búnaðarstofu í ráðuneytið enda væri þegar mikil samvinna þar á milli. Með breytingunni væri ráðuneytið styrkt. Hagræðingarsjónarmið bentu til þess að hagkvæmara væri að hafa búnaðarstofu innan ráðuneytisins. Nefndinni var bent á að mikilvægt væri að tryggja sjálfstæði búnaðarstofu við flutning hennar til ráðuneytisins og að betra væri að halda utan um framkvæmd verkefna samkvæmt búvörusamningum hjá sjálfstæðri stofnun. Mikilvægt væri að stjórnsýsla landbúnaðar og framkvæmd búvörusamninga væri skýr þannig að ljóst væri hvar ábyrgð á einstökum verkefnum lægi.
    Nefndin bendir á að verkefni búnaðarstofu eru skýrt afmörkuð innan Matvælastofnunar og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að slíkt hið sama verði gert innan ráðuneytisins. Nefndin telur mikilvægt að skilvirkni sé tryggð innan stjórnsýslunnar og hún styrkt eins og kostur er og telur nefndin umræddar breytingar verða til þess. Nefndin beinir því þó til ráðuneytisins, í ljósi mikilvægi og umfangs þeirra verkefna sem búnaðarstofa sinnir í dag við framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun og þróun tölvukerfa, að ráðuneytið afmarki með skýrum hætti verkefni búnaðarstofu innan ráðuneytisins.
    Nefndinni var bent á að með flutningi búnaðarstofu flyttust öflug tölvukerfi sem byggjast á verðmætum gagnagrunnum um íslenskan landbúnað til ráðuneytisins. Var jafnframt bent á að unnið hefði verið að samþættingu tölvukerfa og gagnagrunna Matvælastofnunar og búnaðarstofu, auk þess sem góð samvinna hefði verið milli starfsmanna innan stofnunarinnar vegna eftirlits með aðbúnaði og velferð búfjár og þar með framkvæmd búvörusamninga. Var nefndinni bent á að flæði milli gagnagrunna væri unnt að tryggja með gerð samninga sem veittu stofnunum aðgang í tiltekna gagnagrunna hvor hjá annarri og að persónuverndarsjónarmið stæðu slíkum samningum ekki fyrir þrifum.
    Nefndin leggur áherslu á að tryggðir verði samningar um upplýsingatæknimál milli ráðuneytisins og Matvælastofnunar sem fyrst til þess að tryggja að framkvæmd búvörusamninga gangi snurðulaust fyrir sig. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að áfram verði unnið að uppbyggingu rafrænnar stjórnsýslu í landbúnaði.
    Nefndinni var bent á að unnið hefði verið að uppbyggingu upplýsingatæknimála innan Matvælastofnunar sem yrðu í óvissu með þessum breytingum. Nefndinni var jafnframt bent á að flæði milli gagnagrunna væri unnt að tryggja með gerð samninga þar um.
    Nefndin telur mikilvægt að sú uppbygging í upplýsingatæknimálum sem hefur átt sér stað innan Matvælastofnunar haldi áfram þrátt fyrir að búnaðarstofa og tölvukerfi sem tilheyra starfsemi hennar verði flutt í ráðuneytið og beinir því til ráðuneytisins að tryggja stofnuninni það fjármagn sem hún þarf til að halda þeirri uppbyggingu áfram.
    Fyrir nefndinni var lýst yfir áhyggjum af því að ekki yrði mögulegt að skjóta ákvörðun til æðra stjórnvalds og óljóst væri hvaða skipan yrði komið á ef upp kæmi ágreiningur um ákvarðanir ráðuneytisins. Var nefndinni jafnframt bent á að slík kærumál væru almennt fá.
    Nefndin bendir á að í greinargerð kemur fram að þegar um eitt stjórnsýslustig sé að ræða sé unnt að krefjast rökstuðnings vegna ákvörðunar og eftir atvikum bera undir stjórnvald að nýju. Ráðuneytið geti með innri reglum formgert slíka endurskoðun. Nefndinni var bent á að ráðuneytið hefði þegar hafið skipulagningu á því hvernig tryggt yrði að réttaröryggis yrði gætt með þessum hætti. Nefndin leggur áherslu á að ráðuneytið tryggi að innri ferlar vegna kærumála verði komnir í gagnið þegar verkefni búnaðarstofu hafa verið flutt í ráðuneytið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist nýr kafli, V. kafli, Breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum, með einni grein sem orðist svo: Í stað orðsins „Matvælastofnun“ í 1. málsl. 4. mgr. 37. gr. laganna kemur: ráðherra.

    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 31. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson,
með fyrirvara
Sigurður Páll Jónsson,
með fyrirvara.